Frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 10:53:40 (5887)

1998-04-29 10:53:40# 122. lþ. 114.93 fundur 329#B frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[10:53]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í þingsköpum er ekki til neitt sem heitir að frv. sé lagt fram til kynningar. Annaðhvort eru frumvörp flutt eða ekki. Þó að við orðum það þannig, þingmenn, í okkar tali að frumvörp séu lögð fram til kynningar, þá er það í raun og veru ekki þannig. Hin formlega staða málsins er sú að frv. er ekki frv. fyrr en samþykkt hefur verið að taka það til meðferðar. Þess vegna standa málin þannig að við hljótum að óska eftir því að frv. verði tekið til umræðu. Þó virðist sá sem ber það hér inn, umhvrh., ekki vilja kannast við það, þannig að frv. er munaðarlaust.

Spurningin er þá hvort hugsanlegt sé að óska engu að síður eftir því að málið verði tekið á dagskrá með afbrigðum þó að umhvrh. vilji ekki kannast við það. Svarið við því er já. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 63. gr. þingskapa getur þingfundur ákveðið dagskrá næsta fundar. Því væri unnt fyrir okkur hér að flytja tillögu um það hvernig dagskrá næsta fundar verður, til að láta á það reyna hvort meiri hlutinn eða aðrir í þinginu vilja að málið komi til umræðu eða ekki.

Ég bendi forseta á þennan möguleika sem við höfum, að flytja slíka tillögu. Ég er ekki að boða það að svona tillaga verði flutt núna. Ég held að mun skynsamlegra væri að forseti Alþingis og formenn þingflokkanna kæmust að samkomulagi um að breyta þeirri dagskrá sem nú liggur fyrir, taka þetta mál fyrir og láta á það reyna hvort unnt er að ná málinu á dagskrá með afbrigðum.

Afstaða til efnisatriða málsins er svo allt annað mál sem t.d. þingmenn jafnaðarmanna hafa sagt að þeir séu óánægðir með en styðji engu að síður að málið komi til umræðu. Segja má að Alþb. og óháðir hafi miskunnað sig yfir þennan munaðarleysingja og ákveðið að taka hann í fóstur. Fyrir okkar leyti erum við tilbúnir til að gera þá tillögu, ef forseti vill, að málið verði tekið fyrir nú eða strax á næsta fundi. Blekkingarleikur af þessu tagi gengur auðvitað ekki, að ráðherrar komi inn með mál sem á að heita sáttaviðleitni stjórnarflokkana við Alþb., í þessu tilviki, en þegar málið er lagt fyrir segi menn: Það er ekkert að marka þetta.

Veruleikinn getur ekki gengið svona fyrir sig. Þetta er dónaskapur við þingið að mínu mati. Auk þess er kostulegt að fylgjast með því hvernig stjórnarflokkaþingmennirnir tala um þetta mál. Þingmenn Framsfl., úr Reykn. og Reykv., urðu auðvitað að athlægi í gær vegna þess hvernig þeir fóru með þetta mál. Vitanlega er greinilegt að á bak við málið er blekkingavefur sem Framsfl. hefur reynt að spinna til þess að koma þessu umdeilda máli í gegn. Það gengur ekki fyrir forseta Alþingis sem á að gæta þingskapanna að líða svona blekkingavinnubrögð.