Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 13:48:39 (6386)

1998-05-09 13:48:39# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[13:48]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson lýsir yfir eindregnum stuðningi við þjóðlendufrv. eins og ég held að flestir hafi gert fram að þessu. En hann hefur skipað sér á bekk með þeim sem hafa reynt að gera sveitarstjórnarfrv. tortryggilegt með öllum ráðum og tekist bærilega þannig að mikil gjá er að myndast á milli ákveðinna hópa í því máli. Munurinn á þessum tveimur frumvörpum er í mínum huga ekki svo ýkjamikill ef maður ætti að líta á röksemdir t.d. fyrir þessu andófi hv. þm. Sveitarstjórnarlagafrv. og breytingarnar á skipulagslögunum gera ráð fyrir því að mjög margir komi að bæði stjórnun og skipulagi þessa svæðis á meðan þjóðlendufrv. gerir ráð fyrir því að aðeins einn aðili fari með nánast allt landeigendavald miðhálendisins. Það er gríðarlega mikið vald.

Ég ætla að spyrja hv. þm.: Hvað er það sem gerir þennan mun svo mikinn að hann getur stutt þetta frv.? Það er ekki að ég hygg eitthvert vantraust á sveitarfélögin. Eða er það vantraust á sveitarfélögin sem veldur því að hv. þm. getur ekki sætt sig við sveitarstjórnarfrv. eins og það er? Mér finnst hv. þm. einmitt vera að reyna að segja að hann vilji sátt og að allir eigi að vera vinir og koma að miðhálendinu með sem minnstum asa. En aftur á móti hefur þótt sérstök ástæða til þess að valda tortryggni um eitt frv. er varðar þetta mál. Það tel ég að hafi skemmt verulega fyrir umræðunni.