Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 14:24:39 (6656)

1998-05-16 14:24:39# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[14:24]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Undir þessari umræðu sem staðið hefur nokkuð lengi hefur hæstv. félmrh. haldið ræðu þar sem hann hefur svarað þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á þetta frv. Mér gafst einungis tækifæri til þess að svara hér í stuttu andsvari þannig að ástæða er nú við lok þessarar umræðu að fara yfir nokkuð af því sem hæstv. ráðherra hélt fram í ræðu sinni.

Öllum er náttúrlega ljóst að ríkisstjórnin ætlar sér með góðu eða illu að ná fram fjórum mjög stórum málum á þessu þingi. Að því er varðar þrjú þeirra þá höfum við í stjórnarandstöðunni talið ástæðu til þess að fylgja málflutningi okkar ítarlega eftir úr þessum ræðustól vegna þess að málin eru þess eðlis að þau munu skipta verulegu máli í framtíðinni fyrir þjóðina og við teljum nauðsynlegt að nota okkur þann lýðræðislega rétt sem við höfum úr þessum ræðustól til þess að koma til skila eins og við best getum til þjóðarinnar hvaða áhrif þessi mál muni hafa.

Við höfum, herra forseti, verið að fjalla um miðhálendið og hvernig stjórnsýslu þess verður háttað í framtíðinni nái tillögur ríkisstjórnarinnar fram að ganga í því efni, þar sem litlum hluta þjóðarinnar, örfáum prósentum, er falið það vald að taka ákvarðanir um það hvernig hagnýtingu miðhálendisins verður háttað í framtíðinni. En stærsti hluti þjóðarinnar, 90--95%, hefur mjög litla aðkomu að því máli þannig að auðvitað var eðlilegt að það mál þyrfti að ræða ítarlega.

Eins höfum við rætt hér mjög mikið um frv. hæstv. iðnrh. um auðlindir í jörðu. En það er ljóst, herra forseti, að með ákvæðum þess frv., ef að lögum verður, geta jarðeigendur rakað til sín miklum peningum skattgreiðenda ef nýta þarf í almannaþágu verðmæti sem finnast í jörðum þeirra. Bara þessi tvö mál sýna, herra forseti, að þarna eru sérhagsmunir enn eina ferðina settir langt ofar almannahagsmunum.

Ég átti þess ekki kost, herra forseti, að hlýða á boðskap hæstv. forsrh. í gær. Mér skilst að hæstv. ráðherra hafi verið í gærkvöldi í sjónvarpi þar sem hann lýsti sinni sýn á lýðræðið og þingræðið í þjóðfélaginu. Ég átti þess heldur ekki kost að vera við upphaf kvöldfundar í gær þegar stjórnarandstaðan gerði þessa sýn forsrh. að umtalsefni. En ég átti þess kost í morgun, herra forseti, að hlýða á umfjöllun í sjónvarpinu í þættinum Þingsjá og þar heyrði ég viðtal við hæstv. forsrh. um sýn hans á þingræðið og lýðræðið í þjóðfélaginu. Ég verð að segja það, herra forseti, að ég varð fyrst undrandi þegar ég hlýddi á þetta viðtal. En, herra forseti, það er ekki hægt annað en að hneykslast á því hvernig hæstv. forsrh. lítur á þingræðið í landinu.

Hæstv. forsrh. gerir það sem í hans valdi stendur til að stilla því upp sem málþófi þegar við stjórnarandstæðingar höfum verið að ræða ítarlega þau þrjú mál sem ég nefndi, þessi tvö og síðan húsnæðismálin þar sem, eins og við höfum margoft farið inn á, verið er að loka félagslega íbúðakerfinu og skilja eftir í óvissu hundruð fjölskyldna, án þess að nokkuð liggi fyrir um hvert þetta fólk getur leitað verði frv. hæstv. félmrh. að lögum.

[14:30]

Hæstv. forsrh. sagði í þessu viðtali í morgun að lýðræðið eigi að fá að virka. Þá er hæstv. forsrh. væntanlega að vísa til þess að meiri hlutinn eigi að geta náð fram sínum málum hér á þingi. Það er út af fyrir sig ekki hægt að gera athugasemdir við það að meiri hlutinn nái sínum málum fram. Hitt er annað mál að ef lýðræðið á að virka, eins og hæstv. forsrh. segir, þá er það auðvitað þannig að stjórnarandstaðan hafi þann lýðræðislega rétt að koma sínum málflutningi á framfæri, sínum rökum fyrir því að hún gagnrýnir þau frv. sem hér eru sett fram og hún geti gert það eðlilega, án þess að þurfa að taka því að forsrh. haldi því fram opinberlega fyrir þjóð sinni að stjórnarandstaðan sé þinginu til skammar, eins og hæstv. ráðherra sagði í þessu viðtali í morgun.

