Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 15:25:14 (7121)

1998-05-28 15:25:14# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[15:25]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 1245, um tillögu til þál. um langtímaáætlun í vegagerð, og síðan nál. á þskj. 1243, um tillögu til þál. um vegáætlun fyrir árin 1998--2002, ásamt meðfylgjandi brtt. við bæði þessi mál.

Eins og menn vita var gerð veruleg breyting á uppsetningu vegáætlunar með tillögu til þál. um nýja vegáætlun, sem lögð var fram fyrr á þessu þingi. Í stað þess að byggja á hefðbundinni skiptingu sem var orðin allflókin var lagt til að hverfa frá því í grundvallaratriðum. Þess í stað eru skilgreind framkvæmdamarkmið á vegakerfinu og verkefni sem falla að markmiðunum sem verða þá viðfangsefni langtímaáætlunarinnar. Gert er ráð fyrir því að nokkrum hluta vegafjárins verði varið til almennrar uppbyggingar í vegamálum í kjördæmunum. Auðvitað er síðan um að ræða framkvæmdir sem falla undir aðrar skilgreiningar en stærsta breytingin er sú sem ég hef hér rakið að framkvæmdamarkmið eru skilgreind og síðan er verkefnunum raðað niður í samræmi við það.

Það er líka nauðsynlegt að minna á að í þessari áætlun er ekki fjallað um framkvæmdir við jarðgöng. Það er gert ráð fyrir því í textanum sem fylgir með þessum tillögum að ef til slíkra framkvæmda komi á áætlunartímabilinu þá verði það gert samkvæmt sérstakri ákvörðun stjórnvalda þar sem verði líka tekin afstaða til fjármögnunarinnar. Hins vegar er gert ráð fyrir því að veita nokkurt fé til jarðgangarannsókna á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum, 120 millj. kr. alls, á áætlunartímabilinu í þessi skyni.

Með afgreiðslu langtímaáætlunar yrði náð þeim merka og mikilvæga áfanga að Alþingi markaði í fyrsta sinn stefnu í vegagerð til langs tíma. Þetta er ákaflega mikilvægt þar sem fátt er þýðingarmeira varðandi framkvæmdaáætlanir en að menn geti séð svolítið fram á veginn. Við þekkjum það varðandi hafnaráætlunina sem í fyrsta skipti tókst að samþykkja á þessu þingi, að hún hefur veitt mjög mikilvæga leiðsögn og gert starfsumhverfi sveitarfélaganna miklu tryggara en áður var. Við vitum að vísu að það kann að fara svo að ríkisstjórnir síðari tíma breyti þessum framkvæmdaáætlunum. Engu að síður veita þær mjög mikilvæga leiðsögn fyrir framtíðina í þessum efnum.

Í tillögunni er gerð grein fyrir skiptingu fjár á helstu framkvæmdaliði. Þar er mjög aukið fé til stórverkefna og jafnframt er gerð tillaga um skiptingu þess fjár milli verkefna eftir tímabilum. Þá er boðað að skipting fjár til verkefna á höfuðborgarsvæðinu verði einnig tekin fyrir við meðferð málsins á Alþingi. Það hefur verið gert. Í þeim brtt. sem hér liggja fyrir er þetta nánar útfært varðandi höfuðborgarsvæðið. Þær útfærslur lágu ekki fyrir varðandi landsbyggðina þegar tillagan var lögð fram upphaflega.

Samhliða tillögu um langtímaáætlun hefur tillaga um vegáætlun verið til afgreiðslu. Vegáætlunartillagan tekur til fyrsta tímabils langtímaáætlunar og því verður að líta á þessar tillögur báðar í heild. Jafnframt því sem þingmenn kjördæma unnu að tillögugerð vegna vegáætlana fóru þeir yfir langtímaáætlunina. Fram komu nokkrar hugmyndir um breytingar og hefur meiri hluti nefndarinnar tekið þær til skoðunar, ásamt hugmyndum sem fram hafa komið innan nefndarinnar.

Hér á eftir er gerð nánari grein fyrir þeim breytingum sem breytingartillögur meiri hlutans fela í sér.

Tölur í breytingartillögunum eru miðaðar við verðlag ársins 1999 í stað 1998 og er þetta gert til samræmis við vegáætlun. Hækkun milli áranna 1998 og 1999 er áætluð 3,2% og er það í samræmi við mat Þjóðhagsstofnunar.

Aðrar breytingar á fjáröflun eru þær að endurgreiðslur á þungaskatti, þ.e. styrkir, til sérleyfishafa, sem eru 20 millj. kr. á ári, eru teknar inn bæði tekju- og gjaldamegin, en þessi liður hefur ekki áður verið í vegáætlun. Þá eru tekjur hækkaðar um 80 millj. kr. á ári frá og með árinu 1999. Með hliðsjón af góðum horfum í atvinnu- og efnahagslífi landsins þykir óhætt að reikna með þessari hækkun tekna.

