Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 18:50:04 (6516)

1998-05-12 18:50:04# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[18:50]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson spyr stórt en ég náði því miður ekki fyrri hluta af spurningu hans en varðandi það hvernig einstaklingar fari betur með náttúruauðlindir en ríkið þá lít ég svo á, herra forseti, að þar sem hægt er að nýta einstaklingsframtakið þá verði það yfirleitt fljótara til og nýti betur þá möguleika sem til staðar eru en ríkið.

Við vitum um fjölmörg dæmi þess og mig langar til að taka eitt lítið dæmi sem er varðandi nýtingu á þjóðgörðum, sem eru eign þjóðarinnar en nefndir eða stjórnir eru kosnar af þinginu til þess að stýra, eins og þjóðgarðurinn á Þingvöllum. Ég held að almennt sé litið svo á að starfsemin í kringum þann þjóðgarð sé afskaplega langt frá því að teljast reisuleg að við getum sagt eða framúrstefnuleg og nýting á þeim þjóðgarði sem á að heita einhver mesta náttúruperla Íslands sé með eindæmum lítil. Í hugum margra er það talið vera ein ástæðan fyrir því hversu lítið er um að vera á þessu svæði að þar kemur enginn að sem á í rauninni hagsmuna að gæta. Þarna er opinber nefnd sem fundar einstaka sinnum en nálægðin og hugsanlega hvatinn er ekki til staðar. (ÖJ: Reisa tívolí.) Þarna má að sjálfsögðu margt vera og ég ætla ekkert að fara að tíunda það hér, herra þingmaður, Ögmundur Jónasson, (Forseti hringir.) enda ekki tími til.