Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 14:27:44 (6280)

1998-05-07 14:27:44# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SighB
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[14:27]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég veitti því athygli að hæstv. forsrh. er staddur í húsinu og ég vildi óska eftir því við virðulegan forseta að einhvern tíma meðan ég flyt ræðu mína verði hæstv. forsrh. beðinn um að vera viðstaddur því að ég hef áhuga á því að koma til hans spurningu. Ekki skiptir neinu meginmáli hvenær það yrði en ef hæstv. ráðherra er ekki farinn úr húsinu þá vildi ég gjarnan að hann væri látinn af því vita. Ef hann er hins vegar farinn úr húsinu og hefur farið á meðan umræður fóru fram sem urðu að lokinni ræðu síðasta ræðumanns þá tel ég enga ástæðu til þess að senda eftir honum, virðulegi forseti.

Hér hafa vissulega verið fluttar margar og langar ræður. Það hefur verið sagt núna upp á síðkastið að þær ræður beri svipmót málþófs. Það er ekki rétt. Ég vek athygli á því að forsetar, sem stýrt hafa fundum Alþingis, hafa ekki í eitt einasta skipti gert þá athugasemd að ræðumaður sé ekki að flytja mál sitt í samræmi við efni þess máls sem liggur fyrir Alþingi. Fólk er hér einfaldlega að ræða það dagskrármál sem er til umræðu. Enginn ræðumanna, hversu lengi sem hann hefur talað, hefur vikið út frá efni þess máls sem er til umræðu. Forseti hefur aldrei gert neinar athugasemdir við þann málflutning. Hann hefur verið efnislegur um dagskrármálið og slíkur málflutningur verður ekki kenndur við málþóf. Það er málþóf þegar menn víkja út frá dagskrárefninu og taka fyrir óskyld efni. Forseta ber þá að vekja athygli á því að um sé að ræða umræðu sem er komin út fyrir þau mörk sem dagskrármálinu eru sett. Þetta hefur aldrei gerst í allri þessari löngu umræðu og þess vegna mótmæli ég því að menn séu með eitthvert málþóf.

[14:30]

Hins vegar er það mjög eðlilegt að hér séu fluttar langar ræður um þau mál sem eru til afgreiðslu og fyrsta málið er rétt komið á dagskrá og er búið að vera á dagskrá í nokkra daga.

Hvers vegna er eðlilegt að fluttar séu um þetta nokkuð margar og langar ræður? Ástæðan er sú að hér erum við að skipta upp stjórnun og eignarhaldi á þeim auðlindum sem finnanlegar eru á þurrlendi Íslands. Við höfum með lögum um stjórn fiskveiða tekið ákvörðun um hvernig skuli haga eignarhaldi á nytjastofnum á Íslandsmiðum og hverjir skuli hafa ráðstöfunarrétt á þeim auðlindum. Niðurstaðan var sú að ákveða í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða að íslenska þjóðin ætti saman nytjastofna á Íslandsmiðum. Fiskimiðin við Íslandsstrendur væru sameign þjóðarinnar. Þannig er það í orði kveðnu. Fiskimiðin við Íslandsstrendur eru vissulega sameign þjóðarinnar samkvæmt ákvæðum 1. gr. laga um stjórn fiskveiða en aðeins í orði kveðnu vegna þess að Alþingi ákvað jafnframt að heimila tiltölulega fáum einstaklingum og fyrirtækjum allan ráðstöfunar- og nýtingarrétt á þessari sameiginlegu auðlind. Ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða eru því orðin tóm því það sem skiptir meginmáli í þessu sambandi er að sjálfsögðu hver fær ráðstöfunarréttinn yfir hinum sameiginlegu auðlindum. Niðurstaðan er alkunn. Það eru örfáir einstaklingar og félög sem hafa þennan ráðstöfunarrétt með höndum. Þeir aðilar versla með hann, þessa sameiginlegu auðlind þjóðarinnar, eða öllu heldur nýtingarréttinn á henni sín á milli og við þriðja aðila fyrir ævintýralega háar fjárhæðir og þjóðin sjálf, eigandi auðlindarinnar, ber ekkert úr býtum.

Það koma varla svo saman tveir menn til að ræða landsins gagn og nauðsynjar á Íslandi að talið berist ekki fyrr eða síðar að þessu máli, hvernig farið hefur verið með auðlind fiskimiðanna, sameign okkar Íslendinga. Hvernig nýtingarrétturinn hefur verið falinn örfáum einstaklingum og sumir hverjir versla með þann nýtingarrétt sín á milli fyrir ævintýralegar fjárhæðir.

Það sem nú stendur til að gera á Alþingi Íslendinga á þessu vori er að taka allar auðlindir landsins sem eftir eru, auðlindir hins þurra lands og afgreiða þær með sama hætti. Í þjóðlendufrv. á að samþykkja að þær auðlindir sem enginn á, enginn getur gert tilkall til og þá fyrst og fremst miðhálendi landsins og auðlindir þess séu sameign þjóðarinnar. En í öðrum þingmálum á jafnframt að gera ráð fyrir því að forræðið, ráðstöfunarrétturinn sé afhentur tiltölulega fáum einstaklingum sem hafi rétt til þess að kveða á um hvernig eigi að hagnýta þessar sameiginlegu auðlindir þjóðarinnar og hverjir megi hagnýta þær.

Þær auðlindir sem hér er um að ræða, auðlindir í iðrum jarðar og auðlindir á jörðu, eru mun verðmætari sé reynt að meta þær til verðs en auðlindir fiskimiðanna við strendur landsins. Þetta eru því feikiháar fjárhæðir sem með þessu móti á að afhenda ráðstöfunarréttinn á til tiltölulega fárra einstaklinga og samtaka á sama hátt og menn hafa afhent ráðstöfunarrétt fiskimiðanna í hendur hinna fáu. Er þá nokkuð óeðlilegt, virðulegi forseti, þó að þeir sem eru andvígir slíkri ráðstöfun taki sér góðan tíma á Alþingi til að ræða þessi mál í þeirri von að geta vakið þjóðina til vitundar um hvað hér er að gerast, gefið fólki tíma til að átta sig á því hvernig þingmeirihluti Sjálfstfl. og Framsfl. ætlar að beita valdi sínu á Alþingi Íslendinga og gefi kjósendum þeirra þingmanna sem eru andvígir þessari stefnumótun ráðrúm til að hafa samband við þá og lýsa skoðunum sínum og afstöðu til mála? Þetta er tilgangur okkar með þeim löngu efnislegu ræðum sem við höfum flutt og sá tilgangur hefur vissulega skilað árangri vegna þess að á þeim dögum sem við höfum haldið uppi andófi gegn þessari stefnu sérhagsmunahyggjunnar á kostnað almannahags hafa streymt inn til Alþingis, til forseta Alþingis, til forsrh. og til einstakra þingmanna mótmæli forsvarsmanna stórra hagsmunasamtaka, mótmæli forsvarsmanna útivistar- og ferðamálasamtaka, náttúruverndarsamtaka, samtaka gróðurverndaráhugamanna og fleiri aðila sem hafa áttað sig á því hvað stendur hér til og gera kröfur um það að Alþingi fallist á að fresta afgreiðslu málsins til næsta hausts þannig að betri tími gefist til að skoða þau efnisatriði frv. þriggja sem hér eru á dagskrá sem ætlað er að tryggja enn meiri yfirráð hinna fáu á kostnað fjöldans en þegar hefur verið staðfest með lögunum um stjórn fiskveiða.

Mótmæli streyma nú inn, ekki bara fulltrúa félagsmálasamtaka af því tagi sem ég nefndi áðan, ferðamálasamtaka, útivistarsamtaka, gróðurverndarsamtaka, náttúruverndarsamtaka o.s.frv. heldur berast í tölvupósti til alþingismanna sams konar mótmæli frá fjölmörgum einstaklingum sem í tuga- og hundraðatali nýta sér það tækifæri sem við, sem erum andvígir þessari afgreiðslu, erum að reyna að skapa til að koma mótmælum sínum og afstöðu og skilaboðum á framfæri áður en málið verður afgreitt. Við erum því ekki að halda hér langar ræður um efni þessara mála til að halda uppi einhverju innihaldslausu eða tilgangslausu málþófi. Við erum að ræða þessi mál til þess að gera það sem við getum til að koma þeim skilaboðum sem við höfum að færa á framfæri við alþýðu þessa lands í þeirri von og vissu að hún sé okkur sammála um að Ísland er land sem við eigum öll saman og þeirri sameign okkar eigum við ekki að skipta upp á milli fárra sérhagsmunaaðila. Við sjáum fyrir okkur reynsluna af þeirri stefnu hvað varðaði uppskipti auðlindarinnar á fiskimiðunum. Við viljum ekki endurtaka slíka atburði hvað varðar auðlindir miðhálendisins og auðlindir í og á jörðu. Muni það verða gert, muni þingmeirihluti stjórnarflokkanna nota vald sitt á Alþingi til að knýja það fram, þá er ég sannfærður um að eftir áratug eða svo mun umræðan um það sem gerst hefur með auðlindir hafsins reynast hjóm eitt hjá þeirri umræðu sem þá mun fara fram um þá ráðstöfun sem Sjálfstfl. og Framsfl. ætla sér að tryggja sérhagsmunaöflunum hvað varðar auðlindir hins þurra lands.

Hv. þm. Pétur Blöndal hefur gert mikið mál úr því að nú á þessum dögum standi fólk til sjávar og sveita við vinnu sína, bændur í sauðburði, fiskverkafólk við borðin í frystihúsunum o.s.frv., en það sé nú annað sem við höfumst að á Alþingi. En við erum líka við vinnu okkar. Ég stend hér, herra forseti, við vinnuborð alþingismanna. Hér fer fram verulegur hluti af okkar störfum. Við stöndum hér í vinnu eins og annað fólk og það er alveg ástæðulaust af hv. þm. Pétri Blöndal að kvarta yfir því að alþingismenn sinni störfum sínum. Er nokkuð athugavert við það að alþingismenn standi í ræðustól á Alþingi og flytji mál sem þeim er kært og varðar sannfæringu þeirra? Við erum hér í okkar vinnu. Okkur er ekkert vandara um en konunum í frystihúsinu sem standa við vinnuborð sín þrjá, fjóra tíma í lotu og finnst ekki neitt til um það, það er enginn sem gerir neitt mál úr því. Þetta er bara þeirra vinna.

Það er heldur engin ástæða til að gera neitt mál úr því þó að við alþingismenn stöndum í vinnu okkar í ræðustól í svipaðri lotu í tvo, þrjá klukkutíma. Við erum bara að gera það sama og fólkið í landinu sem stundar sína vinnu hvert á sínum vinnustað. Það þykir ekkert tiltökumál þó að konurnar í fiskverkahúsunum standi við vinnsluborð sín í tvo, þrjá klukkutíma og það er heldur ekkert tiltökumál þó að við alþingismenn gerum það í vinnunni. Það er ekkert tiltökumál þó að starfstími Alþingis dragist eitthvað fram á vorið eða sumarið. Við erum að vinna störf okkar og við ljúkum þeim störfum á þeim tíma sem þarf til að vinna þau. Gagnrýni á okkur um að við séum á einhvern hátt að standa óeðlilega að málum er ósanngjörn. Við erum eingöngu að vinna okkar verk. Hluti af okkar verki fer fram á nefndafundum í nefndum Alþingis. Hluti af okkar verki fer fram í samskiptum við kjósendur og hluti af okkar verki fer fram í þessum sal og í þessum ræðustól og við erum einfaldlega að vinna fyrir kaupinu okkar og ég trúi því ekki að nokkur Íslendingur gagnrýni okkur fyrir það.

Í þeim umræðum sem hér hafa farið fram hefur ýmislegt verið upplýst. Það hefur t.d. verið upplýst hversu mikil verðmæti eru fólgin í þeim auðlindum, bæði náttúru og landi sem hér eru til umfjöllunar. Ég hef nefnt það t.d. að bara auðlindir orkulindanna á hálendi Íslands megi meta til álíka verðs og verðmæti allra fiskimiða við landið. Skiptir það ekki máli fyrir framtíð þjóðarinnar hvaða aðili það er sem skipuleggur nýtingu á þessum auðlindum, hvaða aðili það er sem ákveður hvernig skuli nýta þessar auðlindir, hver skuli nýta þær og jafnvel hvort þessar auðlindir skuli nokkuð nýttar? Við erum að fjalla um það hvaða aðili það er sem á að stjórna skipulagi á nýtingu og eftirliti t.d. með slíkum auðlindum og ég hef nefnt. Auðvitað skiptir það máli hvort sá sem þar fer með völd er fulltrúi þjóðarinnar allrar eða hvort um er að ræða fulltrúa lítils minni hluta hennar sem tekur ákvarðanir fyrir hina. Þarna er aðeins um að ræða brot af þeim verðmætum sem verið er að fjalla um hér.

Hvers virði halda menn t.d. að veiðirétturinn sé á hálendi Íslands? Spyrjið þið þá sem þurfa að borga fyrir aðgang að veiði þar. Ætli það séu ekki allverulegir fjármunir þegar það er lagt saman? Hvers virði skyldi beitarrétturinn vera á hálendinu? Ég hef getið mér þess til að verðleggja megi beitarréttindin ein á um 20--30 milljarða kr.

Hvers virði skyldi miðhálendi Íslands vera fyrir ferðamannaþjónustu? Flestir erlendir ferðamenn sem koma hingað til þessa lands fara fyrr eða síðar upp á hálendið og margir þeirra koma hingað fyrst og fremst vegna þeirrar náttúru sem þar er að finna og borga fyrir það ærið fé. Hversu verðmæt skyldu ferðamannaskilyrðin á hálendinu ekki vera?

Þarna eru bara nokkur dæmi nefnd til að sýna fram á það að hér eru menn ekki bara að tala um hálendið sem náttúruperlu heldur eru menn líka að tala um mikil fjárhagsleg verðmæti sem þar er að finna og verið er að taka ákvarðanir um hér og nú hvernig skuli ráðstafað og hverjir fá vald til þess að ákvarða um nýtingu þeirra þannig að það er ekkert skrýtið þó umræður verði langar og jafnvel strangar um þessi mál á Alþingi.

[14:45]

En það er miklu meira og fleira sem hefur komið fram í umræðunum. Það hafa t.d. komið fram fullyrðingar um að búið væri að leysa ágreining stjórnarliða um þessi mál en eins og fram hefur komið og fram kom við 1. umr. og hefur síðan komið fram í blöðum eru nokkrir stjórnarþingmenn ekki sáttir við þá leið sem meiri hluti stjórnarflokkanna ætlar sér að fara í málinu. Því hefur verið haldið fram að fundin hafi verið sáttaleið milli meiri hluta og minni hluta stjórnarþingmanna í málinu með breytingum á skipulags- og byggingarlögum sem hæstv. umhvrh. ætli að beita sér fyrir.

Í umræðunum hefur komið fram að þetta er rangt. Engin sátt er milli stjórnarliða um þá lausn. Fimm þeirra hafa talað um svokallaða sáttaleið og af þeim fimm sem til máls hafa tekið hefur aðeins einn stutt alfarið þá sáttaniðurstöðu sem hæstv. ríkisstjórn hefur sagt að hún hafi fundið í málinu. Einn af þeim fimm hefur alfarið lagst gegn því og lýst því yfir að ekki væri nein sátt við sig um að fara þá leið og þeir þrír sem þá eru eftir hafa allir lýst því yfir að þeir telji að sáttatillaga hæstv. umhvrh. sé gersamlega óþörf og sé verra að samþykkja hana en að samþykkja hana ekki. Það hefur komið fram í þessum umræðum, sem lá ekki fyrir áður, að sú sáttaleið sem hæstv. ríkisstjórn hrósar sér af er ekki fundin enn, hún er ekki í þessu frv.

Þá hefur líka komið fram að það er mat ríkisstjórnarinnar sjálfrar að hún vogar sér ekki að leggja svokallaða sáttaleið fram á Alþingi til afgreiðslu samhliða því frv. sem á að fara að afgreiða vegna þess að stjórnarflokkarnir tóku þá ákvörðun eins og kunnugt er að fella það sjálfir að stjfrv. með sáttaleiðinni svokölluðu fengi að koma til umræðu á Alþingi. Með því sviku þeir það samkomulag sem þeir höfðu gert við þingflokk Alþb. en þingflokkur Alþb. hafði gefið í skyn að hann kynni að samþykkja ákvæði sveitarstjórnarlaganna væri svokölluð sáttatillaga ríkisstjórnarflokkanna afgreidd samhliða á Alþingi. En hæstv. umhvrh. treysti ekki betur en svo sáttaniðurstöðu sinni og stuðningi stjórnarþingmanna við hana en að hann sjálfur hafði frumkvæði um að beita sér gegn því að Alþingi samþykkti að taka frv. hans sjálfs til meðferðar á vordögum samhliða því frv. sem stjórnarþingmenn höfðu deilt um. Það liggur sem sagt fyrir og hefur verið upplýst í þessum umræðum að sú sáttaleið sem ríkisstjórnin þóttist hafa fundið er ekki til staðar og hæstv. umhvrh. þorir ekki að leggja fyrir Alþingi það frv. sem segir þó sjálfur að hafi sætt stjórnarliða við að fylgja sér. Hann treystir því ekki að þegar á herði séu þeir reiðubúnir til að veita því máli hans atbeina.

Þá hefur líka komið fram að hlutverk þeirrar 12 manna samvinnunefndar, sem á að skipa samkvæmt frv. umhvrh. er afskaplega rýrt. Í fyrsta lagi hefur komið fram að ekki er gert ráð fyrir því að samvinnunefndin hafi neinn rétt umfram aðra til áhrifa á hið endanlega svæðisskipulag. Hún hefur þann eina rétt að geta veitt umsögn til skipulagsyfirvalda um þær tillögur sem liggja fyrir. Þann rétt að gera athugasemd við svæðisskipulagstillögur hálendisins hefur hver og einn einasti Íslendingur nú þegar. Hvaða Íslendingur sem er getur sent inn athugasemdir við tillögur um svæðisskipulag hálendisins þannig að sáttatillaga umhvrh. um skipun samvinnunefndar gefur nefndarmönnum í samvinnunefndinni ekkert meira umboð eða tryggir þeim meiri áhrif en þeir hafa nú þegar sem venjulegir borgarar í landinu. Þeir 12 sem munu skipa nefndina, verði henni einhvern tíma komið á koppinn sem ekki er ljóst hvort verður, munu því engin áhrif öðlast með nefndarsetunni umfram það sem þeir hafa nú þegar því að ekki er gert ráð fyrir því að umsagnaraðild þeirra að svæðisskipulaginu hafi nokkra bindandi ákvörðun fyrir einn eða neinn. Enginn ákvörðunaraðili þarf svo mikið sem að lesa umsögnina frá samvinnunefndinni. Það staðfestist ekki síst af því, sem kom fram hjá hæstv. umhvrh. að nefndinni er ekki ætlaður neinn tími til starfa.

