Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 12:01:10 (6212)

1998-05-05 12:01:10# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[12:01]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér kom áðan í ræðustól hv. þm. Pétur H. Blöndal og óskapaðist yfir því að menn gerðust langorðir í ræðustól og sagði að þetta væri ekki Alþingi samboðið og málsmeðferð hér á þessum vettvangi.

Ég vil rifja það upp að í gær gaf hæstv. forsrh. Davíð Oddsson út yfirlýsingu sem var eins konar dagskipun. Menn voru þá að ræða á þinginu hvaða frumvörp ríkisstjórnin hygðist leggja áherslu á að fá samþykkt fyrir sumarið. Athygli hafði verið vakin á því að ein 40 stjfrv. liggja nú fyrir Alþingi. Mörg þessara stjfrv. eru mjög umdeild og menn vildu fá viðræðu um það við ríkisstjórnina hvað það væri sem hún legði mesta áherslu á þannig að þau mál sem ágreiningur er um og vitað er að kalla á mikla umræðu í alþingissal yrðu látin víkja svo við gætum einbeitt okkur að þeim málum sem ljóst er að verða að lögum í vor.

Dagskipun hæstv. forsrh. var mjög einföld. Það á að samþykkja allt. Það á að knýja öll þessi frumvörp í gegnum þingið. Þetta var dagskipunin. Nú hafa liðsmenn ríkisstjórnarinnar í þingsal sem eru nú ekki ýkjamargir, þeir vinnusömustu eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sem rækir sín þingstörf mjög vel, um það get ég borið vitni, hafa tekið upp merkið og vilja fylgja eftir þessari dagskipun hæstv. forsrh. og byrja að óskapast í mönnum sem vilja ræða mál sitt ítarlega. Ég vil láta hv. þm. Pétur H. Blöndal og aðra sem kunna að vera á þessari skoðun vita að við sem höfum sitthvað við þessi frv. og vinnubrögð að athuga munum taka okkar tíma. Við munum gera það og það ætla ég að gera núna. Ég ætla að taka þann tíma sem þarf til að ræða þetta mál og ætla að skipta mínum málflutningi niður í fjóra málaflokka.

Í fyrsta lagi ætla ég að tala um vinnubrögð í þessu máli. Í öðru lagi ætla ég að ræða sérstaklega þann hluta laganna sem er umdeildastur. Það er sá hluti sem lýtur að hálendinu, lýtur að skiptingu landsins á milli sveitarfélaga og atriði sem því tengjast. Í þriðja lagi ætla ég að fara nokkrum orðum um þær breytingar sem verið er að gera í stjórnsýslunni almennt og tengja það þessum lagabreytingum, því frv. sem hér er til umræðu. Í fjórða lagi ætla ég að fjalla um einstakar greinar þessa frv. og þá að sjálfsögðu fyrst og fremst um þær sem eru hvað umdeildastar og eru að mínum dómi umdeilanlegar. Þetta var um málsmeðferð mína.

Ég ætla þá að víkja að fyrsta málaflokkinum. Hann lýtur að vinnubrögðum. Ég er í stuttu máli þeirrar skoðunar að þetta mál kalli á miklu meiri umræðu í þjóðfélaginu og hér inni á Alþingi en ætla má að frv. fái á þeim fáu dögum sem eftir lifa þings og geri það að tillögu minni sem reyndar hefur komið fram hjá mörgum alþingismönnum og þingflokkum að málinu verði frestað og það fái rækilega umfjöllun í sumar og menn taki síðan til hendinni aftur í þingsal eftir vinnu í nefnd og nefndum í sumar. Ég byggi þetta á mörgum ástæðum og ég ætla að tilgreina þrjár.

Í fyrsta lagi er þetta lýðræðisleg krafa. Það rignir yfir alþingismenn ályktunum frá samtökum og einstaklingum um þetta frv. og rauður þráður í þessum ályktunum er óskin um að málinu verði frestað, að málið fái betri og meiri umræðu áður en það er knúið í gegnum Alþingi og það verði eftir því sem kostur er leitað eftir víðtækari sátt í þessum málum. Það er rauður þráður í þessum ályktunum.

Ekki eru þær þó allar á þennan veg. T.d. hefur Alþingi borist ályktun frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi. Sú ályktun er undirrituð 30. apríl, núna um mánaðamótin og send félmn. Alþingis, reyndar eftir að málið er tekið út úr nefndinni. Þar er áhersla lögð á að tryggja framgang frv. fyrir þinglok. En eftir sem áður segir í þessari ályktun frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi: ,,Framkvæmdaráðið gerir þá kröfu til hins háa Alþingis að það fjalli málefnalega um sveitarstjórnarlöggjöfina í heild.`` Síðan er það áréttað að tryggður verði framgangur frv. fyrir þinglok. En þetta er líka jafnframt áhersla á að Alþingi fjalli málefnalega um málið og gefi sér þá væntanlega tíma til þess. En þessi ályktun Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Framkvæmdaráð Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi mótmælir harðlega málsmeðferð þeirri sem viðhöfð hefur verið á Alþingi að undanförnu við umfjöllun um frv. til sveitarstjórnarlaga. Í umræðunni hefur horfið í skuggann að hér er um mikið framfaraspor að ræða. Þess í stað hefur brýnu hagsmunamáli verið drepið á dreif með deilum um skipulagsmál og umráðarétt á hálendi Íslands og fullyrðingu nokkurra þingmanna að óhæfa sé að fela sveitarstjórnum víðtækt vald í þeim efnum og skipa eigi þess í stað sérstaka nefnd til að fara með þau mál. Undir slíkum ávirðingum geta sveitarstjórnarmenn ekki setið.``

