Húsnæðismál

Fimmtudaginn 14. maí 1998, kl. 10:32:23 (6591)

1998-05-14 10:32:23# 122. lþ. 127.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 122. lþ.

[10:32]

Ögmundur Jónasson (frh.):

Hæstv. forseti. Í víðlesnasta dagblaði landsins, Morgunblaðinu, birtist í morgun heilsíðuauglýsing sem beint er til hv. alþingismanna þar sem þeir eru beðnir um að fresta afgreiðslu þess máls sem hér er til umfjöllunar. Undir þessa heilsíðuauglýsingu skrifa eftirfarandi samtök: ASÍ, BSRB, Neytendasamtökin, Kennarasamband Íslands, Leigjendasamtökin, Landssamtökin Þroskahjálp, Geðhjálp, Félagsstofnun stúdenta, Búseti, Öryrkjabandalag Íslands, Sjálfsbjörg -- Landssamband fatlaðra, Byggingarfélag námsmanna, Nemendagarðar Samvinnuháskólans, Félag einstæðra foreldra, Sjálfsbjörg -- Félag fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu, Landssambandið Þak yfir höfuðið, Hússjóður Öryrkjabandalagsins, Blindrafélagið, Húsnæðisfélagið SEM, Sólheimar, Félagsstofnun stúdenta á Akureyri, Bandalag ísl. sérskólanema, Nemendagarðar Bændaskólans á Hólum, Styrktarfélag vangefinna, Félag ábyrgra feðra, Landssamband eldri borgara.

Öll þessi almannasamtök skrifa undir þessa áskorun til Alþingis um að fresta afgreiðslu þess máls sem hér er til umræðu, frv. um nýja húsnæðislöggjöf og mér fannst það umhugsunarefni í umfjöllun fjölmiðla í gær hve skýrt það kom fram annars vegar hve ríka áherslu almannasamtök leggja á þau sjónarmið að frv. verði frestað og óvissu um framtíðarskipan félagslega þáttarins eytt og hins vegar hitt sjónarmiðið sem fram kom hjá öðrum aðilum, þeim sem sýsla með húsnæðismál á almennum markaði, Félagi fasteignasala sem var yfir sig hrifið yfir nýju húsnæðislöggjöfinni sem er í burðarliðnum hjá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.

Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. félmrh. hvort honum finnist ekki ástæða til að verða við þeirri kröfu og þeirri áskorun sem fram kemur frá öllum þessum almannasamtökum í landinu, frá verkalýðshreyfingunni og frá öllum eða allflestum þeim samtökum sem hafa með félagslegt húsnæði að gera. Það er umhugsunarvert að þeir sem standa í forsvari fyrir þá sem standa höllum fæti í okkar þjóðfélagi, það eru þeir sem beina áskorun til hæstv. ríkisstjórnar um að fresta frágangi þessa máls þar til sýnt verður hvaða áhrif þessar lagabreytingar hafa.

Við sem höfum talað gegn málinu höfum fært rök fyrir því að frv. eins og það stendur mun veikja stöðu þessa fólks verulega og hætt er við því að þeim sem verst standa að vígi verði vísað út á götuna, engin úrræði eru til staðar. Ríkisstjórnin og hæstv. félmrh. segja þetta af og frá og reiða fram tölur máli sínu til stuðnings. Við hins vegar vefengjum þessar tölur og þessa útreikninga. Ég spyr: Er ekki rétt að fá botn í málið þannig að menn hafi alla vega fast land undir fótum hvað staðreyndir máls snertir þannig að við deilum ekki um þær þótt þegar upp verður staðið kunni að verða ágreiningur um pólitísk markmið? Það er allt önnur saga.

Ég vakti máls á því í gær og athygli á því að hér er á síðustu dögum þingsins verið að þröngva í gegnum afgreiðslu, að afgreiða undir svipuhöggum nánast, löggjöf sem tekur á ýmsum grundvallaratriðum í okkar þjóðlífi án þess að menn hafi gert sér fyllilega grein fyrir afleiðingum gerða sinna. Hvers vegna segi ég það? Ég marka það af viðbrögðum hv. alþingismanna úr stjórnarliðinu í gær þegar þeir gerðu sér grein fyrir því að þeir eru að afhenda einkaaðilum eignarhald á auðlindum þjóðarinnar.

Ég vakti máls á víðara samhengi málsins, að með EES-samkomulaginu er auðmönnum á Evrópusvæðinu heimilt að kaupa hér land til eignar og með lagasmíðinni í gær, sem var hér til umfjöllunar, er þessum sömu aðilum afhent eignarhald á auðlindum sem kunna að finnast í jörðu. Ég held að mörgum hafi brugðið í brún þegar þeir áttuðu sig á því hvað þeir eru að gera. Ég held það. Ég held að mönnum hafi líka brugðið í brún þegar þeir áttuðu sig á því að landeigendum er núna heimilt nánast að selja fjöll, að selja íslenska náttúru, flytja hana út. Það urðu hér miklar umræður þegar farið var að flytja úr Seyðishólum til útflutnings. Menn ræddu það og sýndist sitt hverjum í því efni. Með frv. sem var til umfjöllunar í gær er verið að staðfesta eða skapa eignaraðilum á landi rétt til þess að selja náttúru Íslands án þess að við því séu reistar nokkrar skorður. Þetta er staðreynd málsins. Ég leyfi mér að fullyrða og ég dæmi það af viðbrögðum hv. alþm. að menn hafi ekki gert sér fulla grein fyrir því sem þeir eru að gera. Nú spyr ég í framhaldi af þessu og þess vegna vek ég máls á þessu: Hafa menn gert sér grein fyrir því hvaða afleiðingar það frv. sem hér er til umfjöllunar kemur til með að hafa eða ætla menn ekki að draga einhvern lærdóm, eða við skulum öllu heldur segja ætla menn ekki að taka tillit til þeirra eindregnu óska sem fram koma í þessari auglýsingu, þessu ákalli frá samtökum launafólks, frá öllum þeim sem hafa með félagslegt húsnæði að gera eða nánast öllum? Þessi samtök eru að óska eftir því að menn setjist yfir málið og fresti því, fresti afgreiðslu þess þar til allir endar hafa verið bundnir og mér finnst það lágmarkskrafa að við verðum ásátt hér um staðreyndir málsins. Það er reikningslegur ágreiningur um útreikninga. Þann ágreining er hægt að leiða til lykta og það á að gera það. Síðan eins og ég segi getum við deilt um pólitíkina. Það er eðlilegt að um slíka hluti sé ágreiningur og ekkert við því að gera í rauninni annað en að kjósendur dragi réttar ályktanir við alþingiskosningar og við sveitarstjórnarkosningar. Þar geta þeir haft áhrif á hvaða pólitískri stefnu er fylgt í landinu og í sveitarfélögununum.

Í gær var ég byrjaður að rekja mig í gegnum frv. og ætla ekki að endurtaka það hér. Ég rakti sögulegan aðdraganda málsins, vakti athygli á því að fyrstu lögin um félagslegar íbúðir voru sett í lok þriðja áratugarins, árið 1929, og á þeim áratugum sem síðan eru liðnir hefur félagslega húsnæðiskerfið verið smám saman að eflast og komið mörgu láglaunafólki og barnafjölskyldum vel. En nú er svo komið að 10.600 íbúðir teljast til félagslegs húsnæðis á Íslandi og þessu félagslega húsnæðiskerfi hefur ríkisstjórnin nú tekið ákvörðun um að gerbreyta.

Ég fór í gegnum það hvernig gert er ráð fyrir því með þessu frv. að leggja Húsnæðisstofnun ríkisins niður og koma á fót nýrri stofnun, Íbúðalánasjóði og hvernig byggingarsjóðirnir tveir, Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna verði sameinaðir innan þessarar stofnunar. Ég vakti máls á því að í stað 90--100% lána á 1--2,4% vöxtum til kaupa á félagslegu húsnæði verði veitt húsbréfalán eða almenn lán allt að 65--70% og síðan viðbótarlán sem nema 20--25% En þau lán verða á ábyrgð sveitarfélaganna.

Ég vakti máls á því að áherslur verkalýðshreyfingarinnar og þeirra markmiða sem sett eru með þessu frv. fara að sumu leyti saman. Menn hafa viljað gera breytingar á því kerfi sem við búum við. Menn vilja auka valfrelsi einstaklinganna þannig að þeir verði sjálfráðari en verið hefur um það hvar þeir búa, að félagsleg lán verði gerð valkvæð að þessu leyti og þar fara markmiðin saman. Hins vegar höfum við miklar efasemdir um það að reyndin verði önnur. Veruleikinn að okkar mati mun verða sá að greiðslubyrðin mun setja fólki mjög þröngar skorður um hvar það býr og í hvers lags húsnæði það býr.

[10:45]

Við skulum gæta okkur á því að láta ekki um of blekkjast af forminu og ég minnti á það í gær þegar Margrét Thatcher í Bretlandi vildi koma öllu félagslegu húsnæði í einkaeign vegna þess að það liti betur út af pólitískum, hugmyndafræðilegum ástæðum þeirra frjálshyggjumanna í Bretlandi. Síðan var hin ástæðan sú að breska ríkið og sveitarfélögin, hið opinbera í Bretlandi, vildi spara peninga og koma viðhaldi og ýmsum kvöðum yfir á einstaklingana. Niðurstaðan varð sú að fólk reis ekki undir þessu og greinilegt er að húsnæði láglaunafólks hefur hrakað. Það varð niðurstaðan. Menn lögðu upp með form sem mönnum fannst hljóma eða líta vel út. Það væri eðlilegt og gott að fólk ætti íbúðir sínar en þegar veruleikinn tók að láta á sér kræla gerði hann það með þeim hætti að húsnæði þessa fólks hrakaði. Þess vegna eigum við að passa okkur svolítið á því að láta ekki formið blekkja okkur. Segja má að það sé fallegra og skipulegra kerfi að vera með alla félagslega aðstoð í húsnæðismálum í einum, afmörkuðum farvegi gegnum vaxtabæturnar. En á hitt er að líta og það er það sem við spyrjum um, hver verður reyndin síðan? Hvernig kemur þetta út fyrir fólk? Við höfum áhyggjur af því að auðveldara verði að skerða kjörin ef allt er komið í þennan farveg og horfið frá þeim leiðum sem farnar hafa verið á undanförnum áratugum að niðurgreiða húsnæði einnig með niðurgreiðslu á vöxtum o.s.frv.