Hæstv. ráðherra hafði áður lýst því yfir, áður en hin svokallaða sáttaleið hans kom til umræðu á Alþingi, að það væri hugmynd hans að staðfesta svæðisskipulag miðhálendisins einhvern tíma í vetrarbyrjun, að teknu tilliti til ábendinga sem hafa komið fram. Þegar ég spurði hann að því hvað hann ætlaði síðan að gefa samvinnunefndinni langan tíma til þess að fara yfir málin og veita umsögn sína þá tók hann fram að hann gerði ráð fyrir því að gefa henni tíma frá vetrarbyrjun til miðs vetrar, þ.e. gefa þessari svokölluðu samvinnunefnd nokkrar vikur til starfa og það eitt út af fyrir sig sýnir að ekki ætlar ráðherrann að leggja mikið kapp á það eða gera ráð fyrir því að nefndin hafi mikið að segja í þessu skipulagsferli.

Hæstv. ráðherra tók meira að segja sérstaklega fram að ekki væri gert ráð fyrir því að nefndin ynni neinar svæðisskipulagstillögur á sína ábyrgð eða á sínum vegum, ekki eina einustu tillögu, heldur að hún hefði það eitt hlutverk að fara yfir tillögur nefndar þeirrar sem unnið hefur tillögur að svæðisskipulagi og athugasemdir sem aðrir hafi gert en komi ekki nálægt málinu að öðru leyti en því. Umræðan hefur sem sé leitt í ljós hversu innantóm sú sáttagjörð er sem hæstv. ríkisstjórn þóttist hafa komið á til þess að friða það sem hún kallar þéttbýlisfólkið, til þess að friða þá 96 af hverjum 100 Íslendingum sem fá samkvæmt tillögum hennar enga aðild að ákvörðunum um svæðisskipulag miðhálendisins.

En meira hefur komið fram í þessum umræðum en bara þetta. Eins og ég sagði áðan hefur komið fram að þegar fólk gerir sér grein fyrir hverjar þær ráðagerðir eru sem eru uppi hjá þingmeirihlutanum, hefur fjöldi fólks gripið til þess ráðs að koma mótmælum sínum á framfæri. Hver umhverfisverndarsamtökin á fætur öðrum, hver útivistarsamtökin á fætur öðrum, hver ferðamálasamtökin á fætur öðrum, hver náttúruverndar- og gróðurverndarsamtökin á fætur öðrum hafa sent Alþingi, forseta þingsins, þingmönnum og forsrh. áskorun og allar áskoranirnar eru á einu og sömu lund: Frestið þið málinu. Gefið þjóðinni og hagsmunaaðilum kost á því að kynna sér betur hvaða ráðagerðir þið eruð með og gera athugasemdir sínar og reyna að hafa áhrif til breytinga. Með hverjum deginum fjölgar þeim einstaklingum sem snúa sér til þingmanna með sömu erindi, ekki bara stjórnarandstöðuþingmanna heldur stjórnarþingmanna, sem ég veit að sumir hafa fengið tugi erinda frá kjósendum sínum, þar sem þeir eru beðnir um að beita sér fyrir því að málin verði ekki afgreidd með þeim hætti sem til stendur. Þessar löngu efnisumræður hafa líka gefið stjórnmálaaðilum tækifæri á að bregðast við, stjórnmálaöflum sem eru þó fylgjandi núv. hæstv. ríkisstjórn.

Þingmenn Framsfl. í Reykjavík eru tveir, hv. þm. Finnur Ingólfsson og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson --- Finnur þingmaður og hinn þingmaðurinn. Stjórn kjördæmisráðs eða fulltrúaráðs Framsfl. í Reykjavík hefur lýst yfir sérstökum stuðningi við hinn sem hefur tekið afstöðu með stjórnarandstæðingum í málflutningi sínum á Alþingi. En hvað þá um Finn Ingólfsson?

Hv. þm. Svavar Gestsson bar fram þau einföldu tilmæli til félmrh. að hann upplýsti okkur um það hvað þessi merkilega samþykkt kjördæmisráðs Framsfl. í Reykjavík þýddi. Þýðir samþykktin það að framsóknarmenn í Reykjavík styðji Ólaf Örn Haraldsson og málflutning hans í þessu máli á Alþingi en taki afstöðu gegn Finni Ingólfssyni fyrir þær sakir að Finnur Ingólfsson sé andstæðingur málflutnings Ólafs Arnar Haraldssonar í þinginu? Eða veit kannski stjórn fulltrúaráðs framsóknarmanna í Reykjavík betur en við hin, þ.e. veit stjórn fulltrúaráðs framsóknarfélanna í Reykjavík að hæstv. iðnrh. sé sammála Ólafi Erni Haraldssyni þó að hann flíki því ekki í þinginu enda erfitt fyrir manninn þar sem hann er einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar? Auðvitað er æskilegt að fá þetta upplýst því hvort heldur sem er eru það tíðindi mikil. Ef hæstv. iðnrh. er sammála þingbróður sínum liggur fyrir að iðnrh. er á móti ríkisstjórninni í málinu og er það ekkert skrýtið þegar skoðaðar eru umsagnir þeirra stofnana sem heyra undir sama iðnrh. um málið sem er til meðferðar því að stofnanirnar sem heyra undir iðnrh. og hafa komið að málinu hafa lýst yfir afstöðu sem er ekki hægt að túlka öðruvísi en sem andstöðu við að málið sé afgreitt með þeim hætti sem stjórnarmeirihlutinn leggur til þannig að þær stofnanir ráðherrans sem hafa tjáð sig virðast vera á sömu skoðun og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson. Ber að túlka þögn iðnrh. og samþykkt stjórnar kjördæmisráðs Framsfl. til marks um að iðnrh. sé sammála umsögnum þeirra stofnana sem undir hann heyra og fjallað hafa um málið og sammála hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni og andvígur málstað ríkisstjórnarinnar, og það eru tíðindi, eða er hæstv. iðnrh. á annarri skoðun, gerólíkri skoðun við hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson þannig að Framsfl. í Reykjavík sé klofinn í málinu og stjórn fulltrúaráðsins taki afstöðu með sjónarmiðum Ólafs Arnar Haraldssonar gegn sjónarmiðum hæstv. iðnrh. Finns Ingólfssonar? Ekki eru það minni tíðindi, herra forseti, ef svo er. En fleiri kostir eru ekki í stöðunni nema þá að Framsfl., sem á árum áður a.m.k. var sagður opinn í báða enda, ætli að viðhalda þeirri stöðu með því að um leið og stjórn fulltrúaráðs framsóknarfélaganna í Reykjavík hafi gert ályktun sína um eindreginn stuðning við sjónarmið Ólafs Arnar Haraldssonar hafi sama stjórn gert aðra ályktun um eindreginn stuðning við sjónarmið Finns Ingólfssonar þannig að framsóknarflokksmenn í Reykjavík styðji þá gagnstæð sjónarmið beggja.

[15:00]

Ég geri ekki ráð fyrir því, virðulegi forseti, að sú sé reyndin að Framsfl. í Reykjavík sé á þennan hátt opinn í báða enda. Ég geri heldur ekki ráð fyrir því, þó það væri ánægjulegt ef svo væri, að hæstv. iðnrh. sé á annarri skoðun í málinu en aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni. Ég hlýt því að komast að þeirri niðurstöðu, og ætla að hafa hana fyrir sanna sé henni ekki mótmælt, að Framsfl. í Reykjavík sé klofinn í málinu, öðrum megin standi hæstv. iðnrh. að mestu leyti einn, hinum megin standi hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson með stuðning fulltrúaráðs framsóknarfélaganna í Reykjavík og eru það mikil tíðindi örfáum mánuðum áður en gengið verður frá framboðum til næstu þingkosninga. Ætti þá ekki að skorta stuðninginn við hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson þegar kemur að því að velja hvaða aðili ætti að skipa forustusæti hjá flokknum í Reykjavíkurborg í næstu alþingiskosningum. Að minnsta kosti verður hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni ekki auðveldlega rutt út af framboðslistanum með slíka traustsyfirlýsingu flokksins á bak við sig þannig að erfitt verður að sækja að hans stöðu fyrir aðra. En gaman væri að heyra eitthvað frá þeim framsóknarmönnum sem hér eru viðstaddir hvort þeir gætu upplýst okkur um stöðuna hjá þeim í Reykjavík. Þó er kannski enn meiri ástæða til þess að fá upplýsingar frá þeim um hvernig standi nú með fjórðung flokksins því að eins og kunnugt er kvaddi hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sér hljóðs við 1. umr. málsins og tilkynnti að hún væri á móti hæstv. félmrh. Páli Péturssyni í þessum málum, á móti þeirri lausn sem hann legði til og gengi þvert á hagsmuni þéttbýlisfólksins, ekki síst fólksins í hennar eigin kjördæmi og að hún hefði sér til halds og trausts samþykkt kjördæmisráðs Framsfl. í Reykjaneskjördæmi fyrir þeirri afstöðu sinni, mikla stuðningssamþykkt og sagði hv. þm. Siv Friðleifsdóttir úr þessum ræðustól: ,,Fjórðungur kjósenda flokksins``, þ.e. að hún væri í andstöðu sinni við hæstv. félmrh. fulltrúi fjórðungs kjósenda Framsfl. og var nánast í eigin persónu fjórðungur flokksins.

Nú vill svo til að þessi fjórðungur flokksins, öfugt við hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson, hefur snúið við blaðinu. En hvað um kjördæmisráðið? Skyldi það hafa breytt ályktun sinni? Skyldi það hafa snúið við í miðri á og gert nýja ályktun til stuðnings við málstað hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og hæstv. félmrh.? Ég spurði hv. þm. að þessu fyrir nokkrum dögum og fékk ekkert svar þannig að ég veit ekki hvernig fjórðungur Framsfl. stendur þessa dagana, hvort hann stendur án bakstuðnings heima fyrir en með bakstuðning hæstv. ráðherra Páls Péturssonar eins. Því vildi ég gjarnan fá það upplýst hjá hv. þingmönnum Framsfl. sem hér eru, hvort þeir viti nokkuð nánar um málið. Hvað geta þeir sagt okkur um afstöðu fjórðungs flokksins?

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda mig við það eina atriði í þessu frv. sem varðar stjórnsýsluna á miðhálendinu og skipulagsmálin í því sambandi og geyma mér að ræða aðrar þýðingarmiklar greinar frv. þangað til síðar þannig að verulega mikið mál er enn órætt þó ég taki aðeins fyrir þessa einu grein. Ýmsir málsmetandi menn hafa tjáð sig um þær fyrirætlanir sem er að finna í þessum ákvæðum frv. sem ég ætla að gera að umtalsefni. Það eru menn sem fjalla um þessi mál sem áhugamenn, sem vísindamenn og sem fræðimenn á sínu sviði.

Dr. Gunnar G. Schram er prófessor í umhverfisrétti við lagadeild Háskóla Íslands. Hann hefur tjáð sig um þessi mál í ýmsum blaðagreinum sem er full ástæða til að draga hér upp svo menn heyri hvaða afstöðu þeir hafa sem kenna við lagadeild Háskóla Íslands. Hann segir m.a., með leyfi forseta, í grein sem hann birtir 14. ágúst 1997 í Morgunblaðinu:

,,... felst mikið óréttlæti í þeirri fyrirætlan að útiloka mikinn meiri hluta þjóðarinnar frá öllum ákvörðunum um landnýtingu og stjórnsýslu á miðhálendinu.`` --- Eins og hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að gera. --- ,,Það er gert með núverandi tillögum því þar munu engan hlut eiga að máli allir þeir sem búa á suðvesturhorni landsins, auk Vestfirðinga.``

Hér lýkur þessari tilvitnun. En ég vil taka fram eins og ég sagði áðan í ræðu minni að hin svokallaða sáttaniðurstaða, þ.e. samvinnunefnd hæstv. umhvrh. sem ekki fæst rædd á Alþingi, breytir engu hér um. Síðan segir prófessorinn, með leyfi forseta:

,,Auk þess má mjög draga í efa að þau 40 sveitarfélög sem ætlað eru öll völd á miðhálendinu séu í stakk búin til þess að fara með þá stjórnsýslu. Þar er ekki síst um að ræða ákvarðanir um skipulagsmál, byggingarmál og heilbrigðismál. Mörg þessara sveitarfélaga eru fámenn og hafa, þrátt fyrir góðan vilja, ekki yfir þeirri sérþekkingu á þessum sviðum að ráða sem nauðsynleg er og hér getur skipt sköpum. Auk þess býður þessi skipting 40% landsins greinilega upp á ágreining og deilur milli sveitarfélaganna innbyrðis um staðar- og valdmörk á miðhálendinu sem líklegar eru til að æra óstöðugan og standa allri starfsemi þar fyrir þrifum svo dæmin hafa raunar þegar sannað.``

Herra forseti. Það hefur verið sagt að með þessum sjónarmiðum sé verið að gera lítið úr dreifbýlisfólkinu. Það er ekki rétt. Það er ekki verið að gera lítið úr einum eða neinum, hvorki þeim sem býr í þéttbýli né hinum sem býr í dreifbýli. En við erum að tala um sveitarfélög þar sem jafnvel örfáir tugir íbúa eru, milli 50--60 íbúar eða svo. Ætlast er til þess að þessi litlu sveitarfélög fari með verkefni upp á miðja jökla í tuga eða jafnvel hundruð kílómetra fjarlægð frá næsta byggða bóli, verkefni eins og t.d. mengunareftirlit, beitar- og gróðurfarseftirlit, heilbrigðiseftirlit, almannavarnir, byggingaeftirlit og löggæsla að hluta. Það er ekki verið að gera lítið úr einum eða neinum þótt bent sé á að 50 eða 60 manna sveitarfélag ræður ekki við slík verkefni af eigin rammleik. Það ræður ekki við slík verkefni af eigin rammleik og er mjög óskynsamlegt að ætlast til þess af viðkomandi fámennu sveitarfélagi að það axli slík verkefni. Þvert á móti er skynsamlegt, eins og við jafnaðarmenn leggjum til, að gera ráð fyrir því að þarna sé um að ræða eina stjórnsýslulega heild þar sem miðhálendið er. Út af fyrir sig er ekkert athugavert eða aðfinnsluvert við það að sá stjórnsýsluaðili sem hefur stjórn á miðhálendinu taki t.d. upp þau vinnubrögð að fela einhverjum sveitarfélögum sem liggja að viðkomandi svæði einhvern hluta þeirrar stjórnsýslu í sínu umboði sem talið er að viðkomandi sveitarfélag ráði við. Þá framkvæmd er vel hægt að hugsa sér, virðulegi forseti. En meginatriði málsins er að stjórnsýsluhafinn, æðsta yfirvaldið sé eitt vegna samræmingarinnar og að þau verkefni sem rætt er um að vinna þurfi á hálendinu séu í höndum aðila sem hefur burði til þess að vinna þau svo sómasamlegt sé.

Hv. prófessor Gunnar G. Schram segir áfram í þessari grein sinni í Morgunblaðinu þann 14. ágúst sl., með leyfi forseta:

,,En hvað er þá til ráða um framtíðarskipan miðhálendisins sem gerir Ísland öðru fremur að einstæðu landi meðal þjóða heims?

Svo þarf að skipa málum að miðhálendið allt lúti einni stjórn hvað öll stjórnsýslumálefni snertir svo tryggt sé að hægri höndin viti hvað sú vinstri gerir og heildarhagsmunir allra landsmanna séu í heiðri hafðir í allri framtíðarnýtingu þess. Er hér ekki síst átt við samræmi það sem ná þarf milli náttúruverndarsjónarmiða og beislun vatnsfallanna í þágu stóriðju í framtíðinni. Þar er hvert spor vandstigið og rangar ákvarðanir gætu valdið óbætanlegu tjóni um aldir.``

Þarna talar einstaklingur sem ekki er hægt með neinum rökum að saka um að dragi hlut eins framar annars, gangi á rétt eins umfram annan, hafi samúð með einum umfram annan og alls ekki hægt að halda fram að eigi nokkuð sérstaklega sökótt við dreifbýlið eða það fólk sem þar býr. Hér er um að ræða prófessor í umhverfisrétti við lagadeild Háskóla Íslands og þau sjónarmið sem hann setur fram, annars vegar gagnrýni á þá framkvæmd sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að hafa á þessum málum og hins vegar tillaga hans um skipan mála að miðhálendið allt lúti einni stjórn, eru nákvæmlega sömu sjónarmiðin og sömu tillögurnar og við jafnaðarmenn höfum í málinu.

Umræddur lagaprófessor er þekktur fyrir allt annað í sínum pólitísku afskiptum en stuðning við sjónarmið jafnaðarmanna. En þetta eru sjónarmið hans sem fagmanns, sem prófessors í umhverfisrétti við lagadeild Háskóla Íslands og hann rökstyður þessi sjónarmið sín út frá faglegum og sannfærandi rökum og hann er sammála okkur jafnaðarmönnum um afstöðu til þessara meginatriða málsins.

Dr. Gunnar G. Schram hefur ritað fleiri greinar til þess að ítreka þessi sjónarmið. Hann ritaði t.d. aðra grein undir heitinu: ,,Örfáir hagsmunaaðilar stjórni ekki miðhálendinu.`` Sú grein er rituð síðar en hin, eftir að tillögur um svæðisskipulag að miðhálendinu lágu fyrir. Þar segir hann, með leyfi forseta:

[15:15]

,,Margt gott má segja um þær tillögur sem er að finna í svæðisskipulaginu að miðhálendi Íslands sem nú liggur frammi til athugasemda. Einn stór galli er þó þar á gjöf Njarðar. Samvinnunefndin leggur til að stjórnsýslan yfir miðhálendinu verði í höndum sveitarfélaga sem að því liggja. Með þessu er ráðendum rúmlega 40 sveitarfélaga af 165 fengið allt framkvæmdarvald yfir svæði sem nær yfir hálft Ísland. Þetta er slæm tillaga af eftirtöldum ástæðum:

Í fyrsta lagi felst mikið óréttlæti í því að fá 3--4% landsmanna vald yfir nær helmingi landsins. Það þýðir að aðrir landsmenn mega þar hvergi koma nærri. Samt eru það ekki síst íbúar þéttbýlissvæðanna, hér og í öðrum kaupstöðum, sem mest nota hálendið.

