Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 17:21:09 (7132)

1998-05-28 17:21:09# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[17:21]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. að ýmislegt er ógert í vegamálum. Ég er honum þakklátur fyrir að hafa vakið sérstaka athygli á tillögu þeirra alþýðubandalagsmanna um sérstakt átak í vegagerð í afskekktum landshlutum. Eins og fram kemur í greinargerð með þeirri tillögu er einungis gert ráð fyrir því að tengja Norður-Þingeyjarsýslu og Vopnafjörð við hringveginn, sleppa Vestfjörðum og öðrum afskekktum stöðum. Hér stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þegar litið er til norðausturhorns landsins, svæðisins frá Húsavík austur um og til Vopnafjarðar, og einnig svæða á Austfjörðum er ljóst að enn hægar miðar og gríðarlega mikið er ógert. Verkefnið er þó ekki stærra en svo að ætla má að verði ríflega veitt til þessara verkefna á vegáætlun og til viðbótar allt að 2.500 millj. kr. af fjárlögum á næstu þremur árum, þ.e. 800--900 millj. kr. hvert ár á árunum 1998--2000, megi ljúka þessu verkefni að mestu. Hér yrði um sérstakt framlag að ræða, samgöngu- eða byggðaframlag sem rynni til þess að jafna þann geysilega aðstöðumun sem felst í því að hluti þjóðarinnar býr enn við hinar frumstæðu malarvegasamgöngur.``

Má raunar segja að athyglisvert sé að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson skuli skrifa undir með þessum hætti þegar þáltill. ber yfirskriftina um sérstakt átak í vegagerð í afskekktum landshlutum.