Hæstv. forsrh. landsins sagði við þjóðina að þingmenn séu hér að tala við sjálfa sig, umræðurnar séu þinginu til skammar og þeir séu að lesa hér upp úr skýrslum og afmælisritum sem margsinnis hafi verið lesnar hér upp. Það var boðskapurinn. (Forsrh.: Er þetta ekki rétt?) Það var boðskapurinn, herra forseti, sem forsrh. boðaði þjóðinni. (Forsrh.: Er þetta ekki rétt?)

Nú ætla ég að vekja athygli á því út af frammíkalli hæstv. forsrh. að ég hef ekki orðið mikið vör við hæstv. forsrh. undir þeim ítarlegu umræðum sem hér hafa farið fram um húsnæðismál. Ég vísa því á bug, af því að ég hef tekið þátt í þessum umræðum, að hér sé í fyrsta lagi um málþóf að ræða og að í annan stað sé um það að ræða að við gerum ekkert annað en að tala hér upp úr skýrslum og afmælisritum. Herra forseti. Þetta er ekki boðlegur málflutningur af forsrh. Íslands. Þetta er ekki boðlegur málflutningur af honum.

Það er vanvirða, herra forseti, við þingið að hæstv. forsrh. haldi því fram að þetta þing sé ekki nægjanlega þroskað, en það sagði hæstv. forsrh. við þjóðina í morgun. Ég vil lýsa undrun minni og hneykslun á þessu, að forsrh. haldi því fram að þingið sé ekki nægjanlega þroskað. Hér talar sá sem valdið hefur, hans heilagleiki, hæstv. forsrh. Íslands.

Forsrh. boðar svo þjóðinni að hann, framkvæmdarvaldið, ætli að breyta þingsköpum til að svona hlutir geti ekki gerst sem séu þinginu til skammar. Þessi boðskapur kom ekki héðan frá forsn. eða forseta þingsins. Nei. Þetta kom frá æðsta manni framkvæmdarvaldsins, forsrh. sjálfum. Hann boðar þjóðinni í morgun í sjónvarpi að hann ætli og telji rétt að breyta þingsköpum til að svona hlutir geti ekki gerst. ,,Það er skylda meiri hlutans``, sagði hæstv. forsrh., ,,að sjá til þess að breyta þingsköpum``, sem, herra forseti, hæstv. forsrh. segir að sé ekkert vandamál. Hér talar nú aldeilis maður með völd. Þetta segir framkvæmdarvaldið: ,,Það er ekkert mál að breyta hér þingsköpum. Ég hef meiri hluta hér á þinginu og ég get breytt þingsköpum ef ég vil.``

Það er ekki bara það, herra forseti, að forsrh. hafi valdið til þess að knýja í gegn með sínum meiri hluta --- sem ég hef ekki mótmælt, svo fremi að minni hlutinn hafi sinn lýðræðislega rétt --- að ná í gegn þessum stóru málum sem ríkisstjórnin ætlar sér og öðrum, heldur nær vald hans, herra forseti, og á því vek ég athygli, til þess að hann, að hann geti breytt þingsköpum. Ég spyr, herra forseti: Er hægt að líta á þessi orð öðruvísi en sem vanvirðu við þingið af hæstv. forsrh.?

Forsrh. mælir líka þingræðið í peningum. Hann mælir lýðræðið líka í peningum. Hæstv. forsrh. hefur setið yfir því, í stað þess að hlýða á málefnalegar ræður okkar þingmanna, sjálfsagt í Stjórnarráðshúsinu, að reikna út hvað tíu klukkustunda ræða þeirrar sem hér stendur kosti lýðræðið í landinu. Og hæstv. forsrh. hefur komist að niðurstöðu um þann kostnað. Sú sem hér stendur hefur kostað þingið, herra forseti, eina milljón króna. Það hefur kostað eina milljón kr. að tala hér í tíu klst. Og það setur forsrh. svo snyrtilega í samhengi við ferðalög bankastjóra.

