Stöðugleiki og öryggisbúnaður skipa

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:10:00 (6156)

1998-05-04 13:10:00# 122. lþ. 116.14 fundur 590. mál: #A stöðugleiki og öryggisbúnaður skipa# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:10]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi varð mikil umræða um öryggismál og stöðugleika fiskiskipa í kjölfar umræðu utan dagskrár, sem ég efndi til, og eins vegna skýrslu Siglingastofnunar Íslands frá því í febrúar 1997 sem stofnunin birti í kjölfarið á þeirri umræðu. Í þeirri skýrslu kom fram að þau skip sem ekki stóðust stöðugleikakröfur voru á annað hundrað og önnur öryggismál fjölda skipa í algerum ólestri. Af hálfu ráðuneytisins var í kjölfar umræðunnar gefin út yfirlýsing sem var birt í fjölmiðlum. Ekki er hægt að segja að mikið hafi sést af þeim aðgerðum sem þar voru boðaðar af hálfu ráðuneytisins og Siglingastofnunar.

Listi sem ég bað um, t.d. um þau skip sem stóðust ekki stöðugleika, hefur ekki enn verið birtur og verður ekki birtur að því er hæstv. ráðherra hefur sagt mér í dag. Ég hef þó þær fréttir frá Siglingastofnun að veruleg vinna hafi verið sett í gang til að leysa öryggismálin og gera gögn svo mæla megi stöðugleika skipa. Það er vel, herra forseti, ef svo hefur farið að áminning frá Alþingi hefur haft áhrif enda málið grafalvarlegt. Ég hef þó þær fréttir, herra forseti, að björgunarbátar slysavarnadeilda víðs vegar um landið séu meira og minna ólöglegir og fullnægi ekki kröfum til þess að fá haffæriskírteini. Það er mjög alvarlegt að björgunarbátar sem eru hugsaðir til þess að athafna sig í í verstu veðrum séu ekki með fullnægjandi búnað. Mér er sagt að af 20 björgunarbátum sem slysavarnadeildir reka víðs vegar um landið séu aðeins þrír sem uppfylli kröfur Siglingastofnunar um öryggisbúnað eða haffæriskírteini.

Herra forseti. Ég er ekki að ásaka samgrh. fyrir þetta heldur að brýna hann og stofnunina til frekari dáða því að þrátt fyrir mikla bragarbót virðist enn vera pottur brotinn allt of víða í öryggismálum sjómanna. Þess vegna ber ég fram eftirfarandi spurningar til hæstv. samgrh.:

1. Hve mörg skip eru með haffærisskírteini en uppfylla ekki kröfur um stöðugleika samkvæmt skýrslu Siglingastofnunar Íslands frá síðasta ári og hvaða skip eru það?

2. Hve mörg skip eru með haffærisskírteini en hafa fengið athugasemdir við öryggisbúnað?

3. Hve mörg skip eru með athugasemdir í haffærisskírteini á fresti?