Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 20:40:54 (6457)

1998-05-11 20:40:54# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[20:40]

Svavar Gestsson (frh.):

Herra forseti. Ég fór fyrir kvöldmatinn yfir nokkur aðalatriðin í afstöðu okkar alþýðubandalagsmanna til frv. sem hér liggur fyrir. Ég ætla ekki að endurtaka það en drepa rétt aðeins á það sem ég taldi upp.

Í fyrsta lagi er það stórfelld eignatilfærsla sem ég tel að eigi sér stað með þessu. Það er verið að færa landeigendum, aðilum sem hafa eignast land á ýmsum forsendum eins og gengur, stórkostlegt vald og fjármuni. Það eru ekki aðeins landeigendur augnabliksins heldur einnig landeigendur framtíðarinnar. Það er sérstaklega umhugsunarvert núna, með hliðsjón af aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, að útlendingar geta seilst til áhrifa og landakaupa á Íslandi. Þeir gætu þannig komist yfir orkulindir með skipulegum hætti. Það gæti orðið til þess að þröngt yrði fyrir dyrum okkar kotkarla í þessu landi þegar þeir væru búnir að sölsa þetta undir sig í einhverjum mæli.

Í öðru lagi viljum við gagnrýna umhverfisþátturinn þar sem við teljum að umhverfisstofnanirnar séu settar til hliðar. Það hefur að vísu komið fram í umræðunni að meiningin er að hv. iðnn. komi saman við meðferð málsins milli 2. og 3. umr. Það er ánægjuefni en mér finnst það sanna betur en flest annað að það væri skynsamlegt að hinkra með málið til haustsins. Önnur spurning mín til hæstv. iðnrh. er: Hvaða rök eru fyrir því að ljúka þessu máli endilega núna í blóðspreng á þessum dögum? Af hverju má ekki hinkra með málið til haustsins, vinna það aðeins betur og taka svo aftur upp í haust? Ég held að frv. mundi batna við það.

Ég ætla svo sem ekkert að líkja þessu við gagnagrunnsmálið. Ég tel að þetta sé allt öðruvísi mál, sérstaklega að því leyti að gagnagrunnsmálið var auðvitað sérstaklega flókið. Ég tel samt skynsamlegast að hinkra með málið. Hann er náttúrlega voðalega skrýtinn þessi lagasetningarblóðsprengur sem grípur alltaf ráðherra landsins á hverju vori. Það er eins og himinn og jörð farist ef ekki verða gerð lög úr öllu því sem þeim hefur dottið í hug yfir veturinn, og aðallega á vorin reyndar því að þeim dettur yfirleitt ekkert í hug fyrr en líður á vorið. Þá verður endilega að gera allt að lögum á þeim fáu dögum sem eftir lifa af þinginu.

Í framhaldi af þessum almenna inngangi vil ég víkja að ýmsum almennum atriðum í þessu máli sem fram komu við 1. umr. málsins. Í fyrsta lagi vil ég koma að því að hæstv. iðnrh. sagði, með leyfi forseta: ,,Frv. felur ekki í sér neina eignatilfærslu.`` Þetta er rangt. Frv. felur í sér mjög mikla eignatilfærslu og staðreyndin er sú að einkaeignarrétturinn er alltaf látinn njóta vafans. Þegar upp kemur vafi um eignarhald á auðlindum í jörðu miðað við fortíðina, þá er ekki einasta almennt brotið í gegn þeirri hefð sem tíðkast hefur í margar aldir á Íslandi, heldur er einkaeignarrétturinn alltaf látinn njóta vafans. Það er náttúrlega umhugsunarefni að Framsfl. skuli beita sér í þessu efni.

Það er ekki nóg með það að Samband ísl. samvinnufélaga sé úr sögunni heldur virðist allt sem minnir á samstöðu og samvinnu af hinu illa að mati þeirra framsóknarmanna og þeir virðast kokgleypa hvað sem íhaldinu dettur í hug.

[20:45]

Meðferð málsins er líka mjög sérkennileg, herra forseti. Það er skipuð nefnd og í henni eru tveir þingmenn og tveir lögfræðingar ef ég man rétt og annar þeirra er formaður nefndarinnar. Svo kemur málið til iðnn. Alþingis og hver er formaður þar? Það er sami þingmaðurinn. Með starfsnefndinni starfaði einn ágætur ungur og stórefnilegur og þaðan af betur ættaður lögfræðingur í þessu landi. Hann var yfirsetukona yfir nefndinni allan tímann, að passa að nefndin færi sér ekki að voða og tók þátt í umræðum í nefndinni eins og nærfærin ljósmóðir á hverju stigi málsins. Það er dálítið umhugsunarefni að Alþingi hafi ekki nægilegt sjálfstæði að mínu mati. Það hefði verið betra, heppilegra að öllu leyti ef, með fullri virðingu fyrir þessum ágætu starfsmönnum, ef Alþingi hefði bara metið þessa hluti sjálft. Það leiðir náttúrlega dálítið hugann að stöðu þingsins að við getum t.d. ekki sett sérstaka starfsmenn í þetta mál, sem hefði þó verið efnisleg ástæða til, að vera bara með sérstakan lögfræðing eða annan sérfræðing á vegum Alþingis við að hjálpa þingnefndinni meðan málið var til meðferðar. Ritarar okkar í þinginu, í nefndadeildinni, eru framúrskarandi starfsmenn í alla staði en auðvitað er ekki við því að búast að þeir geti verið sérfræðingar í öllum málum. Þetta er einmitt dæmi um mál þar sem við hefðum eða þingnefndin hefði þurft að hafa sinn sérfræðing til að fara yfir hlutina, með fullri virðingu fyrir tilraunum hins unga lögfræðings iðnrn. til að sinna hlutverki yfirsetukonunnar meðan þessi fæðing stóð yfir í hv. iðnn. undir forustu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar.

Þarna er dálítið lítið gert úr þinginu og það er umhugsunarefni. Þetta var praktíserað hér áður en hefur kannski heldur lagast ef eitthvað er. Vilmundur heitinn Gylfason hélt langar ræður um þessar aðferðir sem voru hafðar, einkum á hegningarlagasviðinu þar sem sömu menn réðu málinu frá upphafi til enda. En maður er að lenda í svipuðum hlutum núna, að þingið býr við þær aðstæður að starfsmenn ráðuneytanna ráða, þeir hafa þekkinguna í hendi sér. Yfirleitt er það þannig sem betur fer að þetta eru hinir ágætustu menn og velviljaðir í alla staði en auðvitað getur þeim skotist og betur sjá augu en auga og þess vegna væri betra að hafa aðra aðila með nefndunum í þessu efni.

Ein af þeim spurningum sem ég lagði fyrir starfsmenn iðnrn. í meðferð málsins var sú hversu mikil verðmæti væri verið að afhenda einkaaðilum í landinu með frv. og þeir sögðu að þau væru engin vegna þess að þarna væri bara verið að staðfesta það sem hefði verið praktíserað mjög lengi. Ég er ósammála þessu. Ég tel t.d. að hv. þm. Ragnar Arnalds hafi áðan sýnt algjörlega fram á það að í rauninni hefur það verið svo í gegnum aldirnar að litið hefur verið þannig á að almenningur ætti jarðhitann og það er ekki fyrr en á þessari öld sem farið er að snúa við þeim hlutum og breyta viðhorfum stjórnkerfisins í þeim efnum.

Í öðru lagi vil ég koma að því sem kom aðeins fram í upphafi umræðunnar við 1. umr., sem mér fannst athyglisvert, og það er að hæstv. núv. iðnrh. hafnar rökum Ólafs Jóhannessonar og Bjarna Benediktssonar. Rök ráðherrans eru þau að nú séu nýtingarmöguleikar allt aðrir en voru þegar Ólafur Jóhannesson og Bjarni Benediktsson settu fram lögfræðikenningar sínar. Ég tel að þessi svör séu ekki gild vegna þess að tæknin getur ekki breytt sjálfkrafa grundvallaratriðum, það getur ekki verið þannig. Veruleikinn er líka sá að þó að málið liggi þannig að hægt sé að bora í gegnum jörðina þýðir það ekki að slá eigi föstu í lögum að öll auðæfi sem fást við þá borun sé eign þess sem landið á þar sem borinn stendur. Ég mundi vilja spyrja hæstv. iðnrh. hvaða halli á að vera á bornum. Er það möndulhalli jarðar? Hvað er beint niður að mati iðnrn.?

Auðvitað getur þetta ekkert verið svona. Auðvitað getur þetta ekki verið þannig að menn geti borað eitthvað sem heitir ,,lóðbeint niður`` eftir einhverjum tilteknum reglum. Við höfum a.m.k. ekki séð þær. Auðvitað vita það allir menn að þegar verið er að sækja vatn mörg hundruð metra, ég tala nú ekki um hálfan kílómetra eða hvað það er, niður í jörðina þá eru menn náttúrlega að draga til sín auðæfi undan öðrum landareignum. Sá veruleiki og sú uppsetning um að tæknin hafi breytt þessu öllu er því bara vitleysa, hún stenst ekki.

Ég er ekki þar með að segja að hundrað metra viðmiðunin, eins og við vorum með hana, sé endilega rétt, ég er ekki viss um það. En ég held að hitt sé alveg ljóst að það að gefa sér að öll auðæfi undir landi eigi að vera eign þess sem eignaðist landið í allt öðru skyni, t.d. því að beita þar fé, byggja þar sumarstað, byggja þar hús eða hvað það nú er, það stenst ekki að setja hlutina þannig upp. Það er nokkurn veginn eins og að slá því föstu að sá sem eignast jörð eigi jarðarkjarnann inn að miðju --- á móti hverjum? Ég veit ekki alveg hvaða aðila hæstv. ráðherra er að hugsa um þar, hvort það eru Ástralir eða hverjir.

Allir sjá að þetta er bara vitleysa, þetta gengur ekkert svona. Ég skora á hæstv. áðherra að svara mér því hvaða rök eru fyrir því að ætla að öll auðæfi sem þarna er um að ræða hljóti að vera eign viðkomandi aðila.

Ég veit að Sjálfstfl. er þessarar skoðunar. Það kemur mér ekki á óvart. Hann telur að það sem heitir einkaeignarréttur sé algjörlega heilög undirstaða alls sem er undir heimskringlunni. Við samvinnumenn höfum sett spurningarmerki við það í gegnum tíðina. Ég bendi á mikil afrek samvinnuhreyfingarinnar og kaupfélaganna í Norður- og Suður-Þingeyjarsýslu fyrr á öldinni. En Framsfl. kokgleypir einkahyggjuna algjörlega og telur að það að opna fyrir að eignarréttur á auðlindum fylgi alltaf landi sé eðlilegur hlutur en því hafna ég algerlega.

Ég tel að meginefni þessa frv. sem menn eru að flytja sé þríþætt. Það er í fyrsta lagi að jarðhiti, hversu djúpt í jörðu sem hann er sóttur, teljist eign landeigandans, þ.e. fylgi einkaeignarrétti á eignarlöndum. Í öðru lagi að grunnvatn fylgi með sama hætti einkaeignarrétti á eignarlöndum og í þriðja lagi að hvers kyns jarðefni, svo sem gosefni að steinefnum meðtöldum, málmar og jarðolía, teljist eign landeiganda.

Við umræður um þetta mál við 1. umr. boðaði hæstv. ráðherra að á komandi haustþingi yrði flutt frv. sem tengdist nýtingu vatnsfalla. Ég mundi vilja spyrja hæstv. iðnrh. að því hvar það mál er á vegi statt. Er við því að búast að það verði kynnt á haustþingi, frv. til laga um nýtingu vatnsfalla en þess var getið sérstaklega við 1. umr. málsins að það væri væntanlegt á haustþingi. Ég sé það í umræðum við 1. umr. að þingmenn hafa þakkað ráðherranum sérstaklega fyrir þessa yfirlýsingu og mér þætti vænt um ef hann vildi greina mér og þingheimi frá því hvernig hann sér það mál fyrir sér.

Eins og ég sagði áðan er það þannig að með þessu frv., ef það verður að lögum, væri ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. að færa svonefndum landeigendum náttúruauðlindir landsins sem þeir hafa þó engan þátt átt í að skapa né heldur að auka við þær og yfirleitt hafa fæstir þeirra nokkurt bolmagn til þess að nýta sér þessar náttúruauðlindir. Ég tel að með hliðsjón af þessu megi kannski segja að í þinginu í vetur hafi komið fram þrjú meginsjónarmið varðandi þessi mál. Mér finnst sjónarmið Framsfl. ekki hafa komið fram í þessum umræðum, mér finnst hafa komið fram sjónarmið Sjálfstfl. Þessi þrjú meginsjónarmið, eins og ég sé þau, eru í fyrsta lagi skýlaus einkaeignarstefna Sjálfstfl., algerlega skýlaus einkaeignarstefna Sjálfstfl., sem Framsfl. virðist taka undir sem mér finnst satt að segja skrýtið og rímar ekki við þær áherslur sem mér finnst að Framsfl. sem félagshyggjuflokkur, a.m.k. að fornu, og flokkur samvinnumanna ætti að hafa.