Ég get sagt þingheimi það og ég get sagt herra forseta það að mér ofbýður þessi málflutningur. Ég hef verið alllengi á þingi og það hafa verið fleiri forsætisráðherrar en þessi sem ég geri hér að umræðuefni. En ég hef aldrei orðið vitni að svona hroka hjá þeim sem valdið hefur. Aldrei. Og af því ég hef nú starfað töluvert með þessum hæstv. forsrh., þá er margt gott sem ég kann að virða í fari hans. Ég hef um margt átt góð samskipti við þennan ráðherra, hæstv. forsrh. En hér, herra forseti, gengur sá sem valdið hefur of langt.

Herra forseti. Ég á heimtingu á því að hæstv. forsrh. leggi fram þessa útreikninga þó það sé aukaatriði og það eigi ekki að mæla í peningum lýðræðislegan rétt minni hlutans til þess að koma fram sínum skoðunum. Hvað var tekið með í þessa útreikninga sem forsrh. sat yfir að reikna á meðan við vorum að ræða ítarlega þetta mál? Var það fastakostnaður Alþingis? Hvernig fær forsrh. út þessa tölu?

En þetta, herra forseti, er auðvitað allt saman aukaatriði. Það sem er aðalaatriðið, herra forseti, er hvernig forsrh. landsins lítur á lýðræðið og þingræðið í því landi sem hann stjórnar. Og það hlýtur að vera okkur þingmönnum umhugsunarefni.

Hæstv. forsrh. boðar ekki aðeins að hann muni flytja hér breytingar á þingsköpum og koma því í gegn með sínum meiri hluta. Hann boðar einnig, herra forseti, hvenær þessu þingi eigi að ljúka, hvernig það eigi að starfa þessa daga eða vikur sem eftir eru. Hæstv. forsrh. boðar það í sjónvarpinu. Hann boðar það að þingið eigi að starfa fram á fimmtudag eða föstudag í næstu viku. Og hæstv. forsrh. boðar það að þingið komi svo saman strax eftir kosningarnar.

Herra forseti. Ég bið herra forseta að virða mér það til betri vegar þó að upp í minn huga komi: Hver stjórnar þinginu? Nær vald forsrh. á Íslandi líka til þess að stjórna löggjafarsamkundu þjóðarinnar? Er svo komið fyrir þingræðinu og lýðræðinu að það sé orðið í verkahring og á valdi forsrh. að stjórna þinginu, hvenær og hvernig eigi að breyta þingsköpum, hvenær þinginu eigi að ljúka, með hvaða hætti o.s.frv.?

Þetta hefur mér orðið nokkurt umhugsunarefni, herra forseti, á þessum degi og þess vegna geri ég þetta að umtalsefni nú í lokaræðu minni við 2. umr. um húsnæðismál. Ég tel að við í minni hlutanum eigum rétt á því að spyrja forseta þingsins að því og óska eftir því að forseti þingsins svari því hvort það eigi að breyta út frá þeirri hefð sem verið hefur allt svo lengi sem ég man, að þingsköpunum eigi að breyta án þess að um það sé sátt hjá þingheimi öllum. Það væru ákveðin kaflaskipti í sögu þessarar virðulegu stofnunar ef svo væri. (Gripið fram í.)

Þess vegna tel ég, herra forseti, mjög mikilvægt, ekki bara fyrir okkur stjórnarandstæðinga heldur fyrir lýðræðið og þingræðið í landinu, fyrir þingræðið, að forseti lýsi því yfir að þingsköpum verði ekki breytt nema um það náist sátt milli stjórnar og stjórnarandstöðu, (Gripið fram í: Að minni hlutinn ráði?) að forseti sýni okkur það hér að hann er forseti okkar allra. Það vil ég undirstrika og ég undirstrika það hér að ég hef aldrei þurft að kvarta yfir samskiptum mínum við forseta --- og hann lýsi því hér yfir að þingsköpum verði ekki breytt nema í sátt við þingheim allan. Það tel ég mjög mikilvægt. Ég tel líka afar mikilvægt að þjóðin fái að sjá það og skynja að það er forseti þingsins sem fer hér með valdið innan þessarar stofnunar en ekki forsrh.

[14:45]

Áður en ég vík frá þessum kafla mínum get ég ekki látið hjá líða, herra forseti, að segja eitt.

