Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 16:53:47 (7131)

1998-05-28 16:53:47# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, RA
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[16:53]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hér er verið að fjalla um tvær samgönguáætlanir samtímis og samhliða. Annars vegar tillögu um vegáætlun fyrir árin 1998 til 2002 og hins vegar um langtímaáætlun í vegagerð fyrir árin 1999 til 2010. Vegáætlunin tekur sem sagt til fyrsta tímabils seinni áætlunarinnar auk ársins 1998, þ.e. til fimm ára. Ég vil nota þetta tækifæri í upphafi máls míns til að gagnrýna harðlega hvernig staðið hefur verið að undirbúningi þessa máls.

Eins og ég hef þegar tekið fram snýst málið um skipulagningu vegamála til næstu 12 ára og hún á að ná til þriggja kjörtímabila. Þegar þannig hefur verið staðið að málum, að undirbúnar væru langtímaáætlanir í vegamálum, hefur hingað til ævinlega verið haldið svo á að fulltrúar allra flokka ættu aðild að þeim undirbúningi. Ég minnist þess t.d. þegar langtímaáætlunin var til meðferðar á seinasta áratug. Þá var að sjálfsögðu um að ræða undirbúningsnefnd sem allir flokkar áttu sæti í.

Hér er því þannig háttað að tveir flokkar, stjórnarflokkarnir með hæstv. samgrh. í broddi fylkingar, koma sér saman um efni þessarar langtímaáætlunar sem á þó að ná miklu lengur en sem nemur því kjörtímabili sem nú er að líða. Hún á að ná þrjú kjörtímabil fram í tímann þegar allt aðrir flokkar verða hugsanlega við stjórn. Þessar ákvarðanir eru teknar án nokkurs samráðs við stjórnarandstöðuflokkana eða án þess að gefa þeim nokkurt tækifæri til þess við undibúning málsins, áður en málið kemur inn í þingið, að eiga hlut að máli.

Ég vil taka það skýrt fram að samgn. kom hvergi nærri undirbúningi þessarar tillögu. Ég fékk ekkert að vita um efni hennar fyrr en hún var lögð fram í þinginu. Menn voru reyndar að fá fréttir af einhverjum umræðum um áætlun í þingflokkum stjórnarflokkanna. Það var helst að menn gætu tínt til fréttir í blöðum og fjölmiðlum á stangli en að einhver minnsta tilraun væri gerð til að hafa stjórnarandstöðuflokkana með í ráðum um mál sem spannar 12 ár fram í tímann, því var ekki að heilsa.

Í raun og veru tók svo ekkert betra við þegar málið kom hér inn í þingið og til samgn. Sáralitlar breytingar hafa verið gerðar á langtímaáætluninni og í stuttu máli má eiginlega segja að allar ábendingar stjórnarandstæðinga hafi verið hunsaðar og ekkert á þær hlustað. (EgJ: Og fleiri.) Raunar á það ekki aðeins við um stjórnarandstæðinga eins og hér var bent á í frammíkalli af hv. þm. Agli Jónssyni. Það var heldur ekkert hlustað á ábendingar hans og tillögur og má eiginlega segja að hann hafi skipað sér í hóp stjórnarandstæðinga við meðferð málsins í nefnd, eins og glöggt kom fram í atkvæðagreiðslu innan nefndarinnar og hann hefur sjálfur rakið hér á undan mér.

Hann hefur gert svo ágæta grein fyrir vanda þeirra Austfirðinga og hvernig með þá er farið að ég tel ekki ástæðu til að orðlengja um þann þátt málsins, auk þess sem hér mun hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, vera á mælendaskrá og mun vafalaust koma inn á þann þátt málsins einnig. Ég vil þó láta þess getið og láta það koma skýrt fram að við stjórnarandstæðingar studdum mjög eindregið málstað þeirra Austfirðinga þegar málið var til umræðu og atkvæðagreiðslu innan nefndarinnar.

