Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 15:42:59 (6449)

1998-05-11 15:42:59# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, Frsm. minni hluta GE
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[15:42]

Frsm. minni hluta iðnn. (Gísli S. Einarsson) (frh.):

Herra forseti. Ég var kominn að þeim kafla í ræðu minni sem fjallar um þau atriði sem ég taldi að vantaði inn í frv. hæstv. iðnrh. um jarðhita. Það vantar betri skilgreiningu á eignar- og hagnýtingarrétti jarðhita. Þar sem umfjöllun í frv. ríkisstjórnarinnar um þessa skilgreiningu eignar- og nýtingarréttar jarðhita er mjög takmörkuð þá vitna ég til frv. hv. þm. Sighvats Björgvinssonar og fleiri. Ég tel að með þeirri skilgreiningu og með þeirri umfjöllun, sem hefði mátt vera í þessu frv., hefði náðst meiri sátt, betra samkomulag ef það hefði verið gert. Þá á ég við að í því frv. er skilgreint miklu betur við hvað er átt þegar verið er að tala um jarðhitasvæði. Skilgreint er hvernig jarðhitasvæði skiptist í tvo flokka og á hvern hátt þau jarðhitasvæði skiptast og í frv. er rætt um að háhitasvæðin einkennist af gufuaugum, leirhverum og ummynduðu bergi og lághitasvæðin einkennist af vatnsmiklum laugum og sjóðandi hverum og séu yfirleitt á láglendi. Þetta eru skilgreiningar sem fara kannski saman í báðum frumvörpunum. Það er svo aftur um nýtingarréttinn þar sem greinir mjög alvarlega á milli.

[15:45]

Þess má geta að við boranir á sex háhitasvæðum hefur fundist yfir 200°C hiti á minna en 1.000 metra dýpi og efnarannsóknir á öðrum háhitasvæðum benda til þess að þar megi vænta svipaðs ástands. Það virðist því vera eðlilegt að miða skilgreiningu háhitasvæða við það. Ég tel að það sé ekki gert í því frv. sem við erum að ræða um og tel það mjög miður. Þess vegna er ég að geta um þessi atriði.

Talið er að nýtanlegt varmaafl háhitasvæðanna sé um 90% alls varmaafls jarðhitasvæða landsins og má telja líklegt að háhitasvæðin verði á næstu áratugum fyrst og fremst nýtt til stóriðju, til raforkuvinnslu og hitaveitu í þéttbýli. Ég held að slík nýting sé tæpast á færi einstaklinga heldur í höndum ríkis, sveitarfélaga eða stórra fyrirtækja.

Dreifing háhita- og lághitasvæða er nátengd jarðfræði landsins. Háhitasvæðin finnast eingöngu í gosbeltum sem liggja yfir landið frá suðvestri til norðausturs og eru hluti af jarðsprungu- og gossprungubelti Mið-Atlantshafshryggsins sem liggur eftir Atlantshafinu endilöngu. Lághitasvæðin eru aftur á móti í eldri bergmyndunum utan gosbeltanna. Til að rifja upp hvar helstu, þekktu háhitasvæðin eru má nefna Reykjanes, Eldvörp, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll, Hengil, Geysi og Kerlingafjöll. Ég læt menn um að skilgreina það sjálfa hvar þessi svæði liggja, hvað er á almenningum og hvað gæti verið undir yfirráðum eða einkaeign. Það má nefna Hveravelli, Mýrdalsjökul, Torfajökul, Vonarskarð, Grímsvötn, Köldukvíslarbotna, Kverkfjöll, Öskju og Fremri-Námur, Námafjall, Kröflu og Þeystareyki. Prestahnjúkar eru líkleg svæði.

Auk þess er líklegt að fleiri háhitasvæði finnist innan gosbelta þó ekki hafi enn fundist merki um þau á yfirborði. Jarðfræðilegar aðstæður mæla hins vegar sterklega gegn því að háhitasvæði finnist utan þessara gosbelta. Þetta er mjög nákvæmlega skilgeint og farið yfir í frv. hv. þm. Sighvats Björgvinssonar og hefði átt að vera nánar tiltekið og miklu betur í því frv. sem við erum nú að ræða um.

