Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 12:14:32 (6653)

1998-05-16 12:14:32# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, Frsm. minni hluta KÁ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[12:14]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Þessi umræða um húsnæðismál hefur nú staðið á fjórða dag, fjórða sólarhring ætti ég kannski að segja því að hér hafa fundir verið fram á nótt og ég hygg að þó að mér finnst að þingið sé lítt þroskað, þá sé þessi umræða að verða nokkuð þroskuð og nokkuð ljóst hvert stefnir.

[12:15]

Mér finnst rétt að fara yfir nokkur efnisatriði málsins, ekki síst í ljósi þeirrar ræðu sem hæstv. félmrh. flutti í gær en ýmislegt í ræðu hans er vert að skoða nánar og ræða betur og spyrja hann reyndar út í.

Í greinargerð með frv. til húsnæðismála sem hér liggur fyrir er komið inn á ýmis atriði sem höfundum frv. finnst ástæða til að tíunda sem orsakir þess að verið er að gera þessar miklu breytingar. Hér kom svo ráðherrann upp í gær og sagði að meginástæðan fyrir því að hann væri að beita sér fyrir breytingum á húsnæðiskerfinu væru kvartanir íbúa í félagslega húsnæðiskerfinu. Ég geri ekki lítið úr því að það er ýmislegt sem þarf að breyta í félagslega húsnæðiskerfinu eins og hefur margoft komið fram í umræðunni. Ég held að hægt hefði verið að koma þeim breytingum á án þess að fara í leiðinni í þá kollsteypu sem hér er boðuð sem mun fela í sér að færri munu eiga þess kost að fá fyrirgreiðslu innan þessa kerfis sem ég vil ekki kalla lengur félagslegt því að það verður ekkert félagslegt lengur í því. Ég tek ekki lengur undir þá skilgreiningu að þessi viðbótarlán séu einhver félagsleg úrræði ef lánakjörin verða þannig að þar ráði markaðsvextir. Ég ætla að koma betur að því á eftir.

Í svari hæstv. ráðherra í umræðunni í gær kom fram að þessar kvartanir væru fyrst og fremst af tvennum toga, þ.e. annars vegar vegna þess hve hæg eignamyndunin er í kerfinu og hvernig fyrningarreglurnar eru og hins vegar vegna þess að fólk fær ekki að velja sér bústað. Það er þannig að þegar fólk sækir um félagslegt húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í Reykjavík, er því gefinn kostur á að raða í forgangsröð. Fólk merkir við hvar það vill helst vera og síðan kost nr. 2 og kost nr. 3 ef ég man þetta rétt. Þetta kann þó að hafa breyst síðan ég kom þarna að málum.

Þetta er gert vegna þess að takmarkaður fjöldi íbúða er í framboði í hverju hverfi. Það ræðst af því að Verkamannabústaðirnir í Reykjavík og síðan húsnæðisnefnd Reykjavíkur sem hefur staðið í miklum byggingum hefur fengið úthlutað lóðum og þær lóðir hafa fyrst og fremst verið í þeim hverfum sem verið er að byggja upp. Þar af leiðandi má segja að félagslegt húsnæði í Reykjavík hafi fyrst og fremst verið byggt upp í úthverfunum, fyrst ef maður rekur þróunina í Breiðholtinu, í Árbæjarhverfinu og síðan eftir að Grandasvæðið var tekið til byggingar var byggt töluvert þar og síðan hefur Grafarvogurinn bæst við. Auðvitað eru margir ekki ánægðir með að búa svona í úthverfum og vilja komast í Vesturbæinn, nær vinnustað sínum en því miður hefur framboðið þar verið afar takmarkað og það er meira að segja svo að gömlu félagslegu íbúðirnar, verkamannabústaðirnir við Hringbrautina hafa verið afar vinsælir enda eru þar mjög skemmtilegar litlar íbúðir í boði sem hafa gengið fjótt og vel út þegar þær hafa komið til innlausnar. Reyndar mega eigendur margra þeirra íbúða selja þær vegna aldurs þeirra en Verkamannabústaðirnir og húsnæðisnefnd Reykjavíkur hefur gert sitt til að reyna að halda þeim íbúðum inni í kerfinu.