Síðar í þessari ályktun segir, með leyfi forseta:

,,Framkvæmdaráðið bendir á að með eflingu sveitarstjórnarstigsins eru sveitarstjórnir sífellt að verða betur í stakk búnar að fara með víðtækt vald á sem flestum sviðum eins og Alþingi hefur í raun viðurkennt upp á síðkastið með því að lögfesta ný verkefni þeim til handa. Nálægð sveitarstjórnarmanna við vettvang mun tryggja þá yfirsýn sem nauðsynleg er til að undir eðlilegum íhlutunarrétti umhvrn. og Skipulags ríkisins verði fjallað um skipulagsmálin af skilningi á þörfum landsins og virðingu fyrir náttúru þess.``

Þetta held ég að sé sameiginlegt markmið allra sem koma að þessari umræðu. Þetta er áhersluatriði hjá mjög mörgum. Hins vegar er umdeilt hvernig eigi að tryggja þetta. Hér eru viðruð þau sjónarmið að sveitarstjórnir og sveitarstjórnarmenn, þeir sem eru nærri vettvangi, liggja að hálendinu þá væntanlega, komi að þessum skipulagsmálum. Þetta er mjög umdeilt. Hér er ályktun sem var send til hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar hinn 4. maí og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Við forsvarsmenn neðangreindra samtaka útivistar- og náttúrufræðifélaga förum þess á leit við þig, herra forsætisráðherra og ríkisstjórn þína, að frv. það sem nú liggur fyrir Alþingi um sveitarstjórnarmál verði ekki afgreitt sem lög frá þessu þingi.

Við teljum höfuðnauðsyn að ekki verði nú bundið með illafturkræfum hætti hvernig stjórnsýslu- og skipulagsmálum verður háttað á miðhálendi Íslands.

Meiri tíma þarf til opinnar umræðu um þessi mál þannig að þjóðin öll, eigandi hálendisins, fái að láta í ljós skoðun sína. Verði ofangreint frv. samþykkt næstu daga mun það kalla á endalausar deilur og óeiningu meðal þjóðarinnar. Jafnframt væri þá búið að útiloka meiri hluta hennar frá því að hafa nokkur áhrif á nýtingu hálendisins og hætt er við að almannaréttur verði fyrir borð borinn.

Sem forsvarsmenn helstu útivistar- og náttúrufræðifélaga landsins og fulltrúar þúsunda Íslendinga teljum við skilning meiri hluta þjóðarinnar vera þann að miðhálendið sé ein heild sem ekki beri að rjúfa, hvorki skipulags- né stjórnsýslulega.

Þögn þjóðarinnar um þessi mál allt þar til á síðustu vikum má ekki skilja á þann hátt að meiri hluti hennar sé fylgjandi þeirri skipan sem nú er gert ráð fyrir. Augljóst er á umræðum undanfarið að hvorki ráðamenn þjóðarinnar né almenningur hafa fyllilega gert sér grein fyrir þýðingu málsins.

Mikilvægt er að hlýtt verði á raddir hagsmunaaðila og helstu sérfræðinga sem virðast vera á einu máli um hvernig fara eigi með eina verðmætustu auðlind þessarar þjóðar.

Undirritaðir eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til að vinna að farsælli lausn málsins.``

Undir þessa áskorun til hæstv. forsrh. skrifa eftirtaldir aðilar: Formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags, forseti Ferðafélags Íslands, formaður Íslenska alpaklúbbsins, formaður Útivistar, formaður Jöklarannsóknafélags Íslands, formaður Skotveiðifélags Íslands, skrifað er undir fyrir hönd Landssambands ísl. vélsleðamanna, formaður Ferðaklúbbsins 4x4 og formaður stangaveiðifélagsins Ármanna.

Hér er enn ein yfirlýsing sem Alþingi hefur borist. Hún er frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi. Það er reyndar safn ályktana frá Náttúrufræðifélaginu sem er um aðskiljanleg efni. Þar á meðal er ályktun um hálendi Íslands þar sem talað er um friðland þjóðarinnar og vitnað er í aðalfund félagsins sem haldinn var 28. febrúar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Aðalfundur Hins íslenska náttúrufræðifélags haldinn 28. febrúar 1998 í Reykjavík ítrekar ályktun aðalfundar HÍN frá 1. mars 1997 og skorar á Alþingi að stofna til friðlands á hálendi Íslands með því að setja sérstök lög þar að lútandi með vernd náttúru í fyrirrúmi.``

[12:15]

