Afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 13:55:18 (6826)

1998-05-25 13:55:18# 122. lþ. 132.93 fundur 405#B afgreiðsla frumvarpa um skipan mála á hálendinu# (aths. um störf þingsins), BH (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[13:55]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að fá að bera af mér sakir hér vegna þess að hæstv. forsrh. hélt því fram áðan að ég hefði haft rangt eftir í máli mínu áðan. Ég lagði það reyndar ekki á mig að punkta orðrétt niður eftir hæstv. ráðherra í upphafi þegar hann tók til máls en kjarni málsins var sá að það væri það mikill misskilningur í gangi um þessi frv. að það þyrfti að gefa út sérstakar leiðbeiningar um þau. Ég var fyrst og fremst að benda á það í ræðu minni, hvort sem ég hafði orðrétt eftir hæstv. forsrh. eða ekki.

Varðandi það hvort hann hafi skrifað undir einhverja yfirlýsingu eða ekki, þá er það staðreynd og hér er sérstök fréttatilkynning frá frambjóðendum Sjálfstfl. til borgarstjórnar í Reykjavík um að þeir samþykki að skora á ríkisstjórnina, að ljúka ekki afgreiðslu frv. um skipan mála á miðhálendinu þegar þing komi saman að loknum sveitarstjórnarkosningum heldur fresta þeim til haustsins. Það er talað um frambjóðendur Sjálfstfl., herra forseti, og enginn þeirra frambjóðenda sem voru á listanum er undanskilinn. Það er því ekki óeðlilegt að fólk spyrji hver afstaða hæstv. forsrh. sé til þessara mála.