Auðvitað er skiljanlegt að fólk kvarti undan því hversu erfitt er að velja sér hverfi. Ég veit ekki hvort hér verður svo mikil breyting á. Ég þekki dæmi um fólk sem hefur verið að leita sér að húsnæði í Vesturbænum, vesturborg Reykjavíkur. Í gamla bænum er bara ekki mikið framboð á húsnæði. Þetta eru eftirsótt hverfi. Þar er reyndar mikið af gömlum húsum sem kostar mikið að gera upp og þetta lánakerfi er ekki þannig að það gefi kost á því að gera upp húsnæði, enda hafa félagslegar íbúðir verið þannig að fólk gengur inn í þær tilbúnar. Ég vil draga það mjög í efa, hæstv. forseti, að með þeim breytingum sem verið er að gera leysist sá vandi fólks sem skapast vegna þess að fólk vill vera í ákveðnum hverfum, t.d. að vera ekki mjög langt frá vinnustað sínum.

Það félagslega húsnæði sem er til staðar t.d. hér í borginni verður það áfram, verður það lengi. Það mundi taka langan tíma að endurnýja eða koma öllum þessum þúsundum íbúða út á almennan markað. Ég fæ engan veginn séð að verið sé að koma til móts við þær kvartanir sem hæstv. ráðherra tíundaði hér í gær sem meginástæðu þessara grundvallarbreytinga. Þetta verður harla erfitt mál.

Hæstv. forseti. Ég held að afar auðvelt hefði verið að breyta kerfinu, laga það eins og auðvitað þarf að gera eftir því sem gallar koma í ljós. Ég held að hægt hefði verið að gera það án þess að gera þessa byltingu. Þar kemur að því að við hljótum að spyrja hvað býr að baki. Af hverju er verið að gera þessar breytingar. Það er auðvitað bara pólitík, það er ekkert annað en pólitík, pólitísk stefna sem þar býr að baki, sú stefna að það eigi að draga úr félagslegri aðstoð, það er ekki hægt að draga neinar aðrar ályktanir af þessu. Það er verið að því. Það er verið að flytja ábyrgðina frá ríkinu til sveitarfélaganna. Það er verið að stórauka ábyrgð sveitarfélaganna á þessum málum en ríkið dregur sig að sama skapi út úr.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson spurði áðan að því hvort hugsanlegt væri að einhver græddi á þessum breytingum fyrir utan fasteignasalana. Ég held þrátt fyrir ummæli hæstv. félmrh. í gær að til lengri tíma litið muni verða létt af ríkissjóði töluvert miklum bagga. Það verður miklu létt af honum og hér er verið að draga úr ,,ríkisafskiptum``. Það verður auðvitað þannig að verulega dregur úr þeim. Ábyrgðin er að færast í æ ríkara mæli til sveitarfélaganna.

Ég ætla aðeins að renna yfir þau markmið sem menn hafa sett sér með þessu frv. vegna þess að þar kemur þetta mjög skýrt í ljós hvað er verið að gera. Á bls. 19 í greinargerð frv. segir, með leyfi forseta:

,, Meginmarkmið frumvarpsins eru eftirfarandi:

1. Að einfalda og samræma meðferð og lánveitingar til húsnæðismála til lengri tíma litið.``

Ég rakti það í fyrri ræðu minni að ég sé harla litla einföldun, þetta er einföldun gagnvart ríkinu en þetta er sáralítil einföldun á kerfinu í heild og sérstaklega á meðan menn sitja uppi með félagslega húsnæðiskerfið eða núverandi kerfi sem er að fjara út, þá er þetta náttúrlega engin einföldun. Einföldunin felst kannski fyrst og fremst í því að sameina byggingarsjóðina. Það er ákveðin einföldun. En það verður líka mikið verk að gera þá upp á meðan þetta er allt að renna í gegn og það mun taka áratugi að gera það dæmi upp.

Í öðru lagi og hér er meginatriði málsins, í öðru lagi, með leyfi forseta, segir hér:

,,2. Að stofna sjálfstæðan sjóð, Íbúðalánasjóð, sem ætlast er til að verði fjárhagslega sjálfstæður til framtíðar og standi undir lánveitingum sínum og rekstri með eigin tekjum.``

Þetta er algerlega ljóst. Það stendur til að þessi sjóður verði algerlega sjálfstæður þannig að ríkið þurfi ekki að leggja neitt til nema væntanlega í vaxtabótunum hvað sem það kerfi stendur lengi. Ég ætla að vona að enn þá sé til það sjónarmið og það sé ríkjandi sjónarmið meðal íslenskra stjórnmálaflokka að nauðsynlegt sé að styðja fólk til öflunar húsnæðis og til þess að búa í leiguhúsnæði. Það hefur loksins tekist eftir mikla mæðu að koma upp húsaleigubótakerfi en ég ætla svo sannarlega að vona að menn séu ekki að hverfa alfarið frá stuðningi við fólk í húsnæðismálum en þetta er vissulega skref í þá átt. Það er ekki hægt að segja annað, hæstv. forseti. Síðan segir um markmiðin:

,,3. Að sameina Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna.``

Við höfum farið rækilega í það hvers vegna er verið að gera það þó að ég ítreki að það liggur ekki fyrir neitt mat eða neinar niðurstöður hvað það varðar hvað þessi sameining þýði. Mér finnst alveg furðulegt að menn skulu ekki hafa lagst yfir þá útreikninga og að leggja það fyrir okkur hvað tekur langan tíma að ná þarna jafnvægi. Dugir sameiningin til þess að rétta Byggingarsjóð verkamanna af o.s.frv.? Síðan segir í fjórða lagi, hæstv. forseti, um fjórða markið þessa frv. Það er að loka félagslega eignaríbúðakerfinu í núverandi mynd.