Forsrh. landsins segir að stjórnarandstaðan sé þinginu til skammar þegar hún ræðir ítarlega stórmál sem ekki bara stjórnarandstöðunni hér inni liggur á hjarta, heldur stórum hluta þjóðarinnar. Við erum að tala um miðhálendið og að lítill hluti þjóðarinnar á að stjórna því hvernig miðhálendið verður hagnýtt. Við erum að ræða um auðlindir í jörðu, hvernig landeigendur geta rakað til sín peningum frá skattborgurum ef þar finnast auðlindir sem almenningur þarf að nota. Við erum að ræða um það, herra forseti, að verið er að loka félagslega húsnæðiskerfinu á Íslandi, þar sem hundruð fjölskyldna eru skildar eftir í óöryggi. Og forsrh. landsins lýsir því sem vanvirðu við þingið að við þurfum að hafa ítarlegar skoðanir á þessu. Hann gerir lítið úr stjórnarandstöðunni, talar niður til stjórnarandstöðunnar og segir að hún sé að lesa upp úr skýrslum og gögnum.

Herra forseti. Skyldi það vera svo á öðrum þjóðþingum? Það hefur stundum hvarflað að mér að forsrh. sýni Alþingi og lýðræðinu hér vanvirðingu --- sem hann iðulega gerir --- því hvað er það oft --- og læt ég nú hugann reika --- sem forsrh. sýnir okkur og þinginu þá virðingu að vera hér við umræðu um stórmál eða taka eðlilegan þátt í þeim umræðum? Ég las yfir það þegar verið var að opna félagslega húsnæðiskerfið 1929, hvernig þáverandi forsrh., Tryggvi Þórhallsson, tók virkan þátt í þeirri umræðu. Herra forseti. Ég hef hvorki orðið vör við að hæstv. ráðherra hafi setið undir þessari umræðu, hvað þá að hann hafi tekið þátt í henni. Og það má nefna fleiri umræður um stór mál.

Það er umhugsunarvert og maður veltir því fyrir sér: Hvers vegna telur forsrh. landsins ekki nauðsynlegt að taka þátt í umræðum sem fram fara hér um stór mál? Þar held ég að að forsrh. eigi líka að líta í eigin barm þegar hann talar um virðingu þingsins. Hans hlutverk er ekki bara það, a.m.k. lít ég ekki svo á þó að hann geri það, að hann eigi bara að koma hér til að taka þátt í atkvæðagreiðslum og lítið meira.

Herra forseti. Ég skal ljúka þessum kafla ræðu minnar. En ég ítreka spurningar mínar til forseta, til forseta þingsins sem hér á að stjórna.

Vil ég víkja máli mínu að ræðu hæstv. félmrh. í gær. Við hana hafði ég allmargt að athuga sem ég gat ekki komið að í stuttum andsvörum. Hæstv. ráðherra nefndi það sem ein rök fyrir því að loka félagslega húsnæðiskerfinu, að allmargir hefðu sagt sér reynslu af kerfinu, slæma reynslu. Fyrst voru það nokkrir og síðan voru það allmargir. Ef hæstv. ráðherra hefði ætlað að koma til móts við þetta fólk þá hefði hann auðvitað átt að breyta þeirri húsnæðislöggjöf sem við búum við í dag. Ég bið hæstv. ráðherra að skoða hvort hann telji að þeir einstaklingar sem til hans hafa komið verði betur settir eftir en áður við þessa breytingu.

Hæstv. ráðherra hélt því hér fram að einstæðir foreldrar sem hann kallaði til, jafnvel þó þeir væru atvinnulausir, ef þeir ættu 500 þús. krónur þá gætu þeir keypt íbúð í nýja kerfinu hans. Ég bið hæstv. ráðherra að segja okkur hvað hann telji að það sé stór hópur einstæðra foreldra sem á 500 þús. kr. útborgun. Það er varla sá hópur sem þarf að leita til félagsmálastofnunar, sem þarf að leita til félagsmálastofnunar eftir fjárhagsaðstoð til að eiga fyrir mat fyrir fjölskyldu sína. Þessi hópur á ekki 500 þús. kr. í banka, herra forseti. Hæstv. ráðherra getur ekki teflt fram svona rökum.

Hæstv. ráðherra sagði okkur hér hvert væri valið að því er þetta frv. í heildina varðar. Hæstv. ráðherra sagði: ,,Hætta við þessar breytingar eða búa við sama skipulag áfram.`` Þetta voru þeir tveir kostir sem hann nefndi og auðvitað er þetta ekki boðlegur málflutningur.

