Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 16:19:19 (6678)

1998-05-16 16:19:19# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[16:19]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Sú uppákoma sem hófst með komu forsrh. í sal Alþingis hefur verið dapurlegur vitnisburður um samskipti forsrh., framkvæmdarvaldsins, við stjórnarandstöðu. Þau orð sem hafa fallið í lok umræðunnar þar sem undirtektir eru af hans hálfu um að fram fari vönduð umræða, vönduð umræða um samskipti þings og framkvæmdarvalds, trúi ég að sé vísbending um það að meira að segja forsrh. gerir sér grein fyrir því hvað þessi umræða hefur sett okkur öll í slæmt ljós.

Ég spyr forseta að því hvort ekki sé svo komið að full ástæða sé til að þessi vandaða umræða um samskipti eigi sér stað áður en tekið verði til við hefðbundin þingmál sem fyrirhugað er að viðhafa á mánudagsmorgni, hvort hér hafi ekki orðið sá brestur í samskiptum að nauðsynlegt sé fyrir okkur öll að hreinsa loftið með vönduðum umræðum áður en tekið verður til við að afgreiða þau 40 mál sem bíða.