Í þessu samhengi, hæstv. forseti, get ég ekki annað en vakið athygli á bréfi frá Sigurði E. Guðmundssyni, forstjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins, sem sendi bréf, væntanlega til Byggðastofnunar. Húsnæðisstofnun fékk tillöguna um stefnu í byggðamálum til umsagnar. Bréf Sigurðar E. Guðmundssonar er mjög athyglisvert og þar kemur fram --- ég hafði bara ekki séð þetta fyrr en ég fór að fletta þessu núna. Þar segir Sigurður E. Guðmundsson, með leyfi forseta:

,,Sem kunnugt er standa nú fyrir dyrum umfangsmiklar breytingar á fyrirkomulagi og yfirstjórn húsnæðismála. Breytingarnar beinast fyrsta kastið að félagslega íbúðakerfinu en stefnt mun vera að því að leggja það niður í núverandi mynd sinni. Síðan kann röðin að koma að almenna lánakerfinu. Slíkar breytingar á báðum þessum lánakerfum hljóta óhjákvæmilega að hafa í för með sér mjög víðtæk byggðapólitískt áhrif sem nauðsynlegt er að taka sem fyrst til gaumgæfilegrar yfirvegunar.``

Það fer sem sagt ekkert á milli mála í huga forstjóra Húsnæðisstofnunar að það er verið að leggja félagslega kerfið niður í núverandi mynd. Hvað hann á hins vegar við þegar hann segir:

,,Síðar kann röðin að koma að almenna lánakerfinu.`` Það væri fróðlegt að vita hvað forstjóri Húsnæðisstofnunar veit um breytingar sem þar eru fyrirhugaðar, breytingar sem við vitum ekki um. En það er líka athyglisvert sem hann er að vekja athygli á í bréfi sínu að búið er að leggja fram þetta mikla plagg, tillögu til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir fór rækilega yfir í 2. umr. en þetta kemur væntanlega til umræðu síðar, en Sigurður E. Guðmundsson, forstjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins vekur athygli á því að í þessu mikla plaggi eru húsnæðismálin ekkert skoðuð. Þau eru ekki skoðuð sem hluti af byggðamálum og byggðaþróun og áhrifum á byggð í landinu. En það sem hann vekur hins vegar athygli á er að þær breytingar þar sem er verið að leggja til í frv. til húsnæðismála muni að sjálfsögðu hafa víðtæk byggðapólitísk áhrif eins og hann segir. Þetta er atriði sem ég verð bara að viðurkenna, hæstv. forseti, að okkur láðist að skoða í hv. félmn. Við höfum beint sjónum að erfiðleikum einstakra sveitarfélaga. Þar hefur Bolungarvík oft verið nefnd og ég minnist þess að þegar hv. félmn. fór í heimsókn vestur á firði sl. haust vöktu Bolvíkingar athygli okkar sérstaklega á því hvað félagslega kerfið væri þeim þungt í skauti, m.a. vegna búferlaflutninga en í raun og veru hefði verið nauðsynlegt að fá fram mat á því hver hin byggðapólitísku áhrif þessara breytinga verða.

[12:30]

Þar kemur að atriði sem ég ætla að nefna sérstaklega og hefur komið nokkuð inn í umræðuna. Í það minnsta hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Margrét Frímannsdóttir nefndu það í ræðum sínum. Annars vegar snýst það um hvað muni gerast þegar sveitarfélög leysa til sín íbúðir og selja þær á lægra verði en innlausnarverðinu. Hvað mun þá gerast? Hver ber þann skell?

Það kemur kannski ekki nógu vel fram í þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu en við fengum þær skýringar í hv. félmn. að í tilviki sveitarfélaganna verði það varasjóðurinn sem taka muni að sér að reyna að bæta það tjón sem sveitarfélögin verða fyrir. Í umfjöllun nefndarinnar kom skýrt fram að varasjóðnum verður skipt í þrjár deildir. Í fyrsta lagi deild sem fjalla mun um eldri íbúðir. Í öðru lagi verður áfram starfandi deild sem fylgir eftir hlutverki Tryggingarsjóðs vegna byggingargalla, þ.e. ef eitthvað slíkt kemur upp á á næstu árum. Þriðja hlutverkið sem varasjóðurinn fær er að leysa vanda þeirra sveitarfélaga sem verða fyrir tapi við innlausn íbúða.

