Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 16:17:35 (6677)

1998-05-16 16:17:35# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[16:17]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þessar undirtektir. Ég held að það sé þar með nauðsynlegt að við þróum það áfram og knýjum það fram og sköpum aðstæður fyrir það í fundarhaldinu að sem fyrst geti farið fram umræður um þingræðið andspænis framkvæmdarvaldinu. Ég legg þá ósk hér með fyrir hönd þingflokks míns til hæstv. forseta að það verði kannað hvenær sú umræða getur farið fram. Ég tel nauðsynlegt að hún fari fram hið allra fyrsta. Þá er ég að tala um á næstu þingdögum, vegna þess að ég tel útilokað að halda umræðunni áfram í þeirri sjálfheldu sem verið hefur án þess að umræðan um þingræðið sjálft og stöðu þess andspænis framkvæmdarvaldinu hafi farið fram.

Ég harma að hæstv. forsrh. skuli ekki vera tilbúinn með starfsáætlun næstu viku og viti ekki hvenær þingfundir eigi að hefjast á mánudaginn, þriðjudaginn og miðvikudaginn --- það er þægilegra fyrir okkur --- og eins hvenær hann hugsar sér að hafa atkvæðagreiðslu um húsnæðismálin. Það er miklu þægilegra fyrir þingmennina, okkur þessa óbreyttu hjörð, að vita hvenær við eigum að mæta á svæðið. Ég harma það að hæstv. forsrh. skuli ekki vera með starfsáætlun sína um þingið sitt tilbúna. En stjórnarandstaðan hefur skrifað forseta Alþingis bréf og kannski svarar hann með vorskipunum og lætur okkur vita hvað við eigum að gera.