Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 17:27:11 (7135)

1998-05-28 17:27:11# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[17:27]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Herra forseti. Það var misheyrn hjá hæstv. samgrh. að ég hefði sagt að engu fé yrði varið til uppbyggingar veganna frá Húsavík til Þórshafnar á næstu átta árum. Ég tók þannig til orða að þessi leið frá Húsavík til Þórshafnar væri ein allra brýnasta vegaframkvæmdin sem við stöndum frammi fyrir og meginþungi þessarar framkvæmda lenti á seinasta áætlunartímabilinu, þ.e. eftir átta ár. Ég sagði meginþunginn, og ég var að hvetja til þess að þeirri framkvæmd yrði hraðað.

Ég vil sérstaklega vekja á því athygli að í tillögu okkar alþýðubandalagsmanna er gert ráð fyrir að varið verði 2,5 milljörðum kr. til þess að allir þéttbýlisstaðir þar sem íbúar eru 100 eða fleiri verði tengdir þjóðvegakerfi landsmanna með vegum með bundnu slitlagi til viðbótar þeim fjármunum sem eru á vegáætlun, til viðbótar þeim. Ég er ansi hræddur um að reikningsdæmið liti þá töluvert öðruvísi út. Ég skal ekki segja hvort verkinu væri þá örugglega lokið með öllu en það er alveg ljóst að það yrði stórfelld framför og stórfellt átak sem næðist ef sú þáltill. yrði samþykkt. Mér fyndist satt best að segja að hæstv. ráðherra hefði átt að kynna sér efni þessarar þáltill. betur og taka meira mið af henni við undirbúning langtímaáætlunarinnar.