Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 15:43:12 (7013)

1998-05-27 15:43:12# 122. lþ. 134.12 fundur 376. mál: #A framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna# þál. 13/122, KPál
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[15:43]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns ítreka að ég styð að sjálfsögðu þá þáltill. sem hér liggur frammi, enda einn af nefndarmönnum. Ég hef undirritað nál. og unnið að því. Ég vara samt við því að gera of miklar væntingar til áætlunar sem þessarar. Ég minni á margar aðrar áætlanir sem gerðar hafa verið af hálfu stjórnvalda, bæði ríkisstjórnar, einstakra ráðuneyta og sveitarstjórna einnig. Þar er skemmst að minnast þess að Reykjavíkurborg, undir forustu Reykjavíkurlistans, gerði sérstaka áætlun um launajafnrétti á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Í ljós hefur komið að ekki hefur tekist að ná því jafnrétti fram þrátt fyrir góðan vilja, að ég tel. Það ótrúlega gerðist, að launamunurinn virtist aukast milli kynjanna ef eitthvað var. Það var ekki vegna þess að fólk hefði ekki sömu laun fyrir sömu vinnu heldur er það þannig að karlarnir taka á sig fleiri aukatíma en konurnar og virðast með þeim hætti geta náð betri launum en konur.

Þá komum við náttúrlega að því sem mestu skiptir og við minntumst á hér áðan, þ.e. uppeldisaðstæðum og því hvernig heimilin og fjölskyldan elur börn sín upp til framtíðarstarfa innan þjóðfélagsins. Til hvers er ætlast af bæði drengjum og stúlkum þegar kemur að því að fara út á hinn almenna vinnumarkað? Hvernig velja konur sér vettvang í námi? Hvernig velja karlar sé vettvang í starfi og námi? Allt byrjar þetta á heimilunum og hefur gert alla tíð. Að sjálfsögðu er jafnréttisumræðan ekki mjög gömul sem slík, enda hefur jafnréttið einvörðungu byggst upp á því að framfleyta heimilinu þannig að sá sem þurfti að vera utan heimilis var í flestum tilfellum karlmaðurinn. Konan sneri sér hins vegar að því að ala upp börnin og sinna þeim hlutverkum sem fylgt hafa konum æ síðan.

[15:45]

Sem betur fer hefur þetta breyst mjög mikið á undanförnum árum og er ekki á neinn hátt hægt að segja annað en að konur hafi tekið fulla ábyrgð á öllum þeim störfum sem til falla og reynt með ýmsu móti að koma sér áfram í því kerfi sem við lýði er. Þar má kannski sérstaklega benda á, eins og komið hefur fram í þessari umræðu, að hlutfall menntaðra kvenna í atvinnulífi Íslendinga hefur aukist, og í skólakerfinu útskrifast miklu fleiri konur í dag en karlar, sem beinir huga okkar kannski ekki að því að konur séu að ná körlum heldur eru konur að fara langt fram úr körlum að þessu leyti og við þurfum kannski líka að hafa áhyggjur af þeirri þróun, hvert sá þáttur mannlífsins stefnir.

Ég held, herra forseti, að þegar við lítum á þær aðgerðir sem hafa verið gerðar hafi þær sýnt okkur að það er fyrst og fremst hugarfarið, viljinn og áhuginn á breytingum sem skiptir máli og þá innan fjölskyldnanna sjálfra.

Herra forseti. Varðandi hugmyndir eins og komið hafa fram mjög víða t.d. í sambandi við jafnrétti í pólitík og jafnrétti í atvinnulífinu, eins og mér heyrist hafa komið fram hjá kvennalistakonum um að nauðsynlega þurfi að skapa einhver sérstök störf sem falla að áhugasviði kvenna. Hvað er það sem fellur sérstaklega að áhugasviði kvenna? Og ég spyr: Er það að áhugasviði kvenna á Íslandi? Víða erlendis þekkist það að konur stunda sjóinn nánast alveg jafnt og karlar. Við þekkjum að erlendis stunda konur atvinnu sem kallast ekki kvennastörf hér, eins og að gerast múrarar, vélsmiðir eða iðnaðarmenn á öllum mögulegum sviðum. Það hefur tíðkast í mörgum löndum að konur sinni þessum störfum engu síður en karlar. En á Íslandi er einhvern veginn önnur áhersla á störf kvenna og það hefur ekki náðst, að mér finnst, að skapa áhuga kvenna á störfum t.d. í stóriðju, sem ég held að geti fallið vel að þörfum þeirra og það þurfi einungis að breyta hugarfarinu.

