Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 14:22:24 (6914)

1998-05-26 14:22:24# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[14:22]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur mér nú í sjálfu sér ekki á óvart að hv. þm. Hjálmar Jónsson skuli taka til máls í andsvari og verja afstöðu sína í kvótamarkaðsmálum. Það fór ekkert á milli mála í vinnu í nefndinni að við vorum þar mjög ósammála.

Ég tel að þeir sem þrýstu mest á okkur í landbn. um að taka þetta ákvæði út séu fyrst og fremst þeir sem telja sig hafa hag af kvótasölu og kvótabraski. Það er alla vega mín reynsla. Það er líka þekkt að sum héruð í landinu hafa sankað að sér meiri kvóta en önnur og töldu sig mundu bera skarðan hlut frá borði ef þessi kvótamarkaður yrði samþykktur.

Slíkur kvótamarkaður er starfræktur víða, t.d. í Kanada, og hefur gefist mjög vel. Mér fannst það mjög merk tilraun sem átti að fara að gera þarna og harma mjög að svo skyldi fara í meðförum nefndarinnar að þetta ákvæði yrði tekið út og ég efast líka um lögmæti þess.