Í öðru lagi hefur komið fram í þinginu, sennilega flutt í ellefta sinn, frv. okkar alþýðubandalagsmanna varðandi náttúruauðlindir sem ég kalla frv. um víðtæka sameignarstefnu á auðlindum þar sem er jafnframt gert ráð fyrir því, eins segir í tillögunni, að hóflegt auðlindagjald geti komið fyrir afnot.

Í þriðja lagi er um að ræða í þinginu í vetur það sem ég kalla ,,takmarkaða sameignarstefnu`` Alþfl., ef ég má orða það svo, þar sem gert er ráð fyrir auðlindaskatti að meðtöldu veiðileyfagjaldi. Ég held þess vegna að við séum í þessu máli að tala um alvarleg pólitísk og merkileg pólitísk grundvallaratriði og það er satt að segja ekki allt of oft sem við fáum slíka umræðu í þessari virðulegu stofnun.

Ég vek líka athygli, herra forseti, á þeirri breyttu stöðu sem þessi mál eru komin í eftir tilkomu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Að þeim samningi gerðum deila Íslendingar í reynd réttindum með öllum íbúum Vestur-Evrópu að Sviss undanskildu. Útlendingar af þessu svæði geta keypt hér lendur, sem á annað borð ganga kaupum og sölum, án takmarkana. Með því að lögfesta víðtækan einkaeignarrétt á náttúruauðlindum er í reynd verið að afhenda þær 400 millj. manna, eða aðgangurinn er opinn fyrir 400 millj. manna til viðbótar við þá kvartmilljón sem við teljum hér. Ef að líkum lætur er innan tíðar hugsanlegt að enn fleiri fengju rétt til að eignast þessar auðlindir ef þær verða ekki beinlínis lýstar sameign þjóðarinnar. Þegar við vorum að þrátta um Evrópska efnhagssvæðið á sínum tíma við hæstv. þáv. utanrrh., ég og hæstv. iðnrh., Finnur Ingólfsson, lögðum við mjög mikla áherslu á nauðsyn þess --- og ýmsir ræðumenn Framsfl. á þeim tíma --- að það þyrfti að lýsa þessar auðlindir sameign þjóðarinnar til þess að tryggt væri að Íslendingar héldu þeim verðmætum hjá sér sem þessar auðlindir geta skapað.

Því miður varð það ekki raunin og síðan fáum við þessi ósköp hér inn, þetta frv. Á síðasta kjörtímabili voru, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur rakið, átök á milli stjórnarflokkanna, Sjálfstfl. og Alþfl., um þessi mál. Alþfl., segir hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, vildi fara aðra leið, vildi marka frv. það sem ég kalla ,,takmarkaða sameignarstefnu``, að byggja það á takmarkaðri sameignarstefnu. Sjálfstfl. hafnaði því og þess vegna strandaði málið. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur lýst því þannig, m.a. við 1. umr. málsins, að í rauninni hafi Framsfl., þegar hann kom inn í ríkisstjórnina, kokgleypt stefnu Sjálfstfl., þá stefnu sem Alþfl. vildi ekki gleypa.

Það hefðu satt að segja einhvern tíma þótt mikil tíðindi á árum áður, t.d. á viðreisnarárunum, ef það hefði spurst að Framsfl. væri til hægri við Alþfl. á þessu stigi en það er hann alveg tvímælalaust. Ég vek athygli á því, herra forseti, að um leið og stjórnarandstaðan náði ekki fullri samstöðu um þetta svokallaða hálendismál um daginn þá nær stjórnarandstaðan mjög sterkri samstöðu um afstöðuna til þessa frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu. Ég tel ástæðu til að lýsa yfir af minni hálfu að ég fagna þeirri samstöðu einlæglega en harma jafnramt að Framsfl. skuli ekki treysta sér til að vera samferða vegna þess að ég veit það, þekki það af kynnum mínum við marga góða framsóknarmenn bæði innan þings og utan, að þeir eru félagshyggjumenn í raun og ég trúi ekki öðru en að mörgum þeirra blöskri þessi ofboðslegi yfirgangur íhaldsins með frv. eins og það lítur út hér. Það er ekki hægt að kalla þetta annað. Þetta er einkaeignarréttarofstækið sem gengur yfir þjóðfélagið um þessar mundir. Þetta er að vísu gamaldags en þetta gengur yfir og það er verið að framlengja þetta á Íslandi með þeim hætti sem stendur í frv.

[21:00]

Þegar málið var til meðferðar við 1. umr. sagði hæstv. iðnrh. að í raun og veru væri skoðun Ólafs Jóhannessonar á þessu máli hálfrar aldar gamalt mat. Ég vísa því á bug. Viðhorf Ólafs Jóhannessonar komu t.d. fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar 1978--79, þar sem byggt var á því gamla mati hans að hægt væri að takmarka þennan einkaeignarrétt þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar um einkaeignarréttinn og varðveislu hans.

Við 1. umr. notaði hæstv. ráðherra líka tækifærið til að segja að frv. Alþb. --- og kannski Alþfl. líka --- alla vega frv. Alþb. stangaðist á við stjórnarskrána. Það gerir það ekki. Það er algjörlega ótvírætt að samkvæmt ítarlegustu lögfræðilegu greinargerð sem til er um eignar- og umráðarétt að jarðhita, eftir Ólaf Jóhannesson, þá er engin leið að halda því fram að frv. okkar alþýðubandalagsmanna hafi stangast á neinn hátt á við einkaeignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Það er algerlega útilokað mál. Það er í rauninni fjarstæða að halda því fram. Ég vísa því algerlega á bug og segi bara að forsn. Alþingis, sem hefur fallist á að þetta frv. væri flutt aftur og aftur án þess að vera frv. til stjórnskipunarlaga, hefur í raun og veru skrifað upp á það með okkur að hér er ekki um að ræða atlögu að stjórnarskránni eins og hæstv. iðnrh. vildi vera láta.

Hitt er svo annað mál, herra forseti, hvort eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar eru ekki óþarflega ströng. Ég tel að svo sé og að gengið sé alveg ótrúlega langt í að beita þessum ákvæðum við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Ég hefði talið að endurskoða mætti þessi ákvæði, því fyrr því betra, vegna þess að ég tel að í sumum tilvikum hafi þau, mér liggur við að segja beinlínis verið misnotuð.

Þetta mál sem hér er á ferðinni er líka gífurlega stórt vegna þess, herra forseti, að það snertir eina stærstu auðlind þjóðarinnar. Það er ekki nokkur vafi á því að jarðhitinn er ein stærsta auðlind íslensku þjóðarinnar. Það er alveg augljóst mál að við getum gert okkur vonir um að nýta jarðhitann í stórvaxandi mæli á næstu árum og áratugum ef gengið er skipulega og skynsamlega til verka en mér finnst ekki að menn séu að því hér.

Ég tel að jarðhitinn sé ekki síðri auðlind en orka fallvatna og fiskimiðin því að gríðarleg verðmæti og auðæfi liggja ónotuð í okkar jarðhita þar sem væri hægt að bæta mjög miklu við, eins og sést t.d. á því að heildarársframleiðsla okkar á raforku er núna 5,5 teravattsstundir eða svo, og þar af er orka frá jarðhita innan við 0,4 teravattsstundir. Það er því augljóst mál að þarna eigum við miklar lendur óunnar, ónumdar, varðandi verðmætasköpun fyrir okkar þjóð. Við urðum vitni að því á Nesjavöllum fyrir nokkrum dögum þegar verið var að fagna þar tilteknum áfanga í Nesjavallavirkjun sem eru mikil tímamót og sérstakt fagnaðarefni. Það er nokkuð umhugsunarvert samt sem áður hve ótrúlega stutt er síðan við fórum að tala um möguleika á að virkja jarðhitann til raforkuframleiðslu. Ætli það séu nema 30 ár síðan lögin um Kröfluvirkjun voru sett, ég hygg að það hafi verið 1968, ég man það ekki svo glöggt, en ég held að ekki sé mikið lengra síðan. Og það er dálítið merkilegt að hugsa um deiluna um Kröfluvirkjun og hvernig menn spáðu henni í raun og veru hrakförum á öllum sviðum.

Ég tel að engin rök standi til þess, herra forseti, að Alþingi Íslendinga afhendi gæði eins og jarðhitann þeim sem hafa fengið rétt til yfirborðs landsins til hefðbundinna nota í búskap, til beitar búfjár eða til að reisa þak yfir höfuðið. Ég tel að það væri ekki heillaverk ef meiri hluti Alþingis Íslendinga léti hafa sig í að festa í sessi með lögum skilning sem er andstæður heilbrigðri skynsemi. Skilningurinn í þessu frv. er andstæður heilbrigðri skynsemi og ætti þess vegna kannski að heita frumvarp til laga um að vera á móti heilbrigðri skynsemi, vegna þess að þetta er vitlaust, bæði efnahagslega og tæknilega, alveg sama hvernig það er skoðað út og suður. Ég tel að þetta stríði gegn heilbrigðri skynsemi fyrir utan bara venjulega réttlætiskennd, sem ég leyfi mér að nefna í þessum ræðustól, ég vona að það sé heimilt, herra forseti. Það gerist nú svo sjaldan að það liggur við að maður þurfi að biðja um leyfi til þess. Þetta stríðir gegn venjulegri réttlætiskennd, ég tala nú ekki um t.d. þeim viðhorfum að allir menn séu fæddir jafnir. Og hvílík fásinna það er að einhver maður sem á einhvern geira sem hann stendur á og borar niður í miðjan kjarna jarðarinnar, að hann geti samstundis orðið auðkýfingur á við alla þjóðina. Þetta er auðvitað tóm endileysa, herra forseti. Tóm endileysa og það sjá það allir. Ég er viss um að jafnvænir menn og hæstv. forseti sem situr hér að baki mér --- ber er hver að baki nema sér bróður eigi, sannast nú sem fyrr --- hann er mér í hjarta sínu sammála um það hvað þetta er algerlega fráleitt og stríðir gegn réttlætiskennd allra, mér liggur við að segja allra eðlilega hugsandi manna. Þetta er svo vitlaust, svo ótrúlega vitlaust.

Eins og ég gat um áðan gerði hv. þm. Sighvatur Björgvinsson mjög glögga grein fyrir því hvernig málið þróaðist í síðustu ríkisstjórn og þar má hann gerst um véla vegna þess að hann var þá iðnrh. um tíma. Hann gerði mjög glögga grein fyrir því og mér finnst ástæða til að halda því til haga. Hann rakti hvernig deilurnar stóðu við Sjálfstfl. árum saman um þetta mál og hvernig Framsfl. lúffar um leið og hann er kominn í ríkisstjórn. Nú kann að vera að einhverjum finnist þetta eigi bara að vera svona, flokkar fari í ríkisstjórnir og þá gleymi þeir öllu eða moki yfir allt sem þeir hafa einu sinni sagt, og það finnst mér nú ekki nógu gott. Það þarf auðvitað að vera þannig að menn umgangist sín eigin fyrirheit með sæmilega heiðarlegum hætti. Það finnst mér menn ekki vera að gera hér. Ég man ekki til þess að Framsfl. hafi lofað því eða sagt það fyrir kosningar að hann ætlaði að gefa landeigendum tugi milljarða króna. Þetta er einhver stærsta gjöf sem sögur fara af. Vegna þess að það er ekki verið að afhenda mönnum bara nýtingarrétt. Það er verið að gefa mönnum þessa eign.

Langar ræður hafa staðið hér um eignarhald á fiskimiðunum. Engum hefur dottið í hug að flytja frv. til laga um að þeir sem róa til fiskjar eigi fiskimiðin. Né heldur hefur nokkrum manni dottið í hug að framlengja línurnar frá hreppunum út á hafið, eins og manni gæti komið til hugar að einhverjum dytti í hug.

En hér er í rauninni um það að ræða, herra forseti, að verið er að færa tiltölulega mjög takmörkuðum hópi, óvíst hve stórum eða litlum, milljarðatugi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er það í hans réttlætiskennd, sem hann örugglega hefur, sem segir honum það að þetta sé skynsamlegt? Hvernig ætlar hann að rökstyðja það gagnvart okkur landlausum íbúum höfuðstaðarins að hægt sé að afhenda mönnum eignir upp á milljarða og aftur milljarða? Hvað á þetta að þýða? Og það er engin nauður sem rekur ráðherrann til að gera þetta, eða hvað? Hvað er það? Beygði íhaldið hann til að gera þetta? Var það hæstv. forsrh. sem talaði hér um daginn um hinn fumlausa viðskrh.? Var það hann sem beygði iðnrh. fumlaust í þessu máli? Hvað eiginlega er hér á ferðinni?

Hver þarf á þeim milljarðatugum að halda sem ráðherrann er hér að reiða fram? Það sér enginn rökin fyrir þessu. Hvaða rök eru fyrir því að hann þurfi að gefa allt þetta? Hvaða rök eru fyrir því? Þau að nútímatækni geri kleift að bora í gegnum jörðina? Það er undarlegt. Það er sjónarmið sem ekki gengur, vegna þess að menn breyta ekki grundvallaratriðum með tæknibrellum af neinu tagi.