Á tveimur þekktum háhitasvæðum, Reykjanesi og Svartsengi og líklega Eldvörpum, er djúpvatnið sjór en annars staðar ósalt grunnvatn sem hitnað hefur við djúpa hringrás í jörðu. Hvert háhitasvæði hefur sjálfstætt rennsliskerfi, hugsanlega fleiri en eitt og getur vinnsla á einum stað raskað rennsli á öðrum stöðum í kerfinu. Af þessum sökum er mjög mikilvægt að vinnsla jarðvarma á hverju svæði sé undir yfirstjórn eins aðila. Eins og ég gat um áðan er nauðsynlegt að einhverjir ákveðnir aðilar hafi eftirlit og það séu aðilar sem gefa út leyfi og ákveðið sé á hvern hátt gjaldtaka fari fram og ákveðið sé fyrir fram hvernig það skuli metið. Það vantar inn í umfjöllun um það frv. eins og ég gat um áðan þegar ég fór yfir þær fáu greinar sem ég tók sérstaklega fyrir, eitthvað um 20 greinar, þar sem ég tel að hægt væri að lagfæra og vonast til þess að það verði gert.

Miklu meiri vandi er að ná varma úr háhitasvæði. Það er miklu erfiðara en vinnsla úr lághitasvæði. Vegna gufuþrýstings og mikils magns af uppleystum efnum í háhitavatni krefst virkjun verulega vandaðri, viðameiri borholuútbúnaðar, flóknari tækjabúnaðar og meiri tækniþekkingar. Meðal annars af þeim sökum er nýting varma á háhitasvæðum svo vandasöm að einstaklingar hafa ekki sóst eftir henni. Það hefur helst verið um að ræða nýtingu vatns við jaðra svæðanna svipað og nýting lághitavatns.

Á undanförnum árum hefur verið unnið að áætlun um nýtingu háhitasvæða. Það er einn þröskuldur í vegi slíkra áætlana. Það hefur verið óvissa um umráðarétt á jarðhita sem er unninn með borunum djúpt í jörðu og tilgangur þess frv., sem ég er að vitna til, er að kveða skýrar á um eignarrétt slíks jarðhita en verið hefur. Það er eitt af því sem ég tel, herra forseti, að vanti í það frv. sem við erum að fjalla um að kveða skýrar á um eignarrétt jarðhita á svo miklu dýpi.

Ég tel að setja þurfi skýrari ákvæði um heimild til eignarnáms, á aðstöðu vegna borunar og vinnslu jarðhita á háhitasvæðum og hvernig bætur skuli vera metnar fyrir slíkt. Það eru ekki skýr ákvæði, það er bara vitnað til þess að það er heimild iðnrh. að gera þetta og ákveða og framkvæma. Það höfum við gagnrýnt að vanti kannski.

Að mínu mati er ekki nægjanlega tekið á hvernig eignarréttur einstaklinga er og hvernig honum eru sett takmörk án þess að bætur komi fyrir. En heimild löggjafarvalds til þess að setja eignarréttinum almennar takmarkanir er raunverulega viðurkennd af dómstólum. Þetta eru brot af þeim tilvitnunum sem ég tók úr frv. hv. þm. Sighvats Björgvinssonar og fleiri og sem skilgreina í rauninni miklu betur háhita- og lághitasvæði og nýtingarmöguleika og hvernig á að taka á þeim málum.

Ég boðaði í upphafsræðu minni að ég mundi vitna til nokkurra athugasemda og í þeim athugasemdum sem ég tók af handahófi kemur í ljós að það eru ákaflega mismunandi umsagnir, sumar jákvæðar, aðrar neikvæðar en þær athugasemdir sem ég tel að þurfi að taka enn frekar tillit til eru t.d. athugasemdir Orkustofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Félags landfræðinga, Alþýðusambands Íslands og svo ég nefni eitthvað. Með leyfi forseta, vil ég vitna í umsögn Alþýðusambands Íslands:

,,Alþýðusambandið leggur áherslu á að einkaeignarrétti eða afnotarétti, hvort heldur er að landi eða landsnytjum eða náttúruauðlindum, verður að setja eðlileg mörk. Óeðlilegt er að slíkum rétti fylgi ótakmarkaðar heimildir til nýtingar eða afnota.`` Svo segir enn fremur:

,,Þetta viðhorf hefur raunar ævinlega verið viðurkennt almennt viðmið í íslensku samfélagi. Þannig eru eignarráðum einstaklinga ýmis takmörk sett sem byggja að nokkru leyti á náttúruverndarsjónarmiðum, að nokkru leyti á tilliti til almannahagsmuna og varða skipulega og skynsamlega nýtingu landgæða. Um takmörkun eignarráða á forsendum sem þessum hefur ekki verið deilt í grundvallaratriðum á liðnum áratugum. Í ljósi þessa telur ASÍ sæta furðu sú fyrirætlan sem fram kemur í frumvarpinu að áskilja landeigendum svo ríkan og ótakmarkaðan eignarrétt að auðlindum í jörðu sem raun ber vitni.``

