Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 17:23:15 (5823)

1998-04-28 17:23:15# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[17:23]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Það vandamál sem brennur mest á ræðumönnum í umræðunni snertir raunverulega tvö fyrirliggjandi frumvörp og ein þegar samþykkt lög og reyndar nýframlagt frv. til breytinga á þeim lögum. Þetta eru frv. um þjóðlendur, sveitarstjórnarfrv. og skipulags- og byggingarlög.

Frv. um þjóðlendurnar er miklu minna umdeilt en sveitarstjórnarfrv. og skipulags- og byggingarlögin og breytingarnar við það lúta að því að leysa úr ágreiningsefnum sem rísa upp vegna þess skipulags sem fram kemur í sveitarstjórnarlögunum, þ.e. að öllu landinu skuli skipt í sveitarfélög.

Það sem gerir þetta erfitt fyrir marga er hin víðtækari skírskotun sem hálendið hefur til þjóðarinnar, sérstaklega um landnotkun á hálendinu en um landnotkun er fjallað í skipulagi, sérstaklega svæðisskipulagi sem síðan er útfært í aðalskipulagi og deiliskipulagi. Um það fjalla auðvitað skipulags- og byggingarlög.

Á síðasta þingi voru samþykkt ný skipulags- og byggingarlög. Þá átti ég þátt í því að gera þær breytingar sem voru hugsaðar til að leysa það vandamál sem hér er verið að deila um, hvernig aðrir aðilar en heimamenn ættu að hafa áhrif á skipulag sérstaklega með tilliti til landnotkunar. Þá varð niðurstaðan sú, sem fram kemur í 12. gr. skipulags- og byggingarlaga, að veita ráðherra heimild til þess að skipa sérstaka svæðisskipulagsnefnd á svæðum þar sem ágreiningur er milli sveitarstjórna um landnotkun eða þar sem stefnumörkun í landnotkun varðar verulega hagsmuni þeirra sem búa utan viðkomandi svæðis. Ég taldi þá að þetta væri efnisleg lausn á vandanum og reyndar lausn sem ætti að geta verið ásættanleg fyrir alla.

Ég tel enn þá að þetta sé efnisleg lausn á vandanum og að sú heimild sem ráðherrann fær með þessari grein veiti honum það mikið vald að hann sé í raun ábyrgur fyrir svæðisskipulagi miðhálendisins og annarra svipaðra svæða. Hins vegar hefur komið upp mikil tortryggni, segja má gagnvart umhvrh., og hefur manni stundum fundist hún koma úr hörðustu átt. Ég held að við verðum að taka tillit til þeirrar gagnrýni og þessarar tortryggni og reyna að leita sátta og finna leið sem allir geta sætt sig við sem leiðir til þess að tryggt sé að allir þeir aðilar sem hafa hagsmuni af landnotkun á þessum svæðum geti komið að stefnumörkuninni.

Lausnin sem við lögðum upp með þegar skipulags- og byggingarlögin voru samþykkt var almennt ákvæði sem var hægt að beita á miðhálendinu og annars staðar þar sem ráðherra teldi vera þörf fyrir. Það var með ráðum gert að hafa þetta almennt ákvæði til þess að það væri ekki túlkað þannig að um einhvers konar vantraust væri að ræða á sveitarstjórnarfulltrúum í dreifbýlinu. En því miður hefur þessi tortryggni komið upp og ef vel á að takast til í þessu efni verður að eyða henni.

Ný tillaga eða nýtt frv. til breytingar á skipulags- og byggingarlögum sem dreift hefur verið og hæstv. umhvrh. gerði stuttlega grein fyrir lýsir vilja ríkisstjórnarinnar til þess að takast á við þetta vandamál. Ég er hins vegar ekki sáttur við þessa tillögu. Ég tel hana ekki nægilega vel ígrundaða og að samkvæmt henni sé ekki hægt að taka nægjanlega mikið tillit til hinna ýmsu aðila sem hafa hagsmuna að gæta við stefnumörkun á landnotkun á hálendinu. Ég geri mér reyndar grein fyrir því að mjög erfitt er að búa til formúlu fyrir skipun samvinnunefndar um svæðisskipulag þar sem tekið er tillit til allra sjónarmiða og einn aðili á að vera fulltrúi fyrir hvert sjónarmið. Ég tel því að farsælasta leiðin til þess að ná sátt í þessu máli sé að styrkja það fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í núgildandi 12. gr. og þá á þann hátt að 12. gr. standi eins og hún er og það kæmi ný grein í skipulags- og byggingarlögin sem fjallar um svæðisskipulag á miðhálendinu þar sem umhvrh. væri gert skylt að skipa sérstaka samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins. Í þeirri grein gæti komið fram leiðbeining um hvernig ráðlegast sé að skipa nefndina, að það skuli gert á þann hátt að tekið sé tillit til sem flestra þeirra sjónarmiða sem koma upp hjá þeim sem hagsmuna hafa þarna að gæta, bæði faglegra sjónarmiða og eins hagsmuna þeirra sem byggja atvinnustarfsemi sína á hálendinu og eins sjónarmiða heimamanna og þeirra íbúa landsins sem búa ekki í sveitarfélögum sem liggja að hálendinu. Á þessu mætti herða með því að tilnefningar kæmu í nefndina. Þær gætu hugsanlega komið frá sveitarstjórnum á tilteknum svæðum landsins. Þær gætu hugsanlega komið frá fagaðilum og hugsanlega komið frá hagsmunasamtökum og jafnvel frá ráðuneytum sem fara með tiltekna málaflokka.

