Afgreiðsla frumvarps um gagnagrunna

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 15:17:01 (5789)

1998-04-28 15:17:01# 122. lþ. 113.93 fundur 325#B afgreiðsla frumvarps um gagnagrunna# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[15:17]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð þeirra þingmanna sem hér hafa talað. Auðvitað er alveg ljóst að ekkert hefur fyrir fram verið samið um þessi mál, hvenær þau skuli tekin til umræðu og hvenær þeim skuli ljúka. Það hefur ekki verið gert og síst af öllu fram í tímann, fram í október. Ég ætla líka að staðfesta að ekki hefur verið samið um það, hvorki við formenn þingflokka né þingflokka að máli skuli ljúka á einhverjum tilteknum tíma.

Hitt er svo annað mál, sem ég vil koma inn á hér og tel ástæðu til að nefna núna þegar við erum á leið inn í þessar annir. Ég fagna því mjög að meðan ráðherrar eru jafnákveðnir í að fá mál, sem eru mjög nýlega komin inn í þingið, afgreidd héðan sem lög, þá skuli heilbrrh. hafa tekið þá ákvörðun að láta málið liggja í sumar, væntanlega til að vinna það með öllum þeim aðilum sem sett hafa fram harða gagnrýni á frv. Ég treysti því að þegar málið kemur fyrir þingið í haust, þá verði um það meiri sátt en nú er.

Ég segi það hér, virðulegi forseti, að fleiri ráðherrar mættu fylgja þessu fordæmi. Fyrir okkur liggur að ræða erfið mál sem gífurlegur ágreiningur er um og best væri að lægju í sumar.