Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 16:43:47 (5804)

1998-04-28 16:43:47# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[16:43]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég var að segja varðar ekki auglýsingu níutíumenninganna. Ég mun ræða það seinna í umræðunni. Það sem ég var að segja varðar grundvallarmisskilning hv. þm. á skipulags- og byggingarlögunum. Það kom enn fremur berlega fram hjá hv. þm. í síðasta svari að hann gerir sér ekki grein fyrir stöðu svæðisskipulags. Það skal vera innbyrðis samræmi á milli allra skipulagsstiganna þannig að ef búið er að gera svæðisskipulag fyrir miðhálendið, sem umhvrh. hefur staðfest, ber að taka tillit til þess í aðalskipulagi sveitarfélaganna sem umhvrh. þarf líka að staðfesta. Hv. þm. á ekki að láta sig vera beran að kunnáttuleysi í skipulags- og byggingarlögum þegar er verið að ræða eins mikilvægt mál og þetta.