Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 20:40:16 (5746)

1998-04-22 20:40:16# 122. lþ. 110.10 fundur 651. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (veiðitími á Breiðafirði) frv., MS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[20:40]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér er flutt frv. til breytinga á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelginni og hv. þm. Sturla Böðvarsson hefur gert grein fyrir því. Ég vil taka undir það sem fram kom í máli hans að hér er fyrst og fremst um að ræða leiðréttingu. Það virðast hafa orðið ákveðin mistök við lagasetningu á síðasta ári sem koma fram í því að umrætt veiðihólf samkvæmt lögunum verði opið frá 1. september til 31. desember en hingað til hefur þetta hólf verið opið frá 1. júní til 31. desember. Hér er því um leiðréttingu að ræða sem nauðsynlegt er að hrinda í framkvæmd.

Það veiðisvæði sem hér um ræðir er mjög mikilvægt fyrir minni fiskiskip og fjölmörg fiskiskip við Breiðafjörð hafa stundað veiðar á þessu svæði en einnig fiskiskip frá öðrum svæðum. Því er um mjög mikilvægt mál að ræða að ná fram þeirri breytingu fyrir þinglok í vor, þ.e. að þetta veiðisvæði verði opið frá 1. júní.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frv. heldur leggja áherslu á og hvetja til þess að hæstv. sjútvn. taki málið til umfjöllunar hið allra fyrsta svo að þessu máli verði lokið fyrir þinglok. Ég vil einnig vísa í álit útvegsmanna og Landssambands ísl. útvegsmanna, sem kemur fram í grg. með frv., um þetta mál.

Herra forseti. Ég vil enda mál mitt á því að hvetja hæstv. nefnd til að taka málið til umfjöllunar og hraða afgreiðslu þess fyrir þinglok.