Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 15:08:33 (6400)

1998-05-09 15:08:33# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[15:08]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hyggst ekki hafa mörg orð um þetta frv., ég hafði ekki endilega ætlað mér að taka til máls vegna þess að ég er stuðningsmaður þessa máls og í aðalatriðum sammála þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram og sérstaklega því sem fram kom í máli hv. 12. þm. Reykv., Bryndísar Hlöðversdóttur sem talaði fyrr í umræðunni, fulltrúi Alþb. og óháðra í hv. þingnefnd.

Ég held að enginn vafi sé á því og það hefur reyndar lengi verið vitað að þörf væri á að reyna að ganga frá álitamálum hér á landi sem tengdust eignarmörkum, lögsögumörkum og öðru slíku þegar inn til landsins og upp á hálendið kæmi. Þetta er viðfangsefni sem aðrar þjóðir hafa glímt við á undangengnum áratugum og jafnvel öldum og er víða um garð gengið ef svo má að orði komast eða hefur að mestu leyti verið gert upp og er þá nærtækt að líta t.d. til Noregs, Svíþjóðar og fleiri nálægra landa í þeim efnum. En þessir hlutir hafa allir tekið sinn tíma hér og það er út af fyrir sig umhugsunarefni að fyrsta löggjöfin sem af hálfu löggjafans tekur af skarið í þessum efnum skuli vera til umfjöllunar nú á því herrans ári 1998 rétt áður en öldin kveður. En betra er seint en aldrei og ég lýsi því yfir að mér finnst sá andi sem hér er á ferðum og sú nálgun sem frv. byggir á vera skynsamleg. Það hefur verið lengi baráttumál okkar þingmanna Alþb. að ganga frá með skýrum hætti í löggjöf sameign þjóðarinnar á sameiginlegum eignum hennar sem við teljum að eigi að vera, sem eru mikilvægustu auðlindir í hafi og á landi og undir landi og land sem er ekki sannanlega í einkaeign einstaklinga eða annarra aðila.

Það er að sjálfsögðu fyrirkomulagsatriði burt séð frá skiptum skoðunum sem kunna að vera uppi um eignarhaldið sjálft hvernig því er fyrir komið. Það sem við köllum þjóðareign, sameign, almenning eða hvað það nú heitir, það má að sjálfsögðu hugsa sér að gæslumaður eða gæsluaðilar þess fyrir hönd þjóðarinnar væru ýmsir.

Eitt fyrirkomulagið er það sem hér er lagt til að forsrn. eða forsrh. fari með þetta hlutverk og það getur að mínu mati vel gengið upp --- ég verð að vísu að játa að ég hef velt því svolítið fyrir mér hvort það væri að öllu leyti heppileg þróun sem mér sýnist vera á býsna miklu skriði að forsrn. verði einhvers konar safnkista ef svo má að orði komast fyrir ýmis verkefni framkvæmdalegs eðlils sem menn einhvern veginn átta sig ekki almennilega á hvar þeir ættu að koma fyrir annars staðar. Ég vísa t.d. til þess að hér í þinginu er að þvælast frv. um eftirlitsstofnun hins opinbera, eftirlitsstofnun sem á að hafa eftirlit með eftirlitinu og þetta á að vista í forsrn. Forsrn. hefur verið að taka undir sig eða til sín starfsemi sem ekki hefur verið þar áður.

Hér er að koma í lögum mikilsvert hlutverk vissulega sem forsrh. eða forsrn. á að fara með sem eigandi í raun og veru eða handhafi eignar fyrir hönd þjóðarinnar á þjóðlendunum en hér er líka að koma talsvert framkvæmdarvaldshlutverk sem færist undir forsrn. Þá á ég við bæði samstarfsnefndina sem á að starfa á vegum hæstv. forsrh., ég á við óbyggðanefndina og í raun og veru stofnunina sem mér sýnist nokkuð augljóst að sú nefnd muni verða. Ég spái því að ekki verði mörg ár þangað til þar verður risin upp þó nokkuð stór stofnun eða stjórnardeild undir forsrn., enda segir í 6. gr. að nefndinni skuli heimilt að ráða sér starfsfólk að höfðu samráði við forsrh. og sama gildi um skrifstofuaðstöðu fyrir hana. Það þarf ekki mikla spádómsgáfu finnst mér til að láta sér detta það í hug a.m.k. að þetta verði orðin nokkurra manna batterí áður en mörg ár verða liðin.

