Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 16:19:53 (6408)

1998-05-09 16:19:53# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[16:19]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þessi ræða hv. þm. veldur mér vissulega vonbrigðum. Ég get ekki túlkað hana á annan hátt en þann að hv. þm. hafi ekki áhuga á því að stuðla að því eins og hún getur, sem formaður allshn., að viðhlítandi lögum verði breytt til þess að tryggja markmið þessarar brtt.

Þó að allshn. fjalli ekki beint um beitarmálefni, þá er algengt í framsöguræðum formanns nefndar eða í nefndaráliti, eða a.m.k. ekki óalgengt, að beint sé til annarra ráðherra tillögum um breytingu á einhverjum öðrum lögum sem tengjast því viðfangsefni sem nefndin er að ræða. Það er alls ekki óeðlilegt.

Þetta er nýr flötur á málinu og ekki sá flötur sem nefndin hefur rætt áður. Slíkt ætti að setja inn í nefndarálit, eða í þessu tilviki í frhnál., herra forseti. Ég býð það á móti að draga til baka þessa brtt., auðvitað að höfðu samráði við flutningsmenn, og því finnst mér það varla vera hægt hjá formanni nefndarinnar að hafna því að boða til fundar milli 2. og 3. umr. Ég veit að hún hefur ekki haft samráð við aðra nefndarmenn um það hvort þeir gætu fallist á eða tekið undir slíka brtt. Mér finnst hv. þm., þó hún sé formaður nefndarinnar, ekki geta haft það vald að umsvifalaust og án þess að ráðfæra sig við aðra nefndarmenn í allshn. geti hún hafnað þeirri ósk sem hér hefur komið fram um málsmeðferð á mjög þýðingarmiklu atriði, sem margir hafa komið inn á í umræðunni.