Ég rakti síðan afstöðu minni hluta félmn. til þessa máls og lagði áherslu á að við mótmæltum því harðlega að ríkisstjórnin knýi húsnæðisfrv. í gegnum þingið núna á þessu vori og sögðum að hér væri hagsmunamál þúsunda fjölskyldna sem þyrfti að gaumgæfa miklum mun betur en þær þröngu tímaskorður sem okkur eru reistar gefa tilefni til og möguleika á.

Ég vakti athygli á því að eina félagslega aðgerðin, ef má kalla það því nafni, sem boðið er upp á með frv. eru hin svokölluðu viðbótarlán en enginn veit hve mörg þessi viðbótarlán verða og það veit enginn heldur á hvaða kjörum þessi viðbótarlán verða. Í lagafrv. segir að vextir af viðbótarlánum skuli taka mið af þeim lánskjörum sem Íbúðalánasjóði bjóðist hverju sinni. Hér er ekkert um það að villast að stefnt er að því að vextirnir taki mið af því sem gerist á markaði, markaðsvextir munu verða ráðandi en síðan er vísað til ábyrgðar sveitarfélaganna á því að útvega því fólki húsnæði sem stendur hallast fæti.

Á það hefur verið bent að skylda sveitarfélaganna um að aðstoða fólk í húsnæðismálum á sér ekki traustar lagalegar forsendur, hvorki í þessu frv. né öðrum sem lúta að félagsþjónustu sveitarfélaganna. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga segir að vísu: ,,Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði ...`` Þetta er að sjálfsögðu háð pólitísku mati þeirra sem fara með völdin og við vitum hvernig því valdi er beitt á mjög mismunandi hátt. Það kann að vera vilji til að auka félagslegt húsnæði í Reykjavík svo dæmi sé tekið. Ekki hefur verið vilji til þess að gera það í Garðabæ. Ef ég man rétt hefur ekki verið mikill vilji til þess í Vestmannaeyjum á liðnu kjörtímabili t.d. svo annað dæmi sé tekið. Auðvitað fer þetta eftir hinu pólitíska litrófi hve mikinn áhuga sveitarstjórnir hafa á þessu málefni. Sumar sveitarstjórnir og hér á þéttbýlissvæðinu suðvestanlands vilja hreinlega hrekja láglaunafólk út úr byggð sinni. Það er staðreynd. Hvernig geta þau gert það? Það gera þau einfaldlega með því að veita takmarkaða félagslega þjónustu og þar á meðal í húsnæðismálum. Þetta er bara blákaldur veruleikinn.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu í félmn. verða lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga endurskoðuð. En það er eins með það mál og önnur sem snerta efni þessa frv. að enginn veit hver niðurstaðan verður úr því. Þess vegna er spurt: Er ekki nær að ganga frá öllum þeim málum sem tengjast frv.? Öllum þeim lagabreytingum sem heitið er? Er ekki rétt að ganga frá þeim áður en við samþykkjum frv. og gerum það að lögum?

Ég minnti á það í gær að við samþykktum fyrir síðustu jól frv. um húsaleigubætur með mjög háleitri markmiðslýsingu þar sem segir í 1. gr. þeirra laga að kjör láglaunafólks á leigumarkaði eigi að batna. Það er fest í lög. Síðan kemur í ljós að kjör margra versna, ekki vegna þeirra laga, sem voru að mörgu leyti ágæt, heldur vegna þess hvernig þau falla inn í aðra samfellu sem eru viðbrögð sveitarfélaganna þegar húsaleigubætur koma til sögunnar. Við þekkjum það í Reykjavík hvernig Félagsíbúðir hf., sú stofnun, hækkaði húsaleigu og við röktum það í ræðustól, bæði ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hvernig kjör þess fólks sem þar býr versnuðu. Síðan hefur borgin verið að koma til móts við hluta af þessu fólki í gegnum Félagsmálastofnun en þessir endar eru ekkert bundnir og ég spyr: Hvers vegna ekki að hnýta alla þessa enda áður en við samþykkjum þessi lög? Hvers vegna ekki að gera það? Ég vek athygli á þessu eða nefni þetta vegna þess að það segir að lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga verði endurskoðuð í framhaldi af þessum breytingum.

Reynslan sýnir að vilji sveitarfélaganna til að koma upp leiguhúsnæði hefur verið afar takmarkaður eins og ég gat um áðan og ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af framtíð þess fólks sem hingað til hefur fengið inni í félagslega húsnæðiskerfinu. En allt er þetta mál sama markinu brennt. Áhrif þess eru óljós að flestu leyti.

Núverandi kerfi, sem hefur lengi verið í föstum skorðum með ákveðinn fjölda nýrra íbúða og svipaðan fjölda endursöluíbúða ár hvert, tryggir réttindi og skyldur til öflunar félagslegs húsnæðis þótt það hafi engan veginn getað annað eftirspurn, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Þá má benda á það að félagslega kerfið hefur haldið niðri verði á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að það hafa verið byggðar ódýrari íbúðir en almennt gerist. Þannig er íbúðaverð í Reykjavík um 16% lægra en annars staðar en hér eftir mun markaðsverð ráða enda fagna fasteignasalar mjög, hrópa ferfalt húrra fyrir ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og þessu sameiginlega átaki hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. um breytingar á húsnæðislöggjöfinni. En við teljum að verði hið nýja kerfi að veruleika þá verði möguleikar fólks til að kaupa húsnæði á félagslegum kjörum eða til að komast inn í leiguíbúðir sveitarfélaga algerlega háðar vilja og framtaki sveitarfélaganna hvað þau treysta sér til að ábyrgjast mörg viðbótarlán og hve mikla áherslu þau leggja á leiguhúsnæði. Eins og ég gat um áðan fer það eftir pólitískri afstöðu sveitarstjórna hvernig þau bregðast við í þessu efni.

Við í minni hluta félmn. höfum vakið athygli á því að með þessum lagabreytingum er verið að klippa endanlega á tengsl aðila vinnumarkaðarins við húsnæðismálin. Við vekjum athygli á því að hvorki verkalýðshreyfingin né þau félagasamtök sem eiga hvað mestra hagsmuna að gæta komu að samningu frv. enda hafa þau mótmælt innihaldi þess harðlega og nú síðast, eins og ég vakti athygli á í upphafi máls míns, í heilsíðuauglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem skorað er á alþingismenn að fresta húsnæðisfrv.

Spyrja má hvaða máli það skipti að skera á tengsl verkalýðshreyfingarinnar við húsnæðisnefndirnar. Ég held að það skipti mjög miklu máli vegna þess að það er mjög auðveldlega hægt að fara með kjarabaráttu inn í þann farveg sem peningafrjálshyggjan vill helst að gerist að hver maður hugsi þröngt um hag sinn og spyrji bara einnar spurningar: Hvað fæ ég mikið í minn hlut? Hvað fæ ég mikið í launaumslag mitt? Þannig er sem betur fer ekki hugsað innan verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi, ekki enn þá. Það er a.m.k. ekki hið ríkjandi viðhorf innan stærstu heildarsamtaka launafólks á Íslandi. Hvernig birtist það? Það birtist í því að allir, þegar þeir eru komnir saman á heildarvettvangi, eru að velta samfélaginu fyrir sér í heild sinni, hvers konar samfélagi við viljum búa í og þeir sem eru í hærri kantinum spyrja hvernig þeim sem eru í lægri kantinum reiði af og þá horfa menn ekki síst til húsnæðismála. Hvernig er búið að láglaunafólki á Íslandi í þeim efnum?

[11:00]

Vitanlega væri hægt að heimfæra þessa hugsun upp á einhvers konar þrönga einstaklingshyggju og segja: Auðvitað er það hagur hvers og eins að smíða réttlátt samfélag vegna þess að þegar allt kemur til alls líður hverjum og einum betur í slíku samfélagi. Fólki líður betur í réttlátu samfélagi en ranglátu. Þegar allt kæmi til alls þá værum við að tryggja hag hvers og eins með því að smíða réttlátt samfélag. Það er hins vegar ekki út frá þessari forsendu sem menn leggja upp í umræðuna innan verkalýðshreyfingarinnar að jafnaði. Menn eru einnig að spyrja hvernig náunganum reiði af. Mér finnst mjög mikilvægt að við viðhöldum þessu sjónarmiði og styrkjum það í okkar samfélagi.

Hvernig gerum við það? Við gerum það t.d. með því að taka tillit til óska fólks úr þessum hluta samfélagsins. Þegar ég segi þessum hluta samfélagsins, þá er ég í rauninni að tala um næstum alla þjóðina vegna þess að þessi ríkisstjórn þjónar minnihlutahóp. Það er meiri hlutinn, yfirgnæfandi meiri hluti sem er á öndverðum meiði við ríkisstjórnarstefnuna, ekki bara í þessu máli heldur allflestum málum. Það held ég að sé hægt að fullyrða. (Gripið fram í: Þetta er misskilningur.) Þetta er ekki misskilningur. Hér er fulltrúi Sjálfstfl. sem kallar fram í að þetta sé einhver misskilningur. Ég er alveg tilbúinn að fara í gegnum öll þau frumvörp sem hafa verið afgreidd af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Ég er alveg tilbúinn að gera það.

Við skulum t.d. taka til við að ræða hvað hér hefur gerst í skattamálum. Við skulum ræða dálítið um fjármagnstekjuskattinn. Eigum við að gera það? Eigum við að ræða um eignarhald á auðlindum? Eigum við að taka aftur upp umræðu um það hvort verið er að gæta almannahagsmuna eða sérhagsmuna í því frv. sem var til afgreiðslu við lok 2. umr. í gær? Var verið að gæta hagsmuna meiri hlutans þar þegar staðfest var með lögum, sem eiga reyndar eftir að koma til 3. umr., að einkaeignarrétturinn á landi nái til miðju jarðar? Er þar verið að tryggja almannahagsmuni eða skyldu það vera sérhagsmunir sem verið er að tryggja?

Ríkisstjórnir Sjálfstfl., fyrst með Alþfl. og núna með Framsfl., stigu inn á þessa braut fyrst með því að greiða auðmönnum leið til að kaupa upp íslenskt land. Núna á eignarrétturinn að fara niður í jörðina líka. Er þetta til að þjóna almannahagsmunum? Það hefði ég ekki haldið. Ég er reiðubúinn að fara yfir önnur frumvörp og annað sem þessi ríkisstjórn hefur gert til að reyna að sannfæra hv. þm. Egil Jónsson um að þessi ríkisstjórn hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar, þjónar ekki almannahagsmunum heldur þröngum sérhagsmunum.

