Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 15:08:23 (6499)

1998-05-12 15:08:23# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[15:08]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er enginn misskilningur í gangi, held ég, milli okkar um þetta með auðlindirnar. Ég var að tala um efnislegar auðlindir og orku og eins og tengdist landi, yfirborði jarðarinnar og þá áfram niður í jörðina. Það var í þeim skilningi sem ég sagðist ekki sjá að nokkur smuga gæti verið nokkurs staðar í þessu frv. að nokkuð væri undanskilið, bæði þegar þekktar auðlindir og eins óþekktar sem kynnu að finnast í framtíðinni féllu undir þetta þannig að um aldur og ævi væri verið að ganga frá því að landeigandinn sem ætti yfirborðið skyldi eiga allt, bæði þekkt og óþekkt, það sem þegar hefur fundist eða kann að finnast.

Hitt er svo alveg hárrétt að til eru margar óefnislegar eða huglægar auðlindir. Ég sagði reyndar að þó að maður stæði á yfirborði jarðar sem einhver ætti einkaeignarrétti þá mundi hugsun hans tæplega teljast eign landeigandans, enda erfitt að ná utan um slík og enn síður auðvitað mannvitið í Bill Gates eða einhverjum öðrum slíkum manni. Við erum ekki að tala um þá hluti hér og skulum ekkert rugla umræðuna með því

Varðandi það að bannað sé að stela og það eigi líka við um jarðhitann, vikurhólinn eða bara rófur úr annars garði þá er það alveg hárrétt. Það á að vera reglan, væntanlega, ef einkaeignarrétturinn er eins og hann er og er heilagur. Og þá er akkúrat komið að því sem ég var að reyna að útskýra en mér hefur greinilega ekki tekist nógu vel. Þegar kemur að jarðhitageymi niðri í jörðinni, sem er ekki stöðugt fyrirbæri, hvernig ætlar hv. þm. þá að afmarka það að ekki sé stolið þegar einn dælir upp hjá sjálfum sér og dregur niður vatnsflötinn og gengur á forðann hjá hinum? (Gripið fram í: Báðum.) Engir veggir fyrirfinnast niðri í jörðinni til að hólfa þetta sundur.

Það sem ég er að reyna að segja, herra forseti, er að ég held að þessi nálgun gangi ekki upp. Þetta er ekki hægt. Það mun koma á daginn að í öllu falli reynast þær reglur vandsettar sem ná utan um þetta.