Herra forseti. Hérna ber alveg nákvæmlega að sama brunni og í áliti minni hluta iðnn. Það er verið að færa of mikinn rétt til einstaklinga þar sem í ákveðnum tilvikum er þannig að við vitum ekki einu sinni hvaða hugsanlegar auðlindir eru til staðar. Við höfum ekki hugmynd um það. Eins og ég hef áður farið yfir í umræðu um þessi mál á hv. Alþingi sjáum við engan veginn fyrir hvaða efni það eru sem við eigum, þekkt og óþekkt, sem verða eftirsótt. Ég hef nefnt hér vatnið. Það þarf ekki nema bara rétt að nefna vatnið á almenningum þar sem það mun verða deiluefni milli manna. Ég minni á, herra forseti, að það er þegar orðið deiluefni núna á landinu hvernig og hver á að borga fyrir og bæta fyrir það vatn sem er tekið til virkjana. Þetta er eitt af atriðunum sem menn eru ekki með skýrt í huga sínum að vatnið er gífurleg auðlind og hún er nánast ómetin því að okkur finnst svo sjálfsagt að geta gengið að vatni hvar sem er, hvort sem það er volgt vatn, heitt vatn eða kalt vatn. Við getum nýtt okkur það eins og okkur sýnist. Okkur finnst það í dag. Þetta er það sem ég tel að eigi eftir að koma miklu frekar í ljós.

Herra forseti. Enn vitna ég til umsagnar Alþýðusambands Íslands:

,,Alþýðusamband Íslands er ósammála þeirri skoðun sem kemur fram í greinargerð að það kunni að orka tvímælis með tilliti til eignarréttarákvæðis stjórnarskrár að setja almennar og rýmilegar skorður við einkaeignarrétti að auðlindum í jörðu á eignarlandi. ASÍ vísar í því sambandi til þess að efasemdir í þessa veru virðast ekki hafa verið uppi fram að þessu meðal helstu sérfræðinga þjóðarinnar á sviði eignarréttar og stjórnskipunarréttar.``

Að lokum vitna ég til þeirrar umsagnar frá ASÍ sem er jákvæð:

,,Frumvarpið er að mati ASÍ tæknilega vönduð lagasmíð sem á ýmsan hátt skýrir og afmarkar inntak heimilda til nýtingar auðlinda í jörðu. ASÍ telur að tvímælalaust sé ástæða til að setja löggjöf um þetta efni og að það sé vonum seinna að Alþingi taki af vafa um réttmæti til auðlinda í jörðu og eignarhald þeirra.``

Þetta tel ég að sé ástæða til að rekja upp og ég vil segja að ég er sammála að þarf að setja skýran lagaramma um þessi efni en ég tel bara að umfjöllunin sé ekki orðin nægilega þroskuð til þess að málið sé afgreitt nú. Ég tel að með allri umræðunni um almenninga, hálendi landsins, um hluta af sveitarstjórnarfrv. sem við höfum verið að ræða undanfarna daga, ef þetta er allt saman tekið saman og menn setjast yfir málið og ræða þetta enn frekar þá náist skýrari mynd. Í þessu felst ekki, herra forseti, nein ásökun á formann iðnn. um að hafa ekki skilað málinu eins og til var ætlast honum af hálfu hæstv. iðnrh. til þingsins. Ég tel að þeir aðilar sem beðið var um hafi verið kallaðir til og ég vil virða það. Samt kom í ljós, herra forseti, að það voru mörg ágreiningsefni sem ég var reyndar búinn að fara yfir í fyrri hluta ræðu minnar þar sem menn greindi á um atriði sem ég fjallaði síðan um í ræðu minni.