Það atriði frv. sem ég ræði núna er tengsl verkalýðshreyfingarinnar við húsnæðiskerfið. Ég vek athygli á því að það er verið að skera á þessi tengsl. Ég spyr hvort menn telji það virkilega til bóta og virkilega vera gæfuspor að gera það. Ég held ekki. Það er vegna þess að með hinum formlegu tengslum sem liggja á milli verkalýðshreyfingar og hinna ýmsu stofnana samfélagsins er verið að tryggja umræðu um þessi málefni í stofnunum verkalýðshreyfingarinnar.

Verkalýðshreyfingin þarf að taka afstöðu. Það er ekki bara það að hún hafi áhuga. Hann mun hún áfram hafa. En hún þarf líka vegna þessara formlegu tengsla að taka afstöðu til mála. Hún þarf að skipa félaga sína í stjórnir og þeir gera síðan öðrum stofnunum innan verkalýðshreyfingarinnar grein fyrir sínu starfi. Þannig er formlega stuðlað að því að allir axli sína ábyrgð í samfélaginu, líka verkalýðshreyfingin. Hún á að gera það og hefur sýnt að hún vill gera það. Hún hefur átt drýgstan hlut í samfélagi okkar við að byggja upp kerfið sem við búum við, kerfi sem hafist var handa við að smíða undir lok 3. áratugarins. Um það hefur síðan ítrekað verið samið í samningum. Nú á að höggva á þessi tengsl verkalýðshreyfingarinnar og húsnæðiskerfisins. Ég bið menn um að íhuga það rækilega hvort hér sé verið að stíga gæfuspor. Það held ég ekki.

Ég vakti athygli á því áðan að það væru fyrirheit um að gera breytingar á aðskiljanlegum lögum. Ég segi að í stað fyrirheita ættum við að sjá efndir áður en þetta frv. verður gert að lögum. Sama á reyndar við um reglugerðirnar. Það er gert ráð fyrir 28 reglugerðum í tengslum við þetta frv. Er ekki rétt að fá þær allar fram? Þó mörg okkar hafi gagnrýnt mjög harðlega vinnubrögðin í tengslum við þetta frv. þá verð ég að segja að í þeirri vinnu sem fram hefur farið í félmn. þá hafa starfsmenn félmrn. og aðrir sem hafa komið fram fyrir hönd hæstv. félmrh. lagt sig alla fram um að vinna málin vel í okkar hendur. Að mörgu leyti hafa þeir gert það mjög vel. Það er því ekkert upp á það að kvarta þegar þetta vinnuferli er á annað borð komið í gagn. Það eina sem við erum að segja er að halda eigi áfram á þessari braut og ljúka vinnunni að hætti siðaðra manna, fara vel og rækilega yfir málin. Ég treysti þeim aðilum sem koma að því fyllilega til þess að gera það. Ég spyr hvort þetta sé ekki eðlileg og sanngjörn krafa.

Ég vek athygli á því að í tengslum við þessar lagabreytingar er gert ráð fyrir 28 reglugerðarbreytingum. Í þessu frv. er reyndar gert ráð fyrir mjög miklu ráðherravaldi, t.d. við skipan í stjórn Íbúðalánasjóðsins og svo við þessa reglugerðarsmíð alla. Þetta tvennt gerir alla framkvæmd laganna mjög óljósa.

Ráðherra mun einn skipa stjórn hinnar nýju ríkisstofnunar sem verður síðan sjálfstæð stofnun. Með þessu er enn einu sinni verið að leggja niður eina af þeim stjórnum ríkisstofnana sem Alþingi hefur áður kosið. Þetta er gert án þess að fram hafi farið umræða um það hvort þetta sé æskilegt. Um þetta hefur verið rætt í félmn. Við sem þar sitjum höfum rætt þetta. Á Alþingi hefur ekki farið fram almenn umræða um þessa stefnumótun, um að taka þessi völd úr höndum Alþingis og færa hana inn í Stjórnarráðið, til framkvæmdarvaldsins.

Ráðherrann einn skipar stjórnina. Þetta er það sem er að gerast í hinum nýju hlutafélögum sem eru í eign ríkisins eins og Landssímans og Íslandspósts hf. Þar skipar ráðherra einn stjórnina. Til að friða mannskapinn og friða pólitíkina hefur hann valið menn úr ólíkum pólitískum flokkum að einhverju leyti. Það er hins vegar algerlega á hans færi að ákveða. Hann einn ákveður. Hér er hæstv. félmrh., Páll Pétursson, að leggja það til að hann einn ráði hverjir sitji í stjórn Íbúðalánasjóðs.

Ég vakti athygli á því við umræðuna í gær og ég veit að hv. formaður félmn. sem er í salnum man eftir þeirri umræðu. Við rákum augun í það að í einni umsögninni sem nefndinni barst var talað um Íbúðalánasjóð sem hlutafélag. Ég held að það hafi verið í umsögn Ríkisendurskoðunar. Við veltum því fyrir okkur hvort Ríkisendurskoðun hefði fengið röng drög í hendurnar eða hvort þetta væri næsta skref sem á að stíga, (SvG: Er þetta rétt Páll?) að gera Íbúðalánasjóð að hlutafélagi.

Við vitum að það hefur verið pólitískur ágreiningur um hvert eigi að halda í þessum málum. Hæstv. félmrh. finnst hann hafa unnið frækinn sigur gagnvart Sjálfstfl. sem vill koma öllum þessum málum út á markaðinn, inn í bankana og fjármagnskerfið. Hæstv. félmrh. finnst hann hafa unnið frækinn sigur að viðhalda þó einhverri umsýslan á vegum samfélagsins. Þar vísa ég til Íbúðalánasjóðsins.

Þetta kann að vera rétt. Ég efast ekkert um það. Ég veit að Sjálfstfl. vill helst koma þessu öllu út í bankana og inn í fjármagnskerfið. Menn mega ekki blindast í þessu samstarfi við Sjálfstfl. og ættu reyndar að velja sér aðra félaga í stjórnarsamstarfi en þann flokk ef þeir vilja kenna sig við félagshyggju. Vegna þessa sigurs er hæstv. félmrh. og Framsfl. tilbúinn að fórna öllu félagslega kerfinu, rífa það upp með rótum og fórna. Hann er svo glaður yfir að hafa komið í veg fyrir að í þessum áfanga verði ekki húsnæðiskerfið allt sett inn á marmaragólfin í bönkum og verðbréfasjóðum. Þetta er mergurinn málsins. (SvG: Nú, verða framsóknarmenn í stjórninni?) Þess vegna er Framsfl. ábyrgur fyrir þessu örlagaríka skrefi sem hér á að stíga, jafnvel þó hann hafi komið í veg fyrir að lengra yrði gengið að kröfu Sjálfstfl. í þessu efni.

Það er mjög í tísku núna að tala um að þessi nýi Íbúða\-lánasjóður eigi að vera sjálfbær í rekstri. Þetta væri hið besta mál ef það þýddi það að tekjur og útgjöld ætti að standast á, auðvitað viljum við það öll. Auðvitað viljum við skynsamlegan rekstur á öllum stofnunum og sjóðum sem til er stofnað. Spurningin er hvernig teknanna er aflað. Hvernig á að afla þessara tekna? Það á aftur að gera í gegnum fjármagnsmarkaðinn. Þess vegna munu vextirnir í þeim fjármunum sem hinn nýi sjóður fær að láni stjórna vöxtunum sem fara út úr sjóðnum á hinum endanum. Við þetta er átt þegar talað er um að markaðsvæða kerfið. Nú er það bannorð að niðurgreiða kerfið eða koma með framlög frá hinu opinbera. Að vísu eru ákvæði þess efnis að í tvö ár eigi að vera einhvers konar millibilsástand í þeim efnum en síðan blasir óvissan við.

[11:15]

Hæstv. forseti. Rétt er að ítreka að í frv. er ekkert sem tryggir að sveitarfélögin svari vaxandi þörf fyrir leiguhúsnæði. Svo dæmi sé tekið má nefna að í umsögn Kópavogsbæjar kemur fram að reikna má með að þar verði þörf fyrir 75 nýjar leiguíbúðir á ári næstu fjögur árin sem þýðir verulegan kostnað fyrir sveitarfélagið, 75 nýjar leiguíbúðir á ári. Í umsögn húsnæðisnefndar Akureyrarbæjar kemur fram að búast megi við að þar verði þörf fyrir 60 nýjar leiguíbúðir á ári miðað við þann hóp sem mun ekki standast greiðslumat og ekki eiga fyrir 10% útborgun. Hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur liggur fyrir 381 gild umsókn um húsnæði en forgangshópur telur 197.

Sjötíu og fimm nýjar leiguíbúðir á ári næstu fjögur árin að mati Kópavogsbæjar, á Akureyri 60 nýjar leiguíbúðir á ári og hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur liggur fyrir 381 umsókn. Hvernig ætla menn að svara þessu? Hvernig er gert ráð fyrir að þessu verði svarað með frv.? Gert er ráð fyrir 50 íbúðum á tveimur árum, 25 íbúðum á ári. Hvers konar brandari er þetta eiginlega? Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Hvers konar vitleysa er þetta eiginlega?

Ætla menn að samþykkja þessar lagabreytingar án þess að gengið sé frá þessum málum? Hæstv. ráðherra og aðrir stjórnarliðar hafa hrist hausinn. Þeir hafa hrist höfuðið þegar því er haldið fram að verið sé að vísa fólki út á gaddinn, út á götuna með þessu frv., þá hrista menn bara höfuðið og segja að þetta sé misskilningur, rugl og vitleysa. Síðan segja þeir að það eigi að rannsaka málin og kanna og setja í nefnd sem mér finnst gott og ég fagna því. Mér finnst það gott. Mér finnst líka gott að það eigi að treysta ýmsa lagasetningu, t.d. um félagsþjónustu sveitarfélaga. Mér finnst það gott og ég fagna því, en ég vil sjá efndir og ég vil sjá peninga. Ég vil sjá tryggingu fyrir því að fjármagn komi til sögunnar. Það er ekki nóg að lofa hlutunum ef menn eru að lofa upp í ermina á sér. Við viljum sjá þessa peninga, hversu mikið, hversu margar leiguíbúðir á að reisa, hvernig nákvæmlega á að koma til móts við þau samtök sem hafa haft með félagslegt húsnæði að gera í landinu og hafa birt heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu í dag. Öll helstu almannasamtök í landinu sem hafa með félagslegt húsnæði að gera hafa undirritað þessa auglýsingu. Hvernig á að koma til móts við þau samtök? Ekki með einhverjum óljósum loforðum og nefndaskipan. Hvað á mikið fjármagn að fara til félagslegs húsnæðis á komandi árum? Hvað á mikið fjármagn að fara til þess?

