Tannlæknaþjónusta

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:07:50 (6135)

1998-05-04 12:07:50# 122. lþ. 116.9 fundur 681. mál: #A tannlæknaþjónusta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:07]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að stjórnvöld hér á landi hafa sýnt málefnum neytenda lítinn áhuga ef við miðum við það sem tíðkast t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Íslensk stjórnvöld hafa t.d. ein stjórnvalda á Norðurlöndum ekki haft frumkvæði að því að auðvelda neytendum að fá skorið úr ágreiningsmálum þegar þeir telja á sér brotið. Til að koma til móts við neytendur hafa Neytendasamtökin gripið til þess ráðs að starfrækja sérstakar kvörtunar- og úrskurðarnefndir sem úrskurða í ágreiningsmálum neytenda og seljenda þjónustu og hefur þetta reynst mjög hagkvæmur kostur en nokkuð þungt í vöfum í mörgum tilfellum að koma þessu á því að áhugi seljenda þjónustu hefur ekki alltaf reynst nægilega mikill.

Nú eru starfandi sex slíkar úrskurðarnefndir og eru tvær þeirra stofnaðar með tilstyrk stjórnvalda, þ.e. nefnd um ágreiningsmál milli neytenda og vátryggingafélaga og nefnd um viðskipti neytenda við fjármálafyrirtæki. Reynslan af slíkum nefndum er ákaflega góð og er brýnt að takist að stofna slíkar nefndir á sem flestum sviðum viðskipta og þjónustu. Það er mikilvægt að þessar nefndir séu hlutlausar, gæðastýringarnefndar innan ákveðinna starfsgreina geta aldrei komið í staðinn fyrir hlutlausa úrskurðarnefnd.

Á síðasta ári skrifuðu Neytendasamtökin bréf til Tannlæknafélags Íslands þar sem óskað var eftir viðræðum um úrskurðarnefnd vegna tannlækninga. Tannlæknafélagið svaraði með því að innan vébanda félagsins starfaði kvörtunarnefnd sem starfað hefði farsællega og af fagmennsku. Því væri ekki áhugi á að stofna til nefndar í samvinnu við Neytendasamtökin.

Þetta svar lýsti miklu skilningsleysi á eðli málsins og var fullkomlega óásættanlegt fyrir þá sem telja sig standa höllum fæti eftir viðskipti við tannlæknastéttina, að starfsbræður þeirra fjölluðu um málið í lokuðum hópi. Neytendasamtökin skrifuðu því heilbrrh. bréf og óskuðu eftir liðsinni hans í málinu og hvöttu hann til að beita sér fyrir að stofnuð yrði hlutlaus úrskurðarnefnd í tannlækningum en það vekur undrun að ekkert svar hefur enn borist frá hæstv. ráðherranum þótt nú sé nokkuð liðið um frá því bréfið var sent. Því spyr ég hæstv. ráðherrann: Hyggst hún beita sér fyrir því að sett verði upp hlutlaus úrskurðarnefnd í tannlækningum?