Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 16:06:58 (6402)

1998-05-09 16:06:58# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[16:06]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður reyndi í máli sínu að sýna fram á að þær brtt. sem við í minni hlutanum höfum flutt séu ekki nauðsynlegar. Auðvitað má hv. þm. hafa sínar skoðanir á því en málflutningur hennar styrkti mig fremur í því heldur en hitt að þær væru nauðsynlegar.

Auðvitað er það svo að ef því er haldið fram að fullt tillit eigi að taka til umhverfisverndar og alþjóðlegrar skuldbindingar, þá veldur það tortryggni ef slíkt má ekki vera inni í lögunum. Eins er um málsmeðferðarreglur sem hér eru settar fram. Hv. þm. taldi að þær væru ekki nauðsynlegar því hægt væri að semja um skuldbindingar eða skilyrði hverju sinni en það býður auðvitað upp á geðþóttaákvarðanir ef ekki eru settar málsmeðferðarreglur um stærstu atriði í þessu eins og við höfum lagt til og ég þarf ekki að rifja upp. Annað býður bara upp á ágreining og geðþóttaákvarðanir eins og ég segi.

Varðandi það að ekki þurfi alltaf að hafa útboð eins og fram kemur í b-lið, þá er það út af fyrir sig rétt. En í brtt. stendur að bjóða skuli út nýtingu lands og landsgæða í þjóðlendum þegar ætla má að um verðmæta nýtingarkosti sé að ræða. Hvað er nú sjálfsagðara en að bjóða út þegar um er að ræða verðmæta nýtingarkosti og setja það í lög til að það bjóði þá ekki upp á einhverjar geðþóttaákvarðanir hjá þeim sem með valdið eiga að fara í þessu efni.

Auðvitað er ekki hægt að mæla fyrir um alla skapaða hluti í lögum. En, herra forseti, stærstu atriðin að því er þetta frv. varðar er nauðsynlegt að setja í lög.

Það veldur mér vissulega vonbrigðum að mér fannst hv. þm. hafna því að taka til skoðunar milli 2. og 3. umr. það sem fram kemur í brtt. okkar við 5. gr. og snertir beitarfriðunina, þ.e. að það þurfi að sækja um leyfi til umhverfisráðherra fyrir áframhaldandi nýtingu og að mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar nýtingar eigi fara fram. Ég tel þetta afar brýnt mál og það sem hv. þm. færði fram máli sínu til stuðnings tel ég hvergi nærri duga þó að hv. þm. hafi aðrar skoðanir á því.

Varðandi það sem hv. þm. nefndi að hún skildi ekki 4. brtt. um að dómsmrh. ætti að skipa nefndarmenn í stað forsrh. í óbyggðanefndinni og að óljóst væri að hvaða marki þessi brtt. stefni. Hún er alveg augljós. Við margfórum yfir það í umræðum fyrr í dag að okkur finnst vald forsrh. óhugnanlega mikið við framkvæmd þessara laga. Ekki síst er það, eins og margkom fram í mínu máli, varðandi ákvörðun um gjaldtökuna og ráðstöfun á henni. Ég bara ítreka það, herra forseti, að mér finnst Alþingi í þessu máli framselja allt of mikið vald. Það verð ég að segja.

Ég óska eftir því að hv. þm. og formaður allshn. segi þá klárt og kvitt úr ræðustól hvort hún ætli að verða við ósk um að skoða málið milli 2. og 3. umr. Ég held að nauðsynlegt sé að fá að vita það svo að við getum áttað okkur á því hvort það hafi tilgang að fresta atkvæðagreiðslu um þessa brtt.

Vegna þess að hv. þm. nefndi að það hefði verið töluvert rætt í allshn. þá fannst mér það alls ekki vera útrætt af hálfu nefndarmanna hvort hægt væri að ná einhvers konar samkomulagi í þá veru sem við nefnum. Ég er ekki að binda mig, herra forseti, við orðalagið, en ég ítreka þá ósk mína.

Herra forseti. Þetta er búið að vera ansi langt andsvar. Ég hef fengið frið fyrir bjöllu forseta og ég þakka fyrir góðan tíma sem ég fékk í andsvari.

(Forseti (GÁ): Forseti vill taka fram að hann leit á þetta sem ræðu, enda var þetta ræða, og gaf það þannig út.)