Bæjanöfn

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 20:06:07 (5677)

1998-04-21 20:06:07# 122. lþ. 108.8 fundur 164. mál: #A bæjanöfn# (örnefnanefnd) frv. 40/1998, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[20:06]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér þykir sem hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir taki ekki nægilega vel í mál mitt. Ég tel að ég hafi með fullum rökum bent á möguleika sem ég hef að vísu ekki kannað út í æsar. Af hverju hef ég ekki gert það? Vegna þess að það er ekki hlutverk mitt. Það er hlutverk fagnefndarinnar, það er hlutverk hv. menntmn. að gera það. Ég dreg alls ekki í efa að nefndin hafi kannað málið rækilega eins og hv. þm. gat um í andsvari sínu áðan en ég hygg þó að það mundi ekki vera talin nein hártogun þó að því væri haldið fram að sú könnun hefði e.t.v. ekki verið nægilega viðurhlutamikil þegar það er alveg ljóst að fulltrúi frá Landmælingum Íslands var ekki kallaður fyrir nefndina til þess að æskja álits stofnunarinnar á þessu merka máli. Ég held að það liggi berlega í augum uppi, ekki síst með hliðsjón af því að það kemur fram í frv. sjálfu, í greinargerðinni með frv., að fulltrúi stofnunarinnar og ráðuneytisins, sem er yfir henni, var ekki kvaddur á fund frumvarpssmiðanna meðan frv. var í smíðum til að ræða nema tiltekinn hluta frv., þann sem laut að hinu fasta úrskurðarvaldi örnefnanefndar eins og það var lagt til í frv. Að því leyti hygg ég að hægt sé að færa rök að því að það hefði verið nauðsynlegt að fá þennan fulltrúa til nefndarinnar og þess vegna sé málið í rauninni ekki fullkannað.

Ég hef líka fært rök að því að samkvæmt þeim lögum sem gilda um stofnunina hefur hún ekki einkarétt á því að gefa út kort og hv. þm. svarar því eftirfarandi: Það er auðvitað aldrei hægt að fyrirbyggja það að einhverjir aðilar fari að gefa út kort. Gott og vel. Enginn vill fyrirbyggja það. En þessi lög er verið að setja til þess að samræma hluti en við höfum ekki samræmt þá að öllu leyti meðan þessir hlutir eru í ólagi.

Ég get ekki sagt um það hversu mikið er um að slík kort séu gefin út. Það getur vel verið að þau séu engin í dag. Möguleikinn er fyrir hendi en að þessu leyti til er ég og hv. formaður menntmn. á sama báti, hún getur það ekki heldur vegna þess að hún hefur ekki kannað málið fremur en ég. Ég hef hins vegar bent á þann möguleika að við ákveðnar aðstæður gætu komið upp óheppileg atvik. Ég hef ekki hugsað þessa röksemd upp sjálfur eins og ég viðurkenni fúslega, herra forseti. Mér hefur verið bent á þetta af starfsmönnum Landmælinga Íslands sem telja æskilegt að þessi lög og þar með vald örnefnanefndar til þess að fjalla um ágreining sem upp kann að rísa varðandi örnefni nái yfir öll kort sem gefin eru út á Íslandi. Mér finnst það hið besta mál. Ég held að það skerði að engu leyti möguleika einkaaðila til þess að hefja útgáfu landabréfa á Íslandi.

Það eina sem ég gerði var að ég spurði hv. þm. hvort ekki væri mögulegt að þetta yrði skoðað með einhverjum hætti milli 2. og 3. umr. og svarið var nei. Það þótti mér ekki rausnarlega boðið, herra forseti, eftir alla þá kurteislegu málafylgju sem ég hef hér haft uppi. En þá á ég engan kost annan en þann að rannsaka málið sjálfur. Ef í ljós kemur að þær áhyggjur sem ég hef hér viðrað eru á rökum reistar er auðvitað nauðsynlegt að ég reyni að bæta úr þeim ágöllum sem við það koma fram á frv. með því að leggja fram brtt. sjálfur. Það mundi kalla á afar langar og óþarfar, langar og ítarlegar umræður á tíma sem þingið vildi mjög gjarnan verja til þess að skoða öðruvísi gagnagrunna en þann sem Landmælingar Íslands byggja sitt starf á, herra forseti.