Með afstöðu Hins íslenska náttúrufræðifélags fylgir mjög ítarleg greinargerð. Ég ætla að stikla á ýmsum atriðum í henni. Hún er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta, en þetta er greinargerð með ályktun aðalfundar HÍN 1998, sem ég vitnaði til áðan, um hálendi Íslands, stjórnsýslu á hálendinu sem er meginkjarni þeirrar deilu sem risin er vegna sveitarstjórnarfrv.:

,,Framkvæmd stjórnsýslu á miðhálendinu getur haft verulega mikil áhrif á umgengni við náttúruna þar, vernd hennar og nýtingu. Brýn nauðsyn er á að koma stjórnsýslu á hálendið svo að ganga megi skipulega að þessum málum þar. Aðstæður á óbyggðu hálendinu eru með nokkuð öðru móti en í byggðum landsins þar sem núverandi stjórnsýsla hefur mótast um langan tíma. Búseta er engin að staðaldri á miðhálendinu að undanskilinni einni veðurstöð og ekki fyrirsjáanlegt að stórfelldar breytingar verði á því á næstunni. Íbúar aðliggjandi sveitarfélaga hafa að því leyti meiri hagsmuni á hálendinu en aðrir landsmenn að þeir eða sveitarfélög þeirra eiga þar ýmiss konar hefðbundinn nýtingarrétt, svo sem upprekstur, veiði, grasatekju og fleira. Auk þess eiga þeir vegna nálægðar við hálendið hægara um vik að taka þátt í ýmiss konar þjónustu og framkvæmdum ofan byggðar. Hins vegar eru beinir hagsmunir þeirra til muna minni en í byggð þar sem þeir hafa fasta búsetu og atvinnustarfsemi. Við fyrirkomulag stjórnsýslu á miðhálendinu þarf að líta á viðeigandi hátt til þessarar sérstöðu aðliggjandi byggða.

Á hinn bóginn eru almannahagsmunir og hagsmunir almennings í landinu að öðru jöfnu hlutfallslega mun meiri á óbyggðu miðhálendinu gagnvart íbúum aðliggjandi byggða heldur en í byggðunum sjálfum. Gildir það um rétt stjórnvalda ríkisins, bæði hvað varðar auðlindir og eignarhald á landi, einkum ef fram ná að ganga frv. til laga um þau efni sem nú liggja fyrir Alþingi. Einnig gildir það um umferð, útivist, ferðaþjónustu og önnur lögleyfð afnot af hálfu alls almennings á landinu án tillits til búsetu en ríkið og ríkisstjórn landsins er hinn sameiginlegi fulltrúi þeirra. Af þessu virðist sýnt að bæði ríkisstjórn landsins, fyrir hönd almennings alls, og aðliggjandi sveitarfélög, fyrir hönd sinna sjálfra og íbúa sinna, komi að stjórnsýslu miðhálendisins. Það verða þessir aðilar að gera sameiginlega og í eðlilegu jafnvægi.

Sá hængur er nú á slíkri ráðstöfun til frambúðar að nú um mundir eru í gangi einhverjar mestu breytingar á sveitarfélögum landsins frá upphafi skipulags byggðar á landinu. Sveitarfélög eru nú víða sameinuð í stærri sveitarfélög og er hvergi nærri séð fyrir endann á þeirri þróun að sinni. Breytingar hafa einnig orðið á skiptingu opinberra verkefna milli sveitarfélaga annars vegar og ríkisstjórnar hins vegar. Er ekki heldur séð fyrir endann á þeirri þróun en fyrrnefnd sameining sveitarfélaga getur breytt forsendum að þessari skiptingu. Þessi breyting á stærð og viðfangsefnum sveitarfélaga er líkleg til að kalla á breytingar á millistigum stjórnsýslunnar. Sumar sýslur hafa nú sameinast í eitt sveitarfélag eða að því marki að einungis eitt eða tvö fámenn sveitarfélög eru eftir utan þeirra. Því blasir við að hlutverk sýslufélaganna hlýtur að breytast. Í umræðu er einnig að breyta kjördæmum á landinu, sem hafa verið næsta opinber, landfræðileg eining ofan við sýslurnar, en samtök sveitarfélaga hafa náð til og takmarkast við umdæmi kjördæmanna. Breytingar á millistigum stjórnsýslunnar (t.d. endurvakning amta eða landsfjórðunga) gæti breytt forsendum að hentugasta fyrirkomulagi stjórnsýslu á miðhálendinu.

Búast má við í ljósi núverandi stöðu og þróunar að endurskipulagningu sveitarfélaga og millistiga stjórnsýslunnar gæti lokið að mestu á næstu árum. Þá hefðu skapast nýjar forsendur að skipulagi stjórnsýslu á miðhálendinu til lengri tíma. Þangað til þarf þó að koma starfhæfu formi á stjórnsýslu þar svo að stjórnsýslulegri óvissu megi létta af svæðinu. HÍN telur þar færa og æskilega leið að ríkisstjórn og aðliggjandi sveitarfélög fari um tiltekinn tíma sameiginlega með stjórnsýslu á miðhálendinu, einkum hvað varðar skipulag, leyfisveitingar til framkvæmda eða starfsemi, friðunar- og verndaraðgerðir og yfirgripsmeiri löggæslu (eins konar ,,vegalögreglu``, einkum um hánnatímann að sumri til) en stöðug umsjón og eftirlit með framkvæmd stjórnsýslunnar verði eftir föngum falin aðliggjandi sveitar- og sýslufélögum. Miða má við fjögur ár sem er lengd eins kjörtímabils Alþingis og sveitarstjórna.``