[17:00]

Annað dæmi um það hversu lítið er hlustað á athugasemdir og ábendingar stjórnarandstöðunnar er það sem snýr að vegtengingu milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Í nál. meiri hlutans er þess sérstaklega getið, svo ég vitni til nál., með leyfi forseta, að eftir sé ,,... skoðun allra mögulegra lausna á svæðinu, þar með talið gerð jarðganga sem stytta mundu leiðina mikið og bjóða upp á öruggara samband en vegur um Lágheiði getur gert``. Þetta stendur í nál. meiri hlutans. Við stjórnarandstæðingar bentum á að úr því svona væri tekið til orða í nefndaráliti meiri hlutans og allir væru sammála um það að ekki væri hægt að taka neina ákvörðun um það á þessu stigi hvort byggð yrðu jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar eða hvort Lágheiði yrði byggð upp í staðinn, og öllum er auðvitað fullljóst að hvort tveggja verður ekki gert, í öllu falli ekki samtímis, það hljóta sennilega að líða einhverjir áratugir á milli þar sem stór verk er að ræða í báðum tilvikum, þá hlyti að vera eðlilegast að slá engu föstu í sjálfri áætluninni heldur taka þá þannig til orða um þennan þátt málsins að öllum leiðum væri haldið opnum eins og reyndar meiri hlutinn er að ýja að í nál. sínu en framkvæmir svo þveröfugan hlut í tillögum sínum, því í tillögunum er því slegið föstu af hálfu meiri hlutans að um verði að ræða vegagerð á Lágheiði, það er sérstaklega tekið fram í tillögum meiri hlutans í langtímavegáætlun, þótt sagt sé í greinargerðinni að öllum leiðum eigi að halda opnum og hin leiðin geti komið til greina. Ég get að sjálfsögðu ekki talið þetta neitt annað en rauða veifu sem veifað er framan í kjósendur norður í landi. Það er verið að reyna að gefa þeim undir fótinn með að þessi möguleiki sé áframhaldandi fyrir hendi en þegar á reynir að halda þeim möguleika opnum, þá ætla hv. þm. meiri hlutans með hæstv. samgrh. í broddi fylkingar að loka þessari leið með því að taka það ótvírætt og skýrt fram að um sé að ræða byggingu vegar yfir Lágheiði.

Ég vil sérstaklega taka fram að allir hv. þm. Norðurlandskjördæmis vestra voru á einu máli um að orða yrði þennan þátt í langtímaáætluninni á þann hátt sem ég hef gert að umtalsefni en samstaða okkar hvað þetta varðar breytti engu. Langtímaáætlunin kemur hingað í þingið á ný með nákvæmlega sama orðalagi hvað þetta varðar og reyndar flest allt annað eins og var þegar tillagan kom í þingið. Sem sagt, það er haldið áfram beint af augum, hvorki litið til hægri né vinstri, ekki hlustað á neinar ábendingar eða athugasemdir frá stjórnarandstöðunni og raunar engum öðrum en þeim sem þetta plagg hafa undirbúið. Þessi vinnubrögð tel ég mjög ámælisverð og get satt að segja ekki skilið af hverju slík einstefna er uppi höfð.

Annar þáttur þess vanda sem við blasir er að mjög víða er eftir að tengja þéttbýlisstaði þar sem menn verða enn að notast við mjög ófullkomna malarvegi og enn er eftir að framkvæma ýmsar styttingar í vegakerfinu milli þéttbýlisstaða til að stækka atvinnusvæði og þétta dreifðar byggðir. Af þessu tagi blasa við fjöldamörg verkefni víðs vegar um land, bæði á Austurlandi, Norðurlandi og á Vestfjörðum en þeim er lítt sinnt í þeim áætlunum sem hér liggja fyrir. Ég hef þegar lýst vonbrigðum Austfirðinga en þar er augljóst stórverkefni sem þarf að ráðast í, þ.e. að mynda samfellt atvinnusvæði frá Seyðisfirði til Fáskrúðsfjarðar með góðri tengingu við Egilsstaði og alveg ljóst að því verkefni verður ekki sinnt á næstum 12 árum samkvæmt þeirri áætlun sem hér liggur fyrir. Og það er líka ljóst að tenging Siglufjarðar, Ólafsfjarðar og Dalvíkur með jarðgöngum og vegi um Héðinsfjörð er alls ekkert á dagskrá á næstu 12 árum.

