Fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Miðvikudaginn 06. maí 1998, kl. 10:32:35 (6239)

1998-05-06 10:32:35# 122. lþ. 119.93 fundur 349#B fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 122. lþ.

[10:32]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir að vekja athygli á þessu máli, sérstaklega þeirri pínlegu stöðu sem Alþingi er í.

Fyrirspurn hv. þm. var beint til hæstv. viðskrh. en samkvæmt blaðaskrifum að undanförnu er hann sjálfur verulegur hluti af því máli sem kallað er Lindarmálið, samkvæmt blaðaskrifum og greinum fyrrv. bankastjóra Landsbankans. Og þó að þar sé mikil flaumur af fúkyrðum eins og menn þekkja þá glittir þar í einn og einn hlut sem ástæða er til að velta fyrir sér og ég kalla það pínlega stöðu fyrir Alþingi að þurfa að taka við svari frá hæstv. viðskrh. um þetta mál sem endanlegum dómi. Það ýtir undir það að maður velti því fyrir sér hvort ekki þarf að stofna til sérstakra athugana á þessum málum, t.d. samkvæmt þeim ákvæðum sem um er að ræða í stjórnarskránni í þessum efnum eða með öðrum hætti sem Alþingi telur heppilegt vegna þess að það er bersýnilegt, og það skilur hvert einasta barn, þó að kannski einn og einn maður í stjórnarliðinu skilji það ekki, að það er óþægilegt fyrir þingið að taka það trúanlegt sem endanlega niðurstöðu sem kemur frá hæstv. viðskrh. í þessu máli.