Hvernig ætlar hæstv. félmrh. að svara ASÍ, BSRB, Neytendasamtökunum, Kennarasambandi Íslands, Leigjendasamtökunum, Landssamtökunum Þroskahjálp, Geðhjálp, Félagsstofnun stúdenta, Búseta, Öryrkjabandalagi Íslands, Sjálfsbjörg -- Landssambandi fatlaðra, Byggingarfélagi námsmanna, Nemendagörðum Samvinnuháskólans, Félagi einstæðra foreldra, Sjálfsbjörg -- Félagi fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu, Þaki yfir höfuðið -- landssambandi, Hússjóði Öryrkjabandalagsins, Blindrafélaginu, Húsnæðisfélaginu SEM, Sólheimum, Félagsstofnun stúdenta á Akureyri, Bandalagi ísl. sérskólanema, Nemendagörðum Bændaskólans á Hólum, Styrktarfélagi vangefinna, Félagi ábyrgra feðra, Landssambandi eldri borgara? Hvernig ætlar hæstv. félmrh. að svara þessum samtökum? Hvað á að veita miklu fjármagni á komandi árum til félagslegs húsnæðis?

Ég er búinn að lesa þessa runu upp áður og ég á eftir að gera það oft vegna þess að við stöndum frammi fyrir slíkum yfirgangi af stjórnvöldum, ekki bara í þessu máli heldur öðrum málum einnig. Ég er nýkominn af fundi félmn. í morgun. Þar voru fulltrúar ýmissa aðila sem koma nálægt útivist og útilífi, frá Ferðafélaginu, Náttúruverndarsamtökunum, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Umhverfisstofnun Háskóla Íslands svo nokkrar stofnanir séu taldar og félög, og menn eru algerlega gáttaðir á vinnubrögðum þessarar ríkisstjórnar, algerlega gáttaðir.

Það er almannavilji fyrir því í þjóðfélaginu að þeim málum verði frestað. Menn bara skella við skollaeyrum. Það á ekki að hlusta á neitt. Spurt var hvort menn hefðu verið að velta því fyrir sér í ræðustól hvort þetta samræmist þingræði. Auðvitað gerir það það. En það samræmist ekki almennum kröfum sem við gerum um lýðræði, það gerir það ekki. Þetta er ótrúleg valdníðsla að fara svona fram gagnvart almenningi á Íslandi, ótrúleg valdníðsla. Ég hélt að menn hefðu lært og dregið einhverja lærdóma af þeirri reiði sem var í landinu þegar síðasta ríkisstjórn neitaði því að leyfa þjóðinni að kjósa um EES-samninginn. Ég hélt að menn hefðu dregið einhverjar ályktanir og einhverja lærdóma af því en svo er greinilega ekki.

Varðandi námsmannaíbúðir þá er alger óvissa um kjör lántakenda þegar til lengri tíma er litið. Hver veit t.d. hvernig markaðsvextir muni þróast? Það gefur auga leið að mikill munur er á því að greiða 1% vexti eða 5%. En með því að taka upp almenna vexti verður óhjákvæmilega erfiðara fyrir félagasamtök að byggja, hvað þá að koma íbúðunum út. Gagnvart þeim félagasamtökum sem t.d. hafa byggt námsmannaíbúðir þýðir það verulega hækkun á leigu eigi þau nú að fara að standa undir markaðsvöxtum og bankalánum til framkvæmda af því að nú verða ekki lengur veitt framkvæmdalán. Byggingaraðilum verður að hluta til vísað út á almennan lánamarkað. Mikill skortur er á námsmannahúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og t.d. á Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands langt í land að uppfylla lágmarksþörf fyrir námsmannaíbúðir. Það er mjög alvarlegt mál ef nú dregur úr byggingu námsmannahúsnæðis því að ljóst má vera að námsmenn hafa afar takmarkaða möguleika til að greiða hærri leigu en þeir gera nú. Verði hækkun á leigu námsmannaíbúða hefur það áhrif á þann kostnaðargrunn sem gengið er út frá hjá Lánasjóði ísl. námsmanna og þar með kröfur um hærri námslán. Það sem kann að sparast á einum stað í ríkiskerfinu verður þannig tekið aftur á öðrum, nema ætlunin sé að skerða kjör námsmanna. Þetta er hugsun sem menn hafa fylgt á síðustu árum, þ.e. að draga úr stuðningi við námsmenn og þá verða menn náttúrlega að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta hefur allt saman þegar til lengri tíma er litið, og það sem er að gerast er einfaldlega það að verið er að markaðsvæða námið. Það er verið að gera það. Menn spyrja, og gera það í síauknum mæli eftir því sem hætt er stuðningi við nám: Er þetta góð fjárfesting fyrir mig? Menn spyrja þannig. Menn spyrja ekki eins og væri eðlilegt og gott: Er ég að gera samfélagi mínu gagn? Kemur það sem ég er að læra þjóðfélaginu að gagni? Nei, menn spyrja ekki svoleiðis. Menn spyrja: Hvað gefur þetta mikið í aðra hönd? Það er ekki nema síður sé eitthvert samræmi þar á milli, að það sem gefi mest í aðra hönd geri mest þjóðfélagslegt gagn. Það held ég ekki. Ég held að t.d. innheimtulögfræðingar hafi það bærilega gott. Ég efast stórlega um að þeir séu að gera okkar þjóðfélagi eitthvað sérstaklega gott eða þeir sérfræðingar sem eru útskrifaðir í stórum stíl til að ráðleggja mönnum hvernig þeir eigi að hafa sem mestan hagnað hér á markaði. Ég dreg það stórlega í efa að þeir séu að gera okkar samfélagi eitthvað sérstaklega gott. Það held ég ekki. Það gefur mikið í aðra hönd en það er önnur saga.

Þetta er stefna og braut sem við erum að fara inn á. Ef við ætlum að auka greiðslubyrðar eða skerða kjör námsfólks á þennan hátt, sem hætt er við að gerist í kjölfar þessara lagabreytinga, þá þurfa menn að hugsa það mál alveg til enda.

Við höfum bent á að hlutverk húsnæðisnefnda sveitarfélaganna breytist þó að mjög óljóst sé hvert verksvið nefndanna verður nákvæmlega. Eins og ég nefndi áðan hverfa fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar úr nefndunum og hlutverk nefndanna breytist en hætt er við því að með brotthvarfi verkalýðshreyfingarinnar úr þessu kerfi rofni tengsl við það fólk sem stendur höllum fæti og tengslin rofna inn í samningaferlið hjá samtökum launafólks. Það er það sem ég er kannski að leggja höfuðáherslu á, að það sé samfélagslega mikilvægt, það sé mikilvægt fyrir samfélag okkar að viðhalda hinum formlegu tengslum við þessar mikilvægu stofnanir samfélagsins sem verkalýðsfélög eru.

Húsnæðisnefndirnar munu fjalla um þörf fyrir viðbótarlán og meta slíkar umsóknir auk þess sem þær eiga að gera árlegar áætlanir um þörf á íbúðarhúsnæði. Slík markmið hafa lengi verið í lögum en hafa ekki virkað sem skyldi. Verði lögð meiri áhersla á leiguhúsnæði munu verkefni húsnæðisnefnda og félagsmálanefnda skarast meira en verið hefur og ljóst er að þetta mun kalla á einhverja uppstokkun í starfi nefnda sveitarfélaganna. Vert er að benda á að t.d. í Reykjavík mun húsnæðisnefndin áfram annast núverandi félagslegt húsnæðiskerfi meðan það er að ljúka hlutverki sínu, félmn. metur þörf fólks fyrir leiguhúsnæði á vegum sveitarfélagsins meðan Félagsbústaðir hf. annast rekstur leiguíbúða Reykjavíkurborgar. Ljóst er að þetta verður flókið og umfangsmikið kerfi, og ekki er séð fyrir endann á hvernig endanlegt skipulag verður. Þetta er eitt af því sem er tiltölulega óljóst, og menn hafa verið að velta því fyrir sér hjá ýmsum sveitarfélögum hvort húsnæðisnefndirnar og félagsmálanefndirnar verði sameinaðar. Þetta er eitt af því sem er óljóst í þessu kerfi.

[11:30]

Það er gert ráð fyrir sérstökum lánaflokkum í þessu frv. Í 11. gr. núgildandi laga er kveðið á um nokkra lánaflokka, t.d. lán til einstaklinga með sérþarfir og í frv. til laga um húsnæðismál er þess getið í 16. gr. að stjórn Íbúðalánasjóðs geti að fengnu samþykki ráðherra stofnað til nýrra lánaflokka. Í skýringum með þessari lagagrein er skírskotað til þess að þetta geti átt sér stað ef það samræmist fjárhagsáætlun sjóðsins og eru nefndir þeir lánaflokkar sem er að finna í núgildandi lögum. Hins vegar er engin trygging fyrir því að slík lán verði veitt og er rétt að minna á að sjóðurinn á að vera sjálfbær stofnun.

Hér vaknar aftur spurning: Á hvaða kjörum verða lán til íbúða aldraðra, til einstaklinga með sérþarfir og til annarra? Sú spurning vaknar á hvaða kjörum þessi lán verða. Þarna er sem sagt opnað á möguleikann en um framkvæmdina og um efndirnar veit enginn. Það er algerlega óskrifað blað. Enn og aftur er spurt: Hvers vegna ekki að fá þetta niðurnjörvað? Það er nauðsynlegt að fá þetta niðurnjörvað því að annars er haldið algerlega út í óvissuna og þar er komin skýringin á því, hæstv. félmrh., að öll þessi samtök, verkalýðshreyfingin á Íslandi og öll þau samtök sem hafa með félagslegt húsnæði að gera, þau samtök sem eru í forsvari fyrir það fólk sem stendur höllum fæti í okkar samfélagi, óska eftir því að þessu máli verði frestað þar til við erum búnir að fá botn í það hvernig eigi að fara með þessa sérstöku lánaflokka og á hvaða kjörum lánin verða. En það eitt vitum við að þetta á að samræmast fjárhagsáætlun sjóðsins. Það er allt í góðu lagi með það að sjálfsögðu. Auðvitað þurfa sjóðir að hafa sínar fjárhagsáætlanir. Hins vegar er uggvænlegt að sjóðurinn á að starfa algerlega á markaði og á forsendum markaðarins. Hann á að afla lánsfjár og á síðan að lána fé og vextirnir af lánsfénu koma til með að ráða mestu um kjörin á þeim lánum sem sjóðurinn veitir.