Hæstv. forseti. Ég sagðist ætla að stikla á nokkrum atriðum í þessari greinargerð sem kemur frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi en ég endaði með því að lesa alla greinargerðina. Hvers vegna gerði ég það? Vegna þess að mér finnst þau sjónarmið sem hér eru sett fram vera mjög athyglisverð. Ég er búinn að vitna í þrjár ályktanir. Í fyrsta lagi frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi þar sem Alþingi er hvatt til að samþykkja þessi lög núna í vor. Það er jafnframt hvatt til þess að tryggt sé að fram fari málefnaleg umræða um þetta mál. Og við erum að segja það hér sem höfum efasemdir um framgang málsins að ekki verði hægt að tryggja málefnalega umræðu á mjög skömmum tíma. Þetta er sjónarmið frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi.

Síðan vitnaði ég í ályktun frá ýmsum útivistarsamtökum sem er mjög í anda þeirrar yfirlýsingar sem kom frá fjölmennum borgarafundi í Reykjavík í gær á Hótel Borg þar sem hvatt er til að málinu verði frestað. Hér er talað um að hætta sé á því að almannaréttur verði fyrir borð borinn.

Hins vegar kemur svo í þriðja lagi greinargerð frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi með kannski svolítið annan skilning á almannarétti en er að finna í yfirlýsingu útivistarmannanna vegna þess að hér finnst mér vera mjög mikil viðleitni til að sætta ólík sjónarmið og reyna að skilja sjónarmið allra þeirra sem koma að þessum málum með sínar bullandi tilfinningar. Það er talað um náttúruna og nauðsyn þess að vernda hana. Það er talað um nauðsyn þess að þeir sem búa í sveitum sem liggja að hálendinu komi að málum og þeirra réttur og sjónarmið séu tryggð og í þriðja lagi að fulltrúar þjóðarinnar allrar geri það líka. Hér er lögð fram tillaga um eins konar málamiðlun í þessu viðkvæma og erfiða og umdeilda máli, að reynt verði tímabundið að ná sátt um skipulag og stjórnsýslu vegna þess að bent er á að ekki megi ríkja óvissa í þessum málum. Það er nokkuð sem allir eru sammála um sem vilja verja landið og vernda að það hefur verið og er algert ófremdarástand sem við búum við núna. Alls kyns mannvirki spretta upp víðs vegar um landið eins og gorkúlur og hafa sprottið upp, nánast skipulagslaust. Hér er bent á það í greinargerð frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi að þessari óvissu þurfi að eyða. (PHB: Að fresta málinu?) Ég mun koma að því síðar hverju þarf að fresta og hverju ekki, hverjar hættur eru fólgnar í því og hverjar hættur eru ekki fólgnar í því og hvaða hættur eru fólgnar í því að knýja þetta í gegn sem ég tel vera umtalsverðar. En þá hættu sem einhver kann að sjá á því að fresta málinu núna tel ég vera mjög léttvæga og ég mun gera grein fyrir því á eftir.

Í greinargerðinni frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi --- og ég skal upplýsa hv. þm. Pétur H. Blöndal sem kallaði hér fram í --- er bent á að það séu að eiga sér stað miklar hræringar í stjórnsýslunni hjá sveitarfélögum, hugsanlega endurskoðun á kjördæmamálum, sameining sveitarfélaga og þar fram eftir götunum og ráðlegt sé fyrir löggjafann að hann skoði skipulagsmálin líka með tilliti til þessara hræringa. Lagt er til að sett verði nefnd sem komi að þessum málum, bæði með aðkomu aðliggjandi sveitarfélaga og ríkisins en hún starfi tímabundið, þetta verði tímabundið ástand. Þetta er í þeim anda sem þau okkar sem vildu leita eftir málamiðlun í þessu máli voru að hugsa og hafa verið að hugsa nema ég held að þetta sé enn þá hyggilegra en það sem við vorum með á prjónum okkar vegna þess að hér er gert ráð fyrir tímabundinni lausn í málinu, að menn festi sig ekki um of niður. Þetta er dæmi um það þegar ég segi að hér sé komin að mínum dómi enn þá betri lausn en sú sem mörg okkar vorum að íhuga, þetta er dæmi um hvað gerist ef menn gefa sér tíma til að skoða alla þætti máls, allar hliðar máls og ef þeir sem áhuga hafa á málum og þekkja vel til mála fá möguleika á að koma sínum skoðunum fram og breyta þá sjónarmiðum okkar eða færa þau til betri vegar ef þau hafa eitthvað gengið úr skorðum eða mundu lagast ef tóm gefst til að íhuga aðrar hliðar á málinu. Mér finnst þetta vera mjög góð greinargerð og hér eru viðraðar mjög góðar hugmyndir að mínum dómi.