Ég vil vitna til álits frá Félagi landfræðinga, með leyfi forseta, þar sem sagt er og tekið er undir það að: ,,Brýnt er að vanda vel til hvers konar lagasetningar um meðferð á auðlindum landsins og á það jafnt við um eignarhald og nýtingu. Spurningar um eignarhald verða ekki leiddar til lykta nema með ítarlegri umræðu í samfélaginu, enda skoðanir skiptar.`` --- Sem athugasemd við þessa setningu vil ég segja það, herra forseti, að með þeirri umræðu sem stjórnarandstaðan efndi til varðandi sveitarstjórnarfrv. hefur verið vakin athygli almennings og fjölmargra, sem telja sig eiga hagsmuna að gæta, á því hvernig staðan er á Alþingi að það er verið í krafti meiri hluta að þvinga fram mál til afgreiðslu sem ég er fullviss og skoðanakannanir sýna, sem er þegar komið fram, að eru í andstöðu við meiri hluta þjóðarinnar. Það breytir engu um þó að það séu 23 stjórnarandstöðuþingmenn gegn 40 stjórnarliðum, það breytir engu um að þetta er eina varnartækið sem stjórnarandstaðan á til þess að koma sínum málum að, þ.e. að tala fyrir þeim og koma því til þjóðarinnar hvað um er að vera. Ég hef áður vitnað til laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, ég er sannfærður um að ekki væri meiri hluti í dag fyrir þeim lögum á Alþingi ef grannt væri skoðað. Ég fullyrði það og það væri alls ekki meðal þjóðarinnar og ég tel að það sama eigi við um þetta mál. Það sama á við að við þurfum að fara varlega, við höfum reynsluna og brennt barn forðast eldinn. En það sem er verið að sýna fram á er að ríkisstjórnin ætlar sér að ráða og ætlar að sýna hver ræður og þannig verður málið knúið fram í gegn.

[16:00]

Herra forseti. Ég vitna einnig til þess að Félag landfræðinga gerir athugasemd við að ekki virðist gæta jafnvægis milli nýtingarsjónarmiða og sjónarmiða umhverfisnefndar. Nefna má sem dæmi að í 8. gr. eru yfirborðsnámur til nýtingar á margs konar jarðefnum heimilaðar á landi í einkaeign án þess að þurfi nýtingarleyfi, án nokkurra skilyrða um umgengni eða frágang, og án þess að vísað sé til ákvæða annarra laga um þau efni. Ákvæði frumvarpsins, sem lúta að umhverfisnefnd, eru fá og afar almennt orðuð. Nefna má 17. gr. þar sem veiting nýtingarleyfis er skilyrt því að ,,tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða. Vald til þess að veita nýtingarleyfi, að uppfylltum þessum skilyrðum ásamt öðrum, er sett í hendur iðnaðarráðherra. Ekki er að finna neinn skýran farveg í frumvarpinu fyrir faglega umfjöllun um áhrif nýtingar á umhverfi.``

Herra forseti. Það sem þarna kemur fram er nákvæmlega það sem við í minni hluta iðnn. erum að benda á að fari í bága við skoðanir okkar. Þess vegna leggjum við til og lögðum til strax í upphafi og munum halda því áfram og fylgja því eftir við atkvæðagreiðslu að þessu máli verði vísað aftur til ríkisstjórnar með rökstuddri dagskrá. Það er það sem við viljum að verði gert. Það er engin spurning að þorri þjóðarinnar er á móti þessu frv. eins og frv. um sveitarstjórnarlög því að það kemur fram að 72% þjóðarinnar eru andvíg því að færa almenningana í hendur fárra og 27% þjóðarinnar eru fylgjandi. Þetta þýðir það að ríkisstjórnin í krafti meiri hluta og Alþingis er að fara gegn meirihlutavilja þjóðarinnar og það er það sem við höfum verið að reyna að benda hv. þm. á, þeim sem hafa verið að kvarta yfir því að vera að hlusta á ræður sem hafa tekið allt að fimm klst. Ég held að þeim sé bara fullmátulegt að sitja undir þeim ræðum og reyna að skynja veruleikann og vilja þjóðarinnar út úr þeim. (Gripið fram í.) Hv. þm. Pétur Blöndal, ég reikna með að aðrir þingmenn sem eru ekki í sal séu á skrifstofum sínum og hlýði þar á mál mitt.