Ég ætla að fara nokkrum orðum um greiðslumat og greiðslubyrði. Greiðslumatið sem beitt verður við ákvörðun þess hverjir hljóta viðbótarlán mun hafa mikil áhrif á fjölda lánanna og það hverjir verða skildir eftir utan dyra. Allt er í óvissu um áhrif greiðslumatins. Þá er rétt að minna á í þessu sambandi að þeir sem fá viðbótarlán og fara út á almenna íbúðarmarkaðinn til kaupa á íbúð verða að leggja fram 10% íbúðarverðsins en auk þess bætist við annar kostnaður, svo sem stimpilgjöld vegna almenna lánsins, gjaldtaka húsnæðisnefndarinnar og sölulaun til fasteignasala. Sölulaun til fasteignasala. Það var ein lagabreytingin sem við gerðum á síðasta ári. Hún snertir sölulaun til fasteignasala.

Hér áður var lögfest þak á þóknun til fasteignasala. Þóknunin mátti ekki vera hærri en nam tilteknu hlutfalli af verði íbúðarinnar, fasteignarinnar. Ég held að það hafi verið 2%, skal ekki alveg fullyrða það en mig minnir það. Þetta þak er farið. Þetta þak var tekið. Núna, samkvæmt lögum sem ríkisstjórnin lét meiri hluta sinn á þingi samþykkja í fyrra þá var þetta þak afnumið. Fasteignasalar geta tekið eins mikið gjald og þeir komast upp með. Það er staðreynd. Enda líta menn náttúrlega á það sem kemur frá ríkisstjórninni sem krásir, veisluborð. Fasteignasalarnir eru yfir sig hrifnir. Fyrst koma þessi lög um að afnema þak á þóknanir. Það var í fyrra og nú er öllu hent út á markaðinn til þeirra nánast. Menn hafa áhyggjur af því að fasteignaverðið muni hækka og í ofanálag kemur þetta að búið er að afnema þá vörn sem menn höfðu þó í þessu. Allt þetta þýðir að kjör þeirra sem hingað til hafa átt inni í félagslega kerfinu munu versna.

Þeim útreikningum sem félmn. hefur fengið um samanburð á greiðslubyrðinni, nýja og gamla kerfinu, ber hreint ekki saman en þar skipta þær forsendur sem menn gefa sér mestu. ASÍ og BSRB segja í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,... þak á hámarksupphæð vaxtabóta hefur í för með sér að svigrúm fólks í nýja kerfinu til að kaupa íbúðir yfir ákveðnum mörkum er verulega takmarkað ef greiðslubyrði á ekki að aukast.``

Margt láglaunafólk mun fljótlega reka sig upp í þak vaxtabótakerfisins og mun því eingöngu geta keypt sér litlar og ódýrar íbúðir. Skyldu það vera jafngóðar íbúðir og hingað til hefur verið boðið upp á í félagslega kerfinu? Ég held ekki. Þetta er kannski mergurinn málsins þegar við erum að tala um valfrelsi einstaklingsins, að búin séu til lög þar sem valfrelsið er tryggt með lagabókstaf án þess að tryggja það í reynd í veruleikanum vegna þess að markmið okkar hlýtur að vera að tryggja fólki gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum. En við drögum stórlega í efa að kjörin verði viðráðanleg og ef þau ekki verða það, verða verri, þá segir það til sín í því húsnæði sem fólk býr í. Það á aðeins kost á lakara húsnæði en það hefur haft hingað til.

Varðandi þessa útreikninga alla þá hefur komið upp mikill ágreiningur milli þeirra sem hafa reiknað þessa hluti út, annars vegar hjá félmrn. og hins vegar samtökum launafólks. Þar ber mönnum einfaldlega ekki saman og reyndar hefur verið að koma á daginn að þeir útreikningar sem verkalýðshreyfingin hefur sett fram, ASÍ og BSRB, virðast standast og menn eru sífellt að benda á fleiri staðreyndir í því máli. Upphaflega héldum við því fram að enda þótt að í mörgum tilvikum léttist greiðslubyrði í upphafi lánstímans þá þyngdist hún verulega þegar liði á lánstímann og væri svo komið á síðari hlutanum að fólk sem hefði fengið lán á grundvelli greiðslumats um að það risi undir skuldbindingum, mundi ekki standast þetta greiðslumat undir lokin, þ.e. þegar fólk er komið á efri ár og yrði að hrökklast út úr sinni íbúð af þeim sökum.

Hins vegar höfum við bent á að ef fólk kaupir íbúðir sem húsbréfalán hvíla á, þá getur þetta dæmi snúist við þannig að greiðslubyrðin í upphafi sé þyngri, en ekki í lokin. Þetta er náttúrlega mjög alvarlegt mál. En það sem mér finnst alvarlegast er ef menn neita að setjast yfir álitamál af þessu tagi og fá fram hvað er hið rétta í málinu. Þetta er reikningsdæmi. Þetta er tæknilegt úrlausnarefni og mér finnst það vera grundvallaratriði að slíkur ágreiningur sé leystur þannig að staðreyndir allar liggi á borðinu.

Ein af stóru breytingunum sem boðaðar eru í frv. er að í stað niðurgreiddra vaxta verði greiddar vaxtabætur fjórum sinnum á ári. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1998 er áætlað að vaxtabætur verði 3,8 milljarðar kr. á árinu. Þetta eru háar upphæðir og ljóst er að þær munu hækka nokkuð við það að þeir sem áður fengu niðurgreidda vexti koma nú inn í vaxtabótakerfið eða um 120 millj. á ári samkvæmt áætlun fjmrn. Frá því að vaxtabótakerfið var tekið upp fyrir áratug eða svo þá hefur fjórum sinnum verið krukkað í það af stjórnvöldum fyrst og fremst til skerðingar. Reyndar hélt ég að það hefði verið fimm sinnum. En í áliti okkar í minni hlutanum segjum við fjórum sinnum þannig að alla vega hefur verið krukkað í það fjórum sinnum ef það hefur ekki verið gert fimm sinnum. En í flestum tilvikum hefur það verið gert til skerðingar. Niðurgreiddir vextir eru að okkar mati mun öruggari aðstoð fyrir láglaunafólk en vaxtabótakerfið miðað við reynslu undanfarinna ára. Það er ekki að ástæðulausu að sú aðferð hefur verið viðhöfð í félagslega húsnæðiskerfinu um áratuga skeið, enda hefur hún reynst láglaunafólki vel. Það er hápólitísk spurning hvernig aðstoð vegna húsnæðismála af hálfu opinberra aðila skuli háttað og hverjir skuli njóta hennar. Minni hlutinn leggur áherslu á að þær fjölskyldur sem þurfa á aðstoð að halda við öflun húsnæðis mega alls ekki við kjaraskerðingu. Þetta er grundvallaratriði og það er líka grundvallaratriði að menn geri sér fulla grein fyrir þeirri hættu sem felst í því að setja allan stuðning í húsnæðiskerfinu inn í þennan farveg. Hættan er sú, eins og ég hef margsagt og ætla að ítreka eina ferðina enn, að þörfin fyrir vaxtabætur eykst á samdráttartíma þegar tekjur fólks dragast saman. Þá þarf það á hærri vaxtabótum að halda. Á sama tíma skerðast tekjur ríkissjóðs og freistingin til að skerða þennan þátt verður allsráðandi. Á sama tíma og þörfin eykst eru líkurnar á skerðingu meiri en ella. Þetta er hættan. Sú hætta er vissulega líka fyrir hendi varðandi aðra þætti, varðandi aðstoð við verkamannabústaðakerfið t.d., varðandi niðurgreiðslu vaxta og þar fram eftir götunum. Sú hætta er líka fyrir hendi þar en fyrirstaðan er meiri. Stjórnvöld eiga erfiðara með að láta undan þeirri freistingu. Andstaðan í þjóðfélaginu verður meiri. Á þetta var bent af hálfu einhverra þeirra aðila sem komu fyrir félmn., að erfiðara væri að stýra kerfinu á einfaldan og skýran hátt. Þetta var ein röksemdin. Í þessu felst okkar vörn sem viljum tala máli láglaunafólks og þeirra sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu og sem búa við lakari tekjur en þeir sem betur og best standa að vígi í okkar samfélagi. Þetta er bara staðreynd málsins.

[11:45]

Í fjölmörgum umsögnum um frv. kemur fram hörð gagnrýni á að nú verði tekin upp stimpilgjöld á lán til þeirra sem hingað til hafa fallið undir félagslega húsnæðiskerfið. Samkvæmt brtt. meiri hlutans verða hvorki lögð stimpilgjöld á viðbótarlánin né heldur á lán vegna byggingar eða kaupa á leiguhúsnæði. Það verða sem sagt ekki lögð stimpilgjöld á viðbótarlánin eða á lán vegna byggingar eða kaupa á leiguhúsnæði. Þetta er eitt af því sem við höfum náð fram í umræðu um málið, þ.e. að draga úr þeim kostnaði sem fylgir stimpilgjöldunum. Það er a.m.k. búið að aflétta þeim á hluta lánanna. Hvers vegna? Vegna þess að athygli hefur verið vakin á því í umræðu úti í þjóðfélaginu, inni í félmn. og víðar að þetta gangi ekki og þarna höfum við haft árangur af starfi okkar. Hvers vegna létu menn undan í þessu efni? Vegna þess að þeim fannst þetta rökrétt. Gæti verið að eitthvað annað sé í þessu frv. sem menn sæju ástæðu til að breyta ef þeir settust betur yfir málið? Gæti það verið? Gæti verið að það væru aðrir þættir sem menn væru tilbúnir að breyta? (Gripið fram í: Háeffa það.) Það var eitt af því sem kom til álita af hálfu einhvers aðila sem lét okkur fá umsögn um frv. Ég held að það hafi verið Ríkisendurskoðun sem talaði um hið nýja hlutafélag. (Gripið fram í: Og selja Eimskip ...) Já.