Í öðru lagi er ljóst að víðáttumikil svæði miðhálendisins eru utan alls eignar- og þá stjórnsýsluréttar í dag samanber allmarga hæstaréttardóma. Skipulagsyfirvöld hafa mjög vafasaman rétt til þess að fá örfáum mönnum vald yfir þessum eigendalausu svæðum. Það er raunar fráleitt og verður ekki gert nema með nýrri og sérstakri lagaheimild.

Í þriðja lagi er það mjög hæpin stefna svo ekki sé meira sagt að fá hagsmunaaðilum vald til að nýta miðhálendið. Þeir ættu einmitt manna sístir að fara með það vald vegna m.a. ofbeitarhættu sem þar er um að ræða og mun vart minnka við óskoruð völd þeirra þar.

Í fjórða lagi er það mjög vafasamt að sveitarfélögin 40 sem ætlað er stjórnsýsluvaldið hafi innan sinna vébanda þá fagþekkingu sem krefjast verður til skilvirkrar stjórnsýslu þar. Er hér átt við sérfræðikunnáttu á sviði heilbrigðismála, byggingarmála og skipulagsmála sem sveitarfélög þessi verði að annast fái þau stjórnsýsluvaldið.``

Lýkur hér tilvitnun í grein prófessorsins.

Þessar fjórar röksemdir eru mjög þungvægar og hér eru dregin saman í stuttu, einföldu máli meginatriði þeirrar gagnrýni sem við jafnaðarmenn höfum uppi á þessa skipan mála. Ég vek sérstaklega athygli á því sem prófessorinn segir þar sem hann talar um að það sé mjög hæpin stefna að fá hagsmunaaðilum vald til að nýta miðhálendið og segir síðan, með leyfi forseta:

,,Þeir ættu einmitt manna sístir að fara með það vald vegna m.a. ofbeitarhættu sem þar er um að ræða og mun vart minnka við óskoruð völd þeirra þar.``

Þetta eru orð að sönnu og ekki að ástæðulausu sem prófessorinn setur þessa skoðun sína fram. Af hverju ekki að ástæðulausu? Vegna þess að í þeim tillögum að svæðisskipulagi sem samin var af nefnd sem í sátu fyrst og fremst fulltrúar þessara aðila er eitt sem er hvergi nefnt. Í tillögunum er hvergi nefnt að grípa þurfi til beitarstjórnunar til gróðurverndunar á miðhálendinu þótt fyrir liggi að á Íslandi sé mesta eyðimerkurmyndun vegna gróðureyðingar og uppblásturs sem þekkist í heiminum og þó að öllum sé ljóst og flestir viðurkenni að þessi landeyðing, þessi gróðureyðing, sé af manna völdum, þ.e. sé af völdum rangrar beitarstjórnunar og of mikils beitarþunga á hálendinu. Þrátt fyrir það er ekki svo mikið sem minnst á í tillögum svæðisskipulagsnefndarinnar að grípa þurfi til aðgerða í þessum efnum. Það er því ekki að ástæðulausu sem dr. Gunnar G. Schram prófessor varar við því að hagsmunaaðilum séu fengin of mikil ítök til þess að stjórna þessum málum á miðhálendi Íslands.

Í greinargerð eða yfirliti sem tekið var saman um afstöðu sem fram hefði komið hjá ýmsum aðilum sem um málið hafa fjallað á opinberum vettvangi eru þessi sjónarmið prófessorsins ítrekuð. Umræðan sem varð í fjölmiðlum á liðnu hausti um þessi mál snerist m.a. um hverjum bæri skipulagsrétturinn á miðhálendinu og þar er vitnað til orða prófessors Gunnars G. Schrams sem ég las upp áðan um þau fjögur atriði sem hann tók fram og hnykkt á þeirri niðurstöðu sem þar er að finna.

En fleiri fræðimenn hafa tjáð sig um þessi mál en dr. Gunnar Schram. Kollegi hans í lögfræðideild Háskóla Íslands, Páll Sigurðsson prófessor, hefur einnig fjallað um eignar- og umráðaréttinn yfir miðhálendinu. Hann sagði í grein sem birtist um þau mál m.a. svo, með leyfi forseta:

,,Að margra mati er engan veginn heppilegt að almannaeign, þ.e. viðurkenndar þjóðlendur --- sameign allra Íslendinga --- verði að hluta til ... undir forræði sveitarfélaga, sem geti jafnvel krafist gjalds fyrir nýtingu þeirra í almannaþágu. Er æskilegt að þessum atriðum verði breytt í heppilegra horf við meðferð frumvarpsins á Alþingi.``

Prófessorinn taldi æskilegt að þessum atriðum yrði breytt við meðferð frv. á Alþingi en niðurstaða þingmeirihlutans er sú að það er ekki gert. Prófessorinn hélt síðan áfram í grein sinni og sagði, með leyfi forseta:

,,Nú liggur jafnframt fyrir þinginu frumvarp til nýrra sveitarstjórnarlaga, sem hefur m.a. að geyma mjög umdeilt ákvæði, þar sem kveðið er á um að þeim hlutum landsins, þar með töldum jöklum, sem ekki hefur þegar verið skipað innan staðarmarka sveitarfélaga, skuli nú skipað innan hlutaðeigandi sveitarfélaga eftir nánar tilteknum reglum og viðmiðunum. Með öðrum orðum: Hálendi Íslands, með jöklum, söndum og hraunum, skal nú öllu skipt kirfilega í eins konar ,,tertusneiðar``, fjölmargar og sumar æði þunnar ... Munu þær gjarna teygjast inn að miðju landsins og mætast þar á ólíklegustu stöðum, t.d. uppi á hájöklum eða á sandauðnum, allt eftir hugdettum þeirra kerfismanna, sem ákvarða skulu landamerkin. Nái þessi tillaga fram að ganga er líklegra en ekki að hún muni leiða til ófriðar og ófarnaðar. Mun heppilegra er, að þjóðlendurnar --- sameign allra landsmanna --- sem munu væntanlega ná yfir meginhluta hálendisins, verði til frambúðar undir samræmdri stjórn og í umsjá ríkisstjórnvalda. Má þá engu að síður búa svo um hnúta, að fulltrúar tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga eigi, ásamt öðrum, sæti í ráðgefandi stjórnarnefnd, er fjalli um hálendismálin, þannig að tryggt sé að hagsmunir sveitarfélaga verði ekki fyrir borð bornir.

Kröfur sveitarfélaga þeirra, sem liggja að hálendinu, til almennra stjórnsýsluforráða yfir óbyggðunum, þ.e. yfir þeim ræmum og skikum, sem einstökum sveitarfélögum yrði úthlutað samkvæmt fyrrnefndu ,,tertusneiðafrumvarpi``, eru byggðar á misskilningi forráðamanna þeirra. Að því marki sem kröfur þessar kynnu að verða réttlættar á annað borð hlytu þær að grundvallast á eftirfarandi atriðum:

1. Eignarrétti yfir hálendissvæðunum,

2. nálægð óbyggðasvæðanna við hlutaðeigandi mannabyggðir og

3. langvarandi nýtingu umræddra landsvæða.

Oftast yrði örðugt að sýna fram á, að þessar röksemdir geti átt við um þessar óbyggðalendur. Eignarrétti þessara sveitarfélaga eða einstaklinga, sem þar eru búsettir, er vafalaust sjaldnast fyrir að fara ... Mörg svæðin liggja bersýnilega afar langt frá allri byggð og vandfundin eru skynsamleg rök fyrir því, að einhæf notkun óbyggðarlands til sauðfjárbeitar ... geti með nokkru móti réttlætt kröfu um stjórnsýsluyfirráð í þeim skilningi, sem hér um ræðir, auk þess sem fjölmörg óbyggðasvæðin, svo sem sanda, hraun og jökla, hafa sveitarfélög vitaskuld aldrei nýtt til eins né neins. Stjórnsýsla yfir hálendinu, sem fullnægja skal nútímalegum kröfum, verður að sjálfsögðu að byggjast á mikilli yfirsýn og víðtækri gæslu almannahagsmuna, sem sveitarfélögunum, mörgum fámennum og lítils megandi, yrði ofraun að rísa undir. Fámennið leiðir m.a. til hættu á hagsmunaárekstrum og vanhæfi, sem torveldar alla raunhæfa stjórnun. Sérstaklega á þetta við um skipulags- og byggingamál hálendisins, þar sem skipuleggjendurnir verða að vera hátt hafnir yfir hrepparíg og úrelt og gamaldags viðhorf til stjórnsýslumarka.``

Þannig talaði annar prófessor í lögum við lagadeild Háskóla Íslands, Páll Sigurðsson og get ég tekið undir hvert einasta orð sem hér er sagt því hann er að lýsa sömu viðhorfum og ríkt hafa í þingflokki jafnaðarmanna og ráðið hafa ferðinni í málflutningi og tillöguflutningi okkar á Alþingi Íslendinga, ekki bara núna, ekki bara við afgreiðslu þessa máls heldur í bráðum 30 ár sem liðin eru frá því að þingmaður úr Alþfl. flutti í fyrsta skipti sjálfstætt þingmál um eignarhald þjóðarinnar á hálendinu, gögnum þess og gæðum.

Páll Sigurðsson endurtekur rök þau sem hann flutti og bætir nokkuð við í grein sem hann ritaði í Morgunblaðið fyrir u.þ.b. ári síðan. Þar ræddi hann um frv. það sem hér er til meðferðar sem hefur að geyma tillögur um breytingu á gildandi sveitarstjórnarlögum á þann veg að gengið skuli út frá að staðarmörk sveitarfélaga sem liggi að miðhálendi Íslands verði framlengd inn til landsins og hið sama skuli gilda um staðarmörk sveitarfélaga á jöklum. Páll segir, með leyfi forseta:

,,Verði ágreiningur um stjórnsýslumörk ekki leystur með samkomulagi hlutaðeigandi sveitarstjórna skuli sérstök úrskurðarnefnd ákveða mörk þeirra. Ljóst er, að þessu fyrirkomulagi hljóta að fylgja almenn og rík yfirráð sveitarfélaganna á öræfasvæðunum, einnig yfir staðfestum þjóðlendum ...``

Síðan segir Páll Sigurðsson að í þjóðlendufrv. sé hins vegar gert ráð fyrir miklu valdi forsrn. á þjóðlendunum og telur að þannig verði ekki séð að stefnumið þessara tveggja lagafrv. fari vel saman og hefur það ekkert breyst í meðförum Alþingis.

Síðan segir Páll Sigurðsson, með leyfi forseta:

,,Verði sú skipan mála, sem fram kemur í frumvarpi félagsmálaráðherra, staðfest í lögum er um leið verið að festa í sessi gamaldags og úrelt fyrirkomulag varðandi skipulagsmálefni og önnur stjórnunarmálefni hálendisins, þar sem þau mál eru, með enn skýrari hætti en nú er að lögum, lögð í hendur einstakra hreppsnefnda, oft í mjög fámennum sveitarfélögum, sem af auðskiljanlegum og alkunnum ástæðum eru þess sannarlega vanmegnug að takast á við ýmiss konar skipulagsverkefni og önnur sambærileg verkefni á þann veg að samrýmist nútíma stjórnunarháttum og með því móti, sem þarfir samfélagsins alls krefjast.``

Svo lýkur prófessorinn grein sinni með þessum orðum sem ég ætla að vitna í, með leyfi forseta:

,,Að því leyti einkennist andi frumvarpsins af íhaldssömum hugsunarhætti, sem ekki sýnist fallinn til velfarnaðar, en mun heppilegra er að hálendið lúti í sem flestum efnum samræmdri yfirstjórn.``

[15:30]

Þarna ratast prófessornum sönn orð á munn því af kynnum mínum af umræðum um hálendismálin, í þau bráðum 30 ár sem ég hef fylgst með þeim umræðum, hafa viðhorf þingmeirihlutans á Alþingi Íslendinga einkennst allan þann tíma af íhaldssömum hugsunarhætti sem ekki hefur verið fallinn til velfarnaðar og þannig er það enn. Þeir hafa ekki breytt í einu eða neinu afstöðu sinni í þeim efnum. Þessi íhaldssami hugsunarháttur sem ekki er fallinn til velfarnaðar ríkir enn í málinu. Og hvers vegna ríkir hann? Vegna þess að þeir sem aðhyllast hann vilja fremur styðja hagsmuni sérhagsmunaaðilanna en gæta almannahags.

Herra forseti. Umræðurnar um þetta mál hafa líka vakið almenning til vitundar um hvað er að gerast. Fjölmennir fundir hafa verið haldnir um skipulagsmál og stjórnsýslu á miðhálendi Íslands. Einn slíkur fundur var t.d. boðaður af hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni. Var sá fundur haldinn á Hótel Borg og mætti þar mikill fjöldi fólks. Þar var meðal annarra frummælenda forseti Ferðafélags Íslands, Haukur Jóhannesson. Hann lýsti þar andstöðu sinni við frv. félmrh. til sveitarstjórnarlaga og sagði, samkvæmt frásögn Morgunblaðins, að óeðlilegt væri að skipta miðhálendinu upp í litlar skipulagseiningar þar sem hvert sveitarfélag skipuleggi fyrir sig. Að sögn Morgunblaðsins sagði Haukur kröfuna skýra, þ.e. miðhálendið verði ein skipulagsheild og ein stjórnsýsluheild.

Virðulegi forseti. Þetta er okkar tillaga. Þau sjónarmið sem forseti Ferðafélags Íslands setur fram og sem áður höfðu verið sett fram af tveimur fræðimönnum, prófessorum við lagadeild Háskóla Íslands, eru samhljóða. Þessi tillaga þeirra um skipulag á miðhálendi Íslands er tillaga okkar jafnaðarmanna, þannig að almannasamtökin Ferðafélag Íslands og forustumenn þess hafa einnig gengið til liðs við þessi sjónarmið.

Að sögn Morgunblaðsins sagði Haukur Jóhannesson forseti Ferðafélags Íslands orðrétt á þessum fundi, með leyfi forseta:

,,Við viljum að miðhálendið sé ein skipulagsheild og ein stjórnsýsluheild. Röksemdin fyrir því er sú að miðhálendið verður almenningseign í umsjón ríkisins og það er óeðlilegt að skipta því upp í litlar skipulagseiningar þar sem hvert sveitarfélag skipuleggur út af fyrir sig. Þetta verður almenningsland og þar af leiðandi hlýtur það að verða hagsmunamál almennings að geta fylgst með skipulagsmálum á hvaða stigi sem þau eru.``

Þannig sagðist Morgunblaðinu frá ræðu þeirri sem forseti Ferðafélags Íslands flutti á fjöldafundi á Hótel Borg sem Ólafur Örn Haraldsson alþm. boðaði til.

Fulltrúar hagsmunaaðila sem gæta hagsmuna almennings koma þannig til sögunnar hver á fætur öðrum, fyrst fræðimennirnir, svo forseti Ferðafélags Íslands, síðan ýmsir útivistar- og útilífsmenn, forvígismenn félagasamtaka þeirra og allir kveða upp einn dóm. Allir segja: Sjónarmið okkar eru þau sjónarmið sem þingmenn jafnaðarmanna eru málsvarar fyrir á Alþingi Íslendinga. Í lið með þessum aðilum slóst síðan einn stjórnarþm., Ólafur Örn Haraldsson, sem sagði í grein í Morgunblaðinu þann 22. apríl, með leyfi forseta:

,,Margir ávinningar eru í því að halda miðhálendinu sem sérstöku stjórnsýslusvæði og sveitarfélögin nái ekki þar inn. Þá er margvísleg samræming auðveldari og síður hætta á að sveitarfélög beiti valdi sínu gegn einstökum aðilum eða hópum sem eiga ekki síður en aðrir rétt á aðstöðu og aðgangi að hálendinu. Slík tilvik hafa spillt miklu. Landeigendur og sveitarfélög hafa í einstaka tilvikum þrengt að ferðaþjónustu og útvistarfólki, stundum með því að gjörnýta lagarétt sinn og stundum með hreinni lögleysu sem síðan hefur verið hnekkt í Hæstarétti. Þessi bitra reynsla hefur skapað mikla tortryggni.``

Þannig talar einn af þingmönnum Framsfl. Ætla flokksbræður hans að saka hann um fjandskap við landsbyggðarfólk með þessum orðum? Er Framsfl. þá að hluta til orðinn andstæðingur fólksins í dreifbýlinu? Ég ætla að bíða eftir að þeir framsóknarmenn felli þann dóm að svo sé, en ég tel að hér tali hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson ekki af meinbægni við einn eða neinn heldur út frá þeirri þekkingu sem hann hefur aflað sér á þessum málum og þeim skoðunum sem hann hefur sett fram og eru í samræmi við þær skoðanir sem ég hef kynnt í máli mínu fram að þessu.

