Svar við fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 10:53:00 (6873)

1998-05-26 10:53:00# 122. lþ. 133.92 fundur 409#B svar við fyrirspurn um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (aths. um störf þingsins), Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[10:53]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að það er ótrúlegt að bankamálaráðherra skuli ekki hafa brugðist við þegar hann heyrði tölur eins og 600--700 millj. fyrir tveimur árum í fjölmiðlum. En það er ljóst að hann hefur leynt upplýsingum. Hann var með skýrsluna á borðinu hjá sér og hann telur ástæðu til þess að leiðrétta orð mín í fjölmiðlum í ræðustóli Alþingis þegar ég nefni 1.000 millj. kr. tap en hann sá ekki ástæðu til þess að leiðrétta hæstv. forsrh. þegar hann nefndi sömu tölu í fréttum Stöðvar 2 10. apríl sl. Þá var ekki ástæða til þess að leiðrétta. Ég efast ekki um að hæstv. forsrh. hafi greiðan aðgang að bankaráðsmönnum Landsbankans um upplýsingar um þessi mál.

Ég spyr hæstv. ráðherra vegna ummæla hv. þm. Sighvats Björgvinssonar um skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem Ríkisendurskoðun er falið að kanna hvort ástæða væri til aðgerða samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála, hvort hér sé um sakhæft athæfi að ræða sem varðar Lind. Ég spyr: Hverjar voru tillögur ríkisendurskoðanda um það mál? Hvað sagði ríkisendurskoðandi í skýrslunni? Ég hef heimild fyrir því að ríkisendurskoðandi segi í skýrslunni að brýnt sé fyrir bankaráðið að rannsaka ýmsa þætti nánar og hvort draga eigi menn til ábyrgðar. Hvers vegna varð ekki hæstv. ráðherra við þessari kröfu ef hún er rétt? Hvers vegna varð hann ekki við þessari kröfu þegar skýrslan var lögð fyrir hjá honum 1996? Var verið að fela eitthvað? Ég vitna í viðtal við fyrrverandi landsbankastjóra, Sverri Hermannsson, í Morgunblaðinu. Hann kallar þetta mál skelfilegt spillingarmál eins og þau gerast verst og kallar sá maður ekki allt ömmu sína í þessum efnum.

Ég kalla á upplýsingar um þetta og þessa skýrslu upp á borðið. Við eigum heimtingu á því að fá þessar upplýsingar fram í þinginu, skýrslu Ríkisendurskoðunar og þær upplýsingar sem liggja fyrir um samskipti Lindar og Landsbankans því hér er greinilega einhver maðkur í mysunni.