Mér var tjáð, og þess vegna fletti ég upp í þessari byggðaáætlun, að í sambandi við umræðuna um byggðamál og byggðaáætlun hefðu menn rætt að hugsanlega þyrfti að setja peninga í að mæta þeim vanda sem kann að koma upp úti á landi út af þessum málum. Ég finn þetta ekki í tillögunni. Ég sé sáralítið þar um húsnæðismál. Stóri vandinn í þessu dæmi, hæstv. forseti, er hlutskipti þeirra einstaklinga sem búa við það að kaupskyldutími sveitarfélaga er útrunninn. Sveitarfélögin hafa ekki lengur skyldu til þess að leysa til sín íbúðirnar, fólk reynir að selja og fær lægra verð en nemur áhvílandi lánum á íbúðunum. Fólk gengur frá íbúðum sínum í töluverðri skuld. Hvað á að gera varðandi þau mál?

Ég hygg að þessi vandi kunni að koma upp að einhverju marki í framtíðinni. Þess vegna vaknar einmitt spurning um að ef menn taka ekki á nákvæmlega þessum vanda með einhvers konar sértækum aðgerðum eða sérstökum lánum, eða ég veit ekki hvernig ætti að gera þetta, þá sitja íbúar landsbyggðarinnar í sömu súpunni og nú. Þetta eru hreinlega átthagafjötrar. Fólk getur ekki farið í burtu vegna þess að það tapar svo miklu á því að selja eignir sínar. Þessi vandi er ekki leystur hér. Það er ekki stafkrókur um þetta.

Menn hugsa um sveitarfélögin, reyna að leysa vanda þeirra í gegnum þennan varasjóð en það er ekki stafkrókur um vanda þess fólks sem getur lent í þessu. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir var með mjög skýr dæmi um þetta úr sínu eigin sveitarfélagi. Hún býr þó svo vel að vera hér í nágrenni Reykjavíkur. Mér segir svo hugur að markaðsverð íbúða á Suðurlandi gæti farið hækkandi eftir því sem suðvesturhornið verður meira og meira eitt atvinnusvæði. Vandinn er því ekki stærstur þar. Hann er meiri því lengra sem dregur frá Reykjavík og Reykjavíkursvæðinu. Hann er auðvitað mestur á Vestfjörðum eins og við vitum. Þar hafa íbúðir einmitt staðið auðar. Þar er stöðug fólksfækkun og fólk á í verulegum vanda. Ég vil því vekja sérstaklega athygli á því að sumir þingmenn virtust ekki hafa áttað sig á hlutverki varasjóðsins.

Ég vil bara koma þessu að í upplýsingaskyni af því að þetta kemur ekkert fram í textanum. Þetta var bara skýrt fyrir nefndinni og kemur ekki fram í nefndaráliti meiri hlutans. Við fjölluðum ekkert um varasjóðinn í nefndaráliti okkar vegna þess að þær breytingar sem lagðar eru til, leysa þann meginvanda sem við í minni hlutanum höfðum áhyggjur af. Það var staða samtaka eins og Búseta sem hefur borgað stórfé inn í varasjóðinn. Þeir sögðu bara: Ef þetta gengur fram eins og ráð er fyrir gert í frv., þá er þetta bara hrein og klár eignarupptaka á okkar fé. Auðvitað sá ráðuneytið um leið, og menn fóru að skoða þetta, að þetta stóðst ekki. Þetta mundi kalla á málaferli og læti. Því var gerð breyting á og það fjármagn sem þessi félagasamtök eiga í sjóðnum er varðveitt sérstaklega. Í greininni segir, með leyfi forseta:

,,Starfræktur skal sérstakur varasjóður í eigu og á ábyrgð sveitarfélaga.``

Meiningin var að hann væri í eigu sveitarfélaga og inn í hann átti allt féð úr Tryggingarsjóði vegna byggingargalla að renna. Allir þeir sem hafa borgað í þann sjóð hefðu hreinlega misst sitt fé til sveitarfélaganna en þessu er breytt með brtt.

Síðan kemur það atriði sem minnir okkur á þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir í byggðamálum. Það verður fyrst og fremst höfuðborgarsvæðið sem leggur grunnfjármagnið inn í sjóðinn og mun greiða sín 5% af viðbótarlánum inn í sjóðinn. Það verða sem sagt íbúar höfuðborgarsvæðisins sem munu borga upp tap sem verður fyrst og fremst úti á landsbyggðinni.