Ég hef orðið var við það að í máli stjórnarsinna eru gerðar tilraunir til að vekja tálvonir hjá fólki með því að segja sem svo að í þessari vegáætlun og langtímaáætlun sé engu slegið föstu um hvort jarðgöng verði byggð á næstu árum eða ekki, en það er auðvitað alveg eins ljóst og tvisvar tveir eru fjórir að samkvæmt þeim áætlunum, sem lagðar hafa verið fram og eru einu áætlanirnar sem núverandi stjórnarflokkar hafa uppi, er ekki gert ráð fyrir neinum jarðgöngum á næstu 12 árum. Menn geta ekkert fært það í neinn felubúning að ætlunin sé að koma með það sér á parti seinna, því ef það væri ætlunin hefði verið allt öðruvísi að málum staðið. Þá væri gert ráð fyrir einhverri fjáröflun til slíkra hluta á næstu árum og einhver tilraun gerð til að setja upp eitthvert plan í þá áttina, en þessi tvö plögg hér, vegáætlunin annars vegar og langtímaáætlunin hins vegar eru einu áætlanirnar sem Alþingi mun samþykkja um framkvæmdir í vegamálum á næstu árum. Það er því hrein blekking þegar reynt er að telja fólki trú um að síðan sé eitthvað allt annað og miklu meira í pokahorninu. Þetta eru ekki aðeins vonbrigði fyrir Austfirðinga og Norðlendinga, þetta eru líka mikil vonbrigði fyrir Vestfirðinga því að þar eru ótvírætt enn mjög brýn verkefni á sviði jarðgangagerðar sem er að tengja saman norðurfirðina og suðurfirðina með göngum um Dýrafjörð og Arnarfjörð, undir Hrafnseyrarheiði en síðan gæti bílferja gengið milli Bíldudals og Hrafnseyrar nokkrum sinnum á dag og skapað góðar samgöngur á því svæði.

Það eru sem sagt fjöldamörg byggðarlög sem eru nánast skilin eftir úti í kuldanum við gerð þessarar samgönguáætlunar og enn einn landshluti sem ég hef hér lítið vikið að skal nú nefndur en það er Norðausturlandið. Norðausturlandið er þannig sett að ekki er gert ráð fyrir verulegum framkvæmdum á því svæði fyrr en á seinasta áætlunartímabilinu, þ.e. eftir átta ár. Þarna erum við að sjálfsögðu að tala um veginn frá Húsavík til Þórshafnar en þetta er ein allra brýnasta vegaframkvæmdin sem við stöndum frammi fyrir.

Í Morgunblaðinu hinn 20. maí sl. var vikið að vegamálum íbúa á Norðausturlandi en þar skrifar fréttaritari blaðsins á Þórshöfn eftirfarandi í blaðið, með leyfi forseta:

,,Íbúar hér á norðausturhorninu eru ýmsu vanir í vegamálum og kalla ekki allt ömmu sína, þó hingað til hafi versta ástandið einkum verið bundið við heiðavegi sem aðeins eru færir á sumrin. Vegurinn um Tjörnes er hins vegar heilsársvegur með mikilli umferð allan ársins hring en hann hefur verið illfær fólksbílum síðustu vikur og allt slitlag á honum uppurið.

Veginum var lokað fyrir 7 tonna öxulþunga á mándagskvöld en viðgerð er hafin. Af því leiðir að flutningskostnaður eykst til muna því vöruflutningabílar þurfa að keyra Kísilveg um Mývatn, fara Fjöllin til Vopnafjarðar og áfram til Þórshafnar. Frá Þórshöfn þurfa bílarnir síðan að keyra til Kópaskers og Ásbyrgis. Með þessu lengist flutningsleiðin, sem venjulegast er 320 km milli Akureyrar og Þórshafnar, í 460 km til að komast til Ásbyrgis.

