Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 11:59:40 (6565)

1998-05-13 11:59:40# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SvG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[11:59]

Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er andvígur því að halda þessari atkvæðagreiðslu áfram. Ég sé engin efnisrök fyrir því. Það eru fordæmi fyrir því að fresta atkvæðagreiðslu a.m.k. í nokkra klukkutíma. Það getur verið að það sé erfitt að finna fordæmi fyrir því að fresta henni á milli daga. Mér er það ekki ljóst. En hitt man ég að á síðasta kjörtímabili var atkvæðagreiðslu frestað um fjárlögin sjálf í marga klukkutíma að kröfu Sjálfstfl. vegna þess að einn og einn þingmaður Alþfl. vildi fylgja samvisku sinni, eins og það var kallað hér í frammíkalli áðan. Það er því auðvitað alveg augljóst mál að fyrir því eru fordæmi að fresta atkvæðagreiðslu. Ég er ekki sáttur við niðurstöðu forseta. Það er þannig að forseti ræður og þess vegna hlýtur þessi atkvæðagreiðsla að fara fram. En ég tel að það sé í rauninni gagnrýni vert.

Ég vil líka gagnrýna það og halda því til haga, herra forseti, að það að fjarvistarskrá hafi verið lögð fram sé notuð sem málsástæða fyrir því að formenn þingflokka eigi að vita hverjir eru hér og hverjir ekki. Það gengur auðvitað ekki að setja málin þannig upp. Annaðhvort verður að koma þessari skrá á framfæri við formenn þingflokkanna á nýjan hátt eða að fara að tilkynna alla þá sem eru fjarverandi, nafn fyrir nafn. Það var að vísu mjög slæmt og erfitt að nota þessa aðferð á sínum tíma vegna þess að þeir sem voru mest í burtu vanræktu yfirleitt að láta skrá sig á fjarvistarskrána. Það voru því þeir sem voru samviskusamastir sem voru lesnir hér upp í beinum útsendingum af því að þeir höfðu tilkynnt forföll sín. Þetta var út af fyrir sig aðalástæðan fyrir því að menn ákváðu að meðhöndla fjarvistarskrána eins og gert er núna. En það breytir ekki því að ef það á að fara að nota fjarvistarskrána og framlagningu hennar sem málsástæðu fyrir því að stjórnarandstöðuþingmenn verði að una niðurstöðu eins og þeirri sem hér fer fram í dag þá er augljóst að við verðum að óska eftir því að öðruvísi verði farið með þessa skrá í framtíðinni.