Ég er að ræða um vinnubrögðin í þessu máli og ég sagðist ætla að nefna þrjár ástæður fyrir því að rétt væri að fresta málinu. Fyrsta ástæðan sem ég nefndi er þessi lýðræðislega krafa og ég er að tala um hana. Ég er að tala um hina lýðræðislegu kröfu. Við fáum yfirlýsingar frá aðilum víðs vegar um samfélagið, einstaklingum og samtökum og ég hef verið að lesa úr aðeins þremur þessara ályktana og greinargerðum sem okkur hafa borist bara á allra síðustu dögum. Þau okkar sem hafa komið að málinu í félmn. hafa að sjálfsögðu fengið stóran og vænan bunka af ályktunum frá aðilum sem hafa verið beðnir um umsagnir um frv. en að auki eru núna að vakna til vitundar hópar og einstaklingar sem vilja koma að þessu máli og er mikið niðri fyrir. Ég tel að Alþingi væri til sóma og málinu til framdráttar eða því til framdráttar að fá góða lausn í málið, að málinu yrði frestað. Fyrsta atriðið sem ég er að leggja áherslu á er hin lýðræðislega krafa.

Í öðru lagi tel ég vera gilda ástæðu fyrir því að fresta málinu að það er um margt óljóst. Hverjum manni verður ljóst þegar hann fer að skoða þessi mál að í reynd snýst umræðan ekki einvörðungu um þennan lagabálk einan heldur mörg önnur lög líka. Manni verður ljóst þegar maður fer að skoða þessi mál að það verða ýmsar mótsagnir og ýmsar spurningar sem vakna sem erfitt er að fá svör við. Þá er ég að tala um skipulagsrétt og stjórnsýsluna, hvar mörkin liggja nákvæmlega í því efni. Þetta eru ekki glöggar línur. Í umræðunni hefur verið vakin athygli á ýmsum þáttum sem eru óljósir. Umræðan mundi vera til góðs að mínum dómi til að skýra ýmislegt sem er óljóst. Þá er ég fyrst og fremst að tala um skipulagsþáttinn. Ég er ekki að tala um ýmsa aðra þætti sem mætti kannski skoða á fljótvirkari hátt, athugasemdir sem hafa komið t.d. frá Félagi löggiltra endurskoðenda um ákvæði frv. sem snúa að þeim atriðum sveitarstjórnarfrv. En ég er fyrst og fremst að tala um þetta. Þetta er önnur ástæða þess að ég teldi hyggilegt að gefa málinu betri tíma í þjóðfélaginu og á Alþingi.

[12:30]

Í þriðja lagi er ég sannfærður um að betri umræða um þetta mál mundi tryggja vandaðri niðurstöðu og að um þá niðurstöðu yrði víðtækari sátt í þjóðfélaginu. Við skulum ekki gleyma því að við höfum reynslu. Við getum talað af reynslu. Á Alþingi hafa komið til umfjöllunar frumvörp sem hafa verið mjög umdeild í þjóðfélaginu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal vék t.d. að frv. um lífeyrisréttindi. Það hefur verið mikið talað um það frv. Miklar deilur voru um það í þjóðfélaginu. Ég er að tala um það frv. sem fjallar um grunnréttindi lífeyrismála, almennt skipulag lífeyrismála. Reyndar var annað frv., um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, líka umdeilt og það á við um bæði þessi frumvörp að þeim var gefinn tími. Þau fóru í umræðu hjá þeim aðilum sem helst eiga hlut að máli og að umræðunni komu mjög margir aðilar. Að frv. um grundvallarréttindi í lífeyrismálum komu aðilar úr fjármálaheimi, frá atvinnurekendum, verkalýðshreyfingu og ríkisvaldi. Allir þessir aðilar settust yfir málið sumarlangt. Hvað gerðist? Það náðist niðurstaða sem menn urðu sæmilega sáttir um. Það er það sem gerðist.

Ég veit að til voru undantekningar eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal getur sjálfur borið vitni um og er kannski sjálfur einn vitnisburður um. En þegar á heildina er litið náðist samkomulag. Það náðist málamiðlun og víðtækt samkomulag í málinu. Þarna gerðist tvennt í senn. Með vandaðri vinnubrögðum varð niðurstaðan betri og um hana ríkti meiri sátt. Við höfum allt of ríka hefð fyrir því og reynslu að umdeildum málum og málum sem taka til grunddvallarþátta þjóðfélagsins sé breytt í einu vetfangi, í heljarstökki. Við höfum reynslu af þessu t.d. í húsnæðismálum. Grundvallarbreyting var gerð í þeim málaflokki 1986, aftur 1990 og svo tilheyrandi aðlögun og smávægilegar breytingar á hverju einasta ári eftir það vegna þess að menn voru að ráðast í breytingar án þess að hugsa málin til enda. Nú ætla menn að gera það eina ferðina enn með nýju húsnæðisfrv. Eina ferðina enn með nýju húsnæðisfrv. á að rífa húsnæðiskerfið upp með rótum og gera á því grundvallarbreytingar. Það sem menn eru að óska eftir er að málið verði tekið til skoðunar, þau atriði sem snerta staðreyndir máls, að ágreiningur um niðurstöður úr slíkri umfjöllun liggi á borðinu og síðan standi menn frammi fyrir pólitískum ágreiningi í haust ef hann verður enn til staðar. Þá takast menn einfaldlega á um það í þinginu hverjar verða lyktir máls.

