Svar við fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 10:50:58 (6872)

1998-05-26 10:50:58# 122. lþ. 133.92 fundur 409#B svar við fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[10:50]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að menn eiga að gæta hófs í umræðum um þessi mál vegna þess að hér er mikið undir, hér er undir trúverðugleiki ráðherra og hér gætu verið undir lífdagar í ráðherrastóli. Ég vek athygli á því, herra forseti, að hæstv. ráðherra hefur einu sinni verið vélaður til þess að koma með rangar upplýsingar inn í þingið. Ég sagði í umræðum af því tilefni að ég teldi að ekki væri hægt að sakast við hann í þeim efnum. (Gripið fram í: Þetta er rangt.)

Hér liggur hins vegar fyrir að hæstv. ráðherra hefur gefið svar við mjög einfaldri spurningu sem kom fram 3. júní 1996. Hann var spurður um það hvort tap Landsbankans vegna Lindar væri 600--700 millj. kr. Hæstv. ráðherra treysti sér ekki til þess að segja af eða á um það en hann segir og gefur til kynna að hann hafi reyndar heyrt í fjölmiðlum eins og hv. þm. að slíkar tölur hafi verið nefndar en hann treysti sér ekki til þess að fullyrða hvort þær séu réttar. Það er mjög erfitt fyrir mig að skilja þetta öðruvísi en þannig að hæstv. ráðherra sé að gefa til kynna að hann hafi engar upplýsingar undir höndum. Það er erfitt að lesa úr þessu svari annað en að það sé fráleitt að þessi hæstv. ráðherra hafi á þeim tíma sem svarið kemur greinargerð undir höndum. En nú liggur það fyrir staðfest í svari frá hæstv. ráðherra sem barst inn á þingið rétt í þessu að hann hafði þessar upplýsingar, hann hafði þær í greinargerð og þess vegna segi ég: Hæstv. ráðherra verður að gefa fullnægjandi skýringu á þessu misræmi í svörunum til þess að trúverðugleiki hans sem ráðherra sé heill eftir.

Eins og staðan er núna eftir þau svör sem hæstv. ráðherra gaf áðan er trúverðugleikinn vissulega laskaður. En hæstv. ráðherra hefur tækifæri til þess að gera þinginu grein fyrir því hvað er á ferðinni.