Við erum að vísu að biðja um að málinu verði frestað til haustsins. En við erum ekki að biðja um að engar breytingar verði á félagslega húsnæðiskerfinu. Við erum að biðja um sátt um þetta stóra mál við verkalýðshreyfinguna þar sem það eru að verða kaflaskipti og hafa orðið á þessu þingi, þessu kjörtímabili, í samskiptum verkalýðshreyfingarinnar við stjórnvöld. Tökum vinnulöggjöfina. Henni var þröngvað hér í gegn í ósátt við verkalýðshreyfinguna. Tökum atvinnuleysistryggingarnar og hvernig með það mál var farið. Var það gert í samráði við verkalýðshreyfinguna? Og nú er það húsnæðislöggjöfin. Næst verða það væntanlega þingsköpin, að hæstv. forsrh. komi því í gegn að breyta þingsköpunum. Það væru líka kaflaskipti ef ekki á að gera það í samkomulagi við allan þingheim.

Mér fannst líka athyglisvert í ræðu ráðherrans að hann taldi að hann gæti komist hjá því í sinni ræðu að tala við fólkið sem hvergi mun hafa öryggi, láglaunafólkið, fátæka fólkið, verst setta fólkið, eftir að þetta frv. verður samþykkt. Hann hafði engin skilaboð fram að færa til þessa fólks. Ekkert. Engum björgunarhring var kastað til þessa fólks, engum, hvernig það ætti að bjarga sér þegar búið er að loka félagslega húsnæðiskerfinu. Einstæðir foreldrar, námsmenn, fatlaðir, fátækar barnafjölskyldur, engum björgunarhring var kastað til þessa fólks.

Hann hafði ekki heldur nein skilaboð, herra forseti, til þeirra fjölmörgu starfsmanna sem vinna hjá Húsnæðisstofnun varðandi starfsöryggi þeirra, engin skilaboð. Samt heldur hæstv. ráðherra því fram að mikill órói sé hjá starfsmönnum og þess vegna þurfi að keyra frv. í gegn núna, sem á að taka gildi um næstu áramót. En hvað er starfsfólkið að biðja um? Órói þess stafar ekki vegna þess að það vilji endilega að frv. verði lögfest á þessu þingi og það sé það sem það er að biðja um. Auðvitað er það ekki svo. Órói starfsfólks stafar af því að ráðherrann er að tefla starfsöryggi þeirra í tvísýnu. Í fyrsta skipti er það að gerast að verið er að breyta ríkisstofnun og starfsumhverfi ríkisstofnunar án þess að ákvæði sé í frv. sjálfu, í lögunum sjálfum, um að starfsfólkið hafi forgang til starfa. Þar eru líka kaflaskipti, herra forseti. Þar eru kaflaskipti.

Herra forseti. Það verður að upplýsa það líka að hæstv. ráðherra fór ekki með rétt mál. Hann fór ekki með rétt mál þegar hann var að tala um vaxtabótakerfið og viðbótarkostnaðinn sem þetta fólk verður fyrir í hinu nýja kerfi. Hæstv. ráðherrann hélt því fram að fólk fengi þinglýsingargjöld og stimpilgjöld bætt í gegnum vaxtabætur. Fólki sem hefur hlýtt á mál ráðherrans hefur örugglega létt talsvert við að heyra þetta. En er þetta nú sannleikurinn í málinu? Nei, herra forseti. Þetta er ekki sannleikurinn í málinu. Þó að við höldum algjörlega til hliðar stimpilgjöldunum og þinglýsingargjöldunum sem ráðherrann segir að fólk fái bætt í gegnum vaxtabótakerfið og horfum einungis til vaxtanna sjálfra þá er það svo, og við höfum sýnt fram á það, að einkum einstæðir foreldrar og einstaklingar verða verr settir að því er niðurgreiðsluna varðar, einfaldlega af því að þeir reka sig upp í vaxtabótaþakið. Þeir reka sig upp í vaxtabótaþakið. Og hluta af vöxtunum, sem þeir hafa fengið niðurgreidda í gegnum þetta kerfi sem á að leggja af, verða þeir að bera sjálfir úr eigin vasa þannig að svigrúmið til að taka stimpilgjöldin líka og þinglýsingargjöldin og bæta fólki það upp í vaxtabótakerfinu stenst ekki. Það stenst ekki.

