Tóbaksvarnir

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 12:30:02 (6142)

1998-05-04 12:30:02# 122. lþ. 116.10 fundur 688. mál: #A tóbaksvarnir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[12:30]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Hv. þm. kom inn á það áðan að mikilvægt væri að samhæfa störf allra sem að vímuefnavörnum starfa. Það er að mínu mati grundvallaratriði ef ná á árangri og ríkisstjórnin hefur lagt aðaláherslu á það. Það sem við höfum verið að vinna að, ekki bara á Reykjavíkursvæðinu heldur úti um allt land, bæði með sérstakri nefnd sem ríkisstjórnin setti á fót og einnig með SÁÁ, beinist einmitt að því að að þessu máli komi foreldrar, íþróttahreyfingin, skólarnir, löggæslan, kirkjan og allir þeir sem koma að uppeldi barna.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að tóbak er fyrsta fíkniefnið sem menn neyta almennt og því er mikilvægt að ná árangri þar. Þessar tölur sem ég las upp áðan sýna að við erum að ná árangri í fyrsta skipti í fimm ár. Þær sýna að það fjármagn sem við höfum látið til málaflokksins, umfram það sem við gerðum þar á undan, er að skila okkur árangri.