Nú ætla ég ekki að setja mig í mikinn ham út af þessu. Ég held að við eigum að búa við samábyrgð í samfélagi okkar. Við eigum að aðstoða hvert annað og við eigum að hjálpa til þar sem þess gerist þörf. Þetta vekur hins vegar upp spurningar, sem menn hafa örlítið komið inn á, um það hvernig menn hafi hagað sér gagnvart þessu kerfi. Ég held að ekki sé nokkur vafi á því að þess eru dæmi að byggt hafi verið félagslegt húsnæði umfram þörf. Ég tek þó skýrt fram að byggða- og atvinnuþróun hefur haft mikil áhrif á það hvernig kerfið hefur þróast úti á landi. Síðan eru það þeir aðilar sem hafa lent í vandræðum sem fyrst og fremst knýja á um þessar breytingar.

Ég vitnaði áðan, hæstv. forseti, í markmiðin. Menn hafa sett stórt spurningarmerki við það hvort markmiðin náist með þessum breytingum. Ég var búin að rekja fjögur fyrstu markmiðin. Fimmta markmiðið er, með leyfi forseta:

,,Að félagsleg jöfnun við öflun eigin húsnæðis sé í formi sértækra viðbótarlána og að fjárhagsleg aðstoð til einstaklinga fari í gegnum vaxtabótakerfi.``

Mér finnst hæstv. félmrh. skulda okkur skýringu á því hvernig hægt er að kalla sértæk viðbótarlán félagslegt úrræði ef þau lán verða á markaðsvöxtum. Það kemur skýrt og greinilega fram að sjóðurinn eigi að standa undir sér. Það er eitt markmiðið og hafi eigin tekjur af lánveitingum. Hann á að afla sér fjár með sömu vöxtum og hann lánar út á, þó að það kunni að koma til að ríkissjóður leggi eitthvað í púkkið af sérstökum ástæðum. Ef viðbótarlánin verða á markaðsvöxtum, þá er þetta auðvitað engin félagsleg aðgerð. Það hlýtur að vera ljóst.

Við getum kallað vaxtabæturnar félagslega aðgerð en við höfum reynt að vekja athygli á því í þessari umræðu að vaxtabótakerfið er bara miklu ótryggara kerfi en það fyrirkomulag sem verið hefur við lýði í áratugi. Fólk hefur getað verið tryggt með því að vextir hafa örsjaldan verið hækkaðir. Í lögin árið 1990 var sett að það mætti hækka vexti á lánunum ef sannanlega hefði orðið breyting á kjörum fólks undanfarin þrjú ár, ef ég man rétt, þó þannig að greinilegt væri að fólk gæti staðið undir meiri afborgunum og þar með auðvitað greitt lánin sín hraðar niður.

Hins vegar átti sér stað vaxtahækkun fyrir nokkrum árum. Það var í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur, þáv. hæstv. félmrh., þegar vextir voru hækkaðir upp í 2,4% og það var þegar menn sáu að það stefndi í vandræði hjá Byggingarsjóði verkamanna. Þá voru vextirnir hækkaðir og það var mjög alvarleg aðgerð sem hafði sín áhrif á kjör þess fólks sem fengið hafði fyrirgreiðslu í félagslega kerfinu. Hér segir í 6. lið, varðandi markmiðin, með leyfi forseta:

,,6. Að breyta þátttöku, áhrifum og ábyrgð sveitarfélaga og húsnæðisnefnda sveitarfélaga hvað félagslegt húsnæði og lánveitingar varðar.``

Hér kemur að því sem ég nefndi rétt áðan: Það er verið að færa ábyrgðina frá ríkinu yfir á sveitarfélögin. Ég verð, hæstv. forseti, að setja stórt spurningarmerki við það hvort réttlætanlegt sé að færa húsnæðismálin að svona miklu leyti yfir á sveitarfélögin. Hvers eru þau megnug? Það kemur inn á þá umræðu sem átt hefur sér stað um leiguhúsnæði. Reynslan kennir okkur að hingað til hefur verið afar lítill áhugi á því að byggja leiguhúsnæði. Ég spyr: Hvað ætti að breyta því? Það eina sem getur breytt því er að sveitarfélögin standi frammi fyrir stækkandi hópi fólks sem hvergi fær úrlausn sinna mála og verður að leita út á leigumarkaðinn, þ.e. að það ástand komi upp að hér verði slík vandræði að sveitarfélögin sjái sig hreinlega knúin til þess að grípa inn í.