Sérstaklega má á þetta benda þar sem hæstv. ráðherrann hefur væntanlega lítið gert --- hann leiðréttir það þá ef ég fer ekki með rétt mál --- til þess að hafa áhrif á að breyta frv. sem liggur fyrir þinginu og efh.- og viðskn. hefur haft til umfjöllunar, þ.e. frv. um breytingar á vaxtabótakerfinu sem er fylgifiskur þessa frv., vegna þess að við sýndum fram á það við 1. umr. þess máls að einstæðir foreldrar mundu reka sig upp í þetta vaxtabótaþak og einstaklingar líka. Ég lagði fram útreikninga máli mínu til stuðnings. Og hvað segir í nál. meiri hluta efh.- og viðskn., skyldi einhverjum detta í hug að draga í efa að þessir útreikningar væru réttir? Kannski hæstv. félmrh.? Í áliti meiri hluta efh.- og viðskn. stendur, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt útreikningum Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanns, sem voru staðfestir í efnahags- og viðskiptanefnd af hálfu starfsmanna fjármálaráðuneytisins, ...``

Fjmrn. hefur staðfest útreikninga mína. Þeir eru réttir. Ég var því ekki að búa til einhverja útreikninga sem ekki standast til þess að styðja mitt mál. Þeir voru einfaldlega réttir. En það þýðir að einstæðir foreldrar þurfa að láta úr eigin vasa, vegna þessarar breytingar á niðurgreiðsluforminu, allt að 60 þúsund kr. meira á ári með þessu nýja kerfi. Og það slagar nú upp í það að vera (Gripið fram í: Mánaðarlaun.) mánaðarlaun láglaunafólks, hvorki meira né minna.

[15:00]

Hæstv. forsrh. sagði líka við þessa umræðu í gær að samkomulag væri við fjmrn. um að kostnaði sem fólk yrði fyrir í nýju kerfi yrði þannig háttað að hann yrði ekki meiri en í núverandi kerfi. Það voru orð hæstv. ráðherra. En hvernig eigum við að treysta því? Hvar er, herra forseti, fjmrh. sem hefur verið kallað eftir til þessarar umræðu? Getur hann staðfest þessi orð ráðherrans um að kostnaðurinn fyrir fólk að koma inn í þetta kerfi verði ekki meiri en hann var áður? Hæstv. ráðherrann getur alla vega ekki, jafnvel þó að hæstv. fjmrh. staðfesti að kostnaðurinn verði ekki meiri, borið það á borð fyrir okkur þegar fólk fer úr þessu nýja kerfi og þarf að borga fasteignasölunum kannski 2% sölulaun eða þaðan af meira, af því að sölulaun fasteignasala hafa nú verið gefin frjáls enda kætast þeir mjög við þessa breytingu þar sem þeir fá nýjan hóp inn á fasteignamarkaðinn sem þarf að versla við þá og greiða þeim sölulaun, sem verða hærri hjá þessu fólki.

Enn og aftur skal það sagt, herra forseti, að formaður Félags fasteignasala taldi að þegar nýr hópur kæmi inn á þennan markað þá mundi það leiða til hærra íbúðarverðs. Væntanlega þá í þessum tveggja til þriggja herbergja íbúðum, a.m.k. fyrst í stað. Það er bara eðlileg túlkun á framboði og eftirspurn að þetta getur leitt til þess.

En ég verð að segja það, herra forseti, að mér brá nokkuð þegar forsrh. --- forsrh. er mér nokkuð ofarlega í huga núna, herra forseti, þannig að ég bið um að menn skilji það. Ég er auðvitað að tala við hæstv. félmrh. --- mér brá nokkuð þegar hann var spurður um það sem margir í félagslega kerfinu hafa áhyggjur: Hvað verður um heimili okkar sem erum á stöðum þar sem markaðsverð er lágt og er miklu lægra en áhvílandi lán á íbúðunum? Þar getur kannski munað 3--4 milljónum. Hvað bar hæstv. ráðherra á borð fyrir okkur? Hann sagði að það væri bara ein skýring á þessu, þ.e. að þessar íbúðir væru bara yfirveðsettar. Það voru engin svör til þessa fólks sem hefur eðlilega áhyggjur af þessu enda er hér verið að breyta kaupskylduákvæðum, að vísu ekki gagnvart íbúðum sem eru í kerfinu heldur héðan í frá, og það er verið að gera sveitarfélögunum auðveldara að hafna forkaupsrétti.

Hæstv. félmrh. sagði að þetta frv. hans, ef að lögum yrði, þýddi meiri útgjöld fyrir ríkissjóð. Að vísu færði hann engin rök fyrir sínu máli, herra forseti. Við höfum sagt að þetta feli í sér mikil útgjöld fyrir sveitarfélögin, og höfum sýnt fram á það, sem þurfa nú að fara í stórkostlega uppbyggingu á leiguíbúðum og þurfa að bera verulega aukningu í húsaleigubótum þar sem nú á að vísa stórum hluta þeirra sem hafa verið í félagslega kerfinu yfir á leigumarkaðinn. Ráðherrann þarf auðvitað að skýra sitt mál betur þegar hann talar um aukin útgjöld. Er hann að boða það að sveitarfélögin fái meiri peninga til uppbyggingar á félagslegum íbúðum frá ríkissjóði? Það væru þá ný tíðindi inn í umræðuna sem breyttu nokkuð stöðunni.

