Almannatryggingar

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 17:02:40 (7030)

1998-05-27 17:02:40# 122. lþ. 134.13 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[17:02]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í máli mínu kom fram að ég er fullkomlega sátt við og sammála þessu frv. til laga sem hér er. Í nál. skrifa ég undir það án þess að vera með nokkurn fyrirvara. Þetta eru réttarbætur fyrir fólk sem býr erlendis. Það þarf líka réttarbætur fyrir fólk sem býr hér á landi. Brtt. sem við höfum lagt fram stuðlar að réttarbótum til fjölda fólks sem ekki getur séð sér farborða.

Það er rangt hjá hæstv. ráðherra þegar hún segir að fólk muni fá minna. Það er alveg ljóst að þessi skerðingarregla gerir það að verkum að öryrkjar sem búa með heilbrigðum einstaklingi í fullri vinnu geta ekki séð sér farborða. Skerðingarreglan er slík. Þeir fá 43 þúsund kr. sem byrja að skerðast ef makinn fær 38 þúsund kr. á mánuði.

Herra forseti. Við erum ekki að tala um framkvæmd á lögum frá 1993. Við erum að tala um framkvæmd á reglugerð sem á sér ekki stoð í þeim lögum. Þetta er reglugerð frá 1995 sem á sér ekki stoð í lögunum og er í framkvæmd. Þetta er rangt. Það er ekki verið að fara að þessum lögum. Skerðingarreglan sem er í framkvæmd á sér ekki stoð í þessum lögum. Þess vegna er ekki síður mikilvægt að við breytum þessari grein laganna en hinum sem við erum að breyta hér í þessu frv. Þær eru allar réttarbót, það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra. Ég tek undir hvert einasta orð um það og var sammála því í nefndinni að það ætti að breyta þessu. Ég þekki þetta og þessi framkvæmd á lögunum var meingölluð. Ég tek undir hvert einasta orð sem sagt er hérna um að það þurfi að breyta því.

En það kemur ekki í veg fyrir það að við verðum að breyta greininni sem brtt. snýst um, um skerðingarreglurnar á tekjutryggingu öryrkja í hjónabandi eða sambúð.