Afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 13:45:05 (6821)

1998-05-25 13:45:05# 122. lþ. 132.93 fundur 405#B afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[13:45]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég held að það sé ekki nema eðlilegt að við reynum að fá úr því skorið hvort sá Davíð Oddsson sem skrifaði undir áskorunina sem hér er til umræðu ... (Forsrh.: Sem skrifaði undir hvað?) Áskorunina. (Gripið fram í: Hún var í hans nafni.) Í hans nafni. Við þurfum að fá úr því skorið hvort a.m.k. einn af þeim sem bendlaður er við þessa yfirlýsingu, áskorun sem við erum að ræða um hér, sé sammála þeim hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni sem lagði frv. fram á þingi.

Hæstv. forsrh. lýsti því yfir áðan að það væri svo landlægur misskilningur hjá allri þjóðinni um hálendisfrv. að gefa þyrfti út sérstakar leiðbeiningar með frv. til þess að koma efni þeirra til skila. Ég vil velta því upp hér hvort það geti ekki verið að hæstv. forsrh. hafi sjálfur misskilið þessi mál en afgangur þjóðarinnar hafi rétt fyrir sér. Er ekki ástæða til þess að draga þessi frv. til baka og skoða þau betur, ef þau eru svo óskýr og svo illa úr garði gerð að það þarf að gefa út sérstakar leiðbeiningar með þeim til þess að fólk skilji þau?

Ég held að sú staðreynd að gefa þurfi út sérstakar leiðbeiningar með frv. til þess að fólk átti sig á því, hljóti að vera til vitnis um að ástæða sé til að draga það til baka og reyna þá a.m.k. að vinna það betur, þannig að fólk skilji frv. áður en það verður lagt fram fyrir þingið.