Það kemur skýrt fram í nefndaráliti okkar, í minni hluta félmn., að lagabókstafurinn sem er til staðar er afar veikur. Skyldur sveitarfélaganna eru að mínum dómi of veikar í lögum og þar af leiðandi held ég að hér eftir sem hingað til geti sveitarfélögin komið sér hjá því að sinna þessari skyldu sinni. Þau geta það þó að ég voni svo sannarlega að þau bregðist betur við.

[12:45]

Ég ætla ekki að rekja þessi markmið nánar en eins og ég hef sagt þá dreg ég það mjög í efa að þau nái fram að ganga.

Hér eru áformaðar aðrar breytingar sem ekki eru tíundaðar í þessum markmiðum. Við rekjum þær breytingar ítarlega í nefndaráliti okkar. Ég ætla ekki að fara yfir það aftur. Flestar þær breytingar ganga í sömu átt og eru auðvitað í samræmi við það að þessi nýja stofnun á að standa undir sér og það þýðir auðvitað að lán verða á markaðsvöxtum.

Þá hlýt ég að koma að atriði sem ég gleymdi áðan, hæstv. forseti, að ég vildi gjarnan fá yfirlýsingu hæstv. félmrh. eða skýringu hans á því hvernig viðbótarlánin geti talist félagsleg aðgerð og hvort hann sjái það fyrir sér að vextir á viðbótarlánum verði eitthvað lægri. Mér var sagt að aðstoðarmaður ráðherrans hefði látið þau orð falla að vextir yrðu niðurgreiddir á viðbótarlánum. Þetta hefur hvergi nokkurs staðar komið fram og er alls ekki í samræmi við markmið frv., hvað þá þær brtt. sem búið er að gera við frv. Ég get ekki túlkað þetta mál öðruvísi en að markaðsvextir munu ráða, hvort sem það verður á almennu lánunum eða viðbótarlánunum. Hið sama gildir um lán til byggingar og öflunar leiguhúsnæðis nema eitthvað annað verði ákveðið sérstaklega. Það verður þá að koma fram í umræðunni. Stendur það til að ríkið leggi eitthvað fram til niðurgreiðslu á vöxtum eða ekki? Þetta þarf að koma fram.

Hæstv. félmrh. sagði í ræðu sinni í gær, þegar hann var að rekja ástæðurnar fyrir þeim kvörtunum sem hann hefði fengið inn á sitt borð --- ég dreg ekkert í efa að margir hafði kvartað --- að hann hefði getað farið sömu leið og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði á sínum tíma sem félmrh., þ.e. að hækka vexti. Hann hefði getað ... En hvað er hann að gera, hæstv. forseti? Hvað er hann að gera? Hann er að hækka vexti. Það er verið að hækka vexti á lánum til húsnæðismála. Það er nákvæmlega það sem er gert. Það mun auðvitað hafa sínar afleiðingar.

Í þessu samhengi verð ég líka að minna á að það er auðvitað ótrúlegt kæruleysi stjórnvalda að reyna ekki að gera sér grein fyrir því hver áhrifin, bæði af þessum vaxtahækkunum og öðru því sem verið er að gera með þessum breytingum, muni hafa á fjármagnsmarkaðinn. Hvaða áhrif mun þetta hafa á íbúðamarkaðinn? Það eru auðvitað alveg ótrúlegir stjórnarhættir að menn leggi fram svona viðamikil frumvörp, svona stór mál, án þess að skoða áhrifin. Þetta er alltaf sama sagan. Menn ætla bara að redda þessu þegar þar að kemur. Það er hinn íslenski hugsunarháttur. En hver verða áhrifin?

Ég sé það þannig fyrir mér, hæstv. forseti, að ef spá fjárlagaskrifstofu fjmrn. gengur eftir og um það bil þúsund nýir einstaklingar komi árlega inn í húsnæðiskerfið vegna þessarar opnunar, þá mun það þýða aukna eftirspurn eftir íbúðum. Það mun hafa þær afleiðingar að íbúðaverð hækkar. Því fleiri sem viðbótarlánin verða þeim mun meiri peninga þarf hinn nýi Íbúðalánasjóður að afla sér. Hvaða áhrif hefur það á verðbréfamarkaðinn? Hefur það áhrif til hækkunar eða lækkunar á vöxtum? Fróðlegt væri að heyra hvað hæstv. félmrh. hefur um þetta að segja. Auðvitað er verulegt áhyggjuefni að vita ekki hver áhrifin verða. Hæstv. félmrh. rennir því blint í sjóinn. Hann hækkar vexti og er auðvitað að feta í fótspor ýmissa sinna forvera þó að hann hafi reynt að láta líta svo út sem hann væri ekki að því.