Þá eru efasemdir mínar að þessu leyti fyrst og fremst þær, herra forseti, hvort það sé almennt jákvæð þróun að forsrn., þar sem höfuð ríkisstjórnar ræður húsum á hverjum tíma, dragist meira og meira inn í einhvers konar framkvæmdarvalds- og stjórnsýsluframkvæmdir að þessu leyti. Ég held að að mörgu leyti sé miklu heppilegra að forsrn. sé fámenn yfirstjórn og forusta fyrir ríkisstjórn, fyrst og fremst pólitísk forusta en ekki eitt af tíu til tólf framkvæmdaráðuneytum ef svo má að orði komast. Ég held að það geti orðið dálítið erfitt að stoppa sig af, spyrna við fótum ef menn leysa alltaf þau mál sem upp koma með þessum hætti að það sé þá best að þetta eða hitt sé hjá forsrn. af því að ekki sé alveg augljóst hvort það ætti að vera hjá fjmrn. eða umhvrn. eða einhvers staðar annars staðar.

[15:15]

Auðvitað er hægt að hugsa sér að fyrir hönd þjóðarinnar sé gæsluaðilinn í þessu tilviki einhver annar, t.d. Alþingi. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum heyrir undir Alþingi. Það hefði verið hægt að hugsa sér að hann væri hjá forsrn. Sumir hafa jafnvel verið svo hugmyndaríkir að láta sér detta í hug að þetta ætti að heyra undir forseta Íslands og það væri þá í skyldleika við það að slíkt var hjá kónginum fyrr á öldum.

Jafnframt er hægt að hugsa sér, herra forseti, að sameiginlegar lendur þjóðarinnar og forræði fyrir sameiginlegum auðlindum eða öðru slíku væru hjá algerlega sérstakri og sjálfstæðri stofnun og helstu valdaaðilar samfélagsins stæðu sameiginlega stjórn hennar, að t.d. væri búin út einhver algerlega sjálfstæð og óháð staða stofnunar, nefndar eða stjórnar sem færi með þetta hlutverki. Þetta eru að sjálfsögðu fyrirkomulagsatriði, herra forseti, og vangaveltur sem ég ætla ekki að fara lengra út í hér en gæti auðvitað haft um mörg orð.

Ég fagna því að sameign þjóðarinnar er að festast í sessi og treyst, það sem við þingmenn Alþb. höfum lengi barist fyrir að ætti að vera. Hv. þm. Ragnar Arnalds hefur ítrekað verið nefndur hér til sögunnar sem brautryðjandi í þeim efnum. Hann hefur flutt um það tillögur, m.a. í formi frumvarpa til breytinga á stjórnarskipunarlögum, að slík sameignarákvæði ættu að koma inn í stjórnarskrá og landslög.

Ég, herra forseti, út af fyrir mig væri alveg tilbúinn til að ganga miklu lengra í þessum efnum. Menn hafa auðvitað, sem ekki er óeðlilegt, velt aðeins fyrir sér mismunandi viðhorfum og grundvallarsjónarmiðum manna til eignarréttarins í tengslum við þessar umræður. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort æskilegasta og réttlátasta fyrirkomulagið í þessum efnum væri ekki að enginn gæti átt land. Að land væri eitt af þeim fyrirbærum í samfélagi mannanna sem enginn gæti átt, land væri alltaf í eðli sínu einskis manns land eða sameign allra. Það sem menn gætu hins vegar átt eða haft undir höndum væri afnotaréttur og búseturéttur. Eftir atvikum hefði sá réttur í raun sama gildi og eignarréttur að langmestu leyti en grundvallarreglan væri sú að landið væri sameign þjóðarinnar eins og hafið er sameign þjóðarinnar.

