Geðheilbrigðismál barna og unglinga

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 11:44:20 (6123)

1998-05-04 11:44:20# 122. lþ. 116.7 fundur 525. mál: #A geðheilbrigðismál barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:44]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Á alþjóðaheilbrigðisdaginn 10. okt. 1996 tilkynnti ég að ég mundi koma á fót starfshópi til að undirbúa stefnumótun í málefnum geðsjúkra. Hópnum er ætlað að leggja fram tillögur um áherslur í geðheilbrigðisþjónustunni á komandi árum. Starfshópurinn, sem er undir forustu Tómasar Zoëga yfirlæknis, hefur unnið mikið starf, m.a. með viðamikilli gagnasöfnun og athugun á innlendum og erlendum fræðigreinum.

[11:45]

Verkið hefur reynst viðamikið. Hópurinn hefur skipt með sér verkum og komið á fót undirhópum og fjallar einn þeirra sérstaklega um málefni barna og unglinga. Sá hópur skilaði áfangaskýrslu 10. okt. sl. Áfangaskýrslan fjallar almennt um mikilvægi geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga. Farið er yfir helstu vandamál sem upp geta komið og dregið er upp skipurit þeirra meðferðaraðila sem koma að geðheilbrigðismálum barna og unglinga í þjóðfélaginu og reifaðar eru bráðabirgðaniðurstöður.

Í áfangaskýrslunni kemur fram að geðheilbrigðisvandamál séu hlutfallslega algeng hjá börnum þótt alvarlegir geðsjúkdómar séu sjaldgæfir og mjög óalgengir á fyrstu unglingsárum. Helstu einkenni eru talin upp í ellefu liðum. Vakin er athygli á því að allir sem koma nálægt uppeldi barnsins hafi hlutverki að gegna í að efla, viðhalda og bæta geðheilbrigði þess. Þetta á einnig við um þá aðila er fást við aðra þætti í uppeldi barnsins, svo sem leikskólakennara, kennara og starfsfólk heilbrigðis- og félagsmálastofnana.

Í bráðabirgðaskýrslunni dregur starfshópurinn upp mynd af geðheilbrigðisþjónustu sem skiptist í fjögur stig en þau eru: Almenn þjónusta, svo sem heilsugæsla. Þjónusta fagfólks, t.d. sérfræðiaðstoð vegna alvarlegra, flókinna og langvarandi vandamála. Meðferðarúrræði, svo sem dagdeildir göngudeildir og legudeildir fyrir alvarlega veik börn.

Fram kemur að hér á landi er þjónustan tiltæk á öllum þessum meðferðarstigum. Þó er talið nauðsynlegt að samræma og samhæfa þjónustuna betur í baráttunni fyrir betri geðheilsu ungmenna. Sérstaklega er bent á nauðsyn samhæfingar og aukningu samstarfs félagsmála og heilbrigðisþjónustu og að komið verði upp sameiginlegri greiningarstöð. Í því sambandi er vert að benda á að nú á annað ár hefur samstarfsnefnd heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyta starfað að málinu og tekist að leysa úr ýmsum vandamálum sem óvissa hefur ríkt um hver ætti að takast á við.

Virðulegi forseti. Ég á von á að vinnuhópurinn ljúki störfum alveg á næstunni. Þá munu liggja fyrir tillögur um framtíðarskipan og áherslur í geðheilbrigðismálum á Íslandi, ekki einvörðungu barna og unglinga heldur heildartillögur fyrir alla landsmenn.

Ekki ber að skilja mál mitt svo að ekkert sé aðhafst á meðan beðið er eftir tillögum. Eins og kunnugt er hefur verið lögð verulega aukin áhersla á forvarnastarf gegn neyslu áfengis og annarra vímuefna. Fyrir Alþingi liggja tillögur um skipulagsbreytingar á stjórnun þess málaflokks sem ég vænti að verði lögfestar á næstu dögum. Í samstarfi við Fangelsismálastofnun og Heilbrigðismálastofnun Suðurlands vinnur ráðuneytið að eflingu geðheilbrigðisþjónustu á Litla-Hrauni. Nú þegar hafa sérhæfðir hjúkrunarfræðingar, sem starfa á réttargeðdeildinni á Sogni, hafið störf við fangelsið auk þess sem bætt verður úr langvarandi skorti á geðlæknisþjónustu.

Héraðslæknar um allt land hafa staðið fyrir fræðslu um geðheilbrigðismál fyrir starfsfólk heilsugæslunnar með það að markmiði að auka hæfni starfsfólks til greiningar og aðstoðar þegar skjólstæðingar þeirra eiga við geðræn vandamál að stríða. Göngudeildarþjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítalans hefur verið efld og barna- og unglingageðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri hefur styrkst verulega.

Virðulegur forseti. Hv. þm. bætti nokkrum spurningum við þær sem lágu fyrir skriflegar. Hv. þm. spyr sérstaklega að því hvort ekki sé rétt að koma á lokuðu meðferðarúrræði fyrir börn og þá á hún sérstaklega við áfengis- og vímuefnaneytendur, ef ég skildi hana rétt. Félmrn. og heilbrrn. eru að vinna að því að fjölga úrræðum fyrir áfengis- og vímuefnasjúk börn.