Það hafa fleiri forsvarsmenn almannahagsmuna kvatt sér hljóðs, virðulegi forseti. Morgunblaðinu segist svo frá að sú sé skoðun framkvæmdastjóra Ferðafélags Íslands, formaðurinn hafði áður talað, að frv. umhvrh. um breytingu á skipulags- og byggingarlögum gangi ekki nógu langt og muni sveitarfélögin sem land eigi að hálendinu því enn ráða því þrátt fyrir þá sáttalausn sem hv. umhvrh. taldi sig hafa komið með en sem engin er. Og síðan segir Morgunblaðið og vitnar beint í orð Kristjáns Baldurssonar, framkvæmdastjóra Ferðafélagsins, og segir hann hafa sagt, með leyfi forseta:

,,Ítök þeirra [þ.e. þessara litlu sveitarfélaga] eru mun meiri en ítök þéttbýlisbúa geta nokkurn tímann orðið.`` Síðan heldur framkvæmdastjórinn áfram ræðu sinni og segir svo, með leyfi forseta: ,,Þessi sveitarfélög eru í miklum meiri hluta þó að þéttbýlisbúar fái tvo fulltrúa af 18. Hálendið ætti að vera eitt stjórnsýslu- og skipulagssvæði, það er álit okkar og annarra útivistarsamtaka sem hafa lýst áliti sínu. Það verður að tryggja bæði rétt þeirra sem hafa aðstöðu og atvinnustarfsemi á hálendinu og útivistarfólks.`` Og orðréttri tilvitnun í orð Kristjáns lýkur. Tillaga hans er einnig sú að hálendið eigi að vera eitt stjórnsýslu- og skipulagssvæði. Einnig tekur þessi talsmaður almannahagsmuna afstöðu gegn frv. hæstv. félmrh. og með þeim tillögum sem jafnaðarmenn flytja og hafa flutt í málinu. Síðan segir í grein Morgunblaðsins, með leyfi forseta: ,,Kristján sagði skynsamlegast í stöðunni að fresta afgreiðslu frumvarps til sveitarstjórnarlaga og geyma þá umræðu til hausts ásamt frumvarpi umhverfisráðherra. Hann kvað líklegt að Ferðafélagið og önnur svipuð samtök myndu gefa sameiginlegt álit á stöðu málanna.``

Þarna kemur sem sé fram beiðni frá forsvarsmönnum almannasamtaka um ferðamál á hálendinu og víðar, að fresta afgreiðslu frv. hæstv. félmrh. þangað til í haust. Sú tillaga kom ekki fyrst fram á Alþingi Íslendinga. Hún var löngu komin fram áður. Það er kjarninn í afstöðu Ferðafélags Íslands og annarra umhverfissamtaka sem um málið fjalla að sögn framkvæmdastjóra Ferðafélagsins.

Þá var meira að segja Árni Mathiesen, þingmaður Sjálfstfl., þessarar skoðunar sem Morgunblaðið hafði eftir honum, með leyfi forseta. Árni sagði: ,,Á hálendinu eru fjölbreyttir hagsmunir og margir sem eiga þar hagsmuna að gæta. Fólk sem býr um landið allt er að nota hálendið á ýmsa vegu og ég held að ráðherra verði að hafa svigrúm til að skipa í nefndina til að sem allra flest sjónarmið geti komist að. Það getur hann betur með því að hafa frjálsar hendur.`` En það hefur nú ráðherra aldeilis ekki miðað við það svokallaða sáttafrv. sem hann hefur sjálfur lýst að hann ætli að flytja á Alþingi. Hann hefur alls ekki þar möguleikann á því að hleypa þeim aðilum að málum sem hv. þm. Árni Mathiesen er að ræða um í viðtali við Morgunblaðið að þurfi að málunum að koma. Og er því ekkert undarlegt við það þótt hv. þm. Árni Mathiesen sé einn þeirra sem telja að sáttaleið umhvrh. sé til ills eins, en ekki til þess að tryggja þau viðhorf sem hann lýsti í viðtali við Morgunblaðið.

Hv. þm. tjáði sig enn frekar í viðtali við Morgunblaðið en þar segir Ólafur Örn Haraldsson, hv. þm. Framsfl., með leyfi forseta, um þetta mál:

,,Í fyrsta lagi er ekki gætt jafnvægis eða jafnræðis milli fulltrúa í samvinnunefndinni um skipulag hálendisins. Gert er ráð fyrir 12 fulltrúum sveitarfélaga með land að hálendinu en mun færri frá öðrum.

Í öðru lagi eru þessir 12 fulltrúar aðeins frá sveitarfélögum sem hafa land að hálendinu en ekki héraðsnefndum eins og áður var. Þetta þýðir að sveitarfélög sem eiga afrétti á hálendinu eiga ekki lengur aðild að skipulagi miðhálendisins eins og verið hefur þegar allir í viðkomandi héruðum eiga aðild. Með frumvarpinu er þetta aðeins bundið sveitarfélögunum sem lönd eiga að hálendinu.`` Og Morgunblaðið heldur áfram, með leyfi forseta, og segir: ,,Ólafur kvaðst ekki heldur skilja hvernig fulltrúar sveitarfélaganna 42 ættu að geta komið sér saman um skipan þessara 12 nefndarmanna, hann sæi ekki fyrir sér þann vettvang sem ætti velja fulltrúana, hann væri einfaldlega ekki til.`` Og síðan segir þingmaðurinn orðrétt að sögn Morgunblaðsins, með leyfi forseta: ,,Við getum til dæmis séð fyrir okkur sveitarfélag sem á hugsanlega tekjumöguleika vegna virkjana. Hvernig eiga fulltrúar þess að fela fulltrúum annarra sveitarfélaga að gæta hagsmuna sveitarfélags síns í slíkum málum?`` Svo heldur þingmaðurinn áfram, með leyfi forseta, og segir: ,,,,Í þriðja lagi tel ég þá fulltrúa sem sitja eiga í nefndinni fyrir Reykjavík, Reykjanes og Vestfirði ekki lýðræðislega kjörna. Þeir eru tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og með því er það komið mjög langt frá kjósendum, úti\-vist\-arfólki, náttúruverndarmönnum og öðrum sem vilja hafa um þessi mál að segja, sem ég tel mikinn galla.`` Þingmaðurinn sagði enn fremur slæmt að dregið skuli úr umboði nefndarinnar. Hún ætti samkvæmt frumvarpinu að fjalla um svæðisskipulagið en að sínu mati ætti hún að vinna það án þess þó að verða stjórnsýslustofnun með úrskurðarvald. Hann sagði einnig of veikt að auglýsa ætti deiliskipulag með áberandi hætti, nauðsynlegt væri að áskilja kynningu þess í öllum kjördæmum.``

Síðan segir þingmaðurinn að samvinnunefndin um svæðisskipulag miðhálendisins hafi vissulega unnið gott verk og ætti hún að fá að ljúka því en bætir síðan við að þegar nýja nefndin komi að málinu eigi hún að fá sterkari heimildir til að hafa áhrif á skipulagið heldur en gert er í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Þau atriði sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson gerði að umtalsefni hafa einmitt líka verið gerð að umtalsefni úr þessum ræðustóli. Hann sagðist ekki sjá hvernig sveitarfélögin 42 ættu að geta komið sér saman um skipun 12 nefndarmanna í samvinnunefndina. Ég spurði hæstv. umhvrh. að því hvernig þetta ætti að gerast, og raunar hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, sem hafði eða þóttist hafa staðið að þessu samkomulagi, að því sama. Hvorugt þeirra gat svarað þeirri einföldu spurningu: Hvernig eiga sveitarfélögin 42, sem eiga land að hálendinu, miðhálendinu, að geta komið sér saman um skipan 12 fulltrúa? Hvorugt þeirra gat svarað.

[15:45]

Hæstv. umhvrh. datt helst í hug að gera ráð fyrir því að héraðsnefndirnar sæju þá um þessa skipan. En ef hann gerði ráð fyrir því af hverju hljómaði þá ekki frumvarpstextinn þannig að héraðsnefndirnar skyldu velja þessa tólf menn? Hver er munurinn á því að segja í lagatextanum ,,sveitarfélögin sem liggja að hálendinu`` skulu tilnefna þessa tólf --- og að segja ,,viðkomandi héraðsnefndir`` skulu tilnefna þessa fulltrúa?

Ég benti hæstv. ráðherra á það við þá umræðu sem þá fór fram að munurinn væri sá ef kjördæmi hans væri tekið --- að það að orða þetta svona, eins og hann gerir í frv. sínu þýddi það að að þéttbýlissveitarfélögin í hans eigin kjördæmi, Akureyri og Húsavík, gætu engan íhlutunarrétt fengið um tilnefningu fulltrúa í samvinnunefndina sem þau gætu fengið ef hann hefði orðað frumvarpstextann þannig að þetta væri hlutverk héraðsnefndanna en ekki sveitarfélaganna.

Ég spurði hæstv. ráðherra hvaða rök væru fyrir því að orða frumvarpstextann þannig að þéttbýlissveitarfélögin í hans eigin kjördæmi gætu ekki komið að málum. Ég fékk ekkert svar við þeirri spurningu, hann átti það svar ekki til.

Hins vegar hafði hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sem þóttist hafa komið að gerð þessa samkomulags og hrósaði sér af því, ekkert svar og hafði sjálfsagt aldrei velt þessari spurningu fyrir sér.

Hér hefur líka verið bent á það í umræðum sem þingmaðurinn Ólafur Örn Haraldsson gerir að umtalsefni samkvæmt fréttafrásögn Morgunblaðsins, þ.e. hvernig samskipti sveitarfélaga verði og samstarf um skipulag og verkefni á miðhálendinu þegar svo háttar til að óbreyttum lögum að lagt er í framkvæmd eins og virkjun þar sem virkjunarlón eru í landi sveitarfélaga, t.d. A og B, og valda þar spjöllum á landi með því að leggja land undir vatn. Flutningslínur raforku eru síðan í landi sveitarfélaga D, E, F og G og valda þar sjónmengun en stöðvarhúsið, sem er að verulegu leyti oft neðanjarðarbygging og ber ekki mikið á, er í landi sveitarfélags H, sem hefur síðan allar tekjur af framkvæmdunum án þess að þurfa að taka á sig umtalsverð landspjöll, mengun lands eða sjónmengun. Hvernig halda menn að samskipti og samstarf slíkra sveitarfélaga verði þegar einn hefur allar tekjurnar en hin hafa öll óþægindin?

Það hefur ekki heldur komið neitt svar við þeirri spurningu á Alþingi fremur en Ólafur Örn Haraldsson gat fundið svar við þeirri spurningu í viðtali sínu við Morgunblaðið vegna þess að svar við þeirri spurningu er ekki til. Svarið er einfaldlega það eitt að samstarf um landnytjar við slíkar aðstæður verður líklega ekki heldur munu þessar aðstæður valda miklum deilum, jafnvel átökum milli viðkomandi sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Margir einstaklingar sem tala ekki fyrir hönd neinna félagasamtaka hafa líka tjáð sig um þetta mál. Fyrr í umræðunum hafa verið lesnar áskoranir forustumanna fjölmargra útivistarsamtaka og ferðamálasamtaka og ætla ég ekki að lesa þær ályktanir aftur, þeim hefur verið gerð skil hér. Líka hefur verið gerð skil í umræðunni áskorun 90 einstaklinga, fræðimanna, prófessora, náttúruverndarmanna, útivistarmanna, ferðamanna, menntamanna, rithöfunda o.s.frv. sem tjáðu sig í heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu ekki alls fyrir löngu. Ég ætla ekki frekar að vitna í orð þeirra, það hefur verið gert og það vel.

En segja má að Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur hafi í erindi Um daginn og veginn, mánudaginn 27. apríl, tjáð í mjög einföldu, skýru og ljósu máli afstöðu fólksins á götunni, a.m.k. þeirra fjölmörgu sem hafa komið að máli við alþingismenn, sent þeim bréf, fax eða tölvuskeyti með afstöðu sinni þar sem þeir hvetja til þess að ráðgerðir ríkisstjórnarmeirihlutans á þingi í þessu máli nái ekki fram að ganga. Rithöfundurinn sagði í þessu erindi, með leyfi forseta:

,,Skipulagning og skipting 40% Íslands sem kalla má nýtt landnám hlýtur að vera eitt af þýðingarmestu og afdrifaríkustu málum í sögu okkar. Í staðinn fyrir að taka á því með ábyrgum hætti þá útbýtir Alþingi valdi til að skipuleggja hálendið áður en ákveðið er hver á að stjórna þar. Ofan á þetta bætist svo hin sérstæða samsetning skipulagsnefndarinnar. Meðferð þessa máls frá hendi Alþingis er svo frumstæð og gerræðisleg og andstæð almennri skynsemi að stofnunin bíður varanlega álitshnekki af, og steininn mun taka úr ef svo fer sem horfir, að stjórnarfrumvarp félagamálaráðherra verður samþykkt á morgun, þar sem 40 sveitarfélögum, sumum mjög fámennum, er falin stjórn hálendisins.``

Síðan segir rithöfundurinn í lok pistils síns, með leyfi forseta:

,,Því eigum við heimtingu á að þingmenn taki á sig rögg og viðurkenni mistök, að þeir bretti upp ermar, og segi: Hér er verk að vinna. Nú tökum við okkur góðan tíma í að endurskoða allt sem hálendið varðar, með þátttöku kjósenda okkar, hvaðan sem þeir koma, og færustu manna. Tertusneiðafrumvarpið hefur mætt andstöðu almennings, fjölmennra félagasamtaka, ríkisstofnana, og þess fagfólks sem gleggsta yfirsýn hefur um hvað er raunverulega á ferðinni, og hverjar afleiðingarnar geta orðið. Andstaðan er of mikil og víðtæk til þess að Alþingi geti hunsað hana. Það allra minnsta sem við getum farið fram á er tími til að afla grunnupplýsinga, tími til stefnumótunar, tími til nútímalegrar skipulagsvinnu, með öðrum orðum tími til að taka góðar og ábyrgar ákvarðanir í þessu stórmáli fyrir framtíð landsins og okkar.

Ýmsir hagsmunaaðilar, þar á meðal Orkustofnun, Landsvirkjun, ferðaþjónusta, hafa lýst vilja til að frysta ákvarðanir, í nokkur ár þess vegna, þar til vel unnar tillögur um framtíðarskipan hálendismála liggja fyrir. Þá er spurningin: Hverjum liggur svona á --- og hvers vegna?``

Þannig lauk rithöfundurinn máli sínu í erindinu Um daginn og veginn: Hverjum liggur svona á? Svarið er stjórnarflokkunum. Hvers vegna? Það svar hefur ekki verið gefið. En skyldi eitthvað vera til í því sem þingmaður hreyfði við mig hér á dögunum, að allt kapp yrði að leggja á að afgreiða málið nú í vor því að það væri ekki líklegt að það yrði tekið upp aftur í haust þegar prófkjör stæðu fyrir dyrum um skipan framboðslista stjórnarflokkanna.

Það skyldi ekki vera að þetta væri svarið við seinni hluta spurningu rithöfunarins, hvers vegna liggi svo mikið á. Að a.m.k. sumir stjórnarþingmenn geri sér grein fyrir því að það sé eins gott að sem mestur tími fái að líða frá því að þetta frv. í þágu sérhagsmunaaflanna verði afgreitt hér á Íslandi og þangað til að að því komi að kjósendur fari að velja frambjóðendur á framboðslista sína sem tilheyra stjórnarflokkunum? Kannski er það svarið og er það út af fyrir sig svar sem fyllstu athygli er vert.

Kannski koma fleiri svör til greina, en þetta svar, virðulegi forseti, er gott svar. Ég er sannfærður um að þeir sem hlýða á mál mitt hér í salnum, a.m.k. sumir hverjir, eru því nokkurn veginn sammála.

Það hefur komið fram frá umhvrh. að hann ætlar sér að staðfesta svæðisskipulag hálendisins, samkvæmt tillögum sem þar liggja fyrir, eigi síðar en um miðjan næsta vetur. Með staðfestingu þess svæðisskipulags eða þeirra tillagna sem þar liggja fyrir, að teknu tilliti til athugasemda sem um það má gera, er búið að taka ákvarðanir um nýtingu hálendisins sem vart verður breytt á næstunni, a.m.k. verður það harla erfitt. Því er full ástæða til að ræða nokkuð um skipulagsmál á hálendi Íslands, þau víti sem þar er að varast, þau atriði sem hafa verið sniðgengin í svæðisskipulagstillögunni, sem verður afgreidd og undirrituð, verði þær tillögur samþykktar um breytingu á lögum um sveitarstjórnarmál sem liggja fyrir. Menn þurfa vissulega að horfa fram á það hvað mun gerast, verði frv. samþykkt í reynd, þ.e. hvers konar skipulag mun fylgja í kjölfarið á hálendi Íslands? Hvaða atriði eru það sem menn gagnrýna helst við þá afgreiðslu? Því að skipulag miðhálendisins mun fylgja í kjölfarið, og það mjög fljótlega, verði þessar tillögur samþykktar eins og þær eru.

Trausti Valsson og Birgir Jónsson, eða Fjölvaútgáfan í Reykjavík öllu heldur, gaf út rit eftir þá á árinu 1997, sem heitir Ísland hið nýja. Þar er fjallað um skipulagsmál hálendisins og m.a. tillögur þær sem stendur til að staðfesta verði frv. félmrh. að lögum. Það er margt mjög athyglisvert í þessari bók þeirra Trausta Valssonar og Birgis Jónssonar sem á fullt erindi inn í umræðuna, svo að menn geti gert sér það ljóst hvað, a.m.k. að þeirra mati, eru ágallarnir við þá skipan mála sem hæstv. umhvrh. hyggst staðfesta verði honum veitt sú heimild sem gefa á, að vísu félmrh. í því frv. sem er hér til meðferðar.

Um almenn atriði í skipulagsmálum segja höfundar bókarinnar m.a., með leyfi forseta:

[16:00]

,,... nýtt Ísland er í mótun. Skrefið er að vísu ekki nema stigið til hálfs, alþjóðavæðing og tölvuvæðing samskiptanna er rétt að byrja en Ísland hefur þegar náð þar góðum áföngum og nú gildir að halda því áfram af fullum krafti. Öll fyrirtæki og einstaklingar verða að læra á þessa nýju tækni og tileinka sér þennan nýja hugsunarhátt. Hvað búsetuþróun á Íslandi varðar verðum við líka að gæta að á hvaða breytingar þetta kallar.

Fólk mun gera kröfur um möguleika á miklum hreyfanleika innan lands og að eiga greiðan aðgang að allri þeirri bestu þjónustu og afþreyingu sem býðst í landinu á hverjum tíma. Það er orðið úrelt að hugsa um einstakling bara t.d. sem Vopnfirðing eða Reykvíking, bundinn við einn stað og eitt starf alla ævina. Við þurfum öll að geta notið þess sem bæði höfuðborgin og landsbyggðin hefur upp á bjóða. Hér eru í lykilhlutverki bættar og styttar samgöngur á landi því Ísland er ekki stærra land en svo að það er hægt að komast fram og til baka milli fjarlægustu staða á einum degi með góðu vegakerfi.