Engum dettur í hug, held ég, að afmarka úti á hafi, einhvers staðar úti í efnahagslögsöguinni, reiti sem einhverjir gætu átt. Nú er það ekkert vandamál, allra síst með tækni nútímans, með gervihnattastaðsetningum og öðru slíku. Hægt væri að draga þar upp reiti sem menn gætu alveg eins átt eins og land og stundað síðan fiskveiðar eða einhverja aðra starfsemi innan sinna reita á hafinu. Mönnum þykir þetta væntanlega nokkuð fjarstæðukennd og fáránleg hugsun. En þá má spyrja á móti: Er ekki alveg jafnfáránlegt að skipta landi í þjóðareign upp í einkaeignarréttarspildur? Er það ekki? Ég hef alla tíð, síðan ég kynntist því hvernig þessum hlutum er háttað á Grænlandi, verið ákaflega hrifinn af því fyrirkomulagi. Á Grænlandi á enginn land. Það á enginn lóð undir húsi sem slíka. Menn hafa rétt til þess að byggja hús sitt á tiltekinni spildu og láta það standa í tiltekinn tíma en þeir eiga í sjálfu sér ekki landið undir því.

Þetta finnst mér alltaf ákaflega falleg hugsun og mun geðþekkari en einkaeignarréttarhugsunin sem fram hefur náð að ganga í mjög mörgum vestrænum samfélögum. Víða annars staðar er inngróið í menningu þjóða að enginn geti átt land. Þannig held ég að yfirleitt hafi verið í fornari þjóðfélögum og menningarsamfélögum eins og hjá frumbyggjum, t.d. Ástralíu eða sunnanverðrar Afríku. Þar þekktu menn ekki þetta hugtak, einkaeignarréttinn, og mönnum gekk lengi vel illa að skilja hvað Vesturlandabúar voru að fara þegar þeir lögðu fyrst leið sína þangað að helga sér spildur á landinu og girða þær af.

Í öðru lagi, herra forseti, finnst mér ástæða til að staldra við spurninguna um það hversu víðtækt vald hæstv. forsrh. eigi að hafa einn í sambandi við þetta mál, verði niðurstaðan sú að fela honum þetta gæslumanns- eða vörsluhlutverk eins og frv. gerir ráð fyrir. Þó forsrh. verði vörsluaðili eða gæsluaðili er eftir sem áður engin nauðsyn á því að hann fari nánast með ægivald í málinu.

Ég hefði vel getað hugsað mér að þannig væri gengið frá, t.d. í 4. gr., 6. gr. og í öllum þeim kafla sem fjallar um óbyggðanefndina, að um þessa hluti væri víðtækara samstarf en frv. gerir ráð fyrir. Fleiri aðilar mættu koma til sögunnar og jafnvel í öðrum hlutföllum en þar er lagt upp. Ég verð t.d. að segja að mér finnst þessi samstarfsnefnd um málefni þjóðlendnanna ekkert sérstaklega lýðræðislegt fyrirbæri í eðli sínu. Hún er að miklum meiri hluta skipuð fulltrúum pólitískra ráðherra í Reykjavík og síðan koma tveir fulltrúar frá Sambandi sveitarfélaga. Þarna væri hægt að hugsa sér miklu breiðari og lýðræðislegar samansettan vettvang en frv. gerir ráð fyrir.

Sveitarstjórnirnar hljóta eðli málsins samkvæmt að þurfa að koma að þessu máli og reyndar gerir frv. í ýmsum tilvikum ráð fyrir því samstarfi milli forsrh. og starfsmanna hans og sveitarfélaganna.

Þá langar mig, herra forseti, að fara nokkrum orðum um spurningar sem vakna í tengslum við nýtingu á hálendinu sem hér hefur sérstaklega verið rædd. Þær umræður hafa auðvitað gjarnan blandast efni annarra frumvarpa sem hér hafa verið nokkuð til umræðu, svo vægt sé til orða tekið, undanfarna daga eða vikur. Hér áðan voru orðaskipti þar sem a.m.k. tveir hv. þm. úttöluðu sig nokkuð kröftuglega um ástand mála á hálendinu, um uppblástur og fleiri vandamál. Ég er að vísa til þess sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og Ólafur Örn Haraldsson, 11. þm. Reykv. sögðu.

