Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 21:52:43 (5850)

1998-04-28 21:52:43# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[21:52]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svör hans. Mig undrar að hann skuli halda því fram að ég hafi í mínu máli fjallað um flest annað en það sem er til umræðu. Við erum ekki bara, herra forseti, að fjalla um hvernig við ákvörðum stjórnsýsluna á hálendinu heldur hvaða afleiðingar það hefur og maður þarf auðvitað að leggja mat á hvaða afleiðingar það hefur sem maður er að samþykkja. Það hefur hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson gert en mér heyrist nú að margir hér inni hafi kannski ekki áttað sig á því.

Ég spyr ráðherrann af því að hann svaraði ýmsum spurningum sem fram hafa komið. Það er auðvitað hægt að breyta því sem var ákveðið á árinu 1993 og það hefði auðvitað verið skynsamlegra að fara þá leið sem var mörkuð í frv. Eiðs Guðnasonar frá 1991--1992 sem var ekki fylgi fyrir á þinginu og þess vegna var farin þessi leið. Ég spyr hann: Samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir, er að vísu ekki til umræðu en hefur mikilvæga þýðingu fyrir umræðuna, getur þá sú nefnd sem nú er að störfum samþykkt þær tillögur sem fyrir liggja eða breyttar þannig að þessi samvinnunefnd sem á að hafa þetta verkefni með höndum komi að orðnum hlut um næstu áramót? Það er mikilvægt að ráðherrann svari þessu og líka því hvers vegna hlutur suðvesturhornsins er svo rýr í skipulagningu og mótun á miðhálendinu.