Herra forseti. Ég ætla mér að vitna í umsögn Orkustofnunar og nefna almennar athugasemdir. Þar er sagt í almennum athugasemdum, með leyfi forseta:

,,Nái frumvarp til laga um þjóðlendur fram að ganga er þess að vænta að verulegur hluti af öllum auðlindum í jörðu svo og orkuauðlindum verði í höndum ríkisins. Með þeirri markaðsvæðingu sem er fram undan er í raforkumálum má við því búast að nokkur ásókn geti orðið í nýtingarrétt á vatnsföllum og háhitasvæðum og verði þar fleiri en einn um sömu hituna. Ekki verður séð að í umræddu frumvarpi, né heldur í frumvarpi um þjóðlendur, sé tekið á þeim vanda hvernig útdeila skuli aðgengi að takmörkuðum réttindum í eigu ríkisins. Orkustofnun hefur þegar bent háttvirtri iðnaðarnefnd Alþingis á þetta viðfangsefni í umsögn um þingsályktunartillögu um framtíðarskipan raforkumála. Sama ábendingin er gerð í umsögn stofnunarinnar til allsherjarnefndar um þjóðlendufrumvarpið.``

Þetta eru almennar athugasemdir sem eru gerðar af hálfu Orkustofnunar varðandi sveitarstjórnarfrv., varðandi frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu. Í fyrrgreindri umsögn og þáltill. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í tengslum við umfjöllun um rekstrarumhverfi orkugeirans leyfir Orkustofnin sér að benda á nauðsyn þess að mótuð verði samræmd stefna um það hvort og í hvaða mæli greiða skuli gjald fyrir afnot af auðlindum í þjóðareign og hvernig auðlindum skal ráðstafa, t.d. með útboði, sem fæli þá væntanlega í sér gjaldtökuna. Alkunnar eru þær deilur sem eru um þetta efni varðandi afnot af fiskimiðunum.``

Herra forseti. Ég vil benda á að hér kemur athugasemd sem er nákvæmlega sama eðlis og sú gagnrýni sem ég hef haft uppi við afgreiðslu þessa frv., að þær deilur sem hafa orðið um afnotin á fiskimiðunum munu færast inn til landsins og það er verið að tryggja aðild fárra gegn fjöldanum. Því erum við að mótmæla og ég vona að hv. þm. skilji hvort sem þeir greiða atkvæði með eða móti. Enn fremur segir áfram, með leyfi forseta:

,,Hingað til má segja að öll meiri háttar vatnsorkuver hafi verið í eigu opinberra aðila og [að þau hafi] að mestu nýtt sér ókeypis vatnsréttindi. Því hefur þessi mál lítt borið á góma.``

Þetta er hluti af því vandamáli sem við erum að fást við þegar við ræðum um nýtingu á auðlindum í jörðu eða rannsókn á þeim auðlindum sem við gætum átt.

,,Meginatriði þeirrar stefnu, sem boðuð eru með þingsályktunartillögunni, er sú að innleiða almennan markaðsbúskap í orkumálum.``

Þetta er áframhaldandi tilvitnun til málefnisins um orkumálin og jafnframt um þau mál sem við erum að ræða um.

Herra forseti. Það má vitna til ýmissa atriða frá Orkustofnun í þessu plaggi sem ég ætla ekki að gera alveg nákvæmlega en það eru fjölmargar mjög veigamiklar athugasemdir sem var ekki tekið tillit til af hálfu meiri hluta iðnn. í umfjöllun um þetta frv. sem ég tel vera mjög miður því að ég tel að séu margar gagnlegar og mjög góðar ábendingar um fjölmörg atriði sem hefði átt að taka tillit til í umfjöllun nefndarinnar. Þá er ég að tala um þær ábendingar sem koma fram í umsögn Orkustofnunar um þetta frv. til laga um eignarhald á nýtinga auðlinda í jörðu.

Ástæða er að vitna til þess að fjölmargir aðilar úti í þjóðfélaginu hafa verið að senda þingmönnum ábendingar í tölvupósti þar sem við erum hvött til þess alveg eindregið að leggjast eins fast gegn afgreiðslu frv., bæði um eignarhald á auðlindum í jörðu og fólk talar almennt um frv. sem varða miðhálendi Íslands. Ég vitna í eina ábendinguna. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Heiðraði þingmaður. Fyrir þér liggja nú þrjú frumvörp er varða miðhálendi Íslands. Saman marka þessi frumvörp tímamót hvað varðar óbyggðir Íslands. Fæstum er þó ljóst hvað þessi frumvörp fela nákvæmlega í sér. Þau eru umdeild og hafa skipt þjóðinni í andstæðar fylkingar.