Ég er að sjálfsögðu þeirrar skoðunar, eins og ég held að menn séu flestir, að landeyðing og uppblástur hafi verið mikið vandamál á Íslandi. Landið er sárt leikið eftir 11 alda búsetu en þó ekki er það síður vegna samspils nýtingarþátta, veðurfars, jarðfræði og annars slíks sem hér kemur til sögunnar. Það skiptir ekki öllu máli í því sambandi hvort menn trúi Ara fróða sem nýju neti, þegar hann lýsir því hvernig landkostir hafi verið hér um landnám eða hvort menn fari bil beggja. Það er enginn vafi á því að gróðri hefur hrakað verulega og jarðvegur hefur fokið af stórum svæðum. Það má deila um á hvaða tímabilum búsetunnar þetta hefur aðallega gerst. Það má líka deila um og velta fyrir sér að hve miklu leyti þetta hefði hvort sem er gerst, þó svo engin búseta hefði verið í landinu.

Ég held því fram fullum fetum að það séu auðvitað yfirgnæfandi líkur á því að stór gróðursvæði hefðu tapast vegna kólandi loftslags á Íslandi á fyrstu öldum eftir landnámið hvort sem hér hefði verið nokkur búseta eða ekki. Hins vegar verð ég að segja að ég get ekki tekið undir þær lýsingar sem fram komu, t.d. í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, um stöðuna á sjálfu miðhálendinu. Ég tek ekki undir að það sé á sjálfu miðhálendinu sem aðaluppblástursvandamálin og ofbeitin séu. Þetta lýsir í raun og veru engu öðru en vanþekkingu á málunum. Fyrir það fyrsta eru beitarafnot, þegar kemur inn á sjálft miðhálendið, ákaflega takmörkuð. Þangað slæðast örfáar skepnur á ári hverju og eru sóttar sérstaklega, liggur mér við að segja.

Í öðru lagi er það þannig að þegar kemur upp á sjálfa hásléttuna og inn á miðhálendið í 600--800 metra hæð yfir sjó, þá eru gróðurskilyrði ákaflega takmörkuð og möguleikarnir á því að gróðurþekja sé á landinu eru mjög litlir. Það væri gaman fyrir menn t.d. að kynna sér það hvernig gengið hefur að halda við túnblettinum undir tjaldstæði í Nýjadal á Sprengisandi, þrátt fyrir áburðargjöf og allar kúnstir til að reyna að halda þar grastorfu. Það og fleiri slíkar tilraunir hafa sýnt að þegar upp í þessa hæð er komið og sumarið er aðeins í nokkrar vikur, þá eru skilyrðin ósköp einfaldlega þannig að gróður á afar erfitt uppdráttar.

Vandamálin liggja annars staðar. Þau liggja miklu nær byggðu bóli en þetta. Þau eru t.d. í hálendisjaðrinum á norðaustanverðu landinu og sunnanverðu landinu. Þau eru fyrst og fremst á ákveðnu belti sem gengur þvert í gegnum landið frá suðvestri til norðausturs. Þau svæði tengist einnig eldgosabeltinu og þeirri jörð sem þar er undir.

Ég get heldur ekki tekið undir það að innstæður séu fyrir þeirri fullyrðingu sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafði eftir einhverjum erlendum vísindamönnum, að á Íslandi sé einhver mesta eyðimerkurmyndun í heimi. Ég held að þetta sé tómt kjaftæði. Stundum hefur verið talað um það að miðhálendið á Íslandi væri stærsta eyðisvæðið í Evrópu. Kannski má færa rök fyrir því en þar sé eyðimerkurmyndun í þeim skilningi að gróður sé að eyðast af landsvæðum á Íslandi þannig að hvergi í heiminum sé annað eins að gerast, það er fjarstæða. Það er enginn vafi á því að jaðrar eyðimarka í Afríku, Asíu og víðar, leggja undir sig miklu stærri gróðursvæði en þau sem eru að tapast hér á landi ef þá um raunverulegt tap á gróðurlendum er lengur að ræða. Um það má deila.

Jafnvel þó menn litu á þetta í sögulegu samhengi og tækju stærð þess gróðurlendis sem hugsanlega, samkvæmt Ara fróða, hefur tapast frá landnámi, þá eru þar ekki, einfaldlega vegna stærðar Íslands, á ferðinni nokkuð af þeirri stærðargráðu að það geti talist mikið í alheimssamhengi.