Hér skiptir meginmáli fyrir mörg héruð sá möguleiki að geta lagt vegi stystu leið yfir hálendið. Í ljósi þess þykir mörgum það skjóta skökku við að í þeirri tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins sem lögð var fram vorið 1997 skuli það vera eitt af aðalstefnumótunaratriðum skipulagsnefndarinnar ,,að halda vegaframkvæmdum á hálendinu í lágmarki``. Önnur stefnumótandi setning hnykkir svo enn á því markmiði að koma skuli í veg fyrir að almennir vegir verði lagðir yfir miðhálendið: ,,Uppbygging vegakerfisins taki fyrst og fremst mið af sumarumferð.``

Margt fleira er varðar hvaða búsetuform og lífsafkomu þjóðin getur valið sér er mótað í fyrrgreindri skipulagstillögu. Þannig er t.d. um 90% af miðhálendinu flokkað sem verndarsvæði þar sem öllum framkvæmdum og umferð skuli haldið í lágmarki. Inni á þessum svæðum er meginþorri jarðhita- og vatnsaflsauðlinda Íslendinga. Höfundar skipulagsins, sem flestir eru fulltrúar fámennra sveitahreppa er liggja að hálendinu, hafa komist að þeirri niðurstöðu eftir þriggja ára starf að ekki eigi að stefna að nýtingu háhitans á miðhálendinu og draga skuli verulega úr hugmyndum um vatnsaflsvirkjanir. Þeir segja reyndar að þetta miðist fyrst og fremst við skipulagstímabilið sem er til ársins 2015, en sú ákvörðun að gera meginhluta miðhálendisins ýmist að náttúruverndar- eða verndarsvæðum verður tæpast aftur tekin, enda munu fá dæmi þess að verndarsvæðum hafi verið breytt í orkuvinnslusvæði eftir að þau hafi verið friðuð um áraraðir.

Áðan vitnaði ég í Pál Sigurðsson prófessor þar sem hann ræddi um íhaldssamar hugmyndir þeirra sem standa að frv. hæstv. félmrh. og að þar vantaði alla framtíðarsýn. Í þeim orðum sem ég hef hér vitnað í, í inngangi bókar Trausta Valssonar og Birgis Jónssonar um Ísland hið nýja, er nákvæmlega þessi mynd dregin upp. Þar er dregin upp mynd af skipulagi, svæðisskipulagi, sem gert hefur verið á grundvelli álits frá aðilum sem eru fulltrúar hreppa með um 4% þjóðarinnar sem næst liggja hálendinu.

Í þessum svæðisskipulagstillögum er tekin sú afstaða að í fyrsta lagi verði ekki horft til þeirrar framtíðar að vegir á milli landshluta á Íslandi geti legið um miðhálendið heldur beri að halda vegaframkvæmdum þar í lágmarki og uppbygging vegakerfisins taki fyrst og fremst mið af sumarumferð. Í öðru lagi er gengið út frá því í þessari svæðisskipulagstillögu að stór hluti af ónýttum orkulindum Íslands, orku jarðhita og fallvatna sem er að finna á miðhálendinu, verði ekki nýttar.

Þetta er hvort tveggja sjónarmið út af fyrir sig. Ég gagnrýni það ekki. Það er fullgilt sjónarmið að ekki skuli lagðir vegir um hálendið, vegaframkvæmdum öllum haldið í lágmarki og uppbygging vegakerfisins taki fyrst og fremst mið af sumarumferð. Ég ber fulla virðingu fyrir slíkum skoðunum. Ég ber líka fulla virðingu fyrir skoðunum þeirra sem segja: ,,Við eigum ekki að virkja vatnsföllin á hálendi Íslands eða nýta jarðhitann í iðrum jarðar á hálendinu.`` Þetta eru fullgild sjónarmið sem ég skal ekki gera lítið úr á einn eða neinn hátt. En hver, herra forseti, á að taka ákvarðanir um þetta? Hver á að taka ákvarðanir um hvort leggja eigi vegi um hálendi Íslands eða ekki eða hvort nýta eigi orkulindirnar á hálendi Íslands eða ekki? Það er þessi stofnun sem hér er að störfum. Það er Alþingi Íslendinga. Alþingi tekur ákvarðanir um vegaframkvæmdir. Alþingi tekur ákvarðanir um virkjanaframkvæmdir. Alþingi tekur ákvarðanir um friðanir, hvort friða skuli ákveðin svæði og þá hversu vítæk sú friðun skuli verða o.s.frv. Þessi ákvörðun sem hér er um að ræða er ákvörðun sem á að taka í þessari stofnun hér. Alþingi og stjórnvöld hafa aldrei tekið svona ákvarðanir. Alþingi og stjórnvöld hafa aldrei svarað þessari spurningu: Á að leggja vegi um hálendi Íslands og þá í hversu miklum mæli eða á ekki að gera það? Á að nýta orkulindir á hálendi Íslands og þá hvar? Eða á ekki að nýta þær orkulindir og hvaða orkulindir og hvar á þá ekki að nýta?

Þessi ákvörðun hefur aldrei verið tekin af kjörnum fulltrúum þjóðarinnar en það á að taka þessa ákvörðun í skipulagstillögum sem unnar eru á grundvelli álits fulltrúa hreppa þar sem 3,9% landsmanna búa. Og það á að taka þessa ákvörðun þannig að hún verði aldrei borin upp á Alþingi heldur ákveðin með undirritun eins ráðherra undir slíkar tillögur. Og svo er sagt: ,,Ef Alþingi eða einhver vill breyta þessu eftir árið 2015`` --- ekki gert ráð fyrir neinum breytingum fram að því --- ,,þá hann um það. Þá verður svo að vera. Þá verður hann að gera það.`` En landstjórnendur, þeir eru ekkert spurðir.

Þá spyr ég: Finnst mönnum virkilega framsækin sjónarmið að svona afstaða skuli tekin án þess að um hana hafi nokkurn tíma verið fjallað, hvorki í ríkisstjórn né á löggjafarsamkundu þjóðarinnar sem á að taka ákvarðanir um nýtingu auðlinda í sameiginlegri eigu okkar allra?

Herra forseti. Þegar menn ræða um nýtingu miðhálendisins er gjarnan sagt að þeir sem búa í næsta nágrenni þess eigi meiri rétt en aðrir vegna þess að þeir hafi nýtt það miklu lengur en aðrir, þekki það miklu betur og séu miklu betur til þess færir en aðrir að taka ákvörðun um hvernig hálendið skuli nýtt.

En staðreyndin er bara allt önnur. Staðreyndin er sú að á fyrstu árum landnáms á Íslandi og raunar fram eftir Sturlungaöld voru ákveðnar þjóðleiðir yfir miðhálendið þekktar en þær lögðust fljótlega af og voru lítið farnar öldum saman. Og kunnugleiki einstaklinga á Íslandi, hvort sem þeir bjuggu nærri eða fjarri hálendinu, á innviðum Íslands, á miðhálendi Íslands var nánast ekki neinn. Það má heita að varla væri nokkurt kennileiti þekkt á þessu svæði meðal þjóðarinnar um hundruð ára og varla þekktar aðrar leiðir en þar sem um var að ræða dagleiðir milli bithaga. Leiðir um Sprengisand og Ódáðahraun týndust t.d. í lok tólftu aldar. Íbúar Íslands allt fram undir seinni hluta nítjándu aldar gerðu sér enga grein fyrir þeirri víðáttu sem er á miðhálendi landsins. Segja má að þekkingin á miðhálendinu hafi glæðst um miðja nítjándu öldina en nýtingin ekki fyrr en upp úr síðustu aldamótum.

Fyrsta alvöru landakort sem gert hefur verið af Íslandi þar sem eitthvað virðist vera vitað um miðhálendi landsins er það kort sem Björn Gunnlaugsson gerði árið 1849. Og fyrsta jarðfræðikort af Íslandi er ekki gert fyrr en árið 1901. Það má segja að ef nefna þarf einhvern einn einstakling sem framar öðrum hefur orðið til þess að kynna þjóðinni og þar á meðal þeim sem bjuggu í næsta nágrenni við hálendi Íslands, þetta hálendi, hvernig það liti út, hvar væri hægt að ferðast um það, þá var það danskur liðsforingi, Daniel Bruun, sem ferðaðist um Ísland. Hvenær? Á árunum 1902--1914. Fyrir hans daga má segja að miðhálendi Íslands hafi nánast verið bæði ókunnugt og ónumið land. Jafnvel þeir sem bjuggu í næsta nágrenni við það voru hræddir við að fara þar um. Leiðirnar um Ódáðahraun og Sprengisand týndust vegna þess að þeir sem bjuggu í næsta nágrenni við þann hluta hálendisins þorðu ekki að fara þar um því þeir héldu að þar byggju útilegumenn og tröll. Ekki var nú þekkingin mikil. Um þetta land var ekki farið í margar aldir af þeim sem næstir bjuggu. Þetta á meira að segja einnig við um svæði sem ekki liggja langt frá byggðum bólum eins og t.d. Heklu. Íslendingar þorðu ekki öldum saman að ganga á Heklu því að þeir héldu að þar væri í raun og sannleika fordyri helvítis. Og ýmsar tröllasögur voru um þær illvættir sem væri að finna þar efst á bjargbrún. Ekki var nú þekkingin, hvað þá heldur nýtingin, á miðhálendinu mikil lengi vel, jafnvel ekki hjá þeim sem næst bjuggu.

Það kom í hlut erlendra landmælingamanna og ferðamanna að kynna þetta land fyrir þjóðinni, líka þeim sem bjuggu í næsta nágrenni. Og það kom í hlut íslenskra íbúa á suðvesturhorninu að kynna þetta land sem ferðamannaland fyrir þjóðinni og að gefa mörgum stöðum þar nafn, manna eins og Guðmundar Jónassonar og annarra slíkra ferðakappa. Hvaða einstaklingur á Íslandi skyldi öðrum fremur hafa lagt sig fram um að kynna þjóðinni óbyggðir og öræfi Íslands? Skyldi það ekki vera Reykvíkingurinn Ómar Ragnarsson mörgum öðrum fremur sem hefur kynnt þjóðinni miðhálendi Íslands í ógleymanlegum sjónvarpsþáttum.

[16:15]

Skyldi hann ekki hafa til að bera þekkingu á miðhálendi Íslands á við flesta íbúa landsins? Ef nota ætti þekkinguna sem viðmiðun, skyldu þá þessir aðilar ekki eiga að hafa a.m.k. jafnan rétt á við íbúa þeirra 42 sveitarfélaga sem eiga lönd sem liggja að hálendinu? (KPál: Ómar var kallaður fyrir nefndina.) Já það er rétt, hv. þm., Ómar var kallaður fyrir nefndina. En niðurstaða nefndarinnar var engu að síður sú að hann ætti enga aðkomu að hafa að ákvörðun um skipulagið vegna þess að hann býr í Reykjavík. (KPál: Hann var sáttur við þetta.) Það getur vel verið að Ómar Ragnarsson hafi verið sáttur við að eiga enga aðkomu að skipulagi eða tillögugerð að skipulagi á miðhálendi landsins, en ég er ekki sáttur við það. Ég er ekki sáttur við það að hann sé sniðgenginn og sagt að hann eigi ekki neina aðkomu að málunum að hafa. Hvers vegna? Jú, vegna þess að hann er með lögheimili í Reykjavík. Ég er ekki sáttur við það.

Ég er ekki sáttur við að hv. þm., sem kallaði hér fram í, Kristján Pálsson, eigi enga aðkomu að hafa að ákvarðanatöku af því að hann býr í Reykjaneskjördæmi. Ég er sannfærður um að hv. þm. gæti ýmislegt gott til málanna lagt og hefur fulla burði til þess að hafa eitthvað um þau mál að segja. Enda gerir hann það með störfum sínum hér á Alþingi. Hann tekur hér ákvarðanir eins og aðrir þingmenn sem m.a. snerta framkvæmdir á miðhálendi landsins og nýtingu auðlinda þar. Hann gerir það sem alþingismaður af því hann nýtur þeirra forréttinda að sitja hér á Alþingi Íslendinga. Af hverju ætti hann ekki að hafa sambærilega möguleika og aðrir landsmenn í þessum 42 sveitarfélögum til þess að hafa aðild að ákvarðanatöku, þó hann væri ekki þingmaður en byggi engu að síður í sama húsi og hann býr í nú, suður með sjó? Það skil ég ekki, virðulegi forseti.

Svo ég haldi áfram þaðan sem frá var horfið um nýtingu og þekkingu á landinu, sem menn eru að tala um að hafi gengið kynslóð fram af kynslóð allt frá landnámi. Ég er að benda á að það er ekki rétt. Það er ekki fyrr en 1901 sem unnt er að gera fyrsta jarðfræðikort af Íslandi. Það var Þorvaldur Thoroddsen sem gerði það. Það var ekki fyrr en árið 1947, um miðja þessa öld, sem rannsóknir hófust fyrst á hálendinu. Hverjir skyldu hafa staðið að þeim rannsóknum? Skyldu það hafa verið hreppsfélögin 42 sem eiga land er liggur að hálendinu? Nei, það var Orkumálastofnun sem hóf hagnýtar rannsóknir á vatnsorku eða orku fallvatna árið 1947. Fyrst nú er farið að vinna af alvöru í gróðurkortagerð o.s.frv.

Ég skil ósköp vel, í umræðum um skipulag og nýtingu hálendisins, að menn séu hræddir við vatnsaflsvirkjanir á hálendinu eins og ég veit að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er. Ég skil að þeir séu hræddir við að mikið land verði þar lagt undir vatn. Ef við lítum á þær stærðir sem þar er rætt um þá er í öllum þeim virkjanaumræðum og öllum þeim virkjanamöguleikum og allri þeirri landeyðingu sem talað er um í dag samfara virkjun, verið að tala um að leggja um 2% af flatarmáli miðhálendisins undir virkjanalón, en 98% af flatarmáli miðhálendisins verði óskert. Þrátt fyrir fremstu virkjunardrauma er ekki um að ræða í þessu sambandi nema í mesta lagi 2% af flatarmáli miðhálendisins. Hvað er það í samanburði við gróðureyðinguna á þessu sama miðhálendi og ástand gróðurfars þar?

Okkur er sagt að á hálendinu eigi sér nú stað mesta eyðimerkurmyndun í heimi. Menn tala mikið um landspjöllin vegna virkjananna, sem að hámarki gætu þýtt að virkjunarlón þektu 2% af flatarmáli miðhálendisins. Menn tala allt of lítið um gróðureyðinguna á þessu sama miðhálendi, um landið sem fýkur burt. Það fer ekki undir vatn, ekki undir virkjanalón sköpuð af mönnum. Það gengur á gróðurinn vegna ákvarðana manna um að ofbeita þær fáu gróðurvinjar sem gengnar kynslóðir hafa skilið eftir sig á þessu sama hálendi. Um það ræða menn ekki af nándar nærri jafnmikilli tilfinningu og jafnmikilli fyrirferð eins og um virkjanamálið.

Það er umhugsunarvert að í svæðisskipulagstillögu sem nefndin sem starfaði að því gerði um miðhálendið var, eins og rakið var hér að framan, lagt til að meginhluti orku fallvatna og jarðhita á miðhálendinu, sem í hæsta lagi getur skaðað 2% af flatarmáli miðhálendisins, verði látið óhreyft. Þar var ekki orð um landið sem er að blása burt. Þar er í hættu miklu meiri, stærri og verðmætari hluti af miðhálendi Íslands en það sem rætt er um að mest geti farið undir virkjanalón.

Þetta sýnir að Íslendingar eru blindir á eigin syndir. Þeir eru blindir á þann skaða sem gengnar kynslóðir og núlifandi kynslóðir hafa unnið á þessu landi vegna skorts á beitarstjórnun og eðlilegum verndunarsjónarmiðum á hálendinu. Menn blása því meira yfir því tjóni sem kann að vera hægt að valda á þessu sama landi vegna annarra athafna mannsins.

Í þessari ágætu bók þeirra félaganna er víða komið við og minnst á ýmis mál sem full ástæða er til að fjalla um í. Í bókinni er m.a. drepið á fyrstu hugmyndir um svæðisskipulag miðhálendisins sem fram hafa komið hér á landi. Fyrstu hugmyndir um landskipulag voru gerðar árið 1987, en þá setti Trausti Valsson, annar bókarhöfundur, fram hugmyndir sínar um slíkt skipulag á grundvelli korta sem túlka landgæði og hættur, en öll skipulagsvinna verður náttúrlega að byggjast á þekkingu á landinu. Hluti af því skipulagi sem hann setti fram hugmyndir um, þegar árið 1987, voru t.d. bestu þróunarsvæðin fyrir norðan og austan og hugmyndir um hálendisvegi til að tengja þessi vaxtarsvæði sem best við meginbyggðina á Suðvesturlandi.

Trausti útfærði síðan þessar landslagsskipulagshugmyndir nánar í svæðisskipulagshugmynd um miðhálendið, sem hann vann með stúdentum í Háskóla Íslands árið 1991. Um þessa vinnu segir síðan, með leyfi forseta:

,,Eins og hefð er fyrir, þá eru allar landnotkunarhugmyndir hagsmunaaðila, orkuvinnsla, verndun og ferðasvæði settar inn á þennan uppdrátt en ekki ákveðið að svo komnu máli hvar t.d. verndun eða nýting skuli ná yfirhöndinni. Það á að vera ákvörðun þjóðkjörinna stjórnvalda að taka svo afdrifaríkar ákvarðanir því hér er um meginlínur í þjóðmálastefnu framtíðarinnar að ræða: Ætlar Ísland að vera verndunarland eða orkuvinnsluland?``

Þarna eru þau sjónarmið sem ég drap á í ræðu minni hér áðan sett fram. Þeir sem vinna að tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins á vegum Háskóla Íslands árið 1991 gera sér að sjálfsögðu grein fyrir því að áður en hægt verði að ganga frá slíkum tillögum verði stjórnvöld að taka ákvarðanir um hvernig nýta skuli það landsvæði sem skipuleggja á. Að hve miklu leyti eiga skipulögð hálendissvæði að vera verndunarsvæði? Að hve miklu leyti eiga þau að vera orkuvinnslusvæði? Það er ekki hlutverk þeirra sem gera tillögu að svæðisskipulagi að taka ákvörðun um þetta. Það er hlutverk Alþingis og ríkisstjórnar og það er ekki hægt að staðfesta eða ganga frá tillögu um svæðisskipulag á miðhálendinu fyrr en þær ákvarðanir hafa verið teknar. Þetta var stúdentum og samstarfsmönnum Trausta Valssonar í Háskóla Íslands ljóst þegar árið 1991 og þannig var haldið á málum í fyrstu hugmyndum að svæðisskipulagi miðhálendisins.

