Ummæli viðskiptaráðherra á blaðamannafundi

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 10:37:39 (6959)

1998-05-27 10:37:39# 122. lþ. 134.93 fundur 412#B ummæli viðskiptaráðherra á blaðamannafundi# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[10:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það sem ég vil ræða undir liðnum störf þingsins eru samskipti hæstv. viðskrh. við Alþingi. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að horfast í augu við það að hæstv. viðskrh. er í vondum málum, eins og sagt er nú til dags. Sami hæstv. ráðherra bar í vetur ábyrgð á því að rangar upplýsingar voru lagðar fyrir Alþingi.

Nú kemur í ljós að hæstv. ráðherra hefur einnig algerlega brugðist upplýsingaskyldu sinni gagnvart Alþingi. Engu að síður vísar hæstv. ráðherra á Alþingi og reynir að velta ábyrgðinni af sjálfum sér og sínum herðum yfir á Alþingi. Hann vísar til þess að það hafi verið Alþingi sem hafi kosið bankaráð Landsbankans á sínum tíma. Samt bregst hæstv. ráðherra þeirri skyldu sinni að upplýsa Alþingi um þá alvarlegu hluti sem ráðherrann hefur haft vitneskju um árum saman, án þess að aðhafast.

Hér, herra forseti, er á ferðinni mjög alvarlegur trúnaðarbrestur, eins og sagt hefur verið, í samskiptum þessa hæstv. ráðherra og Alþingis. Það hefur gerst endurtekið. Það er hugsanlega hægt að reyna að horfa fram hjá því að hæstv. ráðherra bæri ábyrgð á hinum röngu upplýsingum í vetur, með því að túlka lögin um ráðherraábyrgð þannig að ráðherra sé ekki ábyrgur fyrir mistökum undirmanna sinna. Það er þó mjög hæpið og langsótt að mínu mati. Hitt er öllu verra, ef sami ráðherra reynir endurtekið að velta ábyrgðinni yfir á annarra herðar.

Ég tók eftir því að á blaðamannafundi í gær nefndi hæstv. ráðherra ýmist bankaráð Landsbankans, bankaeftirlitið, Ríkisendurskoðun eða Alþingi. Það báru sem sagt allir aðrir ábyrgð en hæstv. ráðherra. Hann ber aldrei neina ábyrgð og er ævinlega saklaus þegar hæstv. ráðherra tjáir sig sjálfur um málin. Svona gengur þetta ekki, herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að skapa hér skilyrði til þess að fara yfir þessar embættisfærslur ráðherrans og samskipti hans við Alþingi.