Í þessu sambandi segja menn kannski eins og venjulega: Já, en þetta er svona annars staðar. Ég vísa því á bug. Í greinargerð með frv. okkar alþýðubandalagsmanna á bls. 7, III í greinargerðinni, er farið yfir hvernig þetta er í mörgum löndum. Þetta er ekki svona þar.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson setur stundum á miklar ræður hér um Nýja-Sjáland. Og það er allt mjög maklegt. Hvernig ætli það sé í Nýja-Sjálandi með jarðhitann? Þar er allur jarðhiti lýstur almenningseign án bóta til landeigenda, nema því aðeins að landeigandinn hefði þegar byrjað að nota jarðhitann og hann hafi því beinan hag af honum. Þetta er svona í sjálfu Nýja-Sjálandi í lögum frá 1953.

Það er því augljóst mál að það hefði verið hægt, tæknilega séð líka, að ganga mjög langt í því að lýsa jarðhitann almannaeign. Það hefði verið hægt að ganga mjög langt í því, herra forseti. Og fyrir því eru fordæmi, fyrir náttúrlega utan það sem hv. þm. Ragnar Arnalds rakti hér í dag í mjög fróðlegri ræðu sinni, stórmerkilegri ræðu, að í rauninni er hefð fyrir almannarétti, almannaeign á jarðhitanum. Hann fór alveg aftur í annan kafla rekabálkar Jónsbókar og rakti það líka mjög rækilega með tilvitnun m.a. í rit Odds biskups Einarssonar frá 1593, þar sem talað er um að jarðhitinn sé almenningseign og eigi að vera það, og það sé ekki við hæfi að nýta hann til --- eins og það er orðað --- ,,fjárplógsstarfsemi``. Og er það í raun og veru mjög merkilegt að þetta orð skuli notað. Það var einnig merkilegt sem hv. þm. Ragnar Arnalds benti á, að í Jarðabók Eggerts og Bjarna er jarðhitinn ekki talinn til eigna með jörðum í okkar landi. Þar eru allar eignir skráðar. Hvaða hundakofi sem er, liggur mér við að segja, er skráður þar en jarðhitinn ekki. Þó var hann verðmæti á þeim tíma. Jarðhitinn var verðmæti á þeim tíma. M.a. var hann verðmæti til þvotta, til eldamennsku, til hitunar og fleira og fleira. Fyrir utan þau ótrúlegu þægindi sem jarðhitinn hafði í för með sér við kristnitöku sem náttúrlega er alveg sérstakt umhugsunarefni. Þá var hægt að skíra menn á Íslandi upp úr volgu sem ekki var hægt í öðrum löndum.

Sagan er því algerlega á hreinu með það, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds rakti, að jarðhitinn hefur alltaf verið talinn almannaeign. Og þess vegna hefði auðvitað verið hægt að fara sömu leið hér eins og farin var á Nýja-Sjálandi ef menn hefðu viljað. En í staðinn ákveða menn að ganga tiltölulega mjög langt í að afhenda þessa eign þeim sem eiga landið á hverjum tíma.

Ég tel, herra forseti, engin sérstök rök fyrir því að fara þessa leið, og þess vegna auglýsi ég í tíunda sinn eftir því, herra forseti, hver rök hæstv. iðnrh. eru í þessu sambandi. Ég vil í leiðinni inna eftir því hvort hæstv. umhvrh. er ekki væntanlegur hingað því senn hvað líður þarf ég kannski aðeins að víkja að nokkrum atriðum sem snerta hann alveg sérstaklega.

Fyrir utan það, herra forseti, að þetta frv. fjallaði um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu, eins og það heitir, var einnig á síðari stigum málsins bætt inn í það nýjum kafla um örverur, hitakærar örverur alveg sérstaklega. Þetta frv. um örverur eða frumvarpshluti var fluttur til okkar af starfsmanni iðnrn. Þar er gert ráð fyrir því, eins og textinn leit út upphaflega, að leyfi samkvæmt þessari grein skyldi veitt til vinnslu á rannsókn og nýtingu á örverum af iðnrh. að höfðu samráði við umhvrh.

Það er mál manna að eðlilegt væri, þar sem hér er um að ræða mjög mikilvægan hluta hinnar lifandi náttúru, að nýting og rannsóknir þyrftu að sæta og öðlast samþykki umhvrn. en ekki aðeins samráð, eins og gert var ráð fyrir í frv. sem við fengum. Mér er sagt að þetta mál hafi verið rætt sérstaklega í ríkisstjórninni sjálfri. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. hvort það sé rétt að þetta örverumál hafi sérstaklega verið þar til meðferðar. Ég skildi það a.m.k. þannig þegar iðnrn. bar málið inn á borð hv. iðnn. að málið hefði sérstaklega verið rætt í ríkisstjórninni. Ég spyr um þetta alveg að gefnu tilefni vegna þess að það var eins og umhvrn. væri mjög ósátt við þetta ákvæði frv. eins og það er í raun og veru sett upp í frv. og í brtt. í dag.

[21:15]

Þá komum við að mjög sérkennilegum hlut í þessari ríkisstjórn sem eru samskipti ráðuneytanna. Svo virðist vera að umhvrn. sé afar lítið haft með í för þegar kemur að málum frá iðnrn. Ég sé ekki betur en því sé yfirleitt sleppt og vil inna hæstv. iðnrh. eftir því hvort það sé þannig að sjónarmið umhvrn. hafi ekki verið höfð með eða hvort málið var kannski rætt í ríkisstjórninni og hvort umhvrn. var bara svona lítilþægt að una þessu ákvæði eins og það er hér. Leyfi samkvæmt þessari grein skal veitt að höfðu samráði við umhvrh.

Ég tel að það sé mjög alvarlegt mál, og þess vegna dreg ég þetta út úr, að ákveða nýtingu á örverum undir þröngu sjónarmiði nýtingaraðilans eins. Ég tel að fleiri aðilar þurfi að koma þarna að eins og forstöðumenn umhverfisstofnananna sögðu við meðferð málsins í hv. iðnn. Þeir lögðu áherslu á að örverurnar væru hluti af hinni lifandi náttúru. Það væri þess vegna rétt að setja heildarlöggjöf um nýtingu hennar einnar og sér frekar en að blanda þessu atriði inn í lög um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu. --- Ég vil sérstaklega inna eftir því hvort það mundi vera langt í hæstv. umhvrh. í þessu sambandi. Ég vil endilega að hann komi hérna, herra forseti.

(Forseti (GÁ): Forseti getur upplýst að hann hefur öðru hvoru látið gera tilraunir til þess að hafa samband við hæstv. umhvrh. en þær bera engan árangur enn þá.)

(Gripið fram í: Það verður að fresta þessari umræðu.) (SJS: En utanrrh.?) (MF: Það er mjög heppilegt að fresta þessu máli.)

Það er velkomið, herra forseti, sem er bent á hér úr salnum, að ég geri hlé á ræðu minni og við frestum umræðunni þangað til á morgun, þangað til að umhvrh. finnst. Hefur verið gert allt sem hægt er til að leita hann uppi?

(Forseti (GÁ): Forseti skal nú enn og aftur kanna málið og biður hv. þm. að halda ræðu sinni áfram á meðan.)

Ég bendi á að stundum hefur verið reynt að leita aðstoðar lögreglunnar í Reykjavík til að leita að þingmönnum ef þeir eru fjarri við mikilvægar atkvæðagreiðslur þannig að það er spurning hvort hægt sé að fá sérstaka leitarflokka til að kanna þetta, Hjálparsveit skáta eða aðra, til að leita ráðherrann uppi. En það er ekkert hægt að tala um þetta mál nema hann sé hérna vegna þess að það er bara þannig. Ég get svo sem reynt að hjakka hér eitthvert augnablik en ég vona að hæstv. ráðherrann komi hingað. Hann hlýtur að vera finnanlegur. Það er til tækni sem heitir GSM.

(Forseti (GÁ): Ekki trúir forseti öðru og biður hv. þm. að ...)

Eins og við þekkjum sem eigum heima á Eyrarbakka, þá er til GSM-tækni, sem við þekkjum báðir vel, bæði ég í Inghóli og sá sem er úr Simbakoti. Hæstv. forseti á sem sagt von á því að ráðherrann birtist, eða ...?

(Forseti (GÁ): Af því að forseti vill segja satt þá ætlar hann ekki að leggja dóm á það heldur setja alla þá tækni í gang sem til er til þess að hafa uppi á hæstv. ráðherra.)

Já. Það er út af fyrir sig ánægjuefni og verður fróðlegt að sjá hvenær ráðherrann finnst miðað við þessa svakalegu yfirlýsingu sem kom hér af forsetastóli um að forseti mun setja í gang alla þá tækni sem til er til að leita að ráðherranum. Ég mun spyrja um hæstv. ráðherra umhverfismála eftir svona 10--15 mínútur en meðan víkja kannski að öðrum þáttum sem ég vil aðeins líta yfir í ræðu minni og víkja að stórmerkum umsögnum um þetta frv. sem hafa borist frá fjölmörgum aðilum og fyrst frá Samtökum iðnaðarins. Þar er af nógu að taka. Ég ætla að lesa upp úr þeirri umsögn, herra forseti. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Samtökum iðnaðarins hefur borist ofangreint frumvarp til umsagnar og óskar eftir af því tilefni að koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri.

Með frumvarpinu er lagt til að í einn lagabálk verði skipað reglum um allar auðlindir í jörðu, hvort sem um er að ræða auðlindir í jörðu, í landi, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og í sjávarbotni innan netlagna. Með þessu er verið að auka og auðvelda nýtingu auðlinda í jörðu.

Eignarlandi fylgir eignarréttur á auðlindum í jörðu en auðlindir í þjóðlendum eru eign ríkisins. Í lögum um jarðefni hefur ríkið haft eignarhald á auðlindum utan eignarlanda en ákvæði frumvarpsins um eignarhald á öðrum auðlindum er nýmæli.

Nýting auðlinda úr jörðu er háð leyfi iðnaðarráðherra óháð því hvort auðlindin er í eignarlandi eða í þjóðlendu.`` --- Síðan kemur atriði sem ég vek athygli á og bið hæstv. iðnrh. að skoða: --- ,,Engin ákvæði eru um tímalengd vinnsluleyfa og getur ráðherra í sjálfu sér heimilað leyfi til 1000 ára á síðasta starfsdegi í embætti.``

Nú er illa komið fyrir mér, herra forseti. Ekki einasta vantar mig umhvrh. heldur er iðnrh. rokinn á dyr þannig að það er alveg einboðið að við gerum hlé á þessari umræðu. Það helst enginn við hér í salnum af einhverjum ástæðum þó að það sé verið að flytja hér alveg óvenjulega skemmtilega ræðu eins og menn heyra.

(Forseti (GÁ): Forseti biður afsökunar á þessu. Hæstv. iðnrh. er innan seilingar. Forseti hvatti hann til þess að taka þátt í leitinni en nú gengur hæstv. iðnrh. í salinn.)

Nú kemur hæstv. iðnrh. í salinn leitarmóður og ég býð hann hjartanlega velkominn. Ég veit að hann er vaskur maður til hlaupa. Ég hef séð til hans hlaupa í Hafrahvammagljúfrum og þar var rösklega til fóta tekið þannig að ég veit að hann er manna vísastur til að geta hlaupið uppi hæstv. umhvrh. En í umsögn Samtaka iðnaðarins segir svo, með leyfi forseta:

,,Engin ákvæði eru í frv. um tímalengd vinnsluleyfa og getur ráðherra heimilað leyfi til 1000 ára á síðasta starfsdegi í embætti. Samtök iðnaðarins telja réttar að lögin kveði á um hámarkstímalengd t.d. í samhengi við eðlilegan afskriftartíma framkvæmda eða fjárfestingar leyfishafa.``

Ég hef ekki orðið var við að menn hafi gefið þessari umsögn Samtaka iðnaðarins gaum. Þetta er undirritað af Eyjólfi Bjarnasyni. Þetta eru eins og kunnugt er mjög merk samtök sem ríkið styrkir myndarlega til starfsemi sinnar. Svo segir að lokum í umsögn Samtaka iðnaðarins, með leyfi forseta:

,,Í 10. og 14. gr. frumvarpsins eru ákvæði um heimildir til landeigenda til að nýta jarðhita allt að 5 megavöttum miðað við vermi sem tekið er úr jörðu á sekúndu`` --- þetta á auðvitað ekki að vera á sekúndu --- ,,og grunnvatn allt að 100 ltr./sek. án leyfis iðnaðarráðherra. Til samanburðar má nefna að vatnsþörf Vestmannaeyja er 65 ltr./sek. Samtök iðnaðarins telja þessi viðmið há og að þau þurfi endurskoðunar við. Jafnframt þurfi að setja mörk fyrir vinnslu jarðefna til eigin nota.``

Undir þetta sjónarmið Samtaka iðnaðarins hefur meiri hluti hv. iðnn. í raun og veru tekið með því að miða við 3,5 megavött og að mig minnir 70 lítra á sekúndu að því er varðar vatnsnotkun samkvæmt frv. Hér er þess vegna um það að ræða að komið er til móts við Samtök iðnaðarins. Hins vegar vek ég athygli á því að einn þingmanna Sjálfstfl. taldi að þessi mörk væru allt of lág í brtt. nefndarinnar. Ég mundi vilja inna hv. varaformann iðnn. sem situr hér, þann mikla sómamann Guðjón Guðmundsson, eftir því hvort hann telji að mikill ágreiningur sé í Sjálfstfl. um þetta atriði eða hvort hv. þm. Árni Mathiesen sé sá eini sem hafi eitthvað við þetta að athuga því hann gerði athugasemd við þetta í dag og ég lít þannig á að hann muni greiða atkvæði gegn brtt. meiri hluta nefndarinnar ef ég skildi hann rétt. Og ég vil spyrja hv. þm. Guðjón Guðmundsson hvort hann telji að fleiri í Sjálfstfl. séu sama sinnis og vilji breyta þessu ákvæði á nýjan leik og jafnvel að hafna brtt. hv. nefndar.

