Aðgerðir vegna starfsþjálfunar

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 10:52:21 (6105)

1998-05-04 10:52:21# 122. lþ. 116.3 fundur 669. mál: #A aðgerðir vegna starfsþjálfunar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[10:52]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég hygg að flestir séu sammála um gildi starfsmenntunar fyrir atvinnu- og efnahagslíf þjóðarinnar og þá ekki síst nemendur í framhaldsskólum okkar. Því miður endurspeglast sá áhugi sem fram hefur komið í orðum ekki í skólakerfinu má segja eins og margsinnis hefur verið rætt, m.a. á hv. Alþingi, með afskaplega döprum afleiðingum, bæði fyrir atvinnulíf og ekki síður fyrir nemendur í skólum landsins en brottfall nemenda í framhaldsskólum er óeðlilega hátt hér, m.a. af þessum sökum.

Til allrar hamingju er margt jákvætt að gerast á þessu sviði. Ég nefni m.a. útfærslu starfsmenntabrautar við Menntaskólann í Kópavogi á hótel- og veitingasviði, ferðamálasviði og þannig má áfram telja, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Borgarholtsskóla. Og um helgina mátti lesa í fjölmiðlum um þróun starfsmenntabrauta varðandi stóriðju.

Þó margt jákvætt sé að gerast er vandinn hins vegar sá að nemendum hefur gengið afskaplega illa að fá þjálfun, starfsmenntapláss, í fyrirtækjum í atvinnulífi okkar, ekki síst í iðnaði en einnig í þessum nýju starfsmenntagreinum sem verið er að byggja upp. Það hefur líklega verið á þeim forsendum sem samþykkt var á 120. löggjafarþingi þjóðarinnar þingsályktun þar sem því var beint til hæstv. ríkisstjórnar að hún mótaði stefnu um þetta mál, þ.e. mótaði stefnu um starfsþjálfun sem hvetur fyrirtæki til að taka nemendur í starfsþjálfun. Ég hef verið að kanna það í einstökum ráðuneytum hvað hefur verið gert síðan og eftir þá óformlegu könnun læðist að mér sá grunur að í rauninni hafi afskaplega lítið verið gert þrátt fyrir samþykkt hv. Alþingis.

Ekki hvarflar að mér að það sé vegna þess að ekki sé vilji fyrir því hjá hæstv. ríkisstjórn enda, ef ég man rétt, þá studdu allir hæstv. ráðherrar þáltill. með atkvæði sínu. En ég hygg að vandinn sé sá að þáltill. snertir mjög mörg ráðuneyti. Hún snertir m.a. fjmrn., menntmrn. og nokkur önnur ráðuneyti sem hafa með starfsþjálfun að gera. Ég hygg að þetta kunni að vera eitt dæmið um það hvernig mál sem snertir mörg ráðuneyti lendir milli stafs og hurðar. Þess vegna beini ég til hæstv. forsrh. þeirri fyrirspurn hvað gert hafi verið af hálfu ríkisstjórnarinnar til að fylgja umræddri þingsályktun eftir.