Hæstv. ráðherra hefur heldur ekki svarað því sem ég fór inn á í máli mínu, þ.e. þeim fjárhagslegu samskiptum ríkis og sveitarfélaga varðandi húsaleigubæturnar sem var frágengið hér fyrir jólin með einhverjum 280 millj. kr. Það var ekki hægt að skilja það samkomulag öðruvísi en ég greindi frá, að þar með teldi ríkið að afskiptum ríkisins af því máli væri lokið og öll frekari útgjöld varðandi húsaleigubætur væru ríkinu óviðkomandi. Þessu hefur hæstv. ráðherra ekki heldur svarað.

Hæstv. ráðherra var á ansi veikum ís þegar hann sagði að sú sem hér stendur hafi hækkað vextina í félagslega kerfinu úr 1% í 2,4% á sínum tíma 1992 vegna þess að hvað er ráðherrann hér að gera núna? Hann er að hækka vextina úr 2,4% í 5% eða prósentu meira en var á þeim tíma. Og ekki er hægt að jafna saman þeim framlögum sem voru á þeim tíma, 1.200 millj., inn í Byggingarsjóð verkamanna og þeim 275 millj. sem þau eru komin niður í í tíð ráðherrans. Eða þá að á þeim tíma var veitt fjármagn til 500 félagslegra íbúða sem eru komnar niður í 170 í tíð þessa ráðherra. Ráðherrann skyldi því vara sig, herra forseti, að tefla svona sjónarmiðum fram. Þá var það líka tryggt, frá því var gengið og yfir það farið með rækilegum útreikningum sem voru lagðir fram fyrir þingið að sú hækkun var bætt í gegnum vaxtabótakerfið. Hæstv. ráðherra var því á ansi tæpu vaði þegar hann byrjaði að tefla þessum rökum sínum fram.

Hæstv. ráðherra hefur heldur ekki sett fram nein rök fyrir því af hverju ekki megi bíða með þessar breytingar þar til fyrir liggur niðurstaðan í samtölum sem nú eiga að fara fram, eftir að frv. þetta hefur orðið að lögum, milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins um það hvernig standa eigi að uppbyggingu leiguíbúða. Herra forseti. Væri ekki eðlilegra að fara í þessar breytingar þegar það liggur fyrir hvernig leysa eigi úr vanda þeirra hundruð fjölskyldna sem nú verða settar á götuna og búa við óöryggi, þegar það liggur fyrir, þegar sú niðurstaða liggur fyrir hvernig eigi að tryggja þessu fólki öryggi í húsnæðismálum?

Nei, nei, það þarf strax að fara í þær. Og hvers vegna? ,,Af því að þarf að koma Íbúðalánasjóðnum til verka``, segir ráðherrann. Það skyldi þó ekki vaka þar í þegar hæstv. ráðherra nefnir þetta, og honum liggur á, að koma sínum mönnum og íhaldsins fyrir í Íbúðalánasjóðnum? Er það ekki það sem þar býr að baki? Alla vega er það ekki, herra forseti, umhyggja fyrir lægst launaða fólkinu. Það er alla vega ekki umhyggja fyrir lægst launaða fólkinu.

Hæstv. félmrh. ber það enn og aftur á borð fyrir okkur þingmenn að við förum með fjarstæðu þegar við tölum um að 600 fjölskyldur, verði þetta frv. samþykkt, hafi ekki öryggi í húsnæðismálum og vísar þar til greiðslumatsins og segir að verið sé að skoða það og að þau 18% sem nú eru í húsbréfakerfinu verði ekki látin gilda. Hann vísar til þess að nefnd sé að störfum sem sé að skoða nýjan neyslustaðal. Nefndin á að taka tillit til framfærslukostnaðar fjölskyldna, skulda og eigna. Við höfum mörg spáð því að það þýði að jafnvel verði farið enn neðar með greiðslumatið. Síðan ber hæstv. félmrh. það líka á borð fyrir okkur að það eigi ekki að horfa á málið svona eins og við gerum, heldur eigi að líta á það að lánin til þessa fólks verði til 40 ára og það breyti eitthvað greiðslumatinu. Það er auðvitað fjarstæða, herra forseti, að halda slíku fram vegna þess að við erum einungis að tala um að það munar 1.000 kr. á mánuði á 3 milljón kr. láni. Það breytir litlu að því er varðar greiðslubyrðina, greiðslugetuna eða greiðslumat þannig að hæstv. ráðherra þvælir hér saman óskyldum hlutum sem hafa ekki mikið að segja varðandi greiðslugetuna og greiðslumatið.