Nú bíð ég eftir hæstv. umhvrh., ég og aðrir og þjóðin náttúrlega sem er alveg andaktug að fylgjast með þessari ræðu, geri ég ráð fyrir, og þingmenn allir. Við bíðum spennt eftir því hvort hæstv. umhvrh. komi í leitirnar. Leitin mikla verður þetta kallað í þingtíðindum og í sögunni, leitin mikla að umhvrh. Á meðan ég bíð eftir honum ætla ég að víkja aðeins að umsögn Verkfræðingafélags Íslands um þetta frv. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Stjórn VFÍ fagnar því frumkvæði sem í frumvarpinu felst og telur þar margt horfa til bóta. Svo sem fram kemur í meðfylgjandi umsögn vill félagið þó gera alvarlega athugasemd við stjórnsýsluþátt frumvarpsins.

Orkustofnun fær víðtækt hlutverk samkvæmt frumvarpinu og getur í raun stjórnað öllum rannsóknum á auðlindum í jörðu á landinu með skilyrðum í rannsóknar- og nýtingarleyfum. Orkustofnun hefur sem kunnugt er verið einn helsti rannsóknaraðili hérlendis varðandi auðlindir í jörðu. Samkvæmt umræddu frumvarpi verður Orkustofnun að gefa umsagnir um rannsóknir þar sem Orkustofnun sjálf er verktaki í rannsóknum.``

Ég endurtek, herra forseti, því þetta er ansi fróðlegt fyrirkomulag. Samkvæmt frv. er Orkustofnun ætlað að gefa umsagnir um rannsóknir þar sem Orkustofnun sjálf er verktaki í rannsóknunum. Ég geri ráð fyrir því, herra forseti, að margir mundu fagna því fyrirkomulagi að fá lögbundna skyldu til að gefa umsagnir um sjálfa sig. En samvæmt þessu er það svo að Orkustofnun er gert samkvæmt þessu frv. að gefa umsögn um Orkustofnun. Ég held að þessi ábending Verkfræðingafélagsins sé alveg rétt og ég vil spyrja hv. þm., varaformann iðnn., hvort meiri hlutinn hafi ekkert velt því fyrir sér að breyta þessu ákvæði. Finnst honum ekki óeðlilegt að Orkustofnun gefi umsagnir um rannsóknir þar sem Orkustofnun sjálf er verktaki í rannsóknum? Síðan segir Verkfræðingafélag Íslands, með leyfi forseta:

,,Við þetta skapast að mati félagsins óeðlileg hagsmunatengsl. Þá þykir líklegt að ýmsum aðilum sem kunna að leita eftir rannsóknum og auðlindum í jörðu muni þykja vænlegast að leita til Orkustofnunar með skipulagningu á rannsóknum og teldu það mundu greiða fyrir því að rannsóknarleyfi yrði veitt. Þykir hér einu gilda þó Orkustofnun hafi verið skipt upp í stjórnsýslusvið og rannsóknarsvið með sjálfstæðan fjárhag.

Til að fyrirbyggja misskilning skal skýrt tekið fram að Orkustofnun nýtur í senn fyllsta trausts og virðingar af hálfu Verkfræðingafélags Íslands. Ofangreint fyrirkomulag þykir hins vegar hvorki samrýmast góðum stjórnsýsluvenjum né almennum samkeppnissjónarmiðum.``

Verkfræðingafélagið sendir frá sér ítarlega umsögn um einstakar greinar frv. Þar er fjallað um 2. gr. sérstaklega, þær skilgreiningar sem þar eru og ég mun koma nánar að á eftir. Ein spurningin sem Verkfræðingafélagið spyr er þessi, með leyfi forseta:

,,Telst botn vatnsfalla, sem renna um eignarland, utan eignarlandsins og þá til þjóðlendna? Ef botninn telst til eignarlandsins er óeðlilegt að sleppa honum úr skilgreiningunni, þar sem hann er talinn með þeim svæðum, sem lögin ná yfir.``

[21:30]

Í öðru lagi spyr Verkfræðingafélagið:

,,Telst vatnsbotn utan netlaga, þ.e. miðsvæði stöðuvatna, vera landsvæði og þar með til þjóðlendna?``

Telst miðsvæði stöðuvatna, sem er utan netlaga, einskis manns land, einskis eign og þar með til þjóðlendna?

Þessi spurning kann að hljóma undarlega en ég tek eftir því t.d. að Landssamband veiðiréttareigenda skilur þetta svona, að í raun sé verið að breyta gömlu fyrirkomulagi í þessu efni í sambandi við vötn, stöðuvötn utan netlaga.

Verkfræðingafélagið spyr líka, með leyfi forseta:

,,Eru til önnur lög sem fjalla um auðlindir á sjávarbotni utan netlaga? Það kemur skýrt fram að lögunum er ekki ætlað að ná yfir þetta svæði sem þó virðist full ástæða til þar sem mikil aukning hefur orðið á efnistöku í sjó.``

Í þessu birtist það grundvallaratriði að hér er verið að vinna sig inn í lagasetningu á sviði sem flokkast undir brautryðjendastarf. Það verður því að segja eins og er, að allt sem lýtur að sjónum og sjávarbotninum er mikið álitamál, en í frv. stendur:

,,Lög þessi taka til auðlinda í jörðu í landi, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og í sjávarbotni innan netlaga.`` Það er í rauninni, herra forseti, alveg ótrúleg eignatilfærsla í orðalaginu ,,í sjávarbotni``. Eins og hv. þm. Ragnar Arnalds rakti í stórmerkri ræðu í dag, þá er nýtingarréttur ekki hið sama og óbeinn eignarréttur sem menn hafa getað notað innan netlaga eða eignarhald á því sem er undir sjávarbotninum.

Nú er það þannig að ef einhver borar eftir olíu og finnur hana í 100 m fjarlægð frá landi þá á hann ekki þá olíu. Jafnvel þó að það sé undan landi viðkomandi þá er það ekki þannig. Það er heldur ekki þannig ef um er að ræða námur, segjum í 100 m fjarlægð frá landi, þá er það ekki sjálfkrafa eign viðkomandi aðila þó að hann eigi nýtingarrétt á svæðinu. Þó að hann geti lagt þar net og veitt sel og fugl á svæðinu, þá á hann ekki sjálfkrafa það sem er undir botninum. Með þessu er verið að gefa honum það.

Var það ekki fyrir nokkrum dögum að heitt vatn fannst á botni Eyjafjarðar? Ég man ekki betur en það væri skammt undan landi. Samkvæmt gildandi lögum og venju er það heita vatn eign þjóðarinnar. En samkvæmt þessu frv. verður það stórmerkilega fyrirbæri, sem voru þessar heitavatnsuppsprettur á botni Eyjafjarðar, eign einhvers, séu þær eru innan netlaga. Þar með er verið að breyta í grundvallaratriðum eignarréttarnálguninni í orðasambandinu ,,innan netlaga`` sem allir hafa til þessa skilið þannig að snerist um óbeinan eignarrétt, nýtingarrétt, en ekki þannig að menn ættu allt sem væri undir sjávarbotninum, ekki bara spölkorn heldur inn að miðju jarðar eins og menn þekkja.

Verkfræðingafélagið fjallar ítarlega um mismuninn á orðunum jarðvarmi og jarðhiti með hliðsjón af 2. gr. frv. Í 2. gr. eru einmitt skilgreiningar á orðum. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Eignarland merkir í lögum þessum landsvæði, þar með talið innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.``

,,Jarðhiti merkir í lögum þessum annars vegar jarðvarmaforða í bergi í jarðskorpunni og hins vegar stöðugan straum varma úr iðrum jarðar sem ekki telst grunnvatn.``

Verkfræðingafélagið gerir athugasemdir við þetta og telur réttara að nota orðið jarðvarmi frekar en jarðhiti. Ég blanda mér ekki í það en þetta er sjónarmið Verkfræðingafélagsins sem hefur gjarnan eitthvað til síns máls í þessum fræðum.

Í athugasemd Verkfræðingafélagsins segir síðan, með leyfi forseta, um grunnvatn:

,,Skilgreining frumvarpsins á grunnvatni stenst varla gæðastimpil fræðimanna. Hér er skilgreining eftir Sveinbjörn Björnsson, fyrrv. háskólarektor, sem birtist í grein eftir hann í Náttúrufræðingnum 50. ár, bls. 271--272, 1980:

,,Í flestu bergi eru holrými og glufur fyllt með vatni skammt undir yfirborði jarðar. Þaðan er samfellt vatn niður á nokkurra kílómetra dýpi, þar til berglagaþungi og hár hiti verða til þess að öll holrými lokast og bergið verður vatnsþétt. Þetta vatn köllum við grunnvatn og yfirborð þess grunnvatnsborð.``

Það er staðreynd, að alls staðar í heiminum fer hiti jarðlaga hækkandi með vaxandi dýpi. Á meginlöndunum utan eldivirkra svæða er þessi hitahækkun yfirleitt 10--50 gráður á kílómetra, en á Íslandi er hún víðast 100 gráður á kílómetra og enn hærri á háhitasvæðum. Grunnvatnið er við sama hita og jarðlögin, sem það er í, og því er hiti þess breytilegur og víða allmiklu hærri en meðallofthiti á staðnum.``

Meiri hluti hv. iðnn. hefur bætt um betur og lagað skýringuna á grunnvatni en í brtt. meiri hluta nefndarinnar segir svo:

,,Grunnvatn merkir í lögum þessum vatn sem er neðan jarðar í samfelldu lagi, kyrrstætt eða rennandi, og fyllir að jafnaði allt samtengt holrúm í viðkomandi jarðlagi og sem unnið er í öðrum tilgangi en að flytja varma til yfirborðs jarðar eða nýta staðarorku þess.``

Þetta finnst mér vera góð skilgreining hjá hv. meiri hluta iðnn. og tel hana prýðilega. En þá vil ég spyrja hv. varaformann iðnn.: En hvað með nýtingu linda? Hér er mjög skýrt ákvæði um nýtingu á þeirri auðlind í jörðu sem er grunnvatn en hvað með nýtingu linda í þessu samhengi þegar um er að ræða yfirborðslindir? Með hvaða hætti skilgreinast þær þá? Fróðlegt væri að fá viðhorf hv. varaformanns iðnn. til þess en að því er fundið í umsögninni að það vantaði aðeins útskýringu á muninum á orðinu lind annars vegar og orðinu grunnvatn hins vegar.

Í umsögn Verkfræðingafélagsins, herra forseti, segir svo:

,,Samkvæmt III. kafla frumvarpsins er ráðherra heimilt að gefa út rannsóknarleyfi til rannsókna á bæði eignarlöndum og þjóðlendum og skiptir þá ekki máli hvort landeigandi hefur hafið rannsókn eða heimilað hana. Sá sem fær rannsóknarleyfi hjá ráðherra fær einkaleyfi á rannsókn viðkomandi lands. Landeigandi, sem samkvæmt frv. þarf ekki rannsóknarleyfi, hefur ekki einkaleyfi á rannsókn á landi sínu. Þetta þýðir að landeigandi hefur ekki sama rétt og rannsóknarleyfishafi til rannsóknar á eigin landi nema landeigandi sæki um rannsóknarleyfi vegna eigin lands.``

Verkfræðingafélagið gerir athugsemd við 4. gr. eins og hún er og mótmælir því sérstaklega að unnt skuli vera að fá rannsóknarleyfi án þess að umhverfismat sé gefið út áður og þar kemur einmitt þetta ákvæði um lindirnar sem ég var að tala um áðan. Samkvæmt skilgreiningu frv. falla lindir fyrir utan ákvæði frv. og Verkfræðingafélagið segir: ,,Slíkt getur varla talist eðlilegt.`` Ég vil spyrja hv. varaformann iðnn. hverju það sætir að ekki er tekið mark á þessari ábendingu Verkfræðingafélagsins. Hún er alveg skýr. Verkfræðingafélagið telur að það ætti að skilgreina lindarvatn sérstaklega í 2. gr. frv.