Einnig var gert ráð fyrir því að horfa til framtíðar og taka mið af því að talið kynni að vera æskilegt að leggja vegi til að tengja fjarlæga landshluta einmitt um þetta svæði. Að sjálfsögðu er það stjórnvalda að taka síðan ákvörðun um það hvort af þeirri vegarlagningu verður eða ekki.

Sú svæðisskipulagstillaga sem stendur til að staðfesta eftir fáa mánuði, verði frv. það að lögum sem hér er til umræðu, er hins vegar ekki unnin með þessum hætti. Tillögugerðarmenn, sem m.a. eru skipaðir fulltrúum þeirra 42 sveitarfélaga sem land eiga að miðhálendinu, taka sjálfir að sér að ákvarða, án þess að spyrja kóng eða prest, hvar skuli friða, hvaða auðlindir skuli ekki nýttar og að meginakbrautir milli landshluta verði ekki lagðar um miðhálendið.

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan gera svolitla grein fyrir því hvaða undirbúningsvinnu var búið að vinna að skipulagsmálum miðhálendisins áður en lagt var út á þá braut sem nú er farin. Trausti Valsson, annar höfundur bókarinnar sem ég vitna til, hóf að móta hugmyndir um framtíðarskipulag Íslands þegar á árinu 1974. Svo snemma sem árið 1977 birti hann, á grundvelli athugana sem hann hafði gert, hugmynd um stofnvegakerfi landsins í framtíðinni. Hann gerði þá ráð fyrir því að hálendisvegir gegndu þar miklu hlutverki. Með slíkri vegagerð væri hægt að stytta vegalengdir milli landshluta mjög verulega, sem ekki er unnt að gera með öðru móti.

Árið 1987 gaf Trausti út rit sem hét Hugmynd að fyrsta heildarskipulagi Íslands og þar birti hann í fyrsta skipti á korti skipulagshugmyndir um landið allt og náði sú skipulagshugmynd að sjálfsögðu jafnt til láglendis og hálendis. Á kortinu var stofnbrautakerfi um hálendið sérstaklega auðkennt. Þar kom m.a. fram að tengingarpunktar hálendisvega við hringveginn buðu upp á mjög góða staðsetningu fyrir samgöngu- eða ferðamiðstöðvar þannig að ljóst var að lagning slíkra vega hefði verið stórt spor í rétta átt fyrir ferðaþjónustuna í landinu.

[16:30]

Til einföldunar voru landnotkunarflokkarnir í hugmyndum Trausta sem hann setti fram fyrir 20 árum aðeins hafðir tveir. Það eru í fyrsta lagi þróunarsvæði þar sem hann taldi eðlilegt að styðja vöxt vegna stöðu þeirra í byggðinni og vegna þess að allar helstu byggðaforsendur voru jákvæðar, og í öðru lagi verndunarsvæði þar sem hann dró saman ýmis óbyggðasvæði í heildir og nefndi fólkvanga.

Í bók sem hann gaf síðan út árið 1991 og heitir Framtíðarsýn Íslands á 21. öld útfærði Trausti sumar þessara skipulagshugmynda nánar. Ein af meginforsendum í þeirri útfærslu var sú að eðlilegt ætti að telja að menn sæktu í auknum mæli til miðhálendisins vegna orkuvinnslumöguleika, efnistökumöguleika og mjög fjölbreyttra aðstæðna fyrir hvers konar útivist.

Í þessari bók dró Trausti Valsson m.a. athygli lesenda að því hvernig fiskurinn áður og fyrr dró fólkið og byggðina úr sveitunum og út að ströndinni og jafnvel út á ystu annes. Hann kallaði þetta afl í byggðaþróuninni miðflóttaafl. Hann benti á að gagnstætt afl, miðsóknarafl, muni stöðugt sækja meira á í framtíðinni, ekki síst vegna styrkingar samgangna á landi og að sama skapi veikingar samgangna á sjó, og eðli samgangna á landi væri að sjálfsögðu það að fara ávallt stystu leið.

Hann benti á það í bókinni að þessar breytingar mundu valda því fyrr eða síðar að menn kæmust að þeirri niðurstöðu að akstur milli landshluta væri greiðfærastur og skemmstur og auðveldastur beint yfir hálendið en ekki á vegum sem þræða strandlengjuna. Og slík vegagerð mundi styrkja mjög það sem hann kallar miðsóknaraflið, þ.e. þá tilhneigingu að flytja byggðina aftur frá ströndum landsins og meira inn til landsins sjálfs.

Meginniðurstaða Trausta árið 1991 var sú að hálendisumferðin hljóti að verða ráðandi þáttur í því hvernig landið og þar með hálendið verði skipulagt í framtíðinni. Nú kemur hins vegar tillaga þar sem sagt er: Vegagerð á hálendinu verði höfð í lágmarki. Með öðrum orðum, tillagan sem nú liggur fyrir og á að staðfesta senn gengur út á það að koma í veg fyrir að byggðin flytjist aftur til baka, upp í sveitir landsins frá sjávarsíðunni og dreifist meira um landið en gert hefur verið.

Haustið 1991 undirbjó Trausti næsta skref í mótun skipulagshugmynda og tók þá fyrir miðhálendið sérstaklega. Þá hafði markalína miðhálendisins þegar verið skilgreind af umhvrn. og notaði hann því eðlilega þá línu til að skilgreina skipulagssvæðið. Trausti tók skipulag þessa svæðis upp sem meginviðfangsefni í kennslu í byggðaskipulagi við verkfræðideild Háskóla Íslands haustið 1991. Í kjölfar þeirrar kennslu völdu þrír nemendur hans þetta verkefni sem valfag og hófu allítarlega gagnaöflun við gerð fyrstu hugmyndar að svæðisskipulagi fyrir miðhálendið. Helgi Torfason, jarðfræðingur á Orkustofnun, var þá búinn að taka saman og flokka jarðhitasvæðin á hálendinu í fjóra flokka í sama mælikvarða og Trausti Valsson og nemendur hans notuðu við tillögugerð sína um skipulag miðhálendisins.

Málið var síðan unnið þannig að til þess að fá hugmynd um staðsetningu og umfang hugsanlegra vatnsorkusvæða var í fyrsta lagi fengin stærð og staðsetning lóna af kortum Landsvirkjunar og Orkustofnunar sem og annarra helstu mannvirkja sem orkuvinnslunni tengjast. Til þess að áætla gróflega á hvaða svæði rask og efnistaka mundi fara fram meðan á virkjunarframkvæmdunum stæði var síðan dreginn hringur með sjö kílómetra geisla út frá hverri jarðvegsstíflu. Að endingu var áætlaður hæfilegur umbúnaður utan um orkuvinnslusvæðin sjálf.

Þriðji landnýtingarflokkurinn í þessum hugmyndum var síðan ákveðin svæði fyrir útivist og ferðalög. Þar fengu menn sérfróða aðila til liðsinnis og merktu inn á kortið af miðhálendinu hvar áhugaverðust svæði væru af þessu tagi.

Fjórða atriðið sem þurfti að skilgreina í þessari vinnu voru svæði með sérstöku náttúruverndargildi. Þar studdust menn við kort Náttúruverndarráðs og tóku auk þess upp í tillögugerðina allar hugmyndir sem Náttúruverndarráð hafði um náttúruverndarsvæði, hvort sem þær tillögur höfðu verið samþykktar eða ekki. En þetta eru samkvæmt náttúruverndarlögum, eins og þingmenn vita, þjóðgarðar, friðlönd, náttúruvætti og fólkvangar. Við bættust svo verndunarsvæði Mývatns og Laxár, sem eins og kunnugt er eru vernduð samkvæmt sérstökum lögum þar um frá Alþingi.

Síðan voru öll þessi svæði skoðuð saman og reynt að gera sér grein fyrir hvar hugsanlegir árekstrar gætu orðið milli áformaðra virkjunarsvæða, t.d. svæða fyrir útivist og ferðalög og svæða með náttúruverndargildi, og reynt að gera tillögur um hvernig leysa ætti úr málum þar sem slíkir hagsmunir sköruðust.

Næsti þáttur sem tekinn var til meðferðar við þessa vinnu voru sérstök hættusvæði. Þau voru tekin saman á korti og greind eftir áhættuflokkum, þ.e. þau greind sérstaklega þar sem þrjár eða fleiri tegundir jarðhættu komu saman, þau svæði sér þar sem tvær hættur komu saman og loks svæði skilgreind sér þar sem minnst hætta var talin geta stafað af mönnum og mannvirkjum, en þó engu að síður skilgreind sem hættusvæði. Síðan voru eftir þau svæði á landinu þar sem engin hætta virtist vera.

Þá kom að því, þegar þessu var lokið, að reyna að skilgreina tillögur um nýtingu lands og landgæða á hálendinu. Helsta niðurstaðan varð sú að skynsamlegt væri að stefna að vinnslu vatnsorku á austurhálendinu, austan Jökulsár á Fjöllum og Kverkfjalla svo og á efri hluta vatnasviðs Þjórsár, að þar væri skynsamlegt að halda orkuvinnslu áfram því þar væru einnig litlar hættur. Hópurinn taldi skynsamlegt að fallið yrði alfarið frá orkuvinnsluhugmyndum í Hvítá í Árnessýslu og á Kili, vegna þeirra sérstöku möguleika að gera það að náttúruverndar- og útivistarsvæðum. Í samræmi við það var ekki reiknað með að Kjalvegur yrði umtalsverð samgönguæð milli Norður- og Suðurlands heldur yrði Sprengisandsvegur meginsamgönguleiðin yfir hálendið í framtíðinni, þ.e. vegur sem í senn þjónaði orkuvinnslu og stytti þar að auki vegalengdirnar milli Suður- og Norðurlands.

Eitt af því sem gætti mjög í þessari umræðu um framtíðina og hálendið var óskin um að afmörkuð yrðu ósnortin víðerni og þau skilgreind með einhverjum hætti. Á skipulagsþingi árið 1996 gerði Trausti tilraun til skilgreiningar á því hvar skynsamlegt væri að þessi ósnortnu víðerni væru afmörkuð og gerði þar tillögur um þrjú svæði.

Virðulegi forseti. Með því sem ég hef lýst hér er ég að vekja athygli á að allt frá byrjun áttunda áratugarins hafa menn verið að vinna, m.a. á vegum Háskóla Íslands, mjög vandaða vinnu sem ætti að geta verið og þyrfti að vera undirstaða að gerð svæðisskipulags fyrir miðhálendið. Þar var ekki verið að taka neinar ákvarðanir um hvað skyldi friðað, hvað skyldi varið, hvar útivistarsvæði skyldu vera, hvaða auðlindir skyldu nýttar o.s.frv. heldur var litið fyrst og fremst á hlutverk þeirra sem að tillögunum unnu, að kynna sér áform aðila í þessu sambandi, kynna sér og leita uppi og merkja sérstaklega áhættusvæði, kynna sér og merkja sérstaklega viðhorf náttúruverndarsamtaka, ferðamálasamtaka o.s.frv. og athuga hvort sníða mætti úr þessum mörgu pjötlum einn snotran stakk. En aðilar gerðu sér fulla grein fyrir því að það var Alþingis Íslendinga að taka þessar ákvarðanir.

Nú hefur allri þessari vinnu verið hent út í hafsauga. Í staðinn var fulltrúum 42 lítilla sveitarfélaga falið að vinna sérstaka tillögu um svæðisskipulag miðhálendisins. Það er gert þannig að teknar eru stefnumarkandi ákvarðanir án þess að spyrja nokkurn þar að lútandi, hvorki ríkisstjórn, Alþingi né aðra aðila. Þar eru teknar stefnumarkandi ákvarðanir um vegamál, sem eru í hróplegri mótsögn við þær hugmyndir sem menn hafa rætt um hálendisvegi og þörfina fyrir þá. Þar voru teknar ákvarðanir um hvorki meira né minna en það að stór hluti orkuvinnslugetu háhitasvæða og vatnsafls á hálendinu skyldi ónotaður. Þar voru teknar ákvarðanir um að hreyfa ekki við, gera engar tillögur um gróðurvernd, beitarstjórnun eða aðgerðir við ofbeit. Og þessar ákvarðanir voru teknar m.a. með þeim hætti að sniðganga samþykktir um framkvæmdir og virkjunarmál, sem Alþingi hefur gert, og hafa að engu heimildir sem virkjanaaðilar hafa með höndum og enginn getur kallað aftur nema þessi stofnun sem hér er að störfum.

Herra forseti. Að ætla sér að staðfesta slík vinnubrögð örfáum vikum eða mánuðum eftir að Alþingi samþykkir tillögur meiri hluta Alþingis úr Framsfl. og Sjálfstfl. um breytingu á sveitarstjórnarlögum er háskaleg aðgerð að mínu mati.

Ég sagði fyrr í ræðu minni að að þessari tillögu hafa staðið sveitarfélög eða fulltrúar þeirra sem liggja næst miðhálendinu. Og þeim á að fela stjórnsýslu að verulegu leyti, þar á meðal mengunareftirlit, byggingareftirlit, gróðureftirlit, almannavarnir, löggæslu að hluta til og skipulagsmál á öllu miðhálendi Íslands inn á miðja jökla. Ég tek það fram að ég er ekki að gera lítið úr einum eða neinum þó ég segi að ég efist um að þessi litlu sveitarfélög ráði við þetta verkefni. Ég efast ekki um það vegna þess að ég haldi að íbúar þessara sveitarfélaga séu á einhvern hátt lakara mannfólk eða getuminna eða verr af guði gert en íbúar þéttbýlisins. Það ber ekki að líta svo á.

[16:45]

Ég held hins vegar, svo ég taki dæmi, að hvaða 87 Íslendingar sem eru ráði ekki við slík verkefni einir og sér, hvar sem þeir búa, hvort sem þeir búa í Reykjavík eða Ásahreppi. Ég tel t.d. að samfélag 48 Íslendinga ráði ekki við slík verkefni og megi ekki krefjast þess af þeim í lögum að þeir axli slík verkefni, og skiptir þá ekki máli hvort þessir 48 einstaklingar búa í Þingvallahreppi eða í Reykjavík. Ég tel einfaldlega að allt of mikið sé til ætlast af löggjafanum af svo fámennum hópi landsmanna að hann axli jafnviðamikil verkefni og það er að sjá um skipulagsmál, mengunarvarnir, almannavarnir, gróðurvernd og gróðureftirlit, byggingareftirlit og heilbrigðiseftirlit á hálendi Íslands allt inn á miðja jökla. Ég mótmæli því, virðulegi forseti, að í orðum mínum sé fólginn einhver áfellisdómur yfir íbúum dreifbýlisins. Ég er ekki að ræða það, ég er að ræða um að nauðsynlegt sé að taka tillit til þess hver fjárhagsgeta fámennra hreppa sé til að axla slík viðfangsefni.

Hæstv. umhvrh. hefur raunar tekið undir þetta því að hann hefur sagt að hann geri ekki ráð fyrir því að þessi litlu samfélög ráði við þetta nema þá í samvinnu við aðra. Það er nákvæmlega það sem ég er að segja, virðulegi forseti, þetta eru svo dýr og viðamikil verkefni að menn ráða ekki við þetta nema í samvinnu, þjóðin ræður ekki við að axla þessi miklu verkefni á öllu miðhálendi Íslands, 40% landsins, nema með því að deila með sér kostnaði og ábyrgð þar af.

Ég sé hins vegar ekkert athugavert við að menn framkvæmi það t.d. þannig að fela aðliggjandi sveitarfélögum að taka við eða annast einhver þau verkefni, af þeim verkefnum sem ég hef gert hér að umtalsefni, sem þau treysta sér til þess að takast á við og hafa mannskap til að geta sinnt, í umboði þeirra aðila sem færu með heildaryfirstjórn yfir hálendinu. Mér fyndist ekkert annað eðlilegt, virðulegi forseti, en að greiðsla kostnaðar fyrir slíkt eftirlit og slík verkefni kæmi úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Ég er því ekki að gera kröfu til þess að þéttbýlissveitarfélögin fái einhvern rétt umfram íbúa dreifbýlissveitarfélaganna. Þvert á móti geri ég ráð fyrir því að við stöndum öll saman undir kostnaði af því eftirliti, þeim framkvæmdum og þeirri skipulagsvinnu sem þarna þarf að fara fram, og ég sé ekkert við það að athuga, herra forseti, að þessum hreppum, þessum litlu sveitarfélögum, öllum eða einhverjum, verði falin einhver af þessum verkefnum eða jafnvel öll ef þau ráða við það, hvert á sínum stað, undir einni sameiginlegri yfirstjórn. Í orðum mínum felst því ekki neinn áfellisdómur á það fólk sem býr þarna nema síður sé.

Þannig er aðdragandinn, virðulegi forseti, að þeirri skipulagsvinnu sem hæstv. umhvrh. ætlar að staðfesta innan fárra mánaða, verði það frv. samþykkt sem hér er til umræðu. Höfundar bókarinnar Ísland hið nýja, Trausti Valsson og Birgir Jónsson, sem hafa mikla þekkingu á skipulagsmálum, og Trausti hefur allra Íslendinga mesta reynslu og þekkingu á skipulagsmálum, segja svo orðrétt um undirbúningsvinnuna, með leyfi forseta:

,,Stór galli er einnig að stjórnvöld skyldu ekki, sem undanfara útboðs á svæðisskipulagsvinnu miðhálendisins, skilgreina þær þjóðhagslegu þarfir og þjóðhagslegu markmið sem skipulagsnefnd þessa svæðis yrði gert að fylgja. Dæmi um slíka markmiðssetningu væri t.d. að stytta sem mest vegalengdir milli landshluta vegna byggðarsjónarmiða og til að auðvelda rekstur ferðaþjónustu. Því má segja að nefndin hafi að miklu leyti sett sér sjálf markmiðin.``

Með öðrum orðum fær nefndin, sem vinnur þetta verk, ekkert veganesti frá stjórnvöldum, enda er niðurstaða hennar í samræmi við það.