Varðandi ýmis vandkvæði á félagslega húsnæðiskerfinu þá hefði auðvitað bæði verið hægt að breyta ákvæðum um fyrningar, um kaupskyldu sveitarfélaganna og jafnframt að sameina byggingarsjóðina án þess að gera allar þær breytingar sem hér eru boðaðar. Eins og ég segi, þá býr hér þrælpólitískur tilgangur að baki og menn láta sér í léttu rúmi liggja hverjar afleiðingarnar verða.

Ég ætla að koma inn á nokkur atriði til viðbótar, hæstv. forseti, áður en ég lýk máli mínu. Þar er fyrst að nefna að hæstv. ráðherra gerði í máli sínu nokkuð mikið úr umræðunni um reglugerðirnar og reglugerðarveldið eins og við höfum kallað það. Það er auðvitað alveg rétt sem fram kom í máli hans, að af þessum 28 reglugerðum eru allmargar sem eru af sama toga og þær sem nú eru í gildi. Það er ekki endilega fjöldinn sem skiptir máli. Fjöldinn endurspeglar auðvitað það hvað frv. er óljóst.

Stóra spurningin í mínum huga er --- og ég ætla að endurtaka það sem ég sagði í minni fyrri ræðu --- um stefnu í lagasetningu. Eiga lög að vera skýr? Eiga þau að kveða skýrt á um markmið, réttindi og skyldur o.s.frv. eða á að fela ráðherra að útfæra lögin? Á undanförnum árum hefur hvert skrefið á fætur öðru verið stigið í því að auka vald ráðherra og færa þeim valdið með setningu reglugerðar. Þetta er grundvallarspurning varðandi lagasetningu og líka um þann ramma sem löggjafarvaldið setur framkvæmdarvaldinu. Það er mjög mikilsvert atriði. Það breytir því ekki hvort reglugerðirnar hefðu verið 16 eða 20 frekar en 28. Þetta er bara grundvallarspurning í lagasetningu. Ég held að í þessu frv. sé gengið allt of langt.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á það í ræðu sinni í gærkvöldi að í hv. heilbr.- og trn. hefði verið mörkuð sú stefna, og við höfum reyndar gert það líka í félmn., að reyna að koma þessum reglugerðarheimildum öllum í eina grein. Í þessu tilviki var ekki vilji til þess. Það verður náttúrlega að viðurkennast að það stafar af því að málið er býsna flókið. Það hefði þá þurft að skýra það býsna náið. Mér finnst þetta ekki góð aðferð við lagasetningu.

Hvað varðar greiðslumatið þá vil ég vekja alveg sérstaka athygli á því sem fram kom í máli ráðherrans í gær um að meiningin væri alls ekki að fara niður í 18% greiðslumat, þ.e. að sömu reglurnar giltu í húsbréfakerfinu og almennu lánunum. Mér finnst þetta mjög mikilvæg yfirlýsing sem þarna kom fram. Þegar hann var að lýsa furðu sinni á umsögn húsnæðisnefndar Kópavogs þá verð ég að koma þeim til varnar og segja að menn gátu auðvitað ekki skilið frv. öðruvísi en svo að þarna ætti að samræma greiðslumatið. Húsnæðisnefnd Kópavogs var einfaldlega að sýna hvað mundi gerast ef þessari 18% reglu væri beitt. Við skulum segja að við færum upp í 22--24% greiðslumat eða eitthvað slíkt, að þá hefði það svipuð áhrif. Það yrðu kannski ekki eins margir sem féllu út en samt ákveðinn hópur.

Þegar rætt var um kostnað við þetta húsnæðiskerfi og það að við höfum haldið því fram að kostnaður þeirra sem munu taka almennt lán og viðbótarlán muni stóraukast, þá sagði hæstv. félmrh. að það hefði verið gert samkomulag við fjmrh. um að kostnaður yrði ekki meiri í nýja kerfinu en því gamla. Þetta vildi ég fá betur skýrt, hæstv. forseti.

Ég spyr: Hvernig á að bæta fólki upp þennan aukna kostnað? Það væri fróðlegt að fá það upplýst. Ég spyr: Hvað um gjöld Íbúðalánasjóðsins? Hvað um gjöld húsnæðisnefndanna og hvað um hlut fasteignasalanna? Ætlar fjmrn., hið opinbera, að bæta fólki upp þennan kostnað? Hvað átti hæstv. félmrh. við með þessum orðum sínum? Var hann bara að tala um stimpilgjöldin? Ég hygg að hann hafi aðeins verið að tala um stimpilgjöldin en ekki aðra kostnaðarliði sem hér bætast við.