[17:30]

Ég held hins vegar að sú leið gæti verið þung í vöfum og erfitt fyrir ráðherrann að skipa nefnd samkvæmt slíkri formúlu, eins og ég nefndi áðan, en það gæti verið mögulegt fyrir ráðherrann, sem hefði heimild til að skipa hana með fáum tilnefningum eða engum tilnefningum, að skipa aðila í nefndina sem hefðu það mikla yfirsýn yfir hlutina að þeir gætu talist gæta hagsmuna fleiri en eins sjónarmiðs, verið faglega þenkjandi og kunnandi, og þekkt vel til hagsmuna einstakra hópa og gætu jafnvel gætt hagsmuna einhverra byggðarlaga. Á þann hátt væri umhvrh. pólitískt ábyrgur fyrir svæðisskipulagi miðhálendisins og hann yrði að standa reikningsskil á því skipulagi fyrir allri þjóðinni, ekki eingöngu fyrir þeim sem búa í dreifbýlinu og ekki eingöngu fyrir þeim sem búa í þéttbýlinu og ekki eingöngu fyrir þeim sem eiga hagsmuna að gæta heldur gagnvart heildinni. Ég á ekki von á því að hver sá sem væri hæstv. umhvrh. á hverjum tíma mundi hlaupa frá slíkri ábyrgð.

Það mætti síðan styrkja stöðu þessa svæðisskipulags enn betur ef menn vilja með því að láta svæðisskipulagið lúta þeirri meðferð sem sérstakt svæðisskipulag fær. Þá kæmi Skipulagsstofnun meira inn í málið en sveitarstjórnirnar og þá færi um þetta skv. 15. gr. skipulags- og byggingarlaganna og hv. þm. geta lesið sér nánar til um það þar. Ég er ekki að segja að þess mundi gerast þörf að styrkja þetta á þennan hátt en sá möguleiki er fyrir hendi ef menn vilja. Ég held að sú leið sem ég hef verið að lýsa sé farsælli en sú tillaga sem hæstv. umhvrh. kynnti lítillega áðan. Hún gefur meiri möguleika til að taka tillit til víðtækra sjónarmiða og hagsmuna allrar þjóðarinnar.

Ég vonast til að í þeirri vinnu sem þarf að fara fram á næstu mánuðum til að vinna tillögu sem lögð yrði fram á Alþingi næsta haust til breytinga á skipulags- og byggingarlögum fái þau sjónarmið sem ég hef kynnt hljómgrunn og það verði tekið tillit til þeirra í þeirri vinnu.

Ef hins vegar næst ekki sátt um breytingu á skipulags- og byggingarlögunum, þá verði ekki hjá því komist að hæstv. umhvrh. axli ábyrgðina sem núverandi lög setja honum á herðar, hann axli hina pólitísku ábyrgð og skipi sérstaka svæðisskipulagsnefnd fyrir miðhálendið eins og hann hefur heimild til skv. 12. gr. núgildandi laga.

Það eru tvö atriði sem ég vil nefna til viðbótar, herra forseti, varða ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur sem hélt langa tölu um þetta efni. Þar kom fram að mínu mati grundvallarmisskilningur á því hvað felst í skipulagslögunum. Þar nefndi hv. þm. að svæðisskipulag falli niður þegar búið er að færa það inn í aðalskipulagið. Ég kannast ekki við þetta. Svæðisskipulagið heldur gildi sínu og skv. 12. gr. ber sveitarstjórnum að afloknum hverjum kosningum að taka afstöðu til þess hvort nauðsynlegt sé að endurskoða svæðisskipulagið og fer þá um þá vinnu eins og um nýtt svæðisskipulag væri að ræða. Jafnframt er gert ráð fyrir því í 14. gr. að telji sveitarfélög nauðsynlegt að breyta svæðisskipulagi, þá skuli þau gera það samkvæmt því sem um getur í 12. gr. eins og um nýtt svæðisskipulag væri að ræða. Það er beinlínnis gert ráð fyrir því í lögunum að svæðisskipulag sem hefur verið sett lifi, það sé endurskoðað reglulega og gert er ráð fyrir því hvernig á að standa að endurskoðuninni ef nauðsynlegt er talið af hálfu sveitarfélaganna eða þá þeirra sem fara með þá svæðisskipulagsvinnu.

Að síðustu vegna þess sem nefnt var um hlut hæstv. ráðherra Alþfl. í umhvrn., þá stóðu þeir fyrir því að skipuð var sérstök svæðisskipulagsnefnd um miðhálendið á síðasta kjörtímabili. Ég held að mjög nauðsynlegt hafi verið að gera það. Samkomulag náðist þá um tiltekna skipan mála og þáv. hæstv. umhvrh. skipaði þá nefnd. Sú nefnd hefur unnið mjög merkilegt starf sem var til umræðu fyrr á fundinum í dag. Þessi nefnd var þannig samansett að í henni sátu 12 fulltrúar héraðsnefnda sveitarfélaganna sem land eiga að hálendinu og einn fulltrúi ráðherrans sem var formaður. Þar var enginn fulltrúi hagsmunaaðila. Þar var enginn fulltrúi íbúa annarra landsvæða en þær breytingar sem gerðar hafa verið á skipulags- og byggingarlögunum síðan á þessu kjörtímabili hafa opnað möguleika á því að það gæti verið gert og beinlínis sett þá ábyrgð á herðar hæstv. umhvrh. Umræða stjórnarliða um þetta mál, vinna og tillaga ríkisstjórnarinnar sem hér hefur verið lögð fram miðar að því að aðrir aðilar hafi aðkomu að þessu máli en þeir aðilar sem skipa héraðsnefndir sveitarfélaganna sem land eiga að hálendinu og hæstv. ráðherra Alþfl. skipaði til starfans.