Í skiptingu útgjalda eru endurgreiðslurnar til sérleyfishafa felldar undir stjórn og undirbúning. Tekjuaukningin, 80 millj. kr. á ári, er sett í nýjan lið 2.3.4. Ferðamannaleiðir. Þá hefur afborgunartími lána vegna Hvalfjarðartenginga verið lengdur úr fimm árum í tíu og hefur það breytingu í för með sér í liðnum Endurgreiðsla lánsfjár.

Nokkrar breytingar verða á tillögum um skiptingu fjár til nýframkvæmda samkvæmt langtímaáætluninni sem ástæða er til að vekja sérstaka athygli á.

Lenging lána vegna Hvalfjarðartenginga hefur þau áhrif að fjárþörf þess verkefnis minnkar á fyrsta tímabili en eykst á öðru og þriðja tímabili. Það svigrúm sem þannig skapast á fyrri hluta áætlunartímans kemur einkum Kerlingarskarðsvegi, Vatnaheiði og Vestfjarðavegi, þ.e. Brattabrekka --- Svínadalur, til góða, svo og Reykjanesbraut í litlum mæli.

[15:30]

Í skilgreiningum verkefna í tillögunni er við það miðað að hringvegurinn á Austurlandi liggi ekki um Skriðdal og Breiðdal eins og hann gerir í þjóðvegaskrá heldur um Suðurfjarðaveg. Meiri hlutinn leggur til að þessu verði breytt þannig að hringvegurinn sé skilgreindur í samræmi við þjóðvegaskrá. Suðurfjarðavegur verður þá skilgreindur sem nýtt verkefni, þó einungis til Stöðvarfjarðar að norðan, en niður fellur kaflinn milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur. Er þetta í samræmi við meginregluna sem fylgt er við skilgreiningu verkefna undir a-lið í framkvæmdamarkmiðum eins og ég vék að í upphafi máls míns.

Með þessari breytingu fær hringvegurinn sama sess og önnur verkefni innan stórverkefnaflokksins og á að ljúka á sama tíma og þau. Breytingin veldur því að heildarkostnaður við stórverkefnin eykst um 550 millj. kr. Heildartölum er þó ekki breytt að sinni en meiri hlutinn lítur svo á að það verði gert við næstu endurskoðun langtímaáætlunar. Fjárveitingum til hringvegar á Austurlandi er hins vegar skipt upp og fær Suðurfjarðavegur hluta þeirra.

Óvissa er um val leiða og lausna á nokkrum stöðum sem fá fjárveitingar á seinni tímabilum áætlunarinnar. Sem dæmi um þetta má nefna tengingu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, en þar er veitt fé til Lágheiðar á öðru og þriðja tímabili. Unnið er að skoðun allra mögulegra lausna á svæðinu, þar með talið gerð jarðganga sem stytta mundu leiðina mikið og bjóða upp á öruggara samband en vegur um Lágheiði getur gert. Miðað er við að þeirri skoðun verði lokið það snemma að taka megi ákvörðun um val lausna við næstu endurskoðun langtímaáætlunar.

Svipað er ástatt um Kolgrafarfjörð á Snæfellsnesi og Gufufjörð í Barðastrandarsýslu. Í báðum tilvikum var í eldri áætlunum miðað við að þvera þessa firði, en kostnaðartölur í stórverkefnalistanum nú miðast við að farið sé fyrir botn fjarðanna eins og getið er um í athugasemdum með tillögunni. Fyrir næstu endurskoðun langtímaáætlunar þarf að liggja fyrir úttekt á þessum kostum þannig að taka megi ákvörðun um lausn til útfærslu.

Hér eru einungis nefndir þeir staðir sem sérstaklega hafa verið til umræðu. Í raun munu þó miklu víðar koma til skoðunar aðrar útfærslur en miðað er við í kostnaðartölum stórverkefnalistans. Verður það meðal annars verkefni næstu endurskoðunar að taka ákvarðanir í slíkum tilvikum.

Menn geta vissulega gefið sér og sjá það í sjálfu sér að verkefni af þessu tagi eru undirorpin talsverðri óvissu. Það mun auðvitað ýmislegt koma í ljós á þessu langa tímabili sem gefur okkur tilefni og ástæðu til að taka þessi mál upp að nýju og það verður þá að sjálfsögðu að gerast í fyllingu tímans. Menn verða því að hafa það í huga að hér er verið að ræða um áætlun til nokkuð langs tíma sem í eðli sínu gerir það að verkum að um talsverða óvissu er að ræða.

Vík ég nú sögunni að vegáætluninni sjálfri en hverf frá langtímaáætluninni að sinni.

Þar var unnið með svipuðum hætti og unnið var að langtímaáætluninni. Þingmenn kjördæmisins unnu að skiptingu framkvæmdafjár til almennra verkefna á stofnbrautum svo og til tengivega, auk þess sem þeir hafa yfirfarið tillögur um stórverkefni sem snerta viðkomandi kjördæmi.

Skipting fjár til tengivega milli kjördæma er óbreytt frá því sem var, en fé til almennra verkefna á stofnvegum skiptist jafnt á öll kjördæmi utan höfuðborgarsvæðisins.

