Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 20:27:19 (5743)

1998-04-22 20:27:19# 122. lþ. 110.14 fundur 565. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, frádráttarliðir o.fl.) frv., 563. mál: #A barnabætur# frv., 564. mál: #A húsnæðisbætur# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[20:27]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það voru ágætar upplýsingar að það eru fyrst og fremst einstaklingarnir á bilinu 200--300 þús. kr. á mánuði sem hafa haft samband við hv. þm. Greinilegt er að enginn á bilinu 10--120 þús. kr. hefur haft samband við hv. þm. Pétur H. Blöndal og ekki að undra vegna þess að það er það fólk, láglaunafólkið á Íslandi, sem hann er að leggja til að verði skattlagt, að skattar verði hækkaðir hjá til að geta niðurgreitt skatta hjá þeim sem hafa hærri tekjur. Út á það gengur þetta.

Síðan finnst mér hálfnöturlegt þegar menn eru að tala um að markaðurinn eigi að stjórna öllu til þess að tryggja réttlæti, að þeir sem vinni á næturnar o.s.frv. eigi að fá hærra kaup. Erum við að tala um fólkið á spítölunum, Sóknarfólkið? Erum við að tala um það? Nei.

Markaðurinn hefur ekki skammtað þessu fólki réttlátar tekjur, það hefur hann ekki gert. Hann hefur skammtað þeim sem hafa haft aðstöðu til að skammta sér sjálfir því að út á það gengur markaðurinn. Þessar tillögur þjóna fyrst og fremst því fólki sem hefur haft aðstöðu til að taka meira til sín en aðrir. Það er það fólk sem fær samkvæmt þessum tillögum mestan skattafslátt. Sá einstaklingur sem hefur hæstu tekjurnar í þjóðfélaginu fær samkvæmt tillögum hv. þingmanna Péturs Blöndals og Vilhjálms Egilssonar mestan skattafslátt. Milljón króna maðurinn fær skattafslátt upp á 167 þús. kr. og fólkið sem er undir 120 þús., láglaunaþjóðin á Íslandi, á að blæða fyrir. Út á það ganga þessar tillögur. Enda kemur fram í máli hv. þm. að enginn úr láglaunaþjóðinni hefur haft samband við hv. þm. vegna þess að slíkt fólk talar við fulltrúa annarra flokka en Sjálfstfl.