Framhald þingstarfa og þingfrestun

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 16:17:18 (6189)

1998-05-04 16:17:18# 122. lþ. 117.92 fundur 340#B framhald þingstarfa og þingfrestun# (aths. um störf þingsins), Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 122. lþ.

[16:17]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir þau svör sem hann hefur veitt. Ég vek athygli á því að til stóð að ljúka þinginu 22. apríl. Það var að frumkvæði hæstv. forsrh. sem sú umræða hófst. En hann beitti sér líka fyrir því að stytta þingið sérstaklega með því að seinka samkomudegi þingsins eftir áramót. Hann hafði um það forustu að seinka honum um eina viku. Auðvitað er það augljóst að það er hann sem hefur haft alla forustu í þessu efni. Það er jafnframt alveg rétt hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að það er fráleitt að ræða hér þessi mál um störf þingsins að honum fjarstöddum þegar hann ræður. Það er bersýnilegt að það er hann sem ræður. Hann hefur tekið um það ákvörðun að þingið skuli vera áfram.

Ég tek það auðvitað ekki gilt hjá hæstv. forseta að forsn. hljóti að taka við hvaða lista sem er frá ríkisstjórninni. Það gengur ekki. Svoleiðis starfar ekki sjálfstæð þingforusta. Ef það er þannig að forseti Alþingis hafi ákveðið að taka í raun og veru við því sem ríkisstjórninni þóknast að rétta að þingforustunni, þá eigum við auðvitað að ræða þessi mál við hæstv. forsrh.

Þá erum við aftur komin í sömu spor og við stóðum í á síðasta kjörtímabili, þar sem hlutskipti stjórnarandstöðunnar var að snúa sér að forsrh. en ekki að forseta þingsins. Ég harma það að sitjandi forseti þingsins skuli vísa þessu vandamáli frá sér og yfir á ríkisstjórnina.

40 stjfrv. þarf að afgreiða, sagði hér einhver áðan. Ja, það eru meiri ósköpin. Hver segir að það þurfi að afgreiða þessi frv.? Stjórnarflokkarnir? Eigum við að taka mark á því? Auðvitað þurfum við ekki að taka mark á því. Auðvitað eigum við ekki að vera flæðilína fyrir ríkisstjórnina.

Ég mótmæli því sérstaklega þeirri stöðu sem nú er að koma upp og ég hélt að væri liðin tíð, væri fornöld í þessari stofnun, að þingið sé að verða eins og dráttarklár fyrir ríkisstjórnina og ekkert annað. Ekkert annað, forseti.