Í umsögn Verkfræðingafélagsins er fjallað sérstaklega um 18. gr. og ég ætla að lesa það, herra forseti. --- Er annars nokkuð nýtt að frétta af leitinni?

(Forseti (GÁ): Forseti getur upplýst að leitin hefur borið árangur og býst við að hæstv. umhvrh. verði hér í húsi innan skamms.)

Ræðumaður vill sérstaklega þakka hæstv. forseta fyrir snaggaraleg viðbrögð og fær vonandi skýrslu um það fljótlega hvort auglýst hafi verið eftir ráðherranum í hljóðvarpi og sagt frá því hvernig hann var klæddur og hvar hann var síðast.

(Forseti (GÁ): Forseti vill upplýsa að ekkert slíkt átti sér stað.)

Herra forseti. Ég þakka sérstaklega fyrir þetta. Ég mun jafnframt engu að síður leita eftir nánari lýsingu á þessari fróðlegu leit þegar ég hef losnað úr þessum ræðustól.

Verkfræðingafélag Íslands segir svo á bls. 4 í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Í 18. gr. er talið upp hvað eigi að tilgreina í rannsóknar- og nýtingarleyfi. Við þetta mætti gera allmargar athugasemdir en eftirfarandi eru látnar nægja.

Farið er fram á að samþykktir félaga skulu viðurkenndar af ráðherra. Hvaða samþykktir er um að ræða og hvernig á að fá viðurkenningu ráðherra? Þetta ákvæði þarfnast nánari skýringa eða falli út.

Farið er fram á að Orkustofnun samþykki frumdrætti að fyrirhuguðum mannvirkjum. Þetta hlýtur að stangast á við byggingar- og skipulagslög.``

Satt að segja er fljótaskriftin alveg ótrúleg á þessu frv. Það er gert ráð fyrir að Orkustofnun samþykki mannvirki. Eru ekki í gildi byggingarlög og skipulagslög eða hvað? Ég vissi ekki til þess að Orkustofnun hefði með skipulags- og byggingarmál að gera. Það er mjög fróðlegt. En þetta er eitt af því sem fram kemur í þessu frv.

Það er alveg ótrúlega mikið af svona vitleysum sem menn hafa ekki einu sinni nennt að lesa saman við önnur lög í landinu. Verkfræðingafélagið bendir á að farið sé fram á það í frv. að Orkustofnun samþykki frumdrætti að fyrirhuguðum mannvirkjum. Það er vel meðan Orkustofnun er bara ekki látin yfirtaka þetta allt eins og það leggur sig, rannsóknir, nýtingu og helst framkvæmdir líka, úr því að hún á að samþykkja teikningar. Svo á hún að veita umsögn um sínar eigin rannsóknir. Það er alveg fáheyrður lúxus verð ég að segja. Það hlýtur að stangast á við byggingarlög þegar gert er ráð fyrir því Orkustofnun samþykki frumdrætti að fyrirhuguðum mannvirkjum, eins og segir í 18. gr. frv., herra forseti. Ég sé ekki að það sé verið að breyta því neitt. Í 18. gr. stendur í tölul. 5:

,,Í rannsóknar- og eða nýtingarleyfi skal m.a. tilgreina: ...

Að Orkustofnun samþykki frumdrætti að fyrirhuguðum mannvirkjum.``

Ef ég væri svo heppinn að hafa þó ekki væri nema 10% af ríkisstjórninni í salnum, þá mundi ég spyrja hvað þetta þýðir. Það er afar sérkennilegt að Orkustofnun skuli þurfa að samþykkja frumdrætti að fyrirhuguðum mannvirkjum.

Í umsögn Verkfræðingafélagsins er fjallað um IX. kafla frv., um vernd og eftirlit með vinnslusvæðum, upplýsingagjöf og meðferð upplýsinga. Þar segir:

,,Í grein 22 kemur fram að rannsóknar- eða nýtingarleyfishafi skal eigi sjaldnar en árlega senda Orkustofnun skýrslu þar sem fram koma upplýsingar um niðurstöður leitar og rannsókna og upplýsingar um eðli og magn auðlinda o.s.frv.

Í grein 23 kemur fram að að loknum gildistíma rannsóknar- og nýtingarleyfa getur Orkustofnun látið umræddar upplýsingar í té eða nýtt þær í þágu frekari leyfisveitinga.

Hér er verið að skylda leyfishafa til þess að afhenda upplýsingar sem ætla má að hafi verið aflað með ærnum tilkostnaði og séu forsendur fyrir markaðssókn og -stöðu leyfishafa. Telja verður ákvæði 22. og 23. gr. með öllu óeðlileg. Í raun er verið að taka eignarnámi fjárfestingu leyfishafa í rannsóknum og þessir aðilar geta búist við því að samkeppnisaðilum séu afhentar þessar upplýsingar. Það er a.m.k. ekkert í frv. sem stöðvar slíka notkun upplýsinga.

[21:45]

Þessi ákvæði hljóta að draga verulega úr áhuga á rannsóknum á auðlindum í jörðu. T.d. hefur undanfarin á verið stunduð gullleit hér á landi. Þessar rannsóknir hafa verið fjármagnaðar a.m.k. að hluta af erlendum aðilum. Það er ákaflega ólíklegt að slíkir aðilar fengjust til að fjármagna rannsóknir hérlendis ef frv. þetta verður að lögum með ákvæðum 22. og 23. gr.``

Nú vil ég spyrja hæstv. iðnrh., ef hann má vera að því að hlusta, hvort hann hafi gert sér grein fyrir því að þetta gæti stöðvað gullleit þá sem staðið hefur yfir á Íslandi nú um skeið. Það stendur hér í umsögn Verkfræðingafélags Íslands.

Ég ætlaði sérstaklega að spyrja hæstv. ráðherra að því sem hann missti af áðan, að í frv. er gert ráð fyrir því --- ég held það verði að laga þetta --- að Orkustofnun fari yfir og samþykki frumdrætti að fyrirhuguðum mannvirkjum. Þetta getur ekki verið endanleg samþykkt vegna þess að það hlýtur að vera þannig að skipulags- og byggingaryfirvöld samþykki frumdrætti að fyrirhuguðum mannvirkjum. Þetta er í 5. tölul. 18. gr. Þetta held ég að verði að laga. Ég held þetta gangi ekki, herra forseti, eins og þetta er. Mér finnst þetta sýna, eins og fleira sem ég hef rakið, að textinn er ekki vandaður. Hann er ekki smásmugulega yfirlesinn eða borinn saman við önnur lög.

Í lok umsagnar Verkfræðingafélags Íslands segir svo, með leyfi forseta:

,,Með frv. eru komin fram íþyngjandi ákvæði fyrir fyrirtæki sem kynnu að hafa áhuga á að nýta auðlindir í jörðu. Fyrirtæki sem sækja um rannsóknar- eða nýtingarleyfi verða að greiða kostnað vegna rannsókna Orkustofnunar og ráðuneytis á þeim gögnum sem lögð eru fram með umsókn með leyfinu, án þess að geta nokkru ráðið um umfang þessara athugana hinna opinberu aðila. Frv. kveður því á um aukna skattheimtu vegna leyfisveitinga.``

Ég vitna enn í umsögn Verkfræðingafélags Íslands:

,,Á undanförnum árum hefur það verið stefna stjórnvalda að draga úr opinberum afskiptum af atvinnulífi. Talið er að frv. vinni gegn þessum markmiðum og auki skrifræði og opinbera forsjá. Þá er talið að ákvæði frv. geti dregið úr áhuga á því að rannasaka auðlindir í jörðu.

Við teljum nauðsynlegt í þessu sambandi að leggja sérstaka áherslu á tvö atriði:

1. Orkustofnun fær víðtækt hlutverk samkvæmt frv. og getur í raun stjórnað öllum rannsóknum á auðlindum í jörðu á landinu með skilyrðum í rannsóknar- og nýtingarleyfum.

2. Meðferð rannsóknarniðurstaðna og upplýsingaskylda er með þeim hætti í frv. að telja verður slíkt með öllu óeðlilegt.``

Ég segi alveg eins og er, herra forseti, að út af fyrir sig er ýmislegt í þessari umsögn Verkfræðingafélagsins sem ég get ekki skrifað upp á. Ég tel það þó nokkuð bíræfið af stjórnarmeirihlutanum að ganga frá brtt. við frv. án þess að taka mark á einu einasta atriði úr þessari umsögn Verkfræðingafélagsins. Það sem mér finnst verst í þeim efnum er það sem fer inn á svið skipulags- og byggingarlaga. Mér finnst líka slæmt sem hér kemur fram, að samkvæmt frv., eins og segir hér í umsögninni að Orkustofnun verði að gefa umsagnir um rannsóknir þar sem Orkustofnun sjálf er verktaki í rannsóknum. Við þetta skapast að mati Verkfræðingafélagsins óeðlileg hagsmunatengsl.

Þetta er atriði sem má laga. Það þarf ekkert að liggja lengi yfir málinu til þess.

Mér sýnist veruleg tregða á því að niðurstöður leitarinnar birtist hér í salnum og vík ég þá, meðan ég bíð, að ...

(Forseti (GÁ): Forseti vill upplýsa að það eru tíu til tólf mínútur þar til umhvrh. kemur í hús.)

Það er spurning hvort það væri þá ekki rétt að gera hlé, að þingmaðurinn gerði hlé á ræðu sinni á meðan beðið eftir ráðherranum. Tíu til tólf mínútur er ekki langur tími. Ég vil benda forseta á að það gæti verið snjall leikur í stöðunni að gera hlé á ræðunni á meðan beðið er eftir hæstv. umhvrh.

(Forseti (GÁ): Það getur líka verið nokkuð snjallt, þar sem forseti veit að hv. þm. ætlar að koma víða við, að halda ræðunni áfram og fara inn í aðra kafla á meðan.)

(SighB: Það er erfitt að lesa endinn þar sem miðkaflinn á að vera.) Ég segi nú ekki að þetta sé þannig uppbyggt listaverk samkvæmt ströngustu kröfum um miðkafla, endi, hnígandi og stígandi að það sé ekki hægt að taka eitt og annað innan úr því og skoða það. Mér finnst það samt sem áður óþægilegt að þurfa að halda áfram án þess að hæstv. ráðherra sé kominn. Aðalhluti ræðu minnar, sem eftir er, fjallar sérstaklega um umhverfismálin en þau eru annar alvarlegasti þáttur frv. Þau eru mjög ljót í þessu frv.

Úr því að forseti hæstv. hefur þetta yndi af því að hlusta á ræður mínar, sem mér þykir vænt um, þá mun ég halda áfram um sinn. (KHG: Það vantar alveg Sjálfstfl.) Það er bent á það héðan úr salnum, herra forseti, að það vanti Sjálfstfl. Ég sakna hans nú yfirleitt ekki. Ég verð að segja það alveg eins og er, en ... (SJS: Hann þarf ekki að vera hérna, Framsókn sér um þetta.) Mér finnst þetta nú ekki alveg sanngjarnt frammíkall, verð ég að segja, því að Framsfl. á marga góða menn, samvinnumenn þar sem slær hlýtt félagshyggjuhjarta, alveg örugglega. En hvar er Sjálfstfl.? Hefur hann verið lagður niður? (Gripið fram í: Það þarf að leita að honum.) Spurning hvort það væri hægt að senda kannski sama (KHG: Hann er hættur á þingi.) leitarflokk eftir honum. Kannski þeir séu að kjósa utan kjörfundar. (SighB: Hann er að starfa á internetinu.)

(Forseti (GÁ): Forseti biður um hljóð í þingsal.)

Það er alveg óþarfi, herra forseti, ég hef bara gaman af að spjalla við þingmenn meðan ég bíð eftir hæstv. ráðherra. Það er alveg guðvelkomið að taka þátt í þessari uppbyggilegu umræðu hér og mér finnst þetta fróðleg ábending með internetið. (KHG: Mér finnst þetta móðgun við Sjálfstfl. að halda áfram þingfundi án hans.) Mér er nú það svo sem ekkert á móti skapi að móðga Sjálfstfl. en það er kannski leiðinlegt fyrir hæstv. ... --- Kemur nú Sjálfstfl. sjálfur, góðan daginn. Já. Sjálfstfl. er boðinn velkominn í salinn. Ég kann ekki við að taka í höndina á hæstv. forsrh. hér úr stólnum en það liggur við að ég geri það, þetta eru svo mikil tímamót í sögu Alþingis að hann er mættur hér, Sjálfstfl.

Það fer vel á því, herra forseti. Hér hefur Framsfl. átt mjög í vök að verjast vegna þess að hann er hér að framkvæma stefnu Sjálfstfl. og á erfitt með að rökstyðja af hverju hann gerir það. Ég er því alveg viss um það að hæstv. forsrh. er tilbúinn til þess nú, eins og stundum áður, að veita hæstv. iðnrh. hjálp. Því að það hefur komið í ljós að hæstv. forsrh. kann að rétta fram fumlausa hjálparhönd þegar mikið liggur við, eins og þjóðin þekkir í ýmsum málum sem hér hafa verið uppi í seinni tíð.