Á þessum grófa vegi er grjótbarningur slíkur að fólk leggur ógjarnan bíla sína í slíka hrakninga nema af brýnni nauðsyn og má nærri geta hvert slit á bílum þetta þýðir fyrir þá sem oft fara þarna um.

Verstur er vegarkafli rétt austan við Húsavík og allt að Mánárbakka en þar hefur vegurinn látið undan á mörgum stöðum og eru í hann djúp hvörf, varasöm fólksbifreiðum. Á þeim kafla standa yfir grjótflutningar frá Mánárbakka í höfnina á Húsavík og fara þar um stórir bílar, fulllestaðir af stórgrýti.``

Og síðar segir seinna í þessari ítarlegu greinargerð í Morgunblaðinu um vegamál í kjördæmi hæstv. samgrh.:

,,Umferð er mikil um Tjörnes enda hafa landflutningar aukist mikið síðustu árin en flutningur með skipum svo til enginn orðinn. Hjá Flutningamiðstöð Norðurlands á Þórshöfn fengust þær upplýsingar að fastar ferðir vöruflutningabíla milli Þórshafnar og Akureyrar væru 20--30 bílar á viku en gæti farið yfir það, auk þess eru póstferðir alla virka daga.

Vöruflutningabílstjórar á þessari leið eru langþreyttir á þessu ástandi og sætta sig sífellt verr við það að greiða til ríkisins sama vegagjald og þeir sem búa við betra ástand í vegamálum og benda á margfalt slit og viðhald á tækjum sínum við þessar aðstæður. Krafa um úrbætur verður sífellt háværari því fólk unir því ekki öllu lengur að vera svo afskipt þegar kemur að úthlutun fjár til vegagerðar.``

Svo mörg eru þau orð og hér er lýst af heimamönnum hversu hroðalegt ástandið er á þessum slóðum og þetta er það ástand sem menn eiga meira eða minna að búa við í langan tíma héðan í frá ef engin bragarbót verður gerð á þeirri langtímaáætlun sem fyrir liggur. Ég vil í þessu samhengi vekja sérstaka athygli á till. til þál. sem við fimm þingmenn Alþb. fluttum fyrr í vetur undir forustu hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingríms J. Sigfússonar, þar sem gerð var tillaga um ályktun þess efnis að sérstakt átak yrði gert til að ljúka á næstu þremur árum uppbyggingu og lagningu bundins slitlags á vegum sem tengja heila landshluta eða fjölmenn byggðarlög við meginþjóðvegakerfið. Á næstu þremur árum verði varið allt að 2.500 millj. kr. úr ríkissjóði til þessa verkefnis, til viðbótar fjármunum af vegáætlun, með það að markmiði að árið 2000 verði allir þéttbýlisstaðir þar sem íbúar eru 100 eða fleiri tengdir þjóðvegakerfi landsmanna með vegum með bundnu slitlagi.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að eftir því sem meginhluti vegakerfisins batnar og akstur á bundnu slitlagi verður regla frekar en undantekning, verður erfiðara hlutskipti þeirra sem eftir sitja og verða að sætta sig við að nota gömlu erfiðu og illa förnu malarvegina. Þar kemur auðvitað margt til eins og mjög rækilega var rakið í fréttabréfi þeirra frá Þórshöfn sem ég las úr hér áðan, en staðreyndin er sú að jafnvel ferðamenn á sólbjörtum sumardögum veigra sér við í ágætasta veðri að fara út af hinu bundna slitlagi, ég tala nú ekki um í rigningartíð á hausti þegar vegirnir eru blautir og holóttir. Þess vegna er þetta ekki aðeins öryggismál fyrir byggðirnar heldur er þetta líka mál sem snýr að því að verið er að gera þetta að annars flokks byggðum sem ferðamenn sækja miklu síður til vegna hins hörmulega ástands veganna. Menn verða auðvitað, eins og fleiri hafa rakið hér á undan mér, að taka nokkurt tillit til þess að sjósamgöngur hafa snarlega minnkað á undanförnum árum en flutningar á landi hafa stóraukist. Og þá verður auðvitað að bæta vegina mjög verulega í kjölfar slíkrar stefnubreytingar.