Mér hefur alltaf fundist að konur beini öllum sínum þunga í að ná jafnrétti í pólitík eða jafnrétti í stjórnun fyrirtækja eða mjög fámennum geirum þar sem í raun er ekki hægt með neinum rétti með því að þvinga inn konur og henda um leið út karlmönnum. Það er nefnilega engin aðferð, slíkt handafl gengur ekki. Því að á bak við hvern karl er kona og á bak við hverja konu er karl þannig að allir þurfa að endingu að standa saman. Þess vegna segi ég, herra forseti, að það þurfi að beina huga okkar miklu frekar að því að efla sjálfsvitund kvenna að þessu leyti eins og mér hefur fundist takast ágætlega í pólitík á Íslandi án þess að vera með einhverjar sérstakar aðgerðir til að koma þeim á framfæri umfram karlana.

Það eimir heilmikið eftir af því enn þá að sérstakar aðgerðir þurfi til að koma konum að í pólitík. Ég samþykkti í félmn. að sérstakt fé yrði lagt til svo hægt væri að gera konur sýnilegri í pólitík fyrir næstu kosningar og kosningar yfirleitt, væntanlega þá til að koma þeim eitthvað framar en körlum. En þegar við lítum á sviðið og áttum okkur á hvernig konum hefur gengið í pólitík þar sem þær hafa á annað borð haft áhuga, þá hefur sem betur fer komið í ljós að þær hafa sannarlega sýnt það að þær ná að verma efstu sæti lista í flokkum sínum, þó um hefðbundna karlaflokka sé að ræða, eins og talað er um. Við getum tekið Framsfl. og hæstv. heilbrrh., sem er kona eins og allir vita, og hefur náð æðstu metorðum í flokki sínum án þess að þurfa neinar sérstakar aðgerðir til eða sérstaka hjálp aðra en hæfileika sína og áhuga á því að vera stjórnmálamaður.

Þess vegna vil ég vara, herra forseti, dálítið við því að verið sé að stofna sérstaka sjóði fyrir konur í pólitík eða fyrir konur í atvinnulífinu því að mér finnst að verið sé að gera lítið úr möguleikum og krafti kvenna og mér finnst jafnvel að verið sé að skerða ímynd kvenna í augum almennings með slíkum séraðgerðum.

Herra forseti. Að öðru leyti get ég að sjálfsögðu samþykkt allt sem kemur fram í þessari áætlun. Að sjálfsögðu vilja allir, og það er bundið í stjórnarskrá, að allir hafi jafnan rétt til náms, jafnan rétt til vinnu og til menntunar og enginn, ekki einn einasti maður vill horfa upp á ofbeldi eða misnotkun af neinu tagi á fólki eða öðru, þannig að að því leytinu til erum við öll sammála. Ég held að Íslendingar séu almennt mjög jafnréttislega sinnaðir og það hefur að mínu viti komið fram í sögunni og sést í Íslendingasögunum að alls staðar er mikil virðing gagnvart konum og þeirra hlutur yfirleitt gerður mikill, sem betur fer, auðvitað misjafnlega mikill en í flestum tilfellum mikill, og þess vegna held ég að þegar konur og fjölskyldur þeirra hafa ákveðið að hlutverk þeirra eigi að vera annað en hið hefðbundna sem tíðkast hefur verði þátttaka þeirra í jöfnum hlutföllum við karla þegar upp er staðið.