En menn eru að deila um ýmsar staðreyndir málsins líka. Það eru þeir hlutir sem ég tel að þurfi betri umræðu og nauðsynlegt að fái umræðu þannig að slíkt sé ekki að vefjast fyrir mönnum. Ég vil ekki gera lítið úr því, meira að segja vil ég gera mjög mikið úr því, að þetta sé tryggt. En ég vil kannski setja efst á blað hina lýðræðislegu kröfu. Auðvitað snertir það okkur sem alþingismenn og Alþingi að tryggja vandaða löggjöf og við eigum að sjálfsögðu að tryggja það með vinnubrögðum okkar. En við eigum náttúrlega líka að standa vörð um lýðræðið í landinu. Við eigum að gera það. Ég segi það fyrir sjálfan mig að mér mun líða seint úr minni þegar Alþingi Íslendinga neitaði því að leyfa þjóðinni að koma að ákvörðunartöku um EES, hið Evrópska efnahagssvæði. Í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri kom í ljós að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar, 70--80%, var því fylgjandi að fá þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Fylgjandi því. Nei. Svarið úr þessum sal, úr Stjórnarráðinu var: Nei. Mér finnst þetta vera gersamlega ólíðandi.

Nú er það að koma á daginn sem hefði komið á daginn í umræðu um málið. Nú er það að koma á daginn að ýmislegt kemur t.d. inn á borð Alþingis og inn á borð ráðuneytanna, sveitarfélaganna og í öllu skipulagi samfélagsins. Það máttu menn vita um á þessum tíma en það fékkst ekki rætt til enda. Það fékkst ekki rætt ofan í kjölinn. Mér finnst þetta hafa verið einn svartasti blettur á Alþingi og sögu þess síðustu ára að meina þjóðinni að koma að ákvarðanatöku í málinu.

Hvað erum við nú að tala um í þessu máli? Er ég að bera þetta saman? Að sjálfsögðu er varasamt að bera saman ólík mál. En það er sambærilegt að því leyti, og er ég ekki að leggja þetta að jöfnu, að það er vitað að mjög ríkur er vilji í þjóðfélaginu að fá tækifæri til þess að skoða málið betur, að fá svigrúm til þess. Ef menn trúa því að svo sé finnst mér að eigi að virða þann vilja. Ég held að enginn geti mótmælt því eða efast um að það er staðreyndin að mjög ríkur vilji er fyrir því að málið verði látið bíða.

Þá vaknar spurningin: Hvaða hættur felast í því að láta málið bíða? Felast einhverjar hættur í því að láta lagafrv. bíða til haustsins, að gefa okkur ráðrúm til að skoða það í sumar og bíða til haustsins? Nei. Engar hættur felast í því. Er þá hætt við að skipulagsvinna sem allir vilja að verði tryggð á miðhálendinu eigi sér ekki stað? Nei. Vegna þess að það er verið að skipuleggja miðhálendið. Nefnd er að störfum og á að ljúka sinni vinnu fyrir 1. desember sem er að skipuleggja miðhálendið. Hún er að gera það. Hún starfar á grundvelli skipulagslaga og er að störfum. Hér segir í nefndaráliti með breytingu á skipulagslögum sem gerð var árið 1993:

,,Lagabreyting sú, sem frumvarpið felur í sér, gerir mögulegt að hefja skipulagsgerð á miðhálendinu. Nefndin leggur áherslu á að þau mörk, sem dregin verða um miðhálendið, munu á engan hátt breyta núverandi réttarstöðu hvað varðar eignarhald á svæðinu og lögsögu yfir afréttum og almenningum. Eðlilegt þykir að ákvæði þetta verði sett til bráðabirgða og er því ætlaður gildistími þar til ný skipulags- og byggingarlög verða samþykkt.``

Þetta er enn í bráðabirgðaákvæði með skipulagslögum sem var einnig breytt í fyrra og þessi nefnd er að störfum. Það er verið að skipuleggja miðhálendið. Ekkert truflar framgang málsins.

Er það eitthvað annað þá í þjóðfélaginu sem kallar nú á þessar lagabreytingar? Það væri helst sá hluti sveitarstjórnarlaganna sem lýtur að nafngiftum í stjórnsýslunni. Þetta er ekki stórvægilegt mál en að sjálfsögðu mikilvægt að löggjafinn lagi sig að nýjum tímum í þessu efni. Það væri hægur vandinn að taka þennan þátt út úr lögunum og ráða bót á honum sérstaklega. Ég mun koma að því nánar þegar ég ræði einstakar greinar frv. hvað ég er að fara í þessu efni.

Sem sagt, ekkert kallar á að þessi lög verði að samþykkja núna í snarhasti í vor og hægur vandinn að láta frv. bíða til hautsins.

Hæstv. forseti. Ég hef nú fjallað um fyrsta efnisþáttinn sem ég ætlaði að víkja að í máli mínu. Ég sagðist ætla að ræða fjóra efnisþætti. Ég ætlaði að ræða fyrst um vinnubrögð. Svo ætlaði ég að víkja að skipulagsmálunum almennt. Síðan ætlaði ég að fjalla um grundvallarbreytingar í stjórnsýslunni og að lokum í fjórða lagi ræða einstakar greinar frv.