Stimpilgjöld verða hvorki lögð á viðbótarlán né heldur á lán vegna byggingar eða kaupa á leiguhúsnæði. Þetta er aðeins í áttina. En þetta þýðir að þeir sem fá almennt lán og viðbótarlán verða að greiða stimpilgjald af almenna hlutanum sem hefur í för með sér aukinn kostnað fyrir lántakendur frá því sem nú er þannig að það er bara búið að afnema stimpilgjaldið af viðbótarláninu, ekki almenna láninu sem þeir þó fá sem eru með lágar tekjur, þ.e. fólkið sem fær almennt lán og viðbótarlán. Það er búið að afnema stimpilgjaldið af viðbótarláninu en ekki af almenna láninu til þessa fólks. Þarna er því um að ræða aukinn kostnað fyrir það fólk, aukinn kostnað fyrir láglaunamanninn.

Þetta þýðir einnig að stimpilgjöld verða greidd af öðrum lánum sem kunna að verða veitt samkvæmt heimild til að taka upp aðra lánaflokka, sbr. 16. gr. frv., og ég vék að áðan. Ég vék áðan að þessum öðrum lánaflokkum sem eru í rauninni óskilgreindir, hvernig þeir verða og á hvaða kjörum þeir verða. Minni hluti félmn. mótmælir því að aukinn kostnaður skuli lagður á þá sem fá viðbótarlán og er þarna enn eitt dæmið um það hvernig verið er að úthýsa félagslegri aðstoð úr íslensku velferðarkerfi. Við skulum gæta okkur á því þegar við íhugum þessi mál að láta ekki blekkjast af því að með því að afnema stimpilgjöld á viðbótarlán sé að öllu leyti komið til móts við láglaunamanninn hvað þetta varðar vegna þess að hann þarf eftir sem áður að borga stimpilgjald af almenna láninu.

Í frv. kemur fram að áætlað er að veita áfram lán á niðurgreiddum vöxtum næstu tvö árin til byggingar leiguhúsnæðis, alls til 50 íbúða ef marka má umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. Á meðan verði gerðir samningar við sveitarfélögin um framhaldið. En er ekki rétt að ganga frá samningunum núna? Er ekki rétt að ganga frá samningunum í sumar? (Gripið fram í: Félmrh. virðist ...) Félmrh. er ekki í salnum til að hlýða á þessar spurningar.

(Forseti (ÓE): Ráðherrann er í húsinu, er vonandi að fylgjast með.)

Í trausti þess að ráðherrann sé að fylgjast með annars staðar þá geri ég ekki frekari athugasemd við það. Hæstv. félmrh. hefur fylgt umræðunni mjög vel og ég geri ráð fyrir því að hann geri það þótt hann sé annars staðar í húsinu.

Meiri hluti félmn. leggur til breytingu á þann veg að ákveðið verði á fjárlögum hve hárri fjárhæð verður varið til niðurgreiðslu á vöxtum meðan nefnd sem í sitja fulltrúar sveitarfélaganna, annarra byggingaraðila félagslegra íbúða og verkalýðshreyfingarinnar, kanna þörf fyrir leiguhúsnæði og gerir framkvæmdaáætlun sem framlög ríkisins og sveitarfélaganna taki mið af í framtíðinni. En hvað þýðir þetta í reynd? Er um að ræða fyrirheit um áframhaldandi lán á lágum vöxtum, á niðurgreiddum vöxtum? Mér er alltaf hálfilla við að nota þetta hugtak, ,,niðurgreiddir vextir`` eins og markaðurinn sé hið rétta og allt frávik frá honum sé þá einhvers konar niðurgreiðsla. Lágir vextir eru bara lágir vextir, svo einfalt er það. Ef menn ákveða að hafa vexti lága eru þeir lágir og fjármagna hlutina þá með öðrum hætti. Ég minni á það í þessu sambandi að þegar lán og fjármagn var vísitölubundið í upphafi síðasta áratugar og misgengið kom til sögunnar og menn fóru að tala um raunávöxtun þá man ég eftir því að þáverandi stjórnendur Seðlabankans töluðu um 2% raunávöxtum sem háa vexti. Hins vegar búum við núna við raunávöxtun sem er margföld þessi upphæð.

Reynslan af fjárframlögum til Byggingarsjóðs verkamanna lofar ekki góðu hvað varðar slík loforð, þ.e. loforð um framlög ríkisins til sveitarfélaga, þeirra aðila sem áttu að byggja leiguhúsnæði. Reynslan af Byggingarsjóði verkamanna lofar ekki góðu vegna þess að hann hefur verið sveltur og ástæðan fyrir því að hann á í erfiðleikum og stefnir í þrot upp úr aldamótum er sú að hann hefur ekki fengið nauðsynlegt fjármagn. Það er bara staðreynd málsins þannig að reynslan af fjárframlögum til Byggingarsjóðs verkamanna lofar ekki góðu hvað varðar þau loforð sem verið er að gera nú með brtt. meiri hlutans.

Ástæðan fyrir því að fyrrnefnd breyting er gerð er sú að félagasamtök og sveitarfélögin hafa bent á að þörfin fyrir leiguíbúðir sé miklu meiri en nemur 50 íbúðum næstu tvö árin. Þrátt fyrir að opnað sé á fleiri lán með niðurgreiddum vöxtum verður ákvæðið í fjárlögum. Rétt er að leggja áherslu á það enn einu sinni að allt er í óvissu um framboð á leiguhúsnæði og þá leigu sem fólki verður gert að greiða.

Samband ísl. sveitarfélaga gerir kröfu um að áfram verði boðið upp á lán á niðurgreiddum vöxtum eftir að margumræddu tveggja ára tímabili lýkur. Minni hlutinn fær engan veginn séð að krafa sveitarfélaganna komi heim og saman við þær breytingar sem verið er að gera á Húsnæðisstofnun ríkisins sem á að verða sjálfbær stofnun eftir breytinguna og á ekki að fá framlög frá ríkissjóði. Þannig er hann hugsaður og byggður upp og ef önnur áform eru uppi þarf að fá það skýrt sagt af hálfu félmrh. hvað hann hugsar í þeim efnum og hve mikla peninga hann ætlar að láta í þetta. Ég segi fyrir mitt leyti að ég mun hlusta mjög vel eftir svörum hæstv. félmrh. þegar hann tekur það til umfjöllunar. Hvernig ætlar hann að tryggja fjármagn og hve mikið? Ég mun leggja þá mjög við hlustir. En án nokkurra skuldbindinga er verið að vísa þeim þætti frv. sem snýr að leiguhúsnæði inn í viðræður sem enginn veit hvað kann að koma út úr og þótt ég líti á það sem gott spor og góð fyrirheit hvað varðar samstarf við aðila um þetta efni þá þarf miklu meira kjöt á það bein. Það er ekki nóg að gefa fyrirheit, við þurfum að fá vitneskju um fjármagn.

Í brtt. við 40. gr., sem verður 37. gr., er kveðið nánar á um rétt aðila sem byggja eða kaupa leiguíbúðir til að selja leigjendum eignarhlut. Hér er átt við þá sem hingað til hafa fallið undir félagslega kaupleigu en alls er óljóst með þetta atriði eins og svo fjöldamörg önnur, hvort heimildin kemur að nokkru gagni. Húsnæðisnefnd Reykjavíkur gerir alvarlegar athugasemdir við 3. mgr. í brtt. meiri hlutans og vill að húsnæðisnefndir hafi lagalega heimild til að ráðstafa íbúðum til skammtímaleigu meðan væntanlegum kaupanda er veitt svigrúm til að afla sér fjár til útborgunar. Hvað verður þá um þá sem hingað til hafa keypt eignarhlut samkvæmt ákvæðum um almenna kaupleigu er óljóst.

Frv. til laga um byggingar- og húsnæðissamvinnufélög verður skilið eftir á þessu vori verði frv. til laga um húsnæðismál knúið í gegnum þingið. Það kom mjög skýrt fram í máli þeirra sem komu af hálfu samtakanna Þak yfir höfuðið, sem eru landssamtök, og t.d. fulltrúa Búseta, að það væri mjög mikilvægt að þeirra mati að þessi frv. ættu samleið, yrðu samþykkt um leið og þá ekki núna heldur í haust en nú hefur komið á daginn að það á að reyna að fá lög um húsnæðismál samþykkt en skilja þessi frv. eftir og það er ófært að það verði gert. Þetta þarf allt að haldast í hendur þannig að menn viti nákvæmlega að hverju þeir ganga.

Rætt hefur verið um framtíð starfsfólks Húsnæðisstofnunar. Eðlilegt er að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja Húsnæðisstofnun niður og búa til nýja stofnun hafi valdið óróa innan þessarar stofnunar og óvissu hjá starfsfólkinu um framtíð sína. Hæstv. félmrh. hefur margsinnis verið spurður að því hvað hann ætlist fyrir í þessu efni. Hann hefur sagt að hann muni gera allt sem í hans valdi stendur til að tryggja starfsöryggi þessa fólks. Hann hefur sagt það við fólkið og hann hefur sagt það við samtök þess. Hann hefur þó tekið fram að ljóst sé að færra fólk komi til með að starfa hjá hinni nýju stofnun en þeirri sem nú er við lýði. Hann hefur sagt að þess vegna sé erfitt að setja ákvæði inn í sjálfan lagatextann sem tryggi hverjum og einum starf. Það hefur þó verið gert hjá öðrum stofnunum, t.d. Örnefnastofnun, en hann segir að þetta sé erfitt. Þegar Örnefnastofnun var lögð niður og ný stofnun sköpuð eða hvort það var önnur stofnun og hún gerð að Örnefnastofnun, það mun sennilega hafa verið þannig, þá var sett inn í lögin að hverjum og einum yrði tryggt starf. Hæstv. félmrh. segir, eða á þann veg hefur röksemdafærsla hans verið og er nokkuð til í því: Þetta er erfiðara hjá okkur vegna þess að við getum ekki tryggt öllum starf þar sem færra fólk verður starfandi í hinni nýju stofnun. Þetta er alveg rétt.

[12:00]

En hæstv. félmrh. gæti gert annað. Hann gæti sagt að í hinni nýju stofnun skuli þeir starfsmenn sem nú eru hjá Húsnæðisstofnun hafa forgang. Þetta gæti hann sagt. Ef hæstv. félmrh. er alvara með því að gera allt sem í hans valdi stendur til að tryggja starfsöryggi fólksins þá gerir hann þetta. Þetta er því nokkuð sem væri brýnt að gera.

