Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 17:55:49 (6097)

1998-04-30 17:55:49# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[17:55]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að mjög nauðsynlegt er að um þetta náist sátt. Það er nákvæmlega það sem þarf að gerast þannig að friður skapist um þessi mál. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Kannski er það svo að þetta útspil hæstv. umhvrh. hafi bara verið fyrsta skrefið í því að reyna að ná sáttum í þessu máli og kannski má breyta þessu þannig að nefndin fái raunveruleg verkefni og sé raunverulegt mótvægi við sveitarfélögin sem hafa samkvæmt lögum frumkvæði að því að gera deiliskipulag, aðalskipulag og svæðisskipulag. Það er alveg klárt. Það kemur fram í lögunum. Þau þurfa að samþykkja hvert fyrir sig svæðisskipulagið þannig að við skulum ekkert ganga að því gruflandi að eins og þetta lítur út í dag er nefndin algerlega áhrifalaus og verkefnalaus. En kannski var þetta fyrsta innlegg hæstv. umhvrh. til að reyna að ná sáttum í þessu máli og ef svo er þá segi ég bara: Það er vel.