Það eru nokkur atriði sem þarf sérstaklega að fjalla um og hefði þurft að fjalla um áður en gengið hefði verið frá endanlegum tillögum en hefur ekki verið gert. Þar má auðvitað fyrst og fremst nefna samgöngumálin en þar er mjög bagaleg vöntun á stefnumótun af hálfu stjórnvalda þegar kemur að því að ákveða hvaða stöðu miðhálendið á að hafa í heildarvirkni landsins í framtíðinni. Það er ekki því um að kenna að ekki séu komnar tillögur fram um það, það hafi ekki verið rætt eða menn hafi ekki haft skoðun á því, heldur hefur aldrei verið tekið á því máli, t.d. í afgreiðslu Alþingis á vegáætlun, og aldrei verið mótuð nein stefna af hálfu Alþingis Íslendinga hvort og þá hvernig eigi að nýta miðhálendið undir samgönguæðar á milli fjarlægra landshluta.

Svæðisskipulagsnefndin tekur hins vegar þá ákvörðun að vegir á miðhálendinu eigi ekki að vera hluti af almennu vegakerfi landsins, eins og ég sagði áður heldur aðeins fjallvegir sem hugsaðir eru fyrir sumarnotkun og þar með er í raun útilokað, verði þessi tillaga staðfest af umhvrh. eins og hann segist ætla að gera, að nokkurn tíma í fyrirsjáanlegri framtíð geti hin kjörnu stjórnvöld landsins mótað þá stefnu að almennir vegir verði lagðir yfir hálendið, vegir sem geti stytt vegalengdir milli byggða mestan hluta ársins. Þetta er ekki lítil ákvörðun sem þarna er verið að taka, virðulegi forseti, það er verið að taka þá ákvörðun af þessum 18 nefndarmönnum að Alþingi geti ekki eftirleiðis haft skoðun á því að leggja skuli vegi milli landshluta stystu leið, þ.e. um miðhálendið. Því að nefndin gerir sér lítið fyrir og tekur þá ákvörðun fyrir hönd Alþingis að það skuli ekki gert og það verði sú stefna sem framvegis verði fylgt um nýtingu miðhálendisins sem hluta af samgöngukerfi landsins, samgöngukerfi landsins liggi ekki þar um, hvorki nú né síðar.

Álit höfunda bókarinnar á þessum vinnubrögðum kemur fram í þessum orðum, með leyfi forseta:

,,Það er mikilvægt að fulltrúar ríkisvaldsins athugi gaumgæfilega hvaða stefnumótun er í raun verið marka með tillögunni að svæðisskipulagi miðhálendisins. Við þá skoðun mun koma í ljós að þar er verið að taka ákvarðanir sem þrengja svo mjög alla möguleika í framtíðinni, t.d. í að nýta möguleika í orkuvinnslu og samgöngubótum, að það er ekki siðferðislega stætt á því fyrir ríkisvaldið að leyfa slíkar takmarkanir á framtíðarmöguleikum.``

Þetta er skoðun bókarhöfunda og nú spyr ég: Miðað við þá yfirlýsingu sem umhvrh. hefur gefið, að nokkrum mánuðum eftir að Alþingi hafi afgreitt frv. félmrh. um breytingar á lögum um sveitarstjórnir, muni hann staðfesta það skipulag sem að áliti bókarhöfunda takmarki svo nýtingu á möguleikum í orkuvinnslu og samgöngubótum að ekki sé siðferðislega stætt á því fyrir ríkisvaldið að leyfa slíkar takmarkanir, ætla alþingismenn og stjórnarliðar engu að síður að afgreiða málið, eins og til stendur, frammi fyrir slíkum staðreyndum?

Að vísu gerir skipulagsnefndin ráð fyrir því að leggja góðan malbikaðan veg, raunar aðeins sumarveg yfir Kjöl þrátt fyrir að staðreyndin sé orðin sú að Kjalvegur sé að mestu leyti fullbrúaður og tilbúinn til aksturs fyrir alla bíla og þrátt fyrir þá staðreynd að á Kili og í kringum Kjalveg eru landsvæði sem allir eru sammála um að eigi að friða um ókomin ár sökum náttúruverndar- og umhverfissjónarmiða, og að þeir sem þekkja til á Kili, eins og sá sem hér stendur, horfi á það með skelfingu til hvers þær ákvarðanir hafa leitt sem teknar hafa verið í sambandi við vegaframkvæmdir þar um og gert umferð um Kjöl það mikla yfir hásumarið að ég er sannfærður að fyrr eða síðar muni alvarleg landspjöll hljótast þar af.

Annar þáttur sem þarf að taka til skoðunar áður en tekin verður ákvörðun um nýtingu miðhálendisins, fyrir utan samgöngumálin, eru þær hugmyndir sem uppi eru um orkuvinnslu. En tillagan að svæðisskipulaginu um miðhálendið, sem nefndin hefur gert eða vann svæðisskipulagstillögurnar, einkennist af því að allri mannvirkjagerð þar sé haldið í lágmarki. Áætlanir hafa verið gerðar um nýtingu vatnsafls á þessu svæði en gert er ráð fyrir því í tillögum að skipulagsáætlun að aðeins helmingur af því vatnsafli verði nýttur sem nýtingaráætlanir hafa þegar verið gerðar um.

Talsmenn skipulagstillögunnar segja að þeir séu alls ekki með tillögu sinni að reyna að útiloka nýtingu á helmingi vatnsaflsins á miðhálendinu og öllum háhitasvæðum á miðhálendinu, hvorki meira né minna, því í tillögunni er gert ráð fyrir því að orka háhitasvæðis á miðhálendinu sé alls ekki nýtt, ekki að nokkru leyti. Þeir segja að þeir séu ekki að útiloka að það sé hægt að gera þetta einhvern tíma í framtíðinni, það megi taka ákvörðun um að nýta þetta einhvern tíma seinna.

En hvernig skyldi ganga að koma með tillögur um að reisa orkuver á svæði sem hefur verið tilgreint sem náttúruverndarsvæði um áratuga skeið? Hvernig skyldi ganga að fá í gegn á Alþingi þegar búið er að taka ákvörðun um að nýta alls ekki alla þá auðlind sem finnst í háhitasvæðunum á miðhálendinu vegna þess að þær séu allar á náttúruverndarsvæði, að fá þeirri ákvörðun breytt á Alþingi? Ég vek athygli á því að það er ekki Alþingi sjálft sem er að taka ákvörðun um að nýta ekki auðlindir háhita á miðhálendinu. Það væri sök sér ef Alþingi hefði gert það. Ég gagnrýni það ekki, það er hlutverk Alþingis að taka slíkar ákvarðanir. Eins og ég hef sagt áður og ég ítreka það, ég virði fyllilega sjónarmið manna eins og hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar sem er þeirrar skoðunar að margar af orkulindunum á háhitasvæðinu eigi ekki að nýta heldur beri að friða þau landsvæði. Ég skil sjónarmið hans og virði þau. En þær ákvarðanir á að taka á Alþingi Íslendinga en ekki af einhverri nefnd úti í bæ sem skipuð er fulltrúum sveitarfélaga þar sem 4% þjóðarinnar búa.

[17:00]

Þær ákvarðanir á að taka á Alþingi Íslendinga þar sem 63 fulltrúar sitja, sem kjörnir eru af þjóðinni allri og bera ábyrgð gagnvart henni. Þeir eiga að taka þessa ákvörðun en ekki nefnd úti í bæ. Ég tel að nefnd úti í bæ geti ekki bundið hendur Alþingis með slíkri ákvörðun. Hún geti ekki tekið það upp hjá sjálfri sér að tilkynna nánast að nýtingarheimild verði felld niður á helmingi af því vatnsafli sem ráðgert er að nýta og leyfi hefur verið veitt fyrir að nýta á hálendi Íslands. Því að það er ekki nefndarinnar að fella þær nýtingarheimildir niður, það er Alþingis. Og furðulegt ef staðfesting umhvrh. á slíku skipulagi getur tekið fram fyrir hendurnar á afgreiðslum sem hafa verið gerðar á Alþingi fyrir atbeina löglega kjörinna þingmanna, eins og t.d. því leyfi sem gefið hefur verið út til virkjunar í Fljótsdal. Í tillögum svæðisskipulagsnefndarinnar er gert ráð fyrir því að það leyfi sé einfaldlega fellt niður. Það getur enginn gert nema Alþingi Íslendinga. En tilgangurinn er sá og hugmyndin er sú að það verði gert með einni undirskrift umhvrh. án þess að Alþingi komi þar nærri.

Nú geta menn haft sína skoðun á því hvort rétt sé að virkja í Fljótsdal. Jafnvel kann að vera að þeir sem voru þeirrar skoðunar á sínum tíma að rétt væri að efna til virkjunar þar hafi breytt þeirri skoðun sinni. Og menn eiga fullan rétt á því. Þingmenn eiga fullan rétt á því að breyta um skoðun. En sú ákvörun að breyta þeirri afstöðu sem tekin var á Alþingi á að takast hér fyrir atbeina þingmanna sem hér sitja en ekki af nefnd úti í bæ.

Um hugmyndir um orkuvinnslu segja höfundar bókarinnar Ísland hið nýja m.a. svo, með leyfi forseta:

,,Ef það lægi fyrir að aðeins fáir valkostir í orkuvinnslu væru í alvarlegri athugun ættu aðilar á borð við ferðaþjónustuna auðveldar með að gæta sinna hagsmuna með því að gera athugun á hvort eða hvernig viðkomandi svæði gætu nýst í ferðaþjónustunni. Ókosturinn er hins vegar sá, í ljósi þess sem áður var lýst, að það að ákveða þröngt svið virkjanakosta mundi þrengja mjög möguleika íslenskra stjórnvalda til þess að finna þann orkuvinnslukost sem hentaði þeim aðilum best sem gefa sig fram hverju sinni.

Í svæðisskipulagstillögu miðhálendisins fara höfundar tillögunnar þá leið að velja úr þá virkjunarkosti sem þeir telja að valdi minnstum umhverfisspjöllum, en séu þó í aðalatriðum líkir núverandi hugmyndum Orkustofnunar og Landsvirkjunar fyrir skipulagstímabilið, þ.e. til ársins 2015. Reyndar leggja höfundar skipulagsins til ýmsar breytingar á virkjanahugmyndum þessara aðila, m.a. hafi dökkgrænn litur náttúruverndarsvæðis verið settur yfir Eyjabakkalón á skipulagskortinu.

Í mótmælum Landsvirkjunar til skipulagsstjóra ríkisins áður en tillagan að svæðisskipulaginu var samþykkt í skipulagsnefndinni vorið 1997, er bent á að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun eru þegar hafnar með mörg hundruð milljón króna tilkostnaði og að fullt samþykki Alþingis fyrir virkjunartillögunni liggi fyrir. Því komi það mjög spánskt fyrir sjónir að svæðisskipulagsnefndin skuli ætla að taka sér það vald að breyta virkjunarhönnun sérfræðinganna og fella samþykki Alþingis úr gildi.``

En það vald hefur hún tekið sér. Hún telur sig hafa vald til þess og að umhvrh. geti staðfest það að snúa til baka með framkvæmdir sem þegar hefur verið ráðist í og búið er að verja hundruðum milljóna króna í og byggjast á lagaheimild sem Alþingi hefur samþykkt. Þá sjá menn nú hvaða hugarfar ríkir á þeim bæ.

Síðan segir í athugasemdum þeirra félaga við skipulagstillöguna, með leyfi forseta:

,,Vegna þessa og með samanburði við eldri útgáfu af skipulagskortinu sést að nefndin hefur hörfað frá þeirri ákvörðun sinni að heillita svæði Eyjabakkalónsins í dökkgrænum lit. Hefur nefndin á síðustu stundu látið gera hvítar rispur í græna litinn á lónstæði Eyjabakka, tákn sem samkvæmt reglugerð á að þýða blandaða landnotkun, sem ekki er þó hér um að ræða í þessu tilviki, og er þessi merking óútskýrð á skipulagskortinu.``

Hvað þýðir blönduð landnotkun? Hún þýðir að á viðkomandi landi geti risið t.d. sumarbústaðir með aðstöðu fyrir ferðamenn, önnur mannvirki með þjónusta fyrir ferðamenn að öðru leyti, matskálar og fleira, útivistarsvæði o.s.frv. Og það er þá í flóttatillögu nefndarinnar gert ráð fyrir því að í virkjunarlóninu á Eyjabakka verði byggð sundlaug, þar verði byggðir sumarbústaðir á botni virkjunarlónsins væntanlega, þar verði sett upp kokkhús fyrir ferðamenn í virkjunarlóninu á Eyjabakka o.s.frv.

Skipulagsnefndin vill ekki hverfa frá fyrri tillögum sínum þegar henni er bent á ágalla þeirra heldur velur þann kostinn að flýja út í svona tillögugerð sem enginn skilur hvað eigi að merkja og síðan á að löggilda það með uppáskrift umhvrh. eftir nokkrar vikur eða mánuði.

Síðan segja þeir Trausti og Birgir áfram, með leyfi forseta:

,,Líklega er alvarlegasti gallinn á vinnuaðferð skipulagsnefndarinnar hins vegar sá, að brotin er reglan um hugsanleg landnýtingarsvæði eftir lok skipulagstímabilsins, þ.e. árið 2015, ... Skipulagshöfundarnir rökstyðja það, að sýna engin sérmerkt orkuvinnslusvæði eftir 20 ára tímabilið, með þeim rökum að þeir geti ekki sýnt lónstærðir viðkomandi orkuvalkosta vegna þess að undirbúningsvinna orkugeirans sé ekki nógu langt komin. Þeir telja sig þó í fullum rétti til`` að ákveða að meiri hluti hálendisins verði ,,verndunarsvæði þó að rannsóknir á verndunargildi þess séu ekki alls staðar langt komnar.

Menn verða að átta sig á að ákvörðun um náttúruverndarsvæði er alveg eins afdrifarík og hver önnur ákvörðun um landnýtingu. Verið getur að margir álíti að græni liturinn sem táknar verndunarsvæði sé einungis til bráðabirgða, og á fundum hafa höfundar skipulagsins ítrekað haldið því fram, að það sé lítið mál að breyta verndunarsvæðum í virkjanasvæði síðar, ef menn vilja það. Flestir vita þó hversu erfitt það mundi verða að fá þessa virkjunarkosti samþykkta eftir árið 2015 þegar svæðið hefur um áraraðir verið flokkað sem verndunarsvæði.``

Síðan segir í lokin á athugasemdum bókarhöfunda um hugmyndir um orkuvinnslu í skipulagi því sem stendur til að staðfesta um nýtingu á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar á hálendi Íslands, með leyfi forseta:

,,Eins og getið er í inngangi þessa kafla virðist tillagan að svæðisskipulagi miðhálendisins ganga út á það að útiloka nýtingu á nær helmingi vatnsaflsins á miðhálendinu og alls háhita þar með því að skilgreina hagkvæm orkuvinnslusvæði sem náttúruverndarsvæði eða verndarsvæði.``

Nú skulum við láta hér aðeins staðar numið og reyna að velta því fyrir okkur um hvaða verðmæti verið er að tala sem rætt er um að útiloka alla nýtingu á í eitt skipti fyrir öll. Ef við lítum á háhitasvæðin ein á miðhálendinu þá hentar háhiti fyrst og fremst til raforkuframleiðslu, öfugt við lághitann sem notaður er fyrst og fremst til hitunar húsa, ylræktar, til þess að hita vatn í sundlaugar, snjóbræðslukerfi o.s.frv. Háhitinn er hins vegar fyrst og fremst orka sem hentar til raforkuframleiðslu. Talið er að ónýtt orkuvinnslugeta þeirra háhitasvæða á Íslandi þar sem er bæði hagkvæmt og umhverfisvænt, ef nota má það orð, að vinna háhita, sé 30--35 teravattstundir á ári eða eitthvað nálægt því.

Hvert skyldi vera verðmæti þessarar auðlindar? Hvert skyldi vera líklegt söluverð raforku, framleiddri með háhita af hálendi Íslands með orkuvinnslugetu 30--35 teravattstundir á ári?

Miðað við verð á orku frá stöðvarvegg er það verðmæti álíka mikið og verðmæti helmingsins af fiskimiðunum hringinn í kringum landið er talið vera. Þarna er með öðrum orðum verið að taka þá ákvörðun fyrir Íslendinga framtíðarinnar að ónýttar orkulindir á miðhálendinu vegna djúphita sem að verðmæti samsvara um helmingi allra nýtanlegra fiskstofna við landið, verði ekki nýttar. Það er ekki Alþingi sem tekur þessa ákvörðun. Þetta er í tillögum nefndar, skipaðrar af fulltrúum 42 sveitarfélaga með 4% landsmanna sem íbúa, og á að staðfestast af umhvrh. Með einu pennastriki er sú ákvörðun tekin fyrir framtíðina, fyrir börnin okkar, að menn ætli að leggja til hliðar nýtingu á verðmæti sem samsvarar helmingnum af verðmæti fiskimiðanna við Ísland. Ég spyr, virðulegi forseti: Hvað halda menn að þetta muni kosta Íslendinga framtíðarinnar í lífskjörum? Skiptir þetta virkilega engu máli? Ætlar Alþingi að láta þetta fram hjá sér fara eins og það taki ekkert eftir því?

En það er ekki bara þetta. Það er gert ráð fyrir því að ekki verði heldur nýttur um helmingurinn af nýtanlegu vatnsafli á þessu sama hálendi sem ráðgert er nú í dag að nýta einhvern tíma í framtíðinni í samræmi við kröfur sem þá verða um umhverfisvernd og náttúruvernd. Hvaða verðmæti eru það?