Nú ætla ég að ræða almennt um skipulagsmálin því að þau eru sá hluti þessara laga sem hefur valdið mestum deilum. Einstök lagaákvæði eru vissulega umdeild og sumir telja vafasöm en þegar á heildina er litið er það fyrst og fremst 1. gr. frv. sem hefur valdið deilum. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Landið skiptist í staðbundin sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.

Sveitarfélög eru lögaðilar.

Hver maður telst íbúi þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili.``

[12:45]

Þetta er 1. gr. frv., það atriði sem hvað umdeildast er, að landinu öllu eigi að skipta á milli sveitarfélaga. Margir hafa verið á því máli að þess í stað eigi að búa til eina einingu, eina stjórnsýslueiningu sem sé sjálfstæð og heyri undir ríkið. Þetta deila menn um.

Grundvallarskoðun mín og okkar í þingflokki Alþb. og óháðra er mjög skýr í þessu máli. Hún byggist á tvennu. Við viljum heildstætt skipulag og við viljum að umhverfissjónarmiðum verði gert hátt undir höfði, að umhverfisþátturinn verði tryggður. Þetta er hið almenna viðhorf í þingflokki okkar og þetta er eindregin skoðun mín.

Þegar spurt er t.d. hvaða ráðuneyti eigi helst að koma að þessum málum, iðnrn. eða umhvrn., þá velkist sú spurning ekki fyrir mér. Umhvrn. á fyrst og fremst að koma þar að, enda þarf að leggja höfuðáherslu á þann þátt. Að sjálfsögðu þarf iðnrn. að hlutast til um viss mál ef ákvörðun hefur verið tekin t.d. um virkjanir. Höfuðáherslan á engu að síður að vera á umhverfisþáttinn. Þetta eru grundvallaratriðin: Við viljum heildstætt skipulag á miðhálendinu og við viljum tryggja umhverfisþáttinn.

Sjálfur er ég á því máli að heppilegasta leiðin til að skipuleggja miðhálendið sé að gera það að sjálfstæðri stjórnsýslueiningu. Ég er mjög eindregið á þeirri skoðun að heppilegasta leiðin til að skipuleggja hálendið sé að skipuleggja miðhálendið sem eina stjórnsýslueiningu. Það er þó meira en að segja það. Það er ekki hlaupið að því að búa til slíka einingu og það held ég að allir hljóti að viðurkenna. Þannig er t.d. reynt að draga línu á milli heimalanda og afréttarlanda og það er nauðsynlegt þegar kemur að skipulagi miðhálendisins. Þeir sem sinna skipulagsvinnu þurfa fyrst að gera sér grein fyrir því hvar þessi lína liggur. Þá er eðlilegt að spyrja í framhaldinu: Ef hægt er að draga þá línu, er þá ekki jafnframt hægt að draga jafnvel sömu línu um hina nýju stjórnsýslueiningu? Hvers vegna ekki að gera það? Ef okkur tekst að gera þetta, sem okkur verður að takast vegna skipulags miðhálendisins, hvers vegna ekki að fara alla leið og draga línuna um hina nýju stjórnsýslueiningu? Þetta finnst mér ástæða til að skoða og þá hugsanlega í þeim anda sem Hið íslenska náttúrufræðifélag teflir fram í þeirri hugmynd í einhvers konar bráðabirgðalausn. Mér finnst að þetta mætti skoða en vek þó jafnframt athygli á vandkvæðum sem kunna að vera í þessu fólgin. Ég held að þegar málið er skoðað raunsætt, þá yrði erfiðara að draga línuna milli heimalanda og afréttarlanda ef sveitarfélögin og allir sem hlut ættu að máli gerðu sér grein fyrir því að verið væri um leið að draga landamerki sveitarfélagsins. Ég held að auðveldara væri að ná samkomulagi um línuna á milli heimalanda og afrétta ef það væri fyrst og fremst tengt skipulagi. Ef það væri hins vegar jafnframt sú lína sem menn draga um stjórnsýslueininguna, þá held ég að það mundi kalla á meiri deilur og málið væri erfiðara viðfangs en ef þetta lyti fyrst og fremst að skipulaginu. Þetta er mín skoðun þó að ég viti að margir hafi meiri þekkingu á þessum málum og kunni að geta bent á aðrar hliðar á þessu máli. Þetta held ég þó að sé nokkuð raunsætt sjónarmið sem þurfi a.m.k. að skoða.