Við í minni hluta félmn. Alþingis leggjum til að frv. verði endurskoðað með þátttöku þeirra aðila sem málið snertir, svo sem samtaka launafólks, sveitarfélaganna, námsmannasamtakanna, Búseta o.fl. Ég vísa aftur í þessa auglýsingu og áskorun til alþingismanna þar sem ýmsir þeir sem málið snertir setja nafn sitt á blað og er eðlilegt að haft sé samráð við þessa aðila alla. Við teljum að verði þetta frv. að lögum muni það kalla á stóraukinn kostnað fyrir sveitarfélögin og verða til þess að vísa fjölda fjölskyldna út á leigumarkað sem ekki er til. Hann er ekki til og það er mergurinn málsins. Leigumarkaðurinn er ekki til. Það er verið að búa til kerfi þar sem færra fólk getur eignast húsnæði en nú er. Hvar þarf þetta fólk þá að búa? Í leiguíbúðum. Þær eru ekki til. Og það er gert ráð fyrir því að reisa 50 íbúðir á tveimur árum.

Ég var að lesa upp áðan og vitna í greinargerðir frá sveitarfélögum sem áætla að t.d. í Kópavogi þurfi 75 íbúðir til viðbótar á ári næstu fjögur árin, 60 hjá Akureyrarbæ. 381 umsókn er hjá Reykjavíkurborg. Svona er þetta. Þörfin og eftirspurnin mun aukast en íbúðirnar eru ekki til.

Auðvitað hlýtur það að vera umhugsunarefni fyrir stjórnmálaflokk eins og Sjálfstfl. sem var fylgjandi sjálfseignarstefnu í húsnæðismálum, fylgjandi því að allir ættu sína íbúð, að standa að lagafrv. sem torveldar fólki að eignast íbúðir. Það er verið að gera það. Sjálfstfl. stendur að húsnæðislöggjöf sem torveldar fólki að eignast íbúðir. Það er staðreynd. Það er verið að vísa stærri hópi út á leigumarkað. Margir eru fylgjandi því að koma hér á góðum leigumarkaði og mörg samtök eru fylgjandi því að það verði gert, að það sé betra að búa fólki gott leiguhúsnæði þar sem það búi við öryggi heldur en að setja menn inn í eignarform sem er ekkert annað en nafnið eitt í rauninni vegna þess að það rís ekki undir þeim fjárhagsskuldbindingum sem það kallar á. En ef það á að gerast verður þessi leigumarkaður að vera fyrir hendi. Annað þarf að gerast líka. Það þarf að treysta réttindalöggjöf leigjenda og þetta er enn ein lagasetningin sem þarf að koma til sögunnar samhliða þessum breytingum, þ.e. að treysta réttindi leigjandans. Það þarf að gerast.

Þessar breytingar munu leiða til þess að dýrara verður fyrir láglaunafjölskyldur að eignast eigið húsnæði eins og ég gat um og því er vísað út á götuna því að ekki er gert ráð fyrir fjármagni til byggingar leiguíbúða. Fólki mun fjölga í vaxtabótakerfinu. Gert er ráð fyrir að 1.000 manns bætist við í vaxtabótakerfinu, 1.000 manns komi þar til viðbótar. Sú tala gefur hugmynd um þann fjölda sem mun leita sér að húsnæði á almennum markaði, nái fyrirhugaðar breytingar fram að ganga. Þá hverfur það aðhald við íbúðarverð sem framkvæmdir húsnæðisnefndanna, einkum á höfuðborgarsvæðinu, hafa veitt almenna markaðnum og mun það eflaust valda einhverri hækkun á íbúðarverði.

Við höfum bent á það í okkar málflutningi, minni hluti félmn., að ekkert kerfi sé gallalaust, öll kerfi eigi að endurskoða og öll kerfi kalli á breytingar og það eigi við um þetta kerfi líka og það sé staðreynd líka sem við erum ekkert að reyna að strauja yfir eða horfa fram hjá að nokkur lítil sveitarfélög á Íslandi hafa lent í erfiðleikum með félagslega húsnæðiskerfið eins og það er núna þótt það hafi að mestu leyti gengið upp á þéttbýlissvæðinu suðvestanlands. En við bendum á að vanda þessara sveitarfélaga eigi að leysa á annan hátt en þann að gjörbreyta húsnæðiskerfinu og kippa þar með grunninum undan fjölda fjölskyldna sem fengið hafa fyrirgreiðslu í félagslega húsnæðiskerfinu á undanförnum árum og áratugum.

Áður en ég lýk máli mínu ætla ég að ítreka þau mótmæli sem komið hafa frá ýmsum samtökum í landinu og vekja þar sérstaklega athygli á því sem komið hefur frá samtökum launafólks, ASÍ og BSRB. Ég nefni t.d. í því sambandi grein sem formenn húsnæðisnefnda BSRB og ASÍ skrifa fyrir fáeinum dögum í Morgunblaðið. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,ASÍ og BSRB telja að með húsnæðisfrumvarpi félagsmálaráðherra sé stefnt marvisst að því að færri fjölskyldum láglaunafólks sé gert kleift að eignast eigið íbúðarhúsnæði á sanngjörnum og viðráðanlegum kjörum. Þetta er gert án þess að settar séu tryggingar fyrir nægilegu framboði leiguhúsnæðis og án þess að réttarstaða og öryggi leigjenda sé bætt. Með frumvarpi félagsmálaráðherra er fyrst og fremst verið að taka á vanda húsnæðiskerfisins sjálfs og nokkurra sveitarfélaga en ekki á vanda þess fólks sem kerfið á að þjóna.

Húsnæðismál eru órjúfanlegur hluti af lífskjörum launafólks. ASÍ og BSRB benda á að verkalýðshreyfingin hefur ítrekað sett fram hugmyndir um hvernig bæta megi félagslega húsnæðiskerfið til þess að það þjóni sem best hagsmunum fólksins og óskað eftir því að vera höfð með í ráðum.``

Síðar segir í þessari grein sem er undirrituð af Guðmundi Vigni Óskarssyni sem er formaður húsnæðisnefndar BSRB og Kristjáni Gunnarssyni sem er formaður húsnæðisnefndar ASÍ í landinu, með leyfi forseta:

,,Kjarninn í stefnu ASÍ og BSRB er því sá, að þeim, sem eru innan félagslega eignaríbúðakerfisins verði veitt aðstoð til að eignast eigið húsnæði á viðráðanlegum kjörum og að þörf þeirra, sem utan kerfisins standa verði mætt með fjölgun félagslegra leiguíbúða.

Þau markmið sem sett eru fram í frumvarpinu, fara í mörgum atriðum saman við markmið ASÍ og BSRB í húsnæðismálum. Hins vegar skortir mikið á að þessum markmiðum verði náð án verulegra breytinga á frumvarpinu. Til þeirra breytinga þarf meiri og betri undirbúning. Samtökin telja að sá tími, sem ætlaður er til afgreiðslu frumvarpsins sé allt of skammur.``

Þetta segir m.a. í þessari grein sem formenn húsnæðisnefnda ASÍ og BSRB rituðu í Morgunblaðið um síðustu mánaðamót, nánar tiltekið 29. apríl sl.

Birst hafa fjölmargar aðrar blaðagreinar frá talsmönnum þessara samtaka og annarra. Nefni ég þar t.d. mjög fróðlega grein sem Magnús Norðdahl lögfræðingur ASÍ skrifaði í Morgunblaðið 6. maí þar sem hann gagnrýnir frv. mjög harðlega. Hann gagnrýnir m.a. útreikningana sem birtast í greinargerð félmrh. og vitnar í greinargerð sem reidd er fram af hálfu samtaka launafólks, ASÍ og BSRB.

Önnur grein sem birtist í blöðum nýlega er rituð af Rannveigu Sigurðardóttur hagfræðingi BSRB. Hún birtist í Morgunblaðinu 30. apríl 1998. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um húsnæðismál þar sem lagðar eru til grundvallarbreytingar á félagslega húsnæðiskerfinu. Ríkisstjórnin hyggst keyra þetta frumvarp í gegn fyrir þinglok þrátt fyrir harða andstöðu verkalýðshreyfingarinnar, en félagslegt húsnæðiskerfi hefur verið baráttumál hreyfingarinnar frá því á fyrstu áratugum aldarinnar og er það þeirri baráttu að þakka að láglaunafólk hefur getað eignast öruggt og gott húsnæði á viðráðanlegu verði. Með þessu frumvarpi verður stórum hópi láglaunafólks hreinlega úthýst.``

Þetta segir í grein Rannveigar Sigurðardóttur hagfræðings BSRB. Hún segir enn fremur:

,,Frumvarpið gerir ráð fyrir því að í stað 90% láns með niðurgreiddum vöxtum verði 65­-70% kostnaðar lánuð með markaðsvöxtum eins og nú er í húsbréfakerfinu. Því til viðbótar verði þeim, sem uppfylla ákveðin skilyrði sem enn hafa ekki verið sett, gefinn kostur á viðbótarláni fyrir 20­-25% af kostnaði sem einnig verður með markaðsvöxtum, enda gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður, sem stofna á samkvæmt frumvarpinu, standi undir sér. Frumvarpið gerir jafnframt ráð fyrir því að niðurgreiðsla á húsnæðiskostnaði láglaunafólks verði í gegnum vaxtabætur. Vegna hertra skilyrða verður einnig fjölda fólks vísað út á leigumarkað án þess að gengið hafi verið frá því að nægilegt framboð á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum sé tryggt. ASÍ og BSRB hafa bent á að eitt helsta einkenni frumvarpsins sé hversu margt sé óljóst um það húsnæðiskerfi sem verið er að koma á. Einnig hafa samtökin bent á að þættir sem hafa afgerandi áhrif á kjör þeirra sem húsnæðiskerfið á að þjóna séu afar ótryggir. Hér verður einungis vikið að vaxtabótakerfinu og niðurgreiðslu leigukostnaðar.``

Þetta segir Rannveig Sigurðardóttir hagfræðingur í þessari grein sem birtist í Morgunblaðinu 30. apríl sl. Hún kemst að þeirri niðurstöðu að vaxtabótakerfinu sé ekki treystandi. Hún segir, með leyfi forseta:

,,Ef taka á upp markaðsvexti á lánum og flytja niðurgreiðslu húsnæðiskostnaðar láglaunafólks yfir í vaxtabótakerfið er ljóst að búa verður þannig um hnútana að hægt sé að treysta því að ekki verði krukkað í það eins og gert hefur verið ítrekað í þau átta ár sem vaxtabótakerfið hefur verið við lýði.