Það er eindregin ósk mín að þú stuðlir að því að frv. þrjú verði kynnt þjóðinni betur í heild sinni og hvað í þeim felst. Enn fremur að afgreiðslu þeirra í þinginu verði frestað á meðan þjóðinni er gefinn tími til að kynna sér málin til hlítar.``

Þetta sem ég vitnaði í, herra forseti, er ein af fjölmörgum, af tugum ábendinga og beiðna frá fjölmörgum. Þetta sem ég las upp er frá þjóðnýtingarfræðingi sem er í háskóladeild Bændaskólans á Hvanneyri. Það eru almennt aðilar sem hafa velt fyrir sér gildi auðlindanna sem eru að senda þessi bréf inn, auðlindanna á hálendinu o.s.frv. Einnig kemur fram að yfir 30 aðilar skrifa á einu bretti undir áskorun til þingsins um að fresta málinu. Á öðrum stað komu fram 90 áskoranir þekktra einstaklinga á Íslandi þar sem þingið er hvatt til að láta málið liggja þannig að þjóðinni gefist kostur á að kynna sér stöðuna í þessum málum. Það hefur aðeins komið til skila með þeim ræðuhöldum sem menn hafa beitt fyrir sig og það varð til þess að vekja þjóðina um að eitthvað væri að.

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég á að gera meira úr þessu máli að svo komnu. Ég hef ekki sett fram neinar sérstakar spurningar til hæstv. iðnrh. eða umhvrh. Það var með samkomulagi að það var ekki gert varðandi umhvrh. en þær koma væntanlega fram í seinni ræðu minni þegar að henni kemur. Mér skilst að langur listi sé fram að því að ég get vonast eftir því að komast í ræðustól aftur. Í ljósi þess, herra forseti, tel ég ástæðu til þess að forsætisnefnd taki málið fyrir og athugi á hvern hátt er hægt að lenda hálendismálunum eins og þjóðin almennt talar um þau og eins og ég vil tala um þau, á hvern hátt er hægt að lenda þessum málum, á hvern hátt er hægt að taka hluta af þeim til afgreiðslu og á hvern hátt er hægt að taka hluta af þeim til frestunar til haustsins og freista þess að ná sátt.

Ég segi enn og vísa til framangreindra atriða sem ég hef verið að nefna að frv. ríkisstjórnarinnar og hæstv. iðnrh. er vanbúið til afgreiðslu á Alþingi. Í ljósi þeirra greina sem ég fór yfir má ljóst vera að nauðsyn er á því að gagngerar breytingar fari fram. Við í minni hluta iðnn. munum gera tilraun til þess að koma fram með brtt. í kjölfar þess álits sem við höfum sett fram en sérstök áhersla er lögð á að það er ástæða til að málið fái meiri og betri umfjöllun.

Ég hef áður gert grein fyrir því, herra forseti, að frv. er hafnað af hálfu minni hlutans fyrst og fremst af þeim atriðum sem við höfum rakið. En um leið höfum við undirstrikað að ástæða er til að setja fram lagaramma um eignarhald og nýtingu á auðæfum í jörðu.

Ég bendi sérstaklega á að þetta frv. er í samræmi við áform og ákvarðanir helmingaskiptastjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. gegn mótmælum stjórnarandstöðu og það er bágt að svo mikilsverð mál sem þessi um hálendið og eignarhald á auðlindum í jörðu skuli vera knúin í gegn gegn allsherjarandstöðu stjórnarandstæðinga. Ég enda þetta með því að vitna að lokum í síðustu orðin í umsögn frá Félagi landfræðinga, með leyfi forseta, þar sem segir:

,,Félag landfræðinga telur þörf á að færa mat á umhverfisáhrifum framar í framkvæmdaferlið og gera það gagnsærra og virkara. Liður í slíku væri að byggja vísanir til slíks mats inn í lagasetningu eins og þá sem hér eru til umsagnar.``

Á þennan veg enda fjölmargar umsagnir og mér þykir miður að ekki skuli vera tekið nægjanlegt tillit til þeirra. Ég vonast til þess að hæstv. iðnrh. beiti sér fyrir því við meiri hluta hv. nefndar að í umfjöllun um þetta mál núna á milli umræðna verði tekið tillit til þeirra athugasemda sem hafa verið settar fram og ég tala nú ekki um þær athugasemdir sem hafa komið frá almenningi úti í þjóðfélaginu varðandi þetta mál og önnur mál sem fólk verður farið að flokka upp sem hálendismál Íslands.

Herra forseti. Ég hef lokið fyrri ræðu minni um þetta mál og mun koma að þeim spurningum sem ég hef fram að færa í fyllingu tímans þegar ég flyt seinni ræðu mína og læt hér staðar numið í bili.