Sömuleiðis verð ég að segja alveg eins og er, að mér fundust æsingaræðuhöld hv. þm. Sighvats Björgvinssonar um átökin, um hið blóðuga stríð sem geisaði milli bænda og þeirra sem nýta landið annars vegar og hinna sem væru að reyna að græða það upp, alger tímaskekkja. Þessi ræða var alger tímaskekkja, a.m.k. 15 árum of seint flutt. Ég veit ekki hvar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur haldið sig undanfarin 5--10 ár. Ég kannast ekki við þessi átök og þetta blóðuga stríð milli Landgræðslunnar og bænda í landinu.

Í yfirgnæfandi meiri hluta tilfella er mjög gott samstarf þar sem ég þekki til, þannig að bændur vítt og breitt í landinu eru að verða einhverjir öflugustu samstarfsaðilar Landgræðslunnar um uppgræðslu í heilu landshlutunum. Það færist árlega í vöxt að bændur séu beinir verktakar og samstarfsmenn Landgræðslunnar í uppgræðslustarfi auk þess mikla uppgræðslustarfs sem þeir stunda sjálfir. Það væri fróðlegt fyrir menn að fara yfir það að langstærstu uppgræðslumenn í landinu í dag eru auðvitað bændur sjálfir sem í sívaxandi mæli sinna miklu uppgræðslu- og landbótastarfi á sínum jörðum. Það er auðvitað eðlilegt, það er gott og það er vel. Það er mjög algengt að um sé að ræða samstarf bænda og Landgræðslunnar þannig að Landgræðslan leggi að einhverju leyti til áburð, fræ og efnivið en bændur annist síðan sjálfir að dreifa því, um girðingar og annað því um líkt.

Sömuleiðis held ég að það sé alger forneskja og eigi sér ekki neina stoð í veruleikanum að í miklum mæli sé um að ræða átök sem stafi af því að bændur krefjist þess að fá að beita uppgræðslusvæði Landgræðslunnar. Til hvaða dæma er hv. þm. Sighvatur Björgvinsson að vísa? Þau eru ekki mörg frá undangengum árum. Ég þykist þekkja þetta svona sæmilega, var yfirmaður Landgræðslunnar um langt skeið. Ég veit ekki betur en að í yfirgnæfandi meiri hluta tilfella, nánast án undantekninga, fari allt uppgræðslustarf Landgræðslunnar fram innan girðinga og á friðuðum svæðum. Það fyrsta sem menn gera er að friða svæðin þannig að ekki sé um neinar deilur að ræða af þeim ósköp einföldu ástæðum.

[15:30]

Hvað var gert á Hólsfjöllum áður en sú áætlun sem þar er nú í gangi fór af stað? Það var samið við bændur um breytingar á búskaparháttum og svæðið var friðað. Það er aðeins til, eða a.m.k. hafa verið til dæmi um það, að Landgræðslan hafi borið á beitarland í samstarfi við bændur til þess að létta beit af nálægum svæðum sem hafa síður verið talin þola beitarálag. Ég veit að dæmi um þetta hafa stundum valdið miklum misskilningi þegar menn hafa séð að fé er á beit á ábornum reitum hérna rétt ofan við Reykjavík. Þá spyrja menn hvað sé að gerast, hvort bölvaðir rollukarlarnir séu farnir að beita þarna í trássi við vilja Landgræðslunnar. En staðreynd málsins er sú að þarna er um samstarf að ræða þar sem borið er á ákveðin svæði til þess að auka gróður og beitarþol þeirra og hlífa í staðinn öðrum sem nærlæg eru. Ég held því að menn verði að leggja það á sig, jafnvel þó að þeir hafi mikið um þessa hluti að segja og þykist eiga glæsilegan feril í þessum efnum eins og greinilega kom fram í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar --- hann taldi sig mikinn sigurvegara í þessu efni og raunar geta talað eins og sá sem valdið hefur --- og það fríar menn ekki undan þeirri skyldu, að reyna að hafa sæmilegt vit á því sem þeir eru að ræða um og fara ekki með tómt fleipur. Þetta var meira og minna fleipur, leyfi ég mér að fullyrða, sem hv. þm. hélt fram um samskipti Landgræðslunnar og uppgræðslu fólks annars vegar og bænda og landnýtingar af því tagi hins vegar.