Það er einmitt athyglisvert þegar hæstv. félmrh. er nú að setja allt láglaunafólk inn í húsbréfakerfið sem ráðherrann kallaði naglasúpu á sínum tíma, að hann vísar til þess að það fái nú 40 ára lán. En ég hef farið yfir þetta. Hvað hafa margir, herra forseti, nýtt sér lög um lengingu á húsbréfunum í 40 ár? Það voru 299 á síðasta ári á móti tæplega 4.000 sem nýttu sér 25 ára lánin. Fólk sér að þetta er enginn kostur, enda eru heildarvaxtagreiðslur sem fólk þarf að bera í þessi 40 ár, miðað við 3 millj. kr. lán, meðallán, um 4 millj. kr., meðan það eru 2,4 millj. kr. ef fólk tekur 25 ára lán. En hæstv. ráðherrann gefur sér að allir velji þennan kost sem ég held fram að sé verri fyrir fólk, þ.e. 40 ára lán. En hann heldur því fram, herra forseti, að það sé besti kosturinn fyrir láglaunafólkið. Ég held að það muni koma fljótlega í ljós, herra forseti, alveg burt séð frá þeim sem nú eru settir út á leigumarkaðinn, að þeir sem á annað borð gagnast þetta frv. muni fljótlega komast að því að 40 ára lánin eru enginn kostur.

[15:15]

Það væri freistandi, herra forseti, að fara aftur yfir hvernig greiðslubyrðin er í nýja kerfinu og gamla kerfinu. Við höfum sýnt fram á að ráðherrann velur sér dæmi í frv. sínu til að sýna fram á að greiðslubyrðin sé hagstæðari. Hann tekur engin dæmi um hvað það þýðir ef fólk kaupir gamalt húsnæði með áhvílandi láni þar sem greiðslubyrðin á því láni hefur þyngst. Það væri freistandi að fara aftur yfir áhrif þetta á verðlagningu á íbúðamarkaðnum, þ.e. meiri kostnað fyrir fólk til að komast inn og út úr kerfinu. Vaxtabæturnar eru miklu óhagstæðari. Eins væri freistandi að fara yfir umsagnirnar frá Akureyri, Kópavogi og Hafnarfirði sem segja að þegar á næsta ári muni frv. hafa þau áhrif að bara á þessum þremur stöðum verði þörf fyrir þrjú til fjögur hundruð nýjar leiguíbúðir. Það er fyrir utan biðlistana, sem eru t.d. í Reykjavík um 379 manns.

Herra forseti. Ég held að það væri allt saman gagnslaust. Ég held að ráðherrann skipti ekki um skoðun. Við höfum ítrekað reynt það. Ég hef orðið vör við að ýmsir þingmenn í stjórnarliðinu eru orðnir ansi hugsi yfir þessu máli. Auðvitað væri freistandi að fara yfir hvernig verið er að plata sveitarfélögin og setja á þau miklu meiri byrðar --- ef menn vilja nota orðið ,,byrðar`` um félagslega aðstoð við fátækt fólk --- í framtíðinni en er í núverandi kerfi. Væntanlega er ekki hægt að breyta ákvörðun forsrh. sem ætlar ekki að verða við óskum verkalýðshreyfingarinnar og 26 félagasamtaka sem 100 þúsund félagar standa á bak við með ósk og beiðni til ráðherrans um að fresta málinu til haustins. Ég minni enn og aftur á að frv. á ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót.

Það skulu vera lokaorð mín, herra forseti, nú við umræðuna að ég lýsi allri ábyrgð á málinu á hendur ríkisstjórninni. Hún ber alla ábyrgð á því að skilja hundruð fjölskyldna fátæks fólks, námsmanna, einstæðra foreldra og fátækra barnafjölskyldna eftir í því óöryggi sem þær munu lenda í verði þetta frv. að lögum. Herra forseti. Sú ábyrgð er þung. Hana vildi ég ekki bera.