Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 25. maí 1998, kl. 18:40:13 (6857)

1998-05-25 18:40:13# 122. lþ. 132.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur, 122. lþ.

[18:40]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hafði orð á því að ég talaði í ýmsum málum sem aðrir gerðu ekki. Það er dálítið merkilegt að tína það til. En það er alveg rétt hjá hv. þm. að ég var einn af örfáum þingmönnum sem var á móti veðsetningu aflaheimilda til að mynda og talaði lengi í þeim málum. Ég sit einnig í hv. félmn. sem er með öll þessi stórmerkilegu mál og margir af félagsmálanefndarmönnum hafa rætt þau í þinginu og hafa á þeim mismunandi skoðanir.

Skipulagsmálin á hálendinu eru þannig, eins og alþjóð ætti að vita í dag, að þau verða sameiginleg fyrir allt svæðið. Öll sveitarfélögin sem eiga land upp að miðhálendinu koma til með að skipuleggja þetta sameiginlega. Það verður samkvæmt lögum skylda að gera það þannig.

Það verður einnig samkvæmt lögum ákveðið hverjir sitji í þessari nefnd og hvernig sveitarfélög eiga að skipuleggja land sitt í aðalskipulagi og er ekkert sem sveitarfélög geta gert til að koma í veg fyrir það. Tortryggni eins og að menn séu eilíflega að reyna að koma í veg fyrir eðlilega nýtingu eða eðlilega verndun landsvæða er nánast ómerkileg gagnvart sveitarfélögum og landeigendum almennt. Þó að hægt sé að setja margt út á hvernig menn hafa nýtt ýmis landsvæði og jafnvel eytt þeim, er það ekki alfarið sök þeirra og sem betur fer hafa sumir hverjir áttað sig á villu síns vegar þegar kemur að gróðurverndinni en ég hef fulla ástæðu til að trúa því að hægt sé að ná sátt um slíkt.

Varðandi önnur samskipti held ég að í 99% tilvika hafi samskipti sveitarfélaga og hagsmunasamtaka verið í mjög góðu lagi. Það er eitt dæmi sem hægt er að benda á sem hefur verið erfitt. Það er uppi á Kili en ég á ekki von á öðru en það verði leyst í sátt og samlyndi.