Verðlag í breytingartillögum er óbreytt fyrir árið 1998. Síðari árin er áætlað verðlag ársins 1999 lagt til grundvallar eins og varðandi langtímaáætlunina.

Þrjár breytingar eru gerðar á tekjuhlið vegáætlunarinnar fyrir árin 1998--2002. Endurgreiðslur á þungaskatti, sem eru styrkir til sérleyfishafa, eru færðar inn í vegáætlunina alveg eins og varðandi langtímaáætlunina. Tekjur og gjöld hækka af þessum sökum um 20 millj. kr. á ári. Þessi liður hlýtur að koma til endurskoðunar þegar kemur að upptöku olíugjalds í stað þungaskatts, ef að því kemur. Þá eru tekjur hækkaðar um 80 millj. kr. árið 1999 og helst sú hækkun út tímabilið. Það þykir óhætt að hækka tekjuáætlunina sem þessu nemur miðað við horfur í atvinnu- og efnahagslífi landsins. Loks er afborgunartími lána vegna Hvalfjarðartenginga lengdur úr fimm árum í tíu.

Gjaldahliðin tekur eðlilega einnig breytingum sem af þessu leiðir eins og ég hef þegar gert grein fyrir.

Dæmi eru um að veitt sé fé til stórverkefna af fjárveitingum almennra verkefna og sömuleiðis í hina áttina. Þetta eru fá dæmi og langt innan þeirra marka sem tiltekin voru í tillögu til langtímaáætlunar. Meiri hlutinn gerir ekki athugasemdir við þetta. Hér byggjum við eingöngu á þeim tillögum sem hafa borist frá þingmannahópum kjördæmanna sem farið hefur verið eftir.

Enn fremur eru dæmi um að fyrirhugað sé að færa fjárveitingar tímabundið milli verkefna. Þetta á einkum við árið 1998 sem bundið er af fyrri áætlun. Með því móti má fá betra samspil við næstu ár á eftir. Meiri hlutinn gerir ekki heldur athugasemdir við þetta.

Árið 1998 hefur sérstöðu í þessari vegáætlun. Því ræður að nú er í gildi vegáætlun sem nær m.a. til yfirstandandi árs. Einstöku tilfærslur eru þó gerðar í sundurliðun ársins. Kerfisbreytingin sjálf sem ég gerði grein fyrir í uppafi hefst árið 1999, þ.e. á næsta ári. Hún setur mark sitt á tekju- og gjaldahlið áætlunarinnar svo og sundurliðunin. Þar með verður sundurliðunin mun einfaldari, verkefnaflokkunum fækkar og áætlunin verður þar með miklu betri til að átta sig á fyrir þá sem hana lesa eða kynna sér.

Með afgreiðslu langtímaáætlunar og þeim breytingum sem gert er ráð fyrir í vegáætlun er stefnt að því að ná stærri áföngum á aðalleiðum en verið hefur og þetta er auðvitað mjög mikilvægt mál. Meira verður um stærri verkefni sem standa yfir í tvö ár eða lengur. Nauðsynlegt er að skapa sveigjanleika í slíkar framkvæmdir og stuðla þar með að hagstæðari tilboðum en ella væri. Ráðuneyti fjármála og samgangna og Vegagerðin hafa komið sér saman um reglur sem heimila töku lána upp að vissu marki í þessu skyni. Í þessum reglum er miðað við að hámark lána hvers árs sé 15% af fjárveitingum til vega og brúa í vegáætlun næsta árs á eftir. Tilboðum um peningalán umfram 5 millj. kr. verður ekki tekið og fjalla reglurnar því fyrst og fremst um verktakalán. Slík lán má einungis taka til verka sem fjármögnuð eru í vegáætlun eða með öðrum hætti samkvæmt ákvörðun Alþingis. Heimilt er að greiða vexti af verktakalánum í samræmi við vaxtakjör ríkisins á innlendum lánamarkaði. Vegagerðinni ber að gera grein fyrir áætlaðri heildarupphæð lána í ágúst/september ár hvert. Miðað við reglurnar og þá tillögu að vegáætlun sem fyrir liggur ætti hámark lána að vera um 600 millj. kr. og virðist það nægja til þess að hægt sé að skapa þann nauðsynlega sveigjanleika sem öllum er ljóst að verður að vera í vegáætlun af þessu tagi.

Þetta allt saman sýnir okkur mikilvægi þess að við festum niður vegáætlanir bæði til skemmri tíma og eins til lengri tíma vegna þess að það gefur færi á því að bjóða út verk, stærri verk í einu, og ná þannig stærri áföngum. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að okkur takist að ljúka meðferð málsins á Alþingi, eins og allt bendir til á þessum degi.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali sem hér fylgir með.

Undir þetta nál. og reyndar líka nál. varðandi langtímaáætlunina rita auk formanns og frsm. hv. þm. Magnús Stefánsson, Jón Kristjánsson, Kristján Pálsson og Guðjón Guðmundsson.