Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 12:19:29 (6899)

1998-05-26 12:19:29# 122. lþ. 133.6 fundur 436. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (heildarlög) frv. 66/1998, Frsm. GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[12:19]

Frsm. landbn. (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að gagnrýna ræðu hv. þm., enda sammála honum í mörgu og sama má segja um hv. 4. þm. Norðurlandskjördæmis eystra. Þegar margar breytingar ganga yfir kvíða menn framtíðinni. Það er ekkert nýtt fyrirbæri en auðvitað þurfum við að vinna úr málunum. Ég vil segja, vegna orða hv. þm., að sérgreinadýralæknar eiga ekkert allir sæti á höfuðborgarsvæðinu. Ég minni á sérgreinadýralækni í hrossasjúkdómum sem situr á Hólum, í júgurbólgurannsóknum á Hvanneyri o.s.frv., þannig að þeir geta nú víða verið staðsettir og þannig þarf það að vera.

Ég tek undir með hv. þm. að landsbyggðarmenn þurfa auðvitað að fara yfir það hvernig þeir geta gert ýmis embætti lífvænleg til að þessir menntuðu, mikilvægu menn vilji sitja í byggðarlögunum. Sums staðar hafa menn verið með heilbrigðiseftirlit eins og hv. þm. nefndi, verið með sæðingar o.s.frv. og þannig styrkt þetta. Ég held að þessi lög verði ekki fyrir embættismenn. Ég vona að þau verði ekki bændum til bölvunar og vona frekar að þessi þróun styrki þá. Þetta er til að svara kröfum stjórnsýslu- og samkeppnislaga og einnig því sem við verðum að horfa á, kröfunni um heilnæma vöru, bæði hér innan lands og ég tala nú ekki um í útflutningi.

Það er ekki æskilegt að sami maðurinn sé praktíserandi dýralæknir og jafnframt með kjötskoðunina á sinni hendi, að hann sé ekki báðum megin við borðið. Þetta er skýr krafa í þessari nýju baráttu um vistvæna og lífræna afurð. Ég treysti því auðvitað að yfirdýralæknir, svo ég tali nú ekki um hæstv. landbrh., skoði þessi lög vel og móti þau þannig að þau verði fyrst og fremst fyrir bændur og dýrin í landinu sem þurfa á dýralæknum að halda, þannig að þjónustu verði víða haldið uppi.