Í umsögn Alþýðusambands Íslands um þetta frv. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu segir svo, með leyfi forseta:

,,Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar frv. ríkisstjórnarinnar um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu. ASÍ lítur á frv. sem hluta af því lagaumhverfi sem nú er í mótun varðandi eignarhald, stjórnun, nýtingu og skiptingu afraksturs af náttúru Íslands og náttúruauðlindum.

Alþýðusambandið leggur áherslu á að einkaeignarrétti eða afnotarétti, hvort heldur er að landi eða landsnytjum eða náttúruauðlindum, verður að setja eðlileg mörk. Óeðlilegt er að slíkum rétti fylgi ótakmarkaðar heimildir til nýtingar eða afnota.

Þetta viðhorf hefur raunar ævinlega verið viðurkennt almennt viðmið í íslensku samfélagi. Þannig eru eignarráðum einstaklinga ýmis takmörk sett, sem byggja að nokkru leyti á náttúruverndarsjónarmiðum, að nokkru á tilliti til almannahagsmuna og varða skipulega og skynsamlega nýtingu landgæða. Um takmörkun eignarráða á forsendum sem þessum hefur ekki verið deilt í grundvallaratriðum á liðnum áratugum. Í ljósi þessa telur ASÍ sæta furðu sú fyrirætlan sem fram kemur í frv. að áskilja landeigendum svo ríkan og ótakmarkaðn eignarrétt að auðlindum í jörðu sem raun ber vitni.

ASÍ er ósammála þeirri skoðun sem fram kemur í greinargerð að það kunni að orka tvímælis með tilliti til eignarréttarákvæðis stjórnarskrár að setja almennar og rýmilegar skorður við einkaeignarrétti að auðlindum í jörðu á eignarlandi. ASÍ vísar í því sambandi til þess að efasemdir í þessa veru virðast ekki hafa verið uppi fram að þessu meðal helstu sérfræðinga þjóðarinnar á sviði eignarréttar og stjórnskipunarréttar.

Frumvarpið er að mati ASÍ tæknilega vönduð lagasmíð sem á ýmsan hátt skýrir og afmarkar inntak heimilda til nýtingar auðlinda í jörðu. ASÍ telur að tvímælalaust sé ástæða til að setja löggjöf um þetta efni og að það sé vonum seinna að Alþingi taki af vafa um réttindi til auðlinda í jörðu og eignarhald þeirra.

ASÍ verður á hinn bóginn að andmæla þeirri afstöðu til umfangs eignarhalds einstaklinga sem frv. byggir á og telur að sú afstaða sé ekki í samræmi við þá stefnu sem frumvarp ríkisstjórnarinnar um þjóðlendur byggir á.

ASÍ gerir ekki athugasemdir við einstakar greinar frv. en hvetur til þess að frv. verði endurskoðað þannig að um lagasetningu um eignarhald og nýtingu landsins gæða geti orðið sátt sem þjóðin getur búið við til frambúðar. ASÍ telur að þetta frumvarp bjóði ekki upp á slíka sátt. Óheppilegt væri ef málið yrði pólitískt bitbein þannig að líkur væru til þess að innan skamms tíma yrðu gerðar breytingar á lagaumhverfinu. Slíkt er ekki til þess fallið að skapa þá kyrrð og staðfestu sem þjóðin og atvinnulífið þarf á að halda að ríki um málið.``

Undir þetta ritar fyrir hönd Alþýðusambandsins Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands.

Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að hér er um að ræða umsögn stærstu samtaka launafólks í landinu. Þau mótmæla þessum eignatilfærslum sem frv. gerir ráð fyrir, upp á marga tugi milljarða króna. Það er enginn vafi á því að þetta er langmesta eignatilfærsla sem gerð hefur verið tillaga um hér í þessari stofnun. Það er engin spurning um það. Ég viðurkenni að vísu að það er erfitt að festa fingur á því hve mikið þetta er nákvæmlega en ég er viss um að hérna er um að ræða eignatilfærslu upp á marga milljarðatugi.

Hv. þm. Ragnar Arnalds rakti það mjög rækilega fyrr í dag að þessi ákvörðun, um að gera þetta allt að einkaeign, brýtur í bága við sögulega niðurstöðu laga og reglna á Íslandi í margar aldir.

Hv. þm. vitnaði í Jónsbók máli sínu til stuðnings, í grein og bók Odds biskups Einarssonar frá 1593, í Jarðabók Eggerts og Bjarna. Þetta sýndi það algerlega ótvírætt að það hefur alltaf verið litið þannig á að jarðhiti væri almenningseign. Alltaf.

Ég rakti það áðan, herra forseti, upp úr frv. okkar alþýðubandalagsmanna, að í öðrum löndum, t.d. í því sæla Nýja-Sjálandi sem menn eru misjafnlega hrifnir af, t.d. er hv. 17. þm. Reykv. ekki mjög hrifinn af Nýja-Sjálandi, er það þó þannig að jarðhitinn er almenningseign og hefur verið það frá því að lög voru sett 1953. Þau voru sett án þess að sérstakar bætur kæmu fyrir þetta.

Mér finnst einnig athyglisvert, og vænt um að hafa hér hæstv. forsrh., vegna þess að hér segir að frv. sé ekki í samræmi við þá stefnu sem frv. ríkisstjórnarinnar um þjóðlendur byggir á. Þetta finnst mér fróðlegt viðhorf. Nú ætla ég að ræða það í örfáum setningum.

Þjóðlendufrv. byggist á því að það séu þjóðlendur sem enginn hafi sannanlega getað komið eignarhaldi á til þessa. Ég tel að það sé eins með verðmætin í iðrum jarðar. Ég tel að það sé nákvæmlega eins og með þjóðlendurnar. Það eru engin rök fyrir því að halda því fram að öll verðmætin ofan í iðrum jarðar, hvar sem þau kunni að vera, hljóti að tilheyra landeigandanum. Ég held að það sé þvert á móti hægt að halda því fram að þau tilheyri engum. Þess vegna væri eðlilegra að þau væru þjóðareign, þjóðlenda eða þjóðarauðlind eða hvað það nú er.

Mér finnst þetta sjónarmið í umsögn Alþýðusambands Íslands mjög athyglisvert og spyr hæstv. forsrh. að því, af því að hann er lögfróður og þekkir þessi mál, hvort menn hafi ekki velt því fyrir sér hvort í þessu frv. um auðlindir sé ekki gengið allt of langt í því að afhenda landeigendum allt sem kann að finnast undir landi viðkomandi. Án tillits til ástæðu viðkomandi til að eignast landið, hvort það er til beitar, til að byggja sér sumarhús, rækta tún eða hvað það nú er, skal það fortakslaust vera þannig, eins og það er eftir þessu frv., að menn geti borað niður, án þess að það sé nú tilgreint hvort það á að bora beint eða á ská, og hvort það á að fylgja möndulhalla jarðar eða hvað það nú er, og það sem upp komi sé alltaf eign þess sem borar. Þetta er afar sérkennileg latína. (SighB: Nema öðrum stafi skaði af.) Nema öðrum stafi skaði af. En hver metur það? Þú sjálfur, ef þú ert á bornum. Þannig er veruleikinn.

Ég hefði viljað biðja hæstv. forsrh. sem lögfræðing að fara aðeins yfir þetta mál. (KHG: En ef þeir bora á ská?) Ja, ef þeir bora á ská að þá gætu þeir nefnilega lent undir land einhverra annarra. Kannski bara í útlöndum ef þeir bora nógu langt. Eigum við það þá? Það sjá það allir að þetta stenst ekki, herra forseti. Þetta stríðir gegn öllu sem heitir heilbrigð skynsemi, ég tala nú ekki um réttlætiskennd ef einhver skyldi hafa hana. Það er ekki mikið um hana í seinni tíð eða alla vega er henni ekki flíkað mjög mikið.

[22:00]

Herra forseti. Ég vil sérstaklega þakka hæstv. umhvrh. fyrir að hafa gefið sér tíma til að koma í salinn og bið hann að afsaka það að ég skyldi raska ró hans ef hann hefur verið að gegna mikilvægum verkum sem hann hefur sjálfsagt verið að gera. En ég þurfti að bera fyrir hann nokkrar spurningar.

Það var sérstaklega og í fyrsta lagi það almenna atriði sem ég vil halda hérna fram, herra forseti, sem er þetta: Ég tel að það sé farið illa með umhvrn. í þessu frv. og umhverfisstofnununum sé bara hent út þar sem þær ættu að vera og ég held að það geti ekki verið að umhvrn. hafi nokkurn tíma séð þetta frv. áður en það var flutt vegna þess að mér finnst að það sé farið svo illa með umhvrn. og gert allt of lítið úr því. Ég ætla að rekja dæmi.

Ég ætla í fyrsta lagi að rekja dæmi um það sem ég nefni hérna áðan varðandi örverurnar. Það kemur allt í einu, herra forseti, brtt. inn í hv. iðnn. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Lög þessi taka eftir því sem við á til rannsókna og nýtingar á örverum sem vinna má á jarðhitasvæðum. Rannsóknir og nýting örvera á jarðhitasvæðum er óheimil án leyfis iðnaðarráðherra samkvæmt lögum þessum.``

Hér er sem sagt iðnrh. látinn hafa þetta algerlega. Nú kannast ég aðeins við þá umræðu sem oft hefur verið í gangi að það er spurning hvort umhvrn. á að fjalla um nýtingu, hvort það sé ekki frekar eitthvert annað ráðuneyti og það er mín skoðun að það eigi að vera þannig, þ.e. að sjútvn. eigi t.d. frekar að fjalla um nýtingu fisks o.s.frv. og þess vegna sé eðlilegt að iðnrn. sé með þessi mál. Ég er sammála því. Hins vegar er það svo að þessar örverur eru mjög mikilvægur þáttur af náttúrunni. Þær eru hluti af hinni lífrænu náttúru og þess vegna tel ég að eðlilegra væri að þessi auðlind, þessar örverur væru í sérstökum lögum sem fjallaði um nýtingu á hinni lífrænu náttúru, hinum lífrænu auðlindum, en væru ekki í frv. sem fjallar um það sem kallað er oft ólífræn náttúra.

Þegar við vorum að ræða þetta mál í hv. iðnn. komu fram mjög mörg sérkennileg sjónarmið. En það sem skiptir máli í þessu er að þeir sem nýta þessar örverur og aðallega hitakærar örverur sem hér er verið að fjalla um og verið er að verjast ásókn í, taka erfðaefnið úr örverunum. Einn af talsmönnum umhvrn. að ég tel, ég man ekki alveg hver það var, sagði í nefndinni: ,,Erfðaefnið sem slíkt er ekki lifandi og þess vegna á þetta heima hér.`` Ég lagði það á vini mína sem starfa í þessari grein að bera þetta undir þá um kvöldið með nokkrum símtölum og þeir eiginlega vefengdu það að þetta hefði verið sagt því að auðvitað hlyti erfðaefnið sem slíkt að vera hluti af hinni lifandi náttúru. Þess vegna er það skoðun mín að þörf væri á heildarlöggjöf um hina lífrænu auðlind og þessi kafli hér ætti náttúrlega ekki að vera í þessu frv. heldur ættu þetta að vera sérlög. Ég hefði viljað hafa sérlög um örverurnar. Síðan hefði ég viljað breyta greininni þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Leyfi samkvæmt þessari grein skal veitt að fenginni umsögn umhverfisráðherra.``

Ég hefði sagt: Leyfi samkvæmt þessari grein getur iðnrh. veitt að fengnu samþykki umhvrh. Þetta er þannig. Þetta er allt öðruvísi en þegar um er að ræða aðra nýtingarþætti í náttúrunni. Ég vil spyrja hæstv. umhvrh. að því hvort hann telji ekki þörf á því að breyta þessu og fleiru í frv. frá því sem það lítur út núna. Það mun hafa komið fram í framsöguræðu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar fyrr í dag að hann teldi óhjákvæmilegt að málið færi aftur inn í iðnn. og ég vona að það sé til þess að líta á mál af þessu tagi.

En því miður er ekki allt búið enn, herra forseti, í sambandi við þessa hluti vegna þess að í umsögnum ýmissa aðila á sviði umhvrn. eru ansi alvarlegar áminningar. Í greinargerð Náttúrufræðistofnunar sem okkur barst í nefndinni og er dagsett 19. mars 1998 segir svo, með leyfi forseta:

,,Náttúrufræðistofnun Íslands telur að brýnt sé orðið að endurskoða gildandi lög um nýtingu auðlinda í jörðu. Stofnunin mælir ekki með samþykkt þessa frv. nema á því séu gerðar verulegar breytingar sem taki mið af ríkjandi sjónarmiðum í umhverfisvernd og fyrirliggjandi áætlun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi.

