Póstþjónusta

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 13:24:35 (7101)

1998-05-28 13:24:35# 122. lþ. 136.10 fundur 510. mál: #A póstþjónusta# (einkaréttur ríkisins) frv. 72/1998, KPál
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[13:24]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Frv. til laga um póstþjónustu sem hér er til umræðu felur í sér minni háttar breytingar ef orða mætti það svo. Eftir því sem þeim sýnist, sem í samkeppnisumhverfinu starfa, fela þessar minni háttar breytingar þó í sér að einkaréttarsviðið verður enn víðtækara en áður og aðstæður samkeppninnar því verri. Það eru fullyrðingar sem í sjálfu sér hefur verið erfitt að andmæla en þó hefur sú staða komið upp að þeir, sem ætla sér af stað í slíka samkeppni sem er í póstþjónustu, hafa þrátt fyrir leyfi ekki komist af stað af einhverjum ástæðum. Rökin fyrir því að fara alla leið til frjálsræðis hafa því kannski ekki verið nógu sterk af þeim ástæðum.

Að minnka þyngd bréfa úr 350 g í 250 g hefur sáralítil áhrif á það magn pósts sem fer til samkeppnisaðila. Meiri hluti bréfa er undir 100 g þannig að að þessu leyti skiptir þetta engu máli. Annars staðar á Norðurlöndum hafa þau skref verið stigin að gefa póstdreifinguna alveg frjálsa. Rétt er að minna á að það hefur gerst í Svíþjóð og Finnlandi og mælst vel fyrir eftir því sem við best vitum.

Maður heyrir líka þær raddir frá Íslandspósti að þeir aðilar sem þar stjórna séu tilbúnir að fara út í algert frjálsræði hvað þetta varðar. Eini óttinn sem hvílir á mönnum varðandi algert frjálsræði er að hinar dreifðu byggðir landsins mundu verða út undan í samkeppninni og auðvitað þarf að tryggja að svo verði ekki. Ég get því í sjálfu sér samþykkt þetta frv. eins og það kemur fyrir en vildi að það sjónarmið mitt kæmi fram að eðlilegt skref hlýtur að vera að gefa póstþjónustuna frjálsa á Íslandi eins og víða á Norðurlöndum og það fyrr en síðar. Þar sem það hefur verið gert hefur það reynst vel og ekki ástæða til að ætla annað en svo verði hér einnig. Við getum séð það á öðrum sviðum starfsemi pósts- og símafyrirtækisins sem nú er orðið hlutafélag, að íslenska póst- og símaþjónustan hefur náð því stigi að vera ein sú fullkomnasta í heiminum. Hún hefur náð því að verða ein sú ódýrasta og reyndar sú allra ódýrasta með tilliti til símanotkunar í heiminum. Aðstæður fyrirtækja Pósts og síma fyrrv. eru því mjög góðar til að takast á við samkeppni á öllum sviðum. Ég held að við höfum engu að kvíða en treysti því að á næsta þingi eða mjög fljótlega a.m.k. verði þetta mál tekið til rækilegrar endurskoðunar.