Þá vil ég að lokum ítreka, hæstv. forseti, að ég held að sveitarfélögin hafi alls ekki gert sér grein fyrir afleiðingum þessa frv. fyrir þau og ég harma það. Ég harma það að menn setji sig ekki nægilega vel inn í málin. Sú krafa Sambands ísl. sveitarfélaga, að haldið verði áfram að veita lán á niðurgreiddum vöxtum til byggingar leiguíbúða, ber það auðvitað með sér að það er eins og menn átti sig ekki á því hvað hér er verið að gera.

Þessi stofnun, Íbúðalánasjóður, á að standa undir eigin rekstri. Þar af leiðandi getur hún ekki veitt lán á niðurgreiddum vöxtum. Hins vegar kann að verða samið milli ríkis og sveitarfélaga um að ríkið komi með einhver framlög til leiguíbúða. Það er algerlega óljóst hvað koma mun út úr þeim samningum og ekki er hægt að skilja það sem fram hefur komið um þessar fyrirhuguðu viðræður öðruvísi en að meiningin sé að fá sveitarfélögin til að leggja sitt af mörkum til byggingar leiguíbúða, væntanlega umfram þessi 10% sem þau þurfa að afla sér einhvern veginn.

Ég vil líka enn og aftur ítreka það, hæstv. forseti, að framkoman við starfsfólk Húsnæðisstofnunar er algerlega óþolandi. Það er algerlega óþolandi að ganga þannig frá málinu, að réttur þeirra sé ekki tryggður í lögunum. Það er auðvitað algert lágmark að hæstv. félmrh. gefi skýra og skilmerkilega yfirlýsingu um það hvernig hann sjái framtíð starfsfólksins. Ég missti því miður af þeim ummælum sem hann lét falla í gær, í andsvari við hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, og vona að þar hafi verið skýrt kveðið að orði. Ég þarf einfaldlega að láta prenta það út fyrir mig til þess að átta mig á því hvað hann sagði varðandi starfsfólkið. Þetta er auðvitað stórmál. Það er búið að valda miklum óróa með þessu frv. hjá stofnuninni. Það hefur reyndar einnig valdið miklum óróa hjá húsnæðisnefnd Reykjavíkur og margir hafa rokið upp til handa og fóta og óttast að ekki yrði staðið við úthlutanir á næsta ári, fólk yrði að fara að taka lán á allt öðrum kjörum o.s.frv. En við hljótum að skilja að það fólk sem lengi hefur unnið hjá stofnuninni og er kannski komið á þann aldur sem erfitt reynist að fá vinnu, óttast auðvitað um sinn hag. Síðan er það einnig, hæstv. forseti, eins og ég vakti athygli á í fyrri ræðu minni að hópur af starfsfólki Húsnæðisstofnunar hefur verið ráðinn eftir að lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna var breytt. Hann hefur þar af leiðandi ekki sama rétt og þeir sem ráðnir voru fyrir þann tíma og hafa biðlaunarétt. Það er því afar brýnt að við göngum ekki frá þessu máli öðruvísi en að hagsmunir starfsfólksins verði tryggðir.

Allra síðast, hæstv. forseti, þá lét ráðherrann þau orð falla að gera yrði þessar breytingar núna en ekki síðar. Ég varð ekki vör við að hann kæmi fram með nein rök um það hvers vegna nauðsynlegt sé að gera þetta núna. Hæstv. ráðherra sagði að það væri ekki hægt að bíða. Ég get skilið að erfitt er fyrir starfsfólk og erfitt fyrir starfsemi stofnunar að búa mánuðum saman við óvissu um það sem verður. Hér er hins vegar um svo stórt mál að ræða að ég ítreka þá skoðun mína að þessu máli eigi að fresta. Það á að fara betur ofan í einstaka liði.

Menn verða að átta sig betur á því hvaða áhrif þetta frv., ef að lögum verður, muni hafa á húsnæðismarkaðinn, á verðbréfamarkaðinn, en þó fyrst og fremst á kjör láglaunafólks sem hingað til hefur átt þess kost að fá úrlausn sinna mála innan félagslega kerfisins en verður nú úthýst. Hvert er verið að vísa því fólki, hæstv. forseti? Út á leigumarkaðinn, er svarið. En leigumarkaðurinn er ekki til. Það eru ekki til úrlausnir fyrir þetta fólk. Ég þori ekki að fullyrða hversu stór þessi hópur er og hversu stór hann verður. Þeir eru svo margir óvissuþættirnir. Það er svo margt sem getur haft áhrif á það. Það er hins vegar verið að loka leið sem hingað til hefur verið fær og ég mótmæli því, hæstv. forseti, að það sé ráðist á kjör fólks með þessum hætti. Þetta er ríkisstjórninni til skammar.