Náttúrufræðistofnun vekur athygli nefndarinnar á því að ekkert tillit virðist vera tekið til skuldbindinga sem felast í alþjóðlegum samningum um vernd umhverfis og Ísland hefur staðfest á undanförnum árum.`` --- Ekkert, segir Náttúrufræðistofnun. --- ,,Ekki virðist heldur hafa verið tekið tillit til gildandi laga sem lúta að verndun og nýtingu náttúruauðlinda, svo sem laga nr. 63/1993, laga nr. 60/1992, laga nr. 93/1996 og laga nr. 73/1997.

Við gerð þessa frv. hefur heldur ekki verið tekið tillit til áætlunar ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi (framkvæmdaáætlun til aldamóta).``

Í þeirri áætlun segir m.a. svo í tilvitnun Náttúrufræðistofnunar Íslands, með leyfi forseta:

,,,,Lög um vinnslu jarðefna verði endurskoðuð og samræmd þannig að þau stuðli að aðhaldi í nýtingu þessarar takmörkuðu og endanlegu auðlindar og því að nýtingin sé í anda meginreglna um sjálfbæra þróun. M.a. verði kveðið á um að kortleggja skuli jarðefni. Flokka þarf námusvæði eftir efni, magni, aðgengi og gæðum efnis. Gerð verði rammaáætlun til langs tíma um nýtingu jarðefna á einstökum landsvæðum í samvinnu við sveitarfélög og eigendur náma.``

Ekki verður séð að tillit hafi verið tekið til þessa atriðis við gerð frv. né annarra atriða framkvæmdaáætlunarinnar sem varða meðferð jarðefna.

Loks vill Náttúrufræðistofnun vekja athygli nefndarinnar á því að í frv. þessu er verið að fela Orkustofnun verkefni sem eru nú á verksviði annarra stofnana samkvæmt gildandi lögum.``

Er það nema von að ég spyrji hæstv. umhvrh.: Hvað segir hann um þessa umsögn? Hér er mjög sterkt til orða tekið. Telur hann ekki óhjákvæmilegt með hliðsjón af þessari umsögn Náttúrufræðistofnunar að breyta frv. enn meira en meiri hluti iðnn. gerir ráð fyrir?

Fyrir utan þessi almennu atriði, herra forseti, þá nefnir Náttúrufræðistofnun sérstaklega 1. gr. frv. og segir að hana þurfi að glöggva. Vikið er sérstaklega að 4. gr. frv. og þar segir t.d. svo, með leyfi forseta:

,,Í 4. gr. frv. er hvorki kveðið á um aðkomu umhvrn. né Náttúrufræðistofnunar að rannsóknum eða mati á auðlindum í jörðu. Nauðsynlegt er að skilgreina með einhverjum hætti hver hlutur opinberra rannsóknarstofnana eigi að vera í skráningu og mati á auðlindum í jörðu og hvaða aðili eigi að meta verndargildi og nýtingarþol þeirra auðlinda.``

,,Taka ætti tillit til laga nr. 93/1996, um náttúruvernd, sem kveða m.a. á um skyldur Náttúruverndar ríkisins til eftirlits með framkvæmdum sem geta haft í för með sér náttúruspjöll.

Einnig ætti iðnrh. að leita álits Náttúrufræðistofnunar áður en leyfi er veitt til rannsókna eða leitar á auðlindum í jörðu.``

Um 5. gr. segir Náttúrufræðistofnun, með leyfi forseta:

,,Náttúrufræðistofnun telur nauðsynlegt að í rannsóknarleyfi fylgi skilmálar sem miðast við að takmarka eða koma í veg fyrir náttúruspjöll. Slíkir skilmálar ættu að vera settir samkvæmt ákvörðun Náttúruverndar ríkisins eða umhvrh.

Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. frv. skal leita umsagnar Orkustofnunar áður en leyfi er veitt til rannsókna. Einnig ætti að leita umsagna frá Náttúrufræðistofnun og Náttúruvernd ríkisins.``

Þetta segir í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands og ég vil bera þessar athugasemdir bæði sértækt og almennt undir hæstv. ráðherra umhverfismála.

Mér finnst líka, herra forseti, nauðsynlegt að vekja athygli á 8. gr. sem fjallar um hagnýtingu á grjóti, möl, leir, mó og surtarbrandi en það vantar algerlega ákvæði um verndun og nýtingu þessara jarðefna, að það fari saman. Það er gagnrýnt.

10. gr. er sérstaklega gagnrýnd. Þar er ekki gert ráð fyrir verndarþætti eða skilyrðum vegna hans. 14. gr. er gagnrýnd og 21. gr., þar sem minnt er á eftirlitshlutverk Náttúruverndar ríkisins. 22. gr. og 23. gr. eru sérstaklega nefndar og undir þetta ritar forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, Jón Gunnar Ottósson.

Þetta er afar eindregin gagnrýni á frv. og það er beinlínis varað við því að það verði samþykkt.

Skipulagsstofnun ríkisins sem heyrir líka undir umhvrh. fjallar um þetta og hún segir m.a. svo, með leyfi forseta:

,,Skipulagsstofnun bendir á að framkvæmdir samkvæmt frv., t.d. vinnsla jarðefna, vatnsorkuvirkjanir og jarðvarmavirkjanir, geta verið háðar mati á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, og telur eðlilegt að þess sé getið.``

Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála því. Telur hann ekki eðlilegt að vísað sé til laganna um mat á umhverfisáhrifum í frv. einhvers staðar? Mér finnst að óhjákvæmilegt sé að gera það.

,,Einnig að framkvæmdir skuli vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulags- og byggingarlögum ... og að þær geti verið framkvæmdaleyfisskyldar samkvæmt 27. gr. sömu laga.``

Alla vega er ég alveg viss um að hæstv. ráðherra er sammála mér um að það er óeðlilegt að Orkustofnun þurfi að samþykkja frumdrætti fyrirhugaðra mannvirkja. Það á að gerast samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og það getur enginn gert nema viðkomandi sveitarfélög eins og við fórum í gegnum umræður um á dögunum.

Ég vil líka, herra forseti, vitna sérstaklega í Náttúruvernd ríkisins sem er þriðja stofnun hæstv. umhvrh. sem fer mjög hörðum orðum um þetta frv. Ég hlýt að spyrja ráðherrann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að stofnanirnar séu svona gífurlega ósáttar við frv. Í þessari umsögn frá Náttúruvernd ríkisins segir svo, með leyfi forseta:

,,Skynsamleg nýting náttúruauðlinda í nútíð og framtíð er eitt höfuðmarkmiða náttúruverndar. Núgildandi lög um nýtingu auðlinda í jörðu eru að stofni til frá 1967 og 1973 og því löngu orðið tímabært að endurskoða þau. Um leið má gera ráð fyrir því að ný lög taki mið af aðstæðum og viðhorfum nútímans, þar með talið varðandi sjálfbæra þróun, skynsamlega nýtingu og náttúruvernd. Náttúruvernd ríkisins telur að ofangreint frumvarp uppfylli ekki þessi skilyrði. Frumvarpið stangast einnig á við veigamikil og mörg atriði í framkvæmdaáætlun umhvrn., Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi, sem samþykkt var af ríkisstjórninni í febrúar 1997.

Náttúruvernd ríkisins bendir á að hvergi í frumvarpinu né í greinargerð er minnst á náttúruvernd eða skilgreind atriði sem lúta að verndun umhverfis og náttúru, eingöngu eru lögð fyrir óljós ummæli um einhvers konar umhverfisvernd. Veitingu leyfa og eftirlit með vinnslusvæðum er eingöngu beint að nýtingu auðlindanna.

Náttúruvernd ríkisins telur að endurskoða beri grundvallaratriði frv. og er stofnunin reiðubúin að veita aðstoð sína við það. Nánari útfærsla á helstu athugasemdum fylgir hér á eftir, flokkuð eðli mála og kaflaskiptingu í frv.``

Náttúruvernd ríkisins vill sem sagt ekki þetta frv. Nú var verið að breyta Náttúruvernd ríkisins fyrir tveimur árum eða svo. Það voru ansi líflegar umræður í lokin og vöktu mikla athygli í þjóðfélaginu. Ræðuhöld vöktu mikla athygli hér í lok þings. Það var í maí þegar margt gott gerist í þessari stofnun. Þá gagnrýndi, minnir mig, hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, af því að ég sé að hún stendur hér, og e.t.v. fleiri það að verið væri að gera Náttúruvernd ríkisins að dálitlu tæki háðara ráðherranum en var í eldri lögum. Þó að það sé þannig, þá gagnrýnir þessi stofnun þetta svona hart.

Þetta er einna líkast því, herra forseti, og ef t.d. Seðlabankinn gagnrýndi mjög harkalega stefnu ríkisstjórnarinnar í peningamálum. Það er einna líkast því eða þá að stofnanir á öðrum sviðum, segjum t.d. Háskóli Íslands, gæfi út eindregna gagnrýni á stefnu menntmrn. í háskólamálum í heild. Ég verð að segja það alveg eins og er svo ég vitni í frægar Morgunblaðsgreinar seinni tímans að í mér er slíkt merarhjarta að mér leiðist að hamast svona á hæstv. umhvrh. En það er svakalega mikið af þessu hérna.

[22:15]

Náttúruvernd ríkisins tekur fyrir gildissviðið, veitingu rannsóknarleyfa og hún gerir brtt. við eiginlega allar greinarnar í frv., veitingu nýtingarleyfa, nýtingu lausra jarðefna sérstaklega og eftirlit með vinnslusvæðum. Og svo býðst Náttúruvernd ríkisins til þess að hjálpa til við að laga málið og það er náttúrlega gott. Ég vil spyrja hæstv. umhvrh. að því hvort hann vilji ekki taka því tilboði og hvort ekki væri þá betra að hinkra með málið. Ég held að það ætti að hinkra með þetta mál. Ég tel að Alþingi sé búið að vinna mikið afrek þegar þjóðlendumálið verður að lögum. Það er gott mál. Síðan ætti bara að byggja ofan á því ýmis mál, eins og t.d. þetta, eignarhald á auðlindum í jörðu. (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn ræður.) Því að eins og ég hef rakið hérna þá eru tæknilegar missmíðar á málinu. Það eru villur í frv. Villur eins og það að Orkustofnun samþykki frumdrætti fyrirhugaðra mannvirkja, sem heyrir þó undir sveitarfélög. Hverjir voru hérna að rótast fyrir sveitarfélögin fyrir nokkrum dögum? Ekki var það nú ég. Það voru einhverjir aðrir. En nú á allt í einu að taka frá þessum sveitarfélögum og afhenda Orkustofnun. Það finnst mér ekki skynsamlegt. (Gripið fram í: Nei, ekki mér heldur.) Og ekki heldur hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni, og þar með er það rétt sem við segjum báðir.

Herra forseti. Ég vil einnig víkja að örfáum atriðum í viðbót, þ.e. frá Félagi landfræðinga sem er með ágæta umsögn sem hv. 13. þm. Reykv. kynnti. Félag landfræðinga segir, með leyfi forseta:

,,Félag landfræðinga telur orka tvímælis að skilgreina allar auðlindir í jörðu sem einkaeign með jafnfortakslausum hætti og gert er í 3. gr. frv., þ.e. á landi sem ekki er skilgreint sem þjóðlendur. Þetta á einkum við um djúphita í jörðu, sem og auðlindir sem ekki hafa fundist í neinu magni hérlendis og engin hefð er fyrir nýtingu á, hvað sem framtíðin kann að bera í skauti sér. Þar má nefna olíu og gas. Um þetta hefur of lítil umræða farið fram til að verjandi sé að fara þá leið sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Félagið gerir einnig athugasemd við að ekki virðist gæta jafnvægis milli nýtingarsjónarmiða og sjónarmiða umhverfisverndar. Nefna má sem dæmi að í 8. gr. eru yfirborðsnámur til nýtingar á margs konar jarðefnum heimilaðar á landi í einkaeign án þess að til þess þurfi nýtingarleyfi, án nokkurra skilyrða um umgengni eða frágang, og án þess að vísað sé til ákvæða annarra laga um þau efni. Þau ákvæði frumvarpsins sem lúta að umhverfisvernd eru fá og afar almennt orðuð. Þar má nefna 17. gr., þar sem veiting nýtingarleyfis er skilyrt því að ,,tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða.`` Vald til að veita nýtingarleyfi, að uppfylltum þessum skilyrðum ásamt öðrum, er sett í hendur iðnaðarráðherra. Ekki er að finna neinn skýran farveg í frumvarpinu fyrir faglega umfjöllun um áhrif nýtingar á umhverfi.``

Þetta var Félag landfræðinga. Ég ætla í sjálfu sér ekki að lesa margar fleiri umsagnir á sviði umhvrh. En það er alveg augljóst mál, herra forseti, að mjög alvarlegar athugasemdir eru gerðar við málið af öllum þeim aðilum sem starfa á sviði umhvrn. og sendu inn umsagnir um þetta mál.