Í efnahagslægðinni í upphafi þessa áratugar voru gerðar árlegar breytingar á vaxtabótakerfinu til að draga úr útgjaldaaukningu ríkissjóðs vegna vaxtabóta. Vaxtabótakerfið byggist á því að ef tekjur húsnæðiskaupenda dragast saman t.d. vegna samdráttar í hagkerfinu aukast vaxtabætur þeirra. Það hefur í för með sér að útgjöld ríkissjóðs vegna vaxtabótakerfisins aukast verulega. Reynslan sýnir okkur að þá grípur ríkisvaldið inn í og breytir forsendum til að spara útgjöld, því tekjusamdrætti hjá einstaklingum vegna samdráttar í hagkerfinu fylgir einnig tekjusamdráttur hjá ríkissjóði.``

Þetta er atriði sem hagfræðingurinn vekur sérstaka athygli á og ég hef ítrekað lagt áherslu á í mínum málflutningi og er kjarni málsins og skýrir hvers vegna við erum hrædd við að fara þessa leið eða viljum fá miklu betri tryggingar áður en við samþykkjum þessar breytingar.

Rannveig Sigurðardóttir heldur áfram, með leyfi forseta:

,,Ein leið til að skerða vaxtabætur væri að láta hámarksupphæð þeirra ekki hækka í takt við vísitölubreytingar en sú ákvörðun er nú háð geðþóttaákvörðun við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.``

Þarna mundu vaxtabæturnar sem sagt ekki verða hækkaðar í samræmi við verðbólgu og þannig skerðast.

[12:15]

,,Reynslan af þróun persónuafsláttar eftir að honum var kippt úr sambandi við vísitöluhækkanir er gott dæmi um það sem gæti gerst með vaxtabæturnar ef ekki fæst öruggari trygging fyrir þeim áður en frumvarpið verður samþykkt.``

Þetta er nokkuð sem menn þekkja, hvernig persónuafslátturinn rýrnaði í raun að verðgildi vegna þess að hann var ekki látinn hækka í samræmi við almennar verðlagshækkanir. Þarna er því komin skýring á ótta okkar við að með því að tengja alla aðstoð vaxtabótunum sé öll þessi aðstoð sett á svið. Hagfræðingurinn heldur áfram:

,,Ljóst er að ef frumvarpið verður óbreytt að lögum verður stórum hluta þeirra, sem hingað til hafa getað keypt félagslega eignaríbúð, vísað út á leigumarkað. Ástæðan er í fyrsta lagi sú að ekki verða lengur veitt 100% lán sem heimilt hefur verið að veita til þeirra sem eiga í verulegum erfiðleikum við kaup á íbúð ef um er að ræða sérstaklega erfiðar fjölskyldu- eða fjárhagsaðstæður og umsækjandi sýni fram á greiðslugetu. Rök ráðherra fyrir þessari breytingu eru að margir hafi lent í fjárhagserfiðleikum vegna þessara lána. Ef litið er til reynslu undanfarinna ára sést að milli 67 og 75% þeirra sem fengið hafa slík lán ráða við að kaupa íbúð einmitt vegna þessa möguleika. Þessi hópur verður nú að leita út á leigumarkað en undanfarin ár hafa um 170 manns fengið slík viðbótarlán.``

Vegna þess að fólk átti kost á því að fá 100% lán og vegna þess að það átti kost á þessari fyrirgreiðslu, þá réð það við þessar byrðar og þá er svarið: Að skerða hinn félagslega þátt.

,,Hin ástæðan`` --- heldur hagfræðingurinn áfram --- ,,fyrir því að vænta má fjölgunar á leigumarkaði er að allt bendir til að forsendur greiðslumats verði þrengdar. Greiðslumat í félagslega eignaríbúðarkerfinu byggist nú á því að greiðslubyrði vegna húsnæðislána fari ekki yfir 28% af tekjum. Samkvæmt frumvarpinu á að setja um þetta nýjar reglur með hliðsjón af tillögum starfshóps um nýtt greiðslumat. Þessi reglugerð verður ekki sett fyrir afgreiðslu laganna en ef tillögur starfshópsins eiga að liggja þeim til grundvallar er ljóst að kröfur um greiðslubyrði verða hertar. Færri munu þá eiga þess kost að kaupa íbúð og verður leigumarkaðurinn þeirra eina úrræði.

Eins og er er mikill skortur á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. Verði frumvarpið að lögum mun því nýr og fjölmennur hópur leita út á leigumarkaðinn en hvergi er í frumvarpinu gengið frá því hver eigi að standa undir niðurgreiðslu á leigukostnaði hans.

Niðurgreiðsla húsaleigukostnaðar getur farið fram, annars vegar með húsaleigubótum, hins vegar með niðurgreiðslu vaxta frá ríkinu. Fram hefur komið að Samband íslenskra sveitarfélaga vill taka upp viðræður um breytt fjárhagsleg samskipti við ríkið vegna þessa frumvarps. Jafnframt kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að teknar verða upp viðræður við Samband íslenskra sveitarfélag um hvernig ,,sveitarfélögin komi nánar að fjármögnun lána til leiguíbúða ... Gert er ráð fyrir að niðurstaða þessara viðræðna liggi fyrir við gildistöku þessara laga``. Báðir aðilar gera ráð fyrir að hinn borgi og því ekki að undra að samkomulag náist ekki milli aðila fyrir lögfestingu frumvarpsins, eins og gert er ráð fyrir í greinargerðinni.``

Hér bendir Rannveig Sigurðardóttir hagfræðingur á að gert sé ráð fyrir því að sveitarfélögin komi nánar að fjármögnun lána til leiguíbúða og gert sé ráð fyrir því að niðurstaða þessara viðræðna liggi fyrir við gildistöku þessara laga. Væri ekki nær að þessar niðurstöður lægju fyrir við samþykkt þessara laga? Lögin eiga að taka gildi í byrjun næsta árs og ég hefði talið eðlilegra að niðurstöður úr þessum viðræðum lægju fyrir við samþykkt laganna en ekki gildistöku. Lokaorð hagfræðings BSRB, Rannveigar Sigurðardóttur, í blaðagreininni sem ég er að vísa til og birtist í Morgunblaðinu 30. apríl eru þessi:

,,Nú hefur það gerst að félagsmálaráðherra hefur lagt til í breytingartillögum við frumvarpið að skipuð verði nefnd skipuð fulltrúum ASÍ og BSRB, félagslegra byggingaraðila, sveitarfélaga og fjármálaráðherra til að ,,vinna úttekt á leigumarkaði hér á landi og kanna þörf fyrir leiguíbúðir næstu ár. Á grundvelli samstarfs þessara aðila skal lögð fram framkvæmdaáætlun sem framlög ríkisins og sveitarfélaga skuli taka mið af í framtíðinni.`` Í þessu sambandi er rétt að benda á að þrátt fyrir fögur orð um framkvæmdaáætlun og framlög ríkis og sveitarfélaga til niðurgreiðslu húsaleigukostnaðar er ekkert, hvorki í frumvarpinu né öðrum lögum, sem tryggir að ríki eða sveitarfélög muni taka á sig þennan kostnað.

Verkalýðshreyfingin fagnar því að gera eigi úttekt á þörf á leiguhúsnæði þótt hún telji að réttara hefði verið að gera það áður en frumvarp, sem vísar stórum hópi láglaunafólks út á leigumarkaðinn, er samþykkt sem lög frá Alþingi.``

Þetta voru lokaorð í grein Rannveigar Sigurðardóttur, hagfræðings BSRB, í Morgunblaðsgrein frá 30. apríl sl. Ég hef vísað til blaðagreina eftir þá sem sem vel þekkja til þessara mála, Rannveigu Sigurðardóttur hagfræðing og Magnús Norðdahl, lögfræðings hjá Alþýðusambandi Íslands. Ég vísaði í og vitnaði til blaðagreinar sem formenn húsnæðisnefnda ASÍ og BSRB, Kristján Gunnarsson og Guðmundur Vignir Óskarsson, sendu frá sér í blað núna nýlega. Hvers vegna vitna ég í þessar greinar? Í þeim er dregið saman í mjög stuttu máli það sem fram kemur í miklu lengri umsögnum.

Við erum með bunka af umsögnum, upp á tugi blaðsíðna, þar sem ítarlega er farið yfir hverju einustu lagagrein þessa frv. Þess vegna væri vert að lesa þær allar upp því að menn hafa lagt í þetta geysilega vinnu. Ég gæti t.d. nefnt umsögn húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar, mjög góða umsögn og afdráttarlausa, þar sem þetta er fordæmt og óskað eftir því að þessu máli verði frestað. Hér er mjög góð umsögn húsnæðisnefndar Kópavogs upp á fleiri blaðsíður með ítarlegum útreikningi á greiðslubyrði fólks. Ég vísaði í þá úttekt í máli mínu áðan þar sem fram kemur t.d. hver þörf þeir ætla að verði á leiguhúsnæði.

Hér er góð umsögn og ítarleg frá húsnæðisnefnd Reykjavíkur. Hér er umsögn frá Gylfa Thorlacius, vönduð og góð, þar sem hann fer rækilega yfir einstakar greinar þessa frv. og er með sterk varnaðarorð. Á einhvern, hátt í allt of litlum mæli þó, er búið að koma til móts við ýmsar ábendingar hans, en þetta krefst allt miklu betri skoðunar.

Áfram mætti halda. Ég er með greinargerð, sem ég hef vísað í, frá ASÍ og BSRB upp á 30--40 síður með ítarlegum útreikningum. Ég ætla ekki að fara að lesa þessar álitsgerðir upp, a.m.k. ekki að svo stöddu. Við erum aðeins að hefja 2. umr. málsins og þetta er fyrri ræða mín við hana. Ég mun hlusta eftir því hver viðbrögð ráðherra verða.

Hér er umsögn frá Félagsstofnun stúdenta, góð og vönduð umsögn. Við erum með ályktanir, ábendingar og umsagnir frá Búseta og síðan frá öllum þessum samtökum sem vitnað hefur verið í.

Mér finnst þetta vera sú umsögn sem við eigum að taka til greina fyrst og fremst. Það er ósk frá verkalýðshreyfingunni á Íslandi, frá félagasamtökum sem hafa með félagslegt húsnæði að gera og frá samtökum sem eru í forsvari fyrir alla þá sem standa höllum fæti í okkar samfélagi, þar sem óskað er eftir því að menn setjist betur yfir þetta mál, forðist stórslys í húsnæðismálum og undir þessa kröfu vil ég taka. Ég tek undir það að við frestum þessu máli og setjumst yfir það í sumar og afgreiðum síðan breytt húsnæðislög í haust.