[17:15]

En margir aðrir staðir á landinu standa illa að vígi í vegamálum, miklu fleiri en ég hef nú nefnt. Ég gæti t.d. minnt á veginn um Fróðárheiði, sem tengir Ólafsvík við suðurhluta Snæfellsness, og ég gæti nefnt vegamálin í Borgarfirði.

Hv. þm. Egill Jónsson, sem talaði áðan, talaði um slóðavegi, þetta væru slóðavegir, og átti kannski við það að þetta væru hálfgerðar slóðir. En mér finnst einhvern veginn að orðið gæti haft fleiri en eina merkingu. Mér finnst að þarna sé kannski hugsanlega verið að kenna vegina við þá slóða sem hafa látið vegamálin trassast þannig að vegirnir eru illfærir og varla nothæfir fyrir nútímasamgöngur.

Ég hef sagt það áður og segi enn að Íslendingar eru vanþróuð þjóð á sviði vegamála. Það er leitun að þeirri þjóð í okkar heimsálfu sem er eins illa á vegi stödd og við Íslendingar hvað vegamál varðar. Það stafar einfaldlega af því að fjármagn til vegamála hefur verið langt frá því nægilega mikið á undanförnum árum. Það er illt til þess að vita að stórfelldar fjárhæðir hafa verið færðar frá Vegasjóði og yfir í ríkissjóð og staðreynd er að í árslok þessa árs mun ríkissjóður skulda Vegasjóði einhvers staðar milli 600 og 700 millj. kr. En samt er haldið áfram í þessari vegáætlun að færa fé úr Vegasjóði í ríkissjóð með ýmsum aðferðum. Það er að vísu verið að tala um að frá aldamótum verði allt fé markaðra tekjustofna lagt í Vegasjóð en okkur í stjórnarandstöðu finnst það nú ekki mjög hetjulega að verki staðið að skjóta því á frest yfir á næsta kjörtímabil að standa þannig að málum úr því að menn treysta sér ekki til að afgreiða vegáætlun á þann hátt að skuld ríkissjóðs við Vegasjóð sé nú gerð upp og ekki sé haldið áfram að greiða úr Vegasjóði í ríkissjóð. Þá hljóta menn að hafa frekar litla trú á því að að loknum næstu kosningum verði gerð bragarbót og menn fari þá að láta allt fé Vegasjóðs í vegina. Það er áróðursbragð að slíkum vinnubrögðum. Og það er stutt í næstu kosningar. Það er greinilegt hvað menn ætla sér. Menn ætla sér að veifa þessari vegáætlun framan í kjósendur en treysta sér samt sem áður ekki til þess að skila því í Vegasjóð sem Vegasjóði ber nú fyrir kosningar.

Herra forseti. Við fyrri umr. ræddum við alþýðubandalagsmenn ítarlega um vegamálin. Ég gerði þar ítarlega grein fyrir hvað væri helst til ráða og ég ætla bara að ítreka það að lokum að allt of litlu fé er varið til vegamála. Það er einungis varið 2,3% af útgjöldum ríkissjóðs til vegamála eða um 0,7% af vergri landsframleiðslu. Með því að láta ríkissjóð gera upp skuldir sínar við Vegasjóð nú þegar með því að kosta vegtengingu Hvalfjarðarganga af öðru fé en af vegáætlun, t.d. af því fé sem ríkissjóður fær í virðisaukasaktt af því veggjaldi sem þar verður innheimt, og með því að taka flóabátana út úr vegáætlun þar sem þeir eiga auðvitað ekkert heima og með því að nýta tekjustofna Vegasjóðs miklu betur en gert er í samræmi við heimildir vegalaga þá mætti skapa stóraukið svigrúm í vegáætlun til að gera margt af því sem gera þarf á næstu árum í vegamálum.