Síðan er hér fjöldi af öðrum umsögnum sem ég ætla ekki að taka tíma í að fara yfir vegna þess að ég hef komið því á framfæri sem eru aðalatriði hjá mér. Ég vísa einnig til mjög ítarlegra umsagna Orkustofnunar sem ég vil taka fram að ég er að mörgu leyti sammála og ég sé að tekið hefur verið tillit til sumra þeirra, m.a. varðandi 10. gr. Ég ætla aðeins að víkja að henni einni úr þessari umsögn Orkustofnunar, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir ákvæði 6. og 7. gr. er landeiganda heimilt án leyfis að hagnýta jarðhita í eignarlandi sínu til heimilis- og búsþarfa, þar með talið til ylræktar, iðnaðar og iðju, allt að 5 MW miðað við vermi sem tekið er úr jörðu á hverri sekúndu alls innan eignarlandsins. Landeiganda ber þó að tilkynna Orkustofnun um fyrirhugaðar jarðboranir ...``

Orkustofnun gerir við þetta athugasemd og telur að þessi mörk séu allt of há. Ég er sammála því og það er spurning hvort brtt. sem gerð er af meiri hluta iðnn. er ekki enn allt of há líka, þ.e. miðað við 3,5 megavött annars vegar og hins vegar minnir mig 70 lítra á sekúndu af vatni. Ég átta mig ekki alveg á því hvaða rök eru fyrir því að fara ekki enn þá lengra niður með þessa tölu, en vil taka það fram út af orðum hv. þm. Árna Mathiesens að ég er ósammála honum í þessu efni og mundi frekar styðja brtt. meiri hluta iðnn. en þingmannsins Árna Mathiesens í þessu máli.

Orkustofnun sendi líka frá sér mjög athyglisverðar ábendingar um hugsanlega reglugerð með þessu frv. og um það ætla ég ekki að fjalla, en ætla í síðari hluta ræðu minnar að víkja aðeins að einstökum greinum frv. og þá þyrfti ég eiginlega að fá hæstv. iðnrh. hér aftur, ef hann hefur ... (RG: Hann hleypur alltaf út.) Já, hann stekkur út alltaf. Það er svo skýtið.

(Forseti (ÓE): Forseti gerir ráðstafanir ... )

Eins og þetta er ótrúlega skemmtilegt og frábær ræða sem ég er að flytja hér, þá hleypur hann á dyr alveg um leið og ég lít af hæstv. ráðherra. En það er svona. Menn kunna ekki alltaf gott að meta, herra forseti. Það er nú svo.

Ég ætlaði aðeins að víkja, herra forseti, að nokkrum atriðum úr einstökum greinum frv. sem ég vildi bera undir iðnrh. Ég er búinn að rekja breytingartillögur Náttúrufræðistofnunar og Náttúruverndar ríkisins sem hæstv. iðnrh. þekkir og ég ætla ekki að endurtaka það fyrir hann. En hérna eru nokkur atriði sem ég vil vekja alveg sérstaka athygli hans á og það eru þau atriði í fyrsta lagi sem fram komu í ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds í dag varðandi netlög og varðandi rétt til vogreks, veiðirétt, veiðar fugla og spendýra og varðandi rétt til notkunar á jarðhita. Ég vil inna hæstv. iðnrh. eftir því hvort hann kannist við þau sjónarmið sem hv. þm. Ragnar Arnalds setti fram vegna þess að það var ákaflega skýrt sem hann setti hér upp þegar hann talaði um að það væri verið að færa landeigendum mikil auðæfi vegna þess að fjallað væri um og tekin með öll auðæfi undir sjávarbotni innan netlaga. Hann leiddi að því rök að nú væri um að ræða óbeinan eignarrétt eða nýtingarrétt á þessu svæði og þess vegna væri eignatilfærsla fólgin í því að afhenda þeim þau auðæfi sem eru undir sjávarbotni alveg fortakslaust. Nýjasta dæmið sem mér kemur í huga í því sambandi er jarðhiti sem fannst í Eyjafirðinum rétt utan við fjöruborðið sem hefði e.t.v. lent í höndunum á landeiganda ef þetta hefði verið orðið að lögum, þ.e. jarðhitinn sem fannst þarna á merkilegan hátt, heitavatnsuppsprettan í sjónum í Eyjafirðinum núna fyrir örfáum dögum eða vikum.

Ég vil líka aðeins víkja, herra forseti, að 6. gr. frv. Ég ætla ekki að fara yfir allar greinarnar --- ég tek það fram --- þó ég gæti svo sem sagt ýmislegt um þær flestar. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Landeigandi hefur ekki forgang að nýtingarleyfi vegna auðlindar í eignarlandi sínu, nema hann hafi áður fengið útgefið rannsóknarleyfi.``

Þetta er síðari málsliður 1. mgr.

Mér finnst einhvern veginn eins og þetta stangist á við 4. gr. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Iðnaðarráðherra er heimilt að hafa frumkvæði að og láta rannsaka og leita að auðlindum í jörðu hvar sem er á \mbox{landinu ...}

Nú fer leit eða rannsókn fram á vegum landeiganda og þarf þá ekki til þess leyfi ráðherra.``

Ég sé ekki betur en að það þurfi að skrifa á ný seinni málslið 1. mgr. 6. gr. til þess að það sé alveg fortakslaust að hún stangist ekki á við 4. gr. Ég ætla ekki að gera stórmál úr því en ég tel að það eigi að vanda vel það sem lengi á að standa og ef þetta á að verða að lögum, þá þurfi menn að skoða það betur sem hér er í þessum efnum.

Ég vil síðan spyrja hæstv. iðnrh. um 9. og 12. gr. Í 9. gr. segir svo, með leyfi forseta:

,,Landeigandi má ekki undanskilja eignarlandi sínu rétt til jarðefna, nema með sérstöku leyfi ráðherra.``

Í 12. gr. segir svo, með leyfi forseta:

,,Landeigandi má ekki undanskilja eignarlandi sínu jarðhitaréttindi, nema með sérstöku leyfi ráðherra.``

Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. að því hvaða sérstaka leyfi það gæti verið og hvaða rök mundu liggja til þess að iðnrh. gæti gefið leyfi til þess að undanskilja eignarlandi rétt til jarðefna eða jarðhitaréttindi. Hefðin er sú að hlunnindi og jörð heyra saman eins og við þekkjum úr gildandi jarðalögum og aldagamalli hefð í lagasetningu hér á landi. Það er mál sem ég hefði viljað spyrja hæstv. ráðherra um: Hvaða rök gætu verið til þess að slíta í sundur þessi ótvíræðu hlunnindi annars vegar og hins vegar landareignina í þessu tilviki?

Ef ég væri að flytja breytingartillögur við frv., herra forseti, þá mundi ég gera breytingartillögu við 18. gr. Ég mundi gera breytingartillögu við 21. gr. og bæta þar inn Náttúruvernd ríkisins. Ég mundi gera breytingartillögu við 22. gr. og bæta þar inn Náttúrufræðistofnun og ég mundi reyndar gera breytingartillögur við fleiri greinar varðandi þessar stofnanir.

Ég hef þegar fjallað um þann þátt sem lýtur að örverunum sérstaklega. Næst ætla ég að spyrja hæstv. iðnrh. um 31. gr. frv. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Iðnaðarráðherra hefur heimild til að semja við nýtingarleyfishafa um endurgjald fyrir auðlindir í eignarlöndum ríkisins að höfðu samráði við þann aðila sem fer með forræði eignarinnar.``

Ég mundi vilja vita á hvaða forsendum hæstv. iðnrh. mundi hugsa sér að gera þessa samninga. Á hvaða forsendum mundi vera samið um endurgjald fyrir auðlindir í eignarlöndum ríkisins að höfðu samráði við þann aðila sem fer með forræði eignarinnar? Ég átta mig ekki alveg á því hvernig þetta mundi verða gert og ber þess vegna fram þessa fyrirspurn til hæstv. ráðherra.

Ég vil þá, herra forseti, víkja að brtt. meiri hluta nefndarinnar. Ég hygg að það sé um að það eigi að endurskoða þessi lög --- er það ekki? --- fyrir 1. janúar 2001, ef ég man rétt, að það sé í þessu ... (Iðnrh.: Eina grein.) Eina grein bara? (Iðnrh.: 34. gr.) 34. greinina. Refsiákvæðin? (Gripið fram í: Örverur.) Örverugreinina. Já, akkúrat, það er örverugreinin. Vegna þess að það er litið þannig á að þar sé um tímabundinn vanda að ræða, akkúrat.

Ég ætlaði aðeins að segja að mér finnst þetta ekki góð aðferð við lagasetningu, þ.e. að segja að Alþingi eigi að endurskoða svona greinar. Ég hefði frekar haft það þannig að greinin félli bara úr gildi og þá verður Alþingi að framlengja hana, eins og t.d. við hæstv. iðnrh. gerðum, sennilega tíu sinnum ég og fimm sinnum hann, um lagaákvæði um Heilsuverndarstöðina í Reykjavík. Það hefði ég gert frekar en að segja svona, því að þetta er meiningarleysa: ,,Endurskoða skal ákvæði 34. gr. laganna fyrir 1. janúar 2001.`` Ég hefði viljað beina því til hæstv. ráðherra að úr því að málið fer til annarrar meðferðar í hv. nefnd á milli 2. og 3. umræðu, þá velti menn því fyrir sér að orða þetta öðruvísi.

Hv. þm. Pétur Blöndal hefur mjög oft gagnrýnt þetta atriði, þ.e. að verið er að setja inn ákvæði um að Alþingi eigi að endurskoða lög sem það setur sjálft. En við getum auðvitað ekkert sagt Alþingi fyrir verkum, hvorki við né yfirleitt nokkur. Alþingi er sjálfstætt og fullvalda á því augnabliki sem það situr á hverjum tíma og það getur enginn skipað Alþingi fyrir verkum.

Ég hef rakið hér nokkur atriði, herra forseti, sem hv. þm. Ragnar Arnalds nefndi og ég ætla ekki að endurtaka. Ég ætla að endurtaka það hins vegar að ég tel að ég hafi sýnt fram á það líka að meginatriðin í þessu frv. og allri meðferð þess, eru þrjú.

[22:30]

Það er í fyrsta lagi stórfelldur tilflutningur á eignum til landeigenda upp á tugi milljarða króna. Ég er andvígur því. Það er pólitísk afstaða sem ég hef í þeim efnum og ég tel engin rök mæla með því að þetta verði gert. Ekki hefur verið sýnt fram á að eðlilegt sé að færa þetta landeigendum. Það eru ekki tæknileg rök fyrir því, það eru engin rök fyrir því.

Í öðru lagi tel ég að frv. sé mjög gallað að því leytinu til að það hendir umhverfissjónarmiðunum út. Umhvrn. er hent út úr frv. og ég harma það og skora á hæstv. umhvrh. og iðnrh. að beita sér fyrir því að það verði lagað milli 2. og 3. umr. því að þrátt fyrir gallana á málinu væri það til mikilla bóta að mínu viti að umhverfinu væri sýndur meiri sómi í frv.

Kannski er rétt að geta þess, herra forseti, að við umræður um málið í hv. iðnn. kom aftur og aftur fram að þrátt fyrir þau ákvæði sem hér er um að ræða í þessu frv., án þess að nefna Náttúrufræðistofnun, Náttúruvernd ríkisins og fleira og lögin um umhverfismat, giltu þau samt og héldu samt gildi sínu gagnvart þessum lögum ef þetta frv. verður að lögum. Auðvitað gilda þau. En veruleikinn er hins vegar sá að þar sem þetta væru ný lög og þar sem um þessi mál hefur sérstaklega verið fjallað væri slæmt fyrir umhverfið, og þar með fyrir okkur öll og framtíð okkar í landinu, ef þeim sanngjörnu ábendinum væri hafnað sem fram hafa komið varðandi umhverfismálin, sem ég held að sé hægt að verða við. Ég held að hægt sé að verða við þeim.

Í þriðja og síðasta lagi, herra forseti, hef ég sýnt fram á að frv. er gallað. Það er ekki nógu vel skrifað, það er ekki nógu nákvæmt og það á að vanda svona mál betur. Þess vegna eru af þessum þremur ástæðum öll rök fyrir því, herra forseti, að málinu verði ekki haldið áfram heldur verði því vísað til ríkisstjórnarinnar og hún fái tækifæri til þess í sumar að skoða málið betur þannig að það komi í betri búningi til okkar í haust. Það er líka þannig, herra forseti að það væri hægt, ég er alveg sannfærður um það að ef hæstv. ríkisstjórn tæki þá ákvörðun að fresta þessu máli mundi það breyta ansi miklu og verða til þess að hægt væri að fara að vinna sem mest í ýmsum öðrum málum sem liggja fyrir í stofnuninni. Mér finnst líka þurfa að vera sátt um þetta mál. Þetta er svolítið landhelgismál, mál um þjóðarauðlindina og þjóðareignina. Það þarf að vera sátt um mál af þessu tagi, það á ekki að setja svona frv. í stríði og það er greinilega verið að því ef haldið verður áfram með málið eins og lítur út.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.