Ónýtt vatnsaflsorka á Íslandi í dag er eitthvað nálægt því sem ónýtt jarðvarmaorka er, um 30--35 teravattstundir árlega í framleiðslu. Samanlagt eru þessar tvær auðlindir, orka háhita og orka fallvatna í landi, sem ónýtt er, u.þ.b. helmingurinn af samanlagðri raforkuframleiðslu Norðmanna, margfalt meira en núverandi raforkuframleiðsla Íslendinga, og verðmætið miðað við orku frá stöðvarvegg álíka mikið og talið er vera verðmæti allra fiskimiða við Ísland, allra nytjastofna á Íslandsmiðum. Og svo á að taka þá ákvörðun til frambúðar að nýta ekki 3/4 hluta af þessari auðlind, nýta ekki orku háhitanna að neinu leyti og nýta ekki helminginn af ónýttri vatnsaflsorku sem við eigum á hálendinu. Það er verið að fórna framtíðarmöguleikum nýtingar sem að verðmæti samsvarar 3/4 hlutum af áætluðu verðmæti allra nytjastofna á Íslandsmiðum. Og menn sletta bara í góm á Alþingi, stjórnarliðar, eins og hér sé bara eitthvert smámál á ferðinni sem engu máli skipti. Vegna þess að fulltrúar í nefnd, fulltrúar sveitarfélaga þar sem 4% landsmanna búa hafa tekið ákvörðun um það fyrir hönd hinna 96% að auðlindir Íslands skuli ekki nýttar að þessu marki. Að orkuauðlindir Íslands sem við eigum til að hlaupa upp á í framtíðinni skuli aðeins vera nýttar að 1/4 hluta til. Og þetta ætla menn að láta yfir sig ganga eins og ekkert sé.

Og svo segja menn að með umræðum okkar jafnaðarmanna hér séum við í málþófi, þá séum við að þæfa mál og ekki ræða það efnislega þegar slíkir almannahagsmunir eru í húfi eins og ég var að nefna áðan. Framtíð lífskjara á Íslandi liggur ekki síst í því að nýta auðlindir landsins og svo taka tólfmenningar sig til og ákvarða fyrir okkur hin að 3/4 hlutar af náttúruauðlindum Íslands sem ónýttar eru skuli aldrei nýtast.

[17:15]

Hverju svara forsvarsmenn tillögugerðarinnar þegar þeim er bent á þetta? Því var svarað til á fundi í verkfræðideild Háskóla Íslands í janúar 1997 að þessi 12 manna nefnd þar sem fulltrúar 4% landsmanna sitja hafi ákveðið að háhitinn á miðhálendinu yrði ekki nýttur af umhverfislegum og tæknilegum ástæðum. Síðan var bætt um betur. Í útvarpsviðtali í maí 1997 var sagt að nefndin hafi í þessum efnum ákveðið að ganga lengra í tillögum um verndun á hálendinu en Náttúruverndarráð hefur nokkru sinni gert. Á það virkilega að líðast, virðulegi forseti, að þessi fámenna og allt að því umboðslausa nefnd geti gjörbreytt orkumála- og verndarstefnu Alþingis og fellt úr gildi stefnumótandi starf sem fram hefur farið í áratugi hjá Alþingi og stofnunum þess?

Menn líta gjarnan svo á að það sé merki um harðlyndi eða harðan heim að tala um nýtingu á auðlindum landsins til orkuframleiðslu. Það er sennilega vegna þess hversu harðar jarðvinnsluvélarnar eru sem vinna að umbreytingu landsins ef nýta á það í því skyni. Það eru ekki harðar jarðvinnsluvélar sem stuðla að gróðureyðingu hálendis Íslands. Það eru ekki harðar jarðvinnsluvélar sem eru þess valdandi að á Íslandi er mesta eyðimerkurmyndun í öllum heiminum. Það eru ekki harðar jarðvinnsluvélar sem bera ábyrgð á því að landið er að fjúka brott, gróðurinn að hverfa. Ekki er hörðum jarðvinnsluvélum ofbeitt er á hálendi Íslands. Athafnir manna hafa stuðlað að jarðvegs- og gróðureyðingu þó ekki séu harðir stálfletir jarðvinnsluvéla sem því valda.

Nefndin sem hins vegar hefur ákveðið af vísdómi sínum, vegna verndunar- og náttúruverndunarsjónarmiða, að þrír fjórðu hlutar af orkulindum Íslands á miðhálendinu skuli ekki nýttir, segir ekki eitt aukatekið orð um hvað gera eigi til að hægja á mestu eyðimerkurmyndun í heimi.

Þessi eyðimörk stafar af öðrum manna gjörðum en virkjanamálum. Í tillögum nefndarinnar er ekki eitt orð um aðgerðir til verndunar gróðurlendi fyrir beit eða ákvörðunum manna um að leggja landið í auðn. Um það er ekki hálft orð. Af hverju ekki? Skyldi það vera vegna þess að þeir einstaklingar sem hlut áttu að máli og eru fulltrúar aðliggjandi sveitarfélaga eigi þar einhverra hagsmuna að gæta? Á það skipulag sem á Íslandi hefur skapað mestu eyðimerkurmyndun í heimi áfram að fá að vera við völd?

Menn gera gjarnan samanburð annars vegar á landnotkun vegna ferðaþjónustu og útivistar sem mönnum finnst gott og hins vegar landnotkun vegna annarra þarfa, svo sem eins og virkjanaframkvæmda. Hið síðarnefnda finnst mörgum vont. Menn gleyma því gjarnan að ferðaþjónusta og útivist stuðlar að mengun ekkert síður en önnur mannanna verk. Ýmsir ferðamannastaðir á Íslandi, sem ekki þola mjög vel ágengni ferðamanna, eru nú þegar í hættu vegna átroðslu og mengunar sem fylgir ferðamannaþjónustu. En gott og vel, við skulum samt miða við viðurkenndar hugmyndir manna um mikilvægi ferðaþjónustu, að það sé valkostur á móti hinum harðari iðnaði, t.d. orkuiðnaði. Hugmyndir um ferðaþjónustu og útivist eru taldar til marks um að þar ráði mýkri sjónarmið. Hvaða tillit skyldi vera tekið til þeirra hluta í því skipulagi um nýtingu á miðhálendi Íslands sem afgreiðsla Alþingis á tillögu ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um sveitarstjórnarmál á að renna stoðum undir?

Aðaleinkenni þessarar tillögu, þ.e. hvernig nýta á sameiginlega auðlind okkar á hálendinu, er að 90% af öllu hálendi Íslands er skipt í tvo flokka, annars vegar náttúruverndarsvæði og hins vegar verndarsvæði. Miðhálendið er 40% af öllu flatarmáli landsins. Ráðstöfun á þessum 40% á að haga þannig að 90% af þeim eiga að verða land sem ekki nýtist, hvorki til ferðalaga né annars, samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu á ferðamennsku.

Í lögum um náttúruvernd eru þessir tveir landnýtingarflokkar, náttúruverndarsvæði og verndarsvæði, ekki til. Í lögum eru til flokkarnir þjóðgarður, fólkvangur, friðað svæði og náttúruvætti. Það er hins vegar lagt til að búa til eitthvað nýtt sem enginn veit hvað þýðir, þ.e. náttúruverndarsvæði og verndarsvæði og 90% af miðhálendi Íslands í sameign þjóðarinnar skuli falla undir slíka nýtingu án þess að skilgreina nokkuð nánar í hverju sú nýting er fólgin.

Menn eru augljóslega að ræða um að fórna miklum hagsmunum, ekki aðeins hvað varðar nýtingu orkulinda heldur einnig hagsmunum er lúta að útivist og ferðaþjónustu. Þetta er kynnt með orðunum ,,auðnin er auðlind``. Auðn Íslands er auðlind. Við erum með öðrum orðum að stórauka auðlindina. Auðlindin vex með örri gróðureyðingu. Auðlindinni á miðhálendi Íslands, sem við eigum saman, fer nú ört fram vegna eyðimerkurmyndunar. Þeir sem stuðla að gróðureyðingu á hálendinu, m.a. með ofbeit, eru að áliti nefndarinnar að stuðla að ört vaxandi auðlind. Þeir eru að vinna framfarastarf fyrir þjóðina. Auðnin vex, auðlindin eykst og við erum alltaf að verða ríkari og ríkari. Auðlindin stækkar og stækkar eftir því sem meiri gróðri blæs burtu af gróðri á hálendissvæðinu. Auðn er auðlind.

Kannski átti nefndin við að auðnin ætti að vera auðlind fyrir ferðaþjónustuna, þ.e. að skipulagið hefði þá að markmiði að gera auðnina aðgengilegri og auðnýtanlegri fyrir ferðamenn svo sem með því að leggja enga vegi um hana og gera þar með aðkomu ferðamannsins auðveldari og auðsóttari að auðninni, þessari miklu auðn. Markmið skipulagsins eins og ég minnti á áðan er alveg þveröfugt, að vinna á móti aukningu umferðar á hálendinu og koma í veg fyrir uppbyggingu góðrar þjónustuaðstöðu fyrir ferðamenn. Í textanum með greinargerðinni í skipulagstillögunum kemur aftur og aftur fram sú vandræðalega staða sem höfundar hafa komið sér í með því að skilgreina auðnina sem auðlind. Auðnin getur aðeins verið auðlind í skilningi ferðaþjónustunnar en nefndin gerir jafnframt tillögur um að torvelda aðgengi ferðamanna að hinni vaxandi auðlind, hinni íslensku eyðimörk.

Þeir komast æ ofan í æ í þá vandræðalegu stöðu að reyna annars vegar að telja fólki trú um að öll þessi verndun sé gerð til að náttúruauðæfi hálendisins nýtist fólki. Í hinu orðinu er flest í skipulaginu gert þannig að fólki reynist erfitt að komast um hálendið og dvelja þar. Upphafssetningin í kaflanum um útivist og ferðaþjónustu í tillögunum hefst t.d. á þessum orðum: ,,Gert er ráð fyrir að uppbygging ferðamannaaðstöðu verði takmörkuð á miðhálendinu.``

Um vegina, sem eru auðvitað forsendur þess að ferðamenn komist að hinni miklu, sívaxandi auðlind, eyðimörkinni á hálendi Íslands, segir: ,,Stefnt er að því að halda vegaframkvæmdum að hálendinu í lágmarki.`` Um það hvar ferða- og útivistarfsemin eigi að fara fram segir í greinargerðinni að megináhersla verði lögð á uppbyggingu ferðaþjónustu á jaðarsvæðum hálendisins og nokkrum afmörkuðum svæðum í nánd við aðalfjallvegi. Í þessu sambandi eru skilgreindar svokallaðar jaðarmiðstöðvar þar sem t.d. matsala, verslun, bensínsala og gisting í herbergjum er leyfð. Í skipulaginu eru auk jaðarstöðva skilgreindar hálendismiðstövar, skálar og fjallasel þar sem ekkert af fyrrgreindri þjónustu verði leyft nema í undantekningartilvikum.

Samkvæmt skilgreiningu í töflu, sem birt er á bls. 170 í þessu riti tvímenninganna, eiga skálarnir og fjallaselin sem hér er rætt um ekki að vera í neinu vegasambandi. Það á ekki að vera hægt að aka að þeim. Ferðamennirnir eiga að fara þangað á tveimur jafnfljótum. Hvar skyldu hins vegar jaðarmiðstöðvar vera? Hvar verður hægt að fá þjónustu? Þær eru á Laugarvatni, Flúðum, Árnesi, Staðarskála, Varmahlíð og Goðafossi. Frá þessum jaðarstöðvum er ferðamönnum ætlað að fara í hálendisferðir. Annars staðar en þarna, á stöðum sem eru alþekktir ferðamannastaðir í byggð og yfirleitt ekki í neinum tengslum við hálendisferðir í huga fólks, er ekki gert ráð fyrir að ferðamenn geti fengið slíka þjónustu. Menn tala um að það eigi að nýta hálendi Íslands í þágu hinnar jákvæðu ferðamannaþjónustu og þær hugmyndir eru leiknar svona í skipulagstillögunum.

Hvað kemur skýrt fram í þessum tillögum? Það er að þeir 42 hreppar, eða fulltrúar þeirra sem í nefndinni sitja, vilja að þeir einoki þá þjónustu sem tengist hálendisferðum og reyna að koma í veg fyrir að ferðaaðilar geti byggt upp þjónustu á hálendinu og leyft fólki að gista þar við aðstæður sem ferðamenn vilja njóta. Þeir verða samkvæmt skipulaginu, ávallt í lok hvers dags, að snúa aftur niður í sveitirnar til að fá þar þjónustu. Það er bannað að veita þá þjónustu á hálendinu sjálfu. Því skal stýrt hvar pylsan er keypt og hver selur hana.

Þá kemur líka fram að hvorki má selja né geyma eldsneyti á hálendi landsins. Það er gert nú þegar, eins og þeir vita sem farið hafa um hálendið. Ferðafólk getur keypt sér eldsneyti þar yfir sumartímann.

Nú á að banna það með öllu. Hvaða vanda eru menn ekki að skapa þar og hver er tilgangurinn með því að banna það alfarið, í staðinn fyrir að setja t.d. mjög strangar mengunar- og umhverfiskröfur um slíka þjónustu?

[17:30]

Hvernig er reynt síðan að lýsa þeim sjónarmiðum sem fyrir höfundum tillögunnar vakir hvað ferðamannaþjónustu viðvíkur? Hvernig er útskýrt að það geti gengið saman, það sem höfundar segja að þeir vilji stuðla að aukinni ferðamannaþjónustu og svo hitt að setja allar þessar takmarkanir?

Jú. Það er gert þannig að sagt er að það sé tilgangur tillöguhöfunda að ná í ríkustu erlendu ferðamennina því að þeir gefi mest af sér og að því er virðist aðeins þeir sem fara í ævintýraferðir, en hins vegar sé ekki eins mikill áhugi að ná í þá sem fara gangandi og sofa í tjöldum eða svefnpokaplássi, þ.e. fátæka fólkið.

Höfundur greinargerðarinnar vitnar í einhvern einn erlendan fræðimann og telur sig sanna með því að hrun tekna í hálendisferðum vofi yfir ef hinum almenna ferðamanni, þar á meðal hinum almenna Íslendingi, sé gert kleift að ferðast með góðu móti um hálendið. Þar segir t.d. orðrétt, með leyfi forseta:

,,Aukin uppbygging virkar fráhrindandi á hina ævintýragjörnu ferðamenn en trekkir að hópferðamennina. Ferðir á staðinn eru dýrar og aðeins efnameiri geta leyft sér að ferðast þangað. En ferðamönnum heldur kannski áfram að fjölga og loks fara ferðaskrifstofur að selja alferðir á staðinn og þá hefur efnaminna fólk líka kost á að komast þangað.``

Það er alveg skelfilegt, virðulegi forseti, ef menn ætla að skipuleggja ferðaþjónustuna á hálendinu þannig að efna\-minna fólkið geti líka komist þangað. Það er alveg skelfilegt. Það er að sjálfsögðu ekki í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar eða hvað, að efnalitlir Íslendingar geti farið og ferðast um á hálendi landsins? Það eiga bara að vera forréttindi hinna ríku. Þannig á að nýta hálendi landsins til ferðaþjónustu, að bara ríkt fólk sem eyðir miklum peningum eigi gott með að fara þar um.

Það væri nú ansi gaman að heyra í henni Sigurjónu, þ.e. hæstv. samgrh., ráðherra ferðamála, hvort að hann sé sammála þeirri meginstefnumörkun sem verið er að gera um nýtingu hálendisins, þ.e. að það skuli vera yfirlýst að það eigi að koma að mestu í veg fyrir að efnaminna fólk geti ferðast um miðhálendið.

Virðulegi forseti. Ég hef þegar talað hérna nokkuð langt mál um þær hugmyndir sem uppi eru um hvernig menn ætla sér að nýta sameiginlegar auðlindir Íslendinga, náttúru miðhálendisins og þá orku sem þar er að finna og það aðdráttarafl sem þetta stóra landsvæði, 40% af öllu Íslandi, hefur á ferðamenn, innlenda sem erlenda. Ég er að benda á hvernig þeir sem eiga að fá valdið til stjórnsýslu á þessu hálendi, ætla að nýta vald sitt. Hvernig þeir ætla að haga umgengnisrétti almennings að miðhálendinu. Hvernig þeir ætlast til að þjóðin nýti auðlindir sem hún á sameiginlega á miðhálendinu. Ég er að draga þetta fram, virðulegi forseti, til að mönnum sé alveg ljóst til hvers refirnir eru skornir. Hvað það er sem hinn íhaldssami stjórnarmeirihluti sem lifir í fortíðinni ætlast til að gert sé við þá auðlind sem þjóðin á enn saman en mun ekki eiga lengi saman ef svo fer fram sem horfir?

Þegar lögin um stjórn fiskveiða voru ákveðin var sagt í 1. gr. þeirra, með leyfi forseta:

,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.``

Síðan var þessi sameign tekin og afnotarétturinn af henni gefinn nokkrum einstaklingum og fyrirtækjum sem síðan hafa verslað með þessa auðlind sín á milli fyrir ævintýralegar fjárhæðir. Nú á að leika þennan leik aftur með allar auðlindir sem þessi þjóð á á þurrlendinu. Hér á að afgreiða frv. um þjóðlendur þar sem sagt er alveg eins og í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða: ,,Þjóðin á þennan auð saman.`` Síðan á að taka sig til og afhenda forræðið á þessari sameiginlegu auðlind til örfárra einstaklinga til að taka ákvörðun um hvernig hún skuli nýtt. Og hvernig ætla þessir aðilar að nýta þessa sameiginlegu auðlind? Því hef ég gert grein fyrir með því að vitna í tillögur sem þeir hafa gert um svæðisskipulag á hálendinu þar sem kemur fram stefnumörkun um það hvernig þessa sameign skuli nýta.

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði í dag, að þeir eru ekki margir sem hafa nennu í sér til að hlusta á langar ræður. En það er mjög slæmt því erfitt er að gera grein fyrir hvaða mál er hér á ferðinni nema í nokkuð ítarlegu máli. En hitt fer ekki fram hjá neinum að sú ákvörðun okkar jafnaðarmanna að ræða þetta mál eins og við höfum gert, efnislega og ítarlega án nokkurra málalenginga, hefur orðið til þess að stöðugt fleiri eru að vakna til vitundar um hvaða framtíðarhagsmunum hér er verið að fórna.

Ég vil því ljúka þessari ræðu minni með því sem ég sagði í upphafi hennar. Ég er sannfærður um það að ef þetta fer svona fram þá verða umræðurnar manna á meðal eftir tíu ár ekki umræður um hvernig farið var með fiskimiðin eins og sérhverjir tveir Íslendingar sem hittast á förnum vegi ræða um í dag fyrr eða síðar í sínu spjalli, heldur verður umræðan enn frekar um það hvernig allar hinar auðlindir landsins, sameiginleg eign þjóðarinnar, voru teknar og seldar eða gefnar örfáum Íslendingum til ráðastöfunar eins og hér er verið að gera.