Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 12:10:47 (6309)

1998-05-08 12:10:47# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, Frsm. minni hluta RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[12:10]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafna því að í þessari umræðu eigi við að tala um áratuga skipulagsleysi, það er enginn að mæla því bót. Það er ekki rétt, ef hv. þm. er að gefa það til kynna, að við viljum hafa eitthvað slíkt reiðuleysi. Ég hef skýrt frá því í þessari umræðu og farið yfir það hvernig við höfum flutt tillögur um þessi mál, skipulag og stjórnsýslu á miðhálendinu, frá 1971.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, eru fáir með jafnmikla þekkingu og þingmenn jafnaðarmanna á sveitarstjórnarmálum og skipulags- og stjórnsýslumálum. Það hefur komið mjög vel fram í þessari umræðu. Jafnaðarmenn hafa tryggt sveitarstjórnarstigið sem stjórnsýslustig og það fer illa á því að þingmaðurinn reyni að gefa eitthvað annað til kynna.

Við viljum að þarna verði tekið á málum. Við viljum að miðhálendið verði skipulagt með þarfir allra í huga. Við viljum að allir finni að þeir eigi þarna sinn rétt. Við viljum að gengið verði frá því, hvað séu ferðasvæði, hvað séu friðuð svæði, hvað eigi að virkja o.s.frv. Við viljum koma í veg fyrir það að þegar einhver ætlar að fara um landið þá komi hann að hliði eða skika þar sem skrifað stendur: Hér ræð ég og hér fer enginn um.