Afgreiðsla frumvarps um gagnagrunna

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 15:20:30 (5791)

1998-04-28 15:20:30# 122. lþ. 113.93 fundur 325#B afgreiðsla frumvarps um gagnagrunna# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[15:20]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að málinu hefur verið frestað. Vegna meints samkomulags tek ég fram, þar sem ég sat á þessum tíma sem varamaður í hv. heilbr.- og trn., að hæstv. heilbrrh. spurði hvort ég styddi að málinu yrði frestað fram á haustið og tekið fyrir í þinginu strax á fyrstu dögum þingsins. Það má vel vera að ég hafi misskilið ráðherrann. Ég vil frekar segja að hæstv. ráðherrann hafi misskilið mig. Það samkomulag náði ekki lengra.

Mér finnst með ólíkindum að mönnum skuli detta í hug að þingið, einstakir þingmenn eða þingið í heild, geti bundið sig því að afgreiða tiltekið mál fyrir tiltekinn tíma. Mér finnst það bara gjörsamlega út í hött. Ég ítreka að þetta mál, sem rætt var í hv. heilbr.- og trn., var lagt fyrir þingið, langt frá því að vera klárað eða úthugsað. Það var illa unnið, það verður að segjast eins og er.

Tilgangurinn með frestuninni er að mínu mati sá að senda málið aftur heim til föðurhúsanna og klára það, svo menn viti hvað þeir ætla að leggja fyrir þingið og í hvaða formi. Áður en sú umræða sem þarf að eiga sér stað úti í samfélaginu hefur farið fram og áður en þingið hefur fengið sinn tíma til að fjalla um það, get ég hvorki bundið sjálfa mig né aðra því að afgreiða málið á tiltekinn hátt fyrir tiltekinn tíma. Ég styð hins vegar að málið verði tekið fyrir strax á haustdögum ef ráðuneytið getur skilað því af sér tilbúnu til meðferðar í þinginu.