Sú afstaða sem ég lagði upp með og hef enn er þessi tvíþætta afstaða, að tryggja heildstætt skipulag og leggja áherslu á umhverfisvernd og umhverfisþáttinn. Við höfum haft ágætt samstarf í félmn. og við úr stjórnarandstöðunni í þessum málum tókum þann kost, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og sá sem hér stendur, að skrifa undir álitsgerð um frv. með fyrirvara. Sá fyrirvari snertir einmitt þetta. Við sögðum að ef stjórnarmeirihlutinn væri staðráðinn í því að skipta landinu á milli sveitarfélaga, þá væri það algert skilyrði af okkar hálfu að breytingar verði gerðar á skipulagslögum til þess að treysta þann þátt. Við lágum ekkert á okkar sjónarmiði í þessu efni og gengum eftir því að fá upplýsingar um hvað til stæði í stjórnarherbúðunum hvað þetta varðar. Okkur voru sýnd frumvarpsdrög sem ríkisstjórnin var að undirbúa og hefur síðan verið dreift á Alþingi en ekki fengist rætt. Í því stjfrv. segir í 1. gr., með leyfi forseta:

,,Miðhálendið, sem markast af línu sem dregin er milli heimalanda og afrétta, skal svæðisskipulagt sem ein heild.`` --- Þetta er mjög afdráttarlaust. --- ,,skal svæðisskipulagt sem ein heild.`` Síðar segir:

,,Um málsmeðferð svæðisskipulags miðhálendisins fer samkvæmt ákvæðum laga þessara. Auk þess skal sú stefna, sem fram kemur í svæðisskipulagi miðhálendisins, færð inn í aðalskipulag hlutaðeigandi sveitarfélaga og staðfest sem slík.``

Hér á sem sagt að binda það í lagatexta að miðhálendið skuli svæðisskipulagt og það svæðisskipulag skuli, samkvæmt þessari tillögu um lagabreytingu, færð inn í aðalskipulag hlutaðeigandi sveitarfélaga og staðfest sem slíkt.

Þetta finnst mér mikilvægt framlag í þessa umræðu til að tryggja það meginsjónarmið að miðhálendið verði skipulagt heildstætt. Það er hins vegar önnur saga að við viljum að umhverfisaðilar komi að þessu, enda er gert ráð fyrir því í þessu frv. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að það sé félmrh. og umhvrh. sem skipi í nefndina.

Mundi þetta binda alla enda? Mundi þetta leysa málin þannig að vel mætti við una? Ég er ekki sannfærður um það. Ég tel þetta mjög mikilvægt en ég er ekki sannfærður um að þetta mundi leysa þessi mál þannig að ég teldi tryggt að þau meginsjónarmið sem ég tala fyrir, heildstætt skipulag og umhverfisþátturinn, vegi þyngst.

Hvers vegna er ég ekki sannfærður? Vegna þess að mér finnst ýmsar mótsagnir og ýmsum spurningum ósvarað þegar svæðisskipulag skarast við aðalskipulag sveitarfélaganna og réttur sveitarfélagsins til þess að andæfa og mótmæla og jafnvel framfylgja ekki lagaákvæðum um svæðisskipulag. Mér finnst margt vera óljóst í þessum efnum.

Mér finnst ég ekki fá nægilega afdráttarlaus svör þegar eftir því er leitað þó að ég veki athygli á þessu afdráttarlausa orðalagi. En ég held að það sé mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þessi mál stjórnast af samspili margra lagabálka. Við höfum smám saman fetað okkur í þá átt að koma skikk á þessi mál. Ég vek t.d. athygli á því að í umræðunni í fyrra þegar skipulags- og byggingarlög voru til umræðu, þá segir hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, með leyfi forseta:

,,Ein af þeim róttæku breytingum sem umhvn. leggur til á frv. varðar uppsetningu á væntanlegum lögum, sem ég tel vera verulega til bóta og gerði að umtalsefni við 1. umr. máls, þ.e. að setja skipulagsþrepin upp í rökrænna form en gert var í upphaflegu frv. Þetta hefur gengið eftir. Það er byrjað á landsskipulagi eða skipulagsáætlun sem varðar landið allt og síðan fjallað um svæðisskipulag og þar á eftir um aðalskipulag og deiliskipulag. Ég tel að þetta hafi gildi upp á bæði nálgun máls og skilning fyrir almenning á uppbyggingu skipulags og hafi því meiri þýðingu en virðast kann í fljótu bragði og ég vona að það verði til þess að styrkja meðferð þessara mála almennt séð. Ég hefði kosið að svæðisskipulag yrði lögfest, að það yrði lögbundið að gera skyldi svæðisskipulag. Það fékkst ekki stuðningur við það sjónarmið að þessu sinni. Heimildir eru til eða gert er ráð fyrir frumkvæði sveitarfélaga um gerð svæðisskipulags og að Skipulagsstofnun geti einnig haft frumkvæði um það.``

Hér er hv. þm. Hjörleifur Guttormsson að kalla eftir því að svæðisskipulag verði lögfest, að það verði lögbundin skylda að gera svæðisskipulag. Eins og ég vék að hér áðan þá er svæðisskipulag á miðhálendinu samkvæmt bráðabirgðaákvæði í skipulagslögum. Við erum ekki að tefla neinu í tvísýnu með því að fresta þessum lögum vegna þess að nefndin sem þar kemur að á samkvæmt þessu bráðabirgðaákvæði að starfa í sumar og á reyndar að skila af sér í desember.

Síðar í sínu máli fjallar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson í ýmislegt sem hafi áunnist í þessum lagabreytingum og ...

(Forseti (RA): Forseti vekur athygli á því að nú er ætlunin að gera matarhlé í hálftíma og spurning hvort hv. ræðumaður gæti gert hlé á ræðu sinni fljótlega.)

Það er sjálfsagt. Ég skal gera það þegar í stað.