Staðreyndin er auðvitað sú að það hefur orðið gjörbreyting á því álagi sem er á gróðurlandi á Íslandi vegna hefðbundins búskapar, gjörbreyting. Álagið vegna hefðbundins búskapar á afréttarlönd er svipur hjá sjón. Það er brot af því sem það var þegar búpeningurinn var miklu meiri en hann nú er og þegar búskaparhættirnir voru allt aðrir. Sauðfé hefur fyrir það fyrsta fækkað um helming. Núna er á milli 450 og 500 þús. fjár í landinu en var á tíunda hundrað þúsund þegar mest var undir lok 8. áratugarins. En það er ekki bara það sem hefur breyst heldur hafa eins og ég segi búskaparhættirnir gjörbreyst. Vetrarbeit heyrir nánast sögunni til, en það var vetrarbeitin sem fór oft mjög illa með landið sem þá var nýtt og heyfengur og fóðuröflun er allt önnur en áður var þannig að það heyrir sögunni til að sauðfé sé illa fram gengið eða búsmali yfirleitt og að því sé haldið til beitar af þeirri hörku sem auðvitað auðkenndi nauðþurftarbúskap manna hér á fyrri áratugum og öldum.

Til að mynda leikur enginn vafi á því að af þessum sökum eru heimalönd mjög víða í mjög mikilli framför. Vegna þess að þeim er nú hlíft við því mikla álagi sem áður fylgdi vetrarbeitinni. Það sem helst veldur áhyggjum í þessu efni, það er að vísu rétt, er stóraukin hrossaeign landsmanna. En þar er ekki um að ræða vandamál sem tengist beit á hálendinu, ég tala nú ekki um á miðhálendinu. Ég þekki enga sem sleppa hestum sínum á Sprengisand til sumarbeitar. Það getur verið að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kannist við einhverja hrossaeigendur sem eigi hross í högum á Sprengisandi en ég hef ekki rekist á þá. Það fara kannski nokkrir leiðangrar yfir sandinn á hverju sumri en þá fara menn yfirleitt með fóður með sér af skiljanlegum ástæðum. Það vandamál snýr allt öðruvísi. Það vandamál er fyrst og fremst í heimahögum. Það vandamál er langmest hér á suðsvesturhorni landsins. (Gripið fram í: Er ekki búið að stela landinu?) Það er hjá þeim sem taka hross í hagagöngu í Borgarfirði, á Mýrum og á Suðurlandsundirlendinu þar sem langmestar ástæður eru til að hafa áhyggjur. Ég veit að að hefur hent einhverja fleiri en ræðumann að keyra vestur Mýrar t.d. og sjá svo illilega nöguð hólf á báðar hendur við veginn þar að manni bregður í brún. Svipað má því miður sjá víðar á þessu svæði og kannski einangrað annars staðar þar sem hrossaeign er mikil eins og t.d. í Skagafirði.

Ég held því fram, herra forseti, að menn geri þessu máli ekki endilega mikið gagn með því að draga þessa þætti inn í eins og þeir gerðu, hv. þingmenn Sighvatur Björgvinsson og Ólafur Örn Haraldsson. En úr því að þeir gerðu það fannst mér alveg ástæðulaust að láta þennan einhliða málflutning sitja eftir þessa umræðu. Ég tek það skýrt fram að ég tel mig ekki vera síðri náttúruverndarsinna eða unnanda landsins en þessa hv. þingmenn eða þess vegna einhverja aðra. Ég hef lagt mig eftir því að reyna að styðja umhverfisvernd, skógrækt og landgræðslu í minni pólitík ekkert síður en aðrir. En ég tel að það eigi að reyna að gera það á skynsamlegum og uppbyggilegum nótum og það er orðin alger tímaskekkja í dag að setja þá hluti upp sem einhverja styrjöld milli landbúnaðarins og bænda annars vegar og þeirra sem vilja vernda eða græða upp landið hins vegar. Það er tímaskekkja. Í raun og veru er slíkur málflutningur til óþurftar. Menn ættu frekar að sameinast um að setja einhverja almennilega peninga í þessi verkefni því að svo merkilegt sem það er eru þetta hreinir smáaurar þrátt fyrir allt talið því miður sem lagðir eru í raunverulegt landbótastarf enn sem komið er. Og það er svo, þótt það sé í sjálfu sér góðra gjalda vert, að það er nú að býsna miklu leyti rekið fyrir frjáls framlög félagasamtaka, fyrirtækja og slíka aðila. Auðvitað ætti ríkið að leggja sitt af mörkum á myndarlegan hátt.

Að lokum, herra forseti, er það mín skoðun að þetta sé líka tímaskekkja í málflutningi vegna þess að enginn vafi leikur á því að árekstrarnir um landnýtingu á Íslandi og þá ekki síst á hálendinu á komandi árum og áratugum verða ekki fyrst og fremst við landbúnaðinn. Það er algerlega víkjandi vandamál í mínum huga. Árekstrarnir verða milli umhverfisverndar- og náttúruverndarsjónarmiða og annars konar nýtingar. Það er alveg borðliggjandi enda ef menn fara yfir það í huganum hverju átök hafa helst tengst á undanförnum missirum, þá eru það ekki slík mál nema í algerlega einangruðum og afmörkuðum tilvikum. Nei, það verða árekstrar. Kannski munu stórárrekstrar og stórátök koma til með að geisa á komandi árum við þá sem vilja sökkva miðhálendinu meira og minna undir vatn og þar á meðal mörgum helstu gróðurvinjum og perlum inni á hálendinu, þeirra sem vilja fara þar út í alls konar mannvirkjagerð, rista stærsta ósnortna svæði Evrópu, Ódáðahraun, sundur með vegum og raflínum, drekkja mörgum af fallegustu gróðurvinjunum á norðausturhálendinu, reisa alls konar mannvirki til að græða á ferðamönnum inni á miðhálendinu o.s.frv. Þarna verða árekstranir en ekki við hinn hefðbundna landbúnað. Ég held að engin hætta sé á því. Þau mál hafa sem betur fer færst til miklu betri vegar á síðari árum og það eru að verða algerlega einangruð og tiltölulega fá tilvik sem betur fer þar sem umtalsverðar deilur eru á milli þessara aðila.

Þetta ættu menn líka að hafa í huga, þ.e. hverjir eru helstu hvatamenn að nýtingu af þessu tagi sem líkleg er til að valda árekstrum og átökum, stóriðjuuppbyggingu, stórvirkjunum og öðru slíku. Það eru ekki bændur. Það eru ekki þessi margnefndu 4% þjóðarinnar sem hér er búið að gera tortryggileg á allan mögulegan hátt í málflutningi á undanförnum dögum. Það eru ekki þau. Ætli það séu ekki einhverjir aðrir sem standa jafnvel sumum ræðumönnum nær en þessi 4%.

Þetta frv., herra forseti, er þó tvímælalaust jákvætt að því leyti til að það á að geta orðið liður í því að ná betri sátt um þessi mál en verið hefur. Ég held að ef hægt sé að lýsa sérstökum vonbrigðum með eitthvað í umræðunum eins og þær hafa þróast á undanförnum dögum um hálendismálin --- er ég þá bæði að vísa til frv. til sveitarstjórnarlaga og þeirra ákvæða í því sem tengdust skipulagsmálum á hálendinu og svo þessa frv. um þjóðlendur --- þá er það það að menn virðast vera langt frá því að ná nokkru ásættanlegu samkomulagi um fyrirkomulag þessara mála og það er auðvitað mjög slæmt. Þvert á móti má segja að búið sé að kynda undir og kynda upp mikið ósætti í landinu um þessa hluti sem ég tel að vísu vera að verulegu leyti ástæðulaust og hefði mátt komast hjá. En ég er enn þeirrar skoðunar að þetta frv. eigi í sjálfu sér að geta verið jákvætt innlegg því hér er gengið skýrt frá því að með almenningana, óbyggðirnar eða þau svæði sem ekki teljast sannanlega land í einkaeign, skuli farið þannig að þau séu þjóðlendur, settar undir sérstaka stjórn og síðan sé þá eftir atvikum samstarf um nýtinguna og afnotin milli þeirra sem ítök eiga eða takmarkaðan eignar- eða afnotarétt og síðan forsrh. eða vörslumanns sameignarinnar, hver svo sem hann yrði. Ég vísa til þess sem ég sagði áður um það að þar mætti hugsa sér að ganga frá hlutunum með ýmsu öðru móti en því að fela forsrh. þetta verkefni. Segi ég það þó að sjálfsögðu ekki í neinum tengslum við það hver fer með það embætti nú um stundir.