Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 14:59:22 (7000)

1998-05-27 14:59:22# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, Frsm. KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[14:59]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég man nú ekki nákvæmlega hvernig tillaga þingmannsins er orðuð varðandi fræðslu til æðstu ráðamanna. En ég hef þó skilið það þannig að það væri meiningin að skikka ráðamenn á námskeið og ekki veitir nú af. Þá var spurningin, og ég er hér að vísa til þess sem fram kom í umsögnum, við hverja væri átt og hvort slíkt gæti náð, m.a. til forseta Íslands. Að sjálfsögðu, ef hann óskaði eftir slíku, hlyti hann auðvitað að geta orðið sér úti um slíkt námskeið. Spurningin snýst um það hvort og hverja er hægt að skikka. Ég held að í raun og veru sé það eingöngu spurning um forseta Íslands. Ég held að það væri ekkert vandamál varðandi aðra æðstu ráðamenn, t.d. biskup Íslands og fleiri slíka.

Varðandi lið a, þá hef ég skilið það þannig --- nú þekki ég ekki til starfa þessarar nefndar sem hér um ræðir --- að áhrif mismunandi kosningakerfa geta auðvitað verið margvísleg. Það er ekki bara spurningin um karl og konu, þetta getur verið spurningin um þéttbýli/dreifbýli o.s.frv. Ég reikna með að nefndin sé að skoða ýmislegt í þessu sambandi. Þetta er nú kannski það tvennt sem er svona augljósast en það kann